Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 637, 123. löggjafarþing 278. mál: tekjuskattur og eignarskattur (jöfnunarhlutabréf, dótturfélög o.fl.).
Lög nr. 154 28. desember 1998.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna:
  1. Við 1. tölul. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þó skulu vextir af reikningum þar sem höfuðstóll og vextir eru bundnir til lengri tíma en 36 mánaða ekki teljast til tekna fyrr en þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.
  2. Við bætist nýr töluliður er orðast svo: Vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljast til tekna sem lífeyrir skv. A-lið 7. gr. þegar slíkar greiðslur eru greiddar út.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög og lögum um hlutafélög sem hafa ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa í hlutafélagi og teljast því ekki til skattskyldra tekna hlutareigandans.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Nú er félagi slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, sbr. 56. gr., og skal þá teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna. Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð. Hafi aðili eignast hlutabréfin fyrir árslok 1996 er honum heimilt að miða við upphaflegt kaupverð hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli skv. 26. gr. til ársloka 1996 eða jöfnunarverðmæti hlutabréfanna, sbr. 3. mgr. 17. gr., sé það hærra.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
  2. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Jöfnunarverðmæti hlutabréfa hjá þeim félögum sem skráð voru, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., í árslok 1996 skal vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996 að viðbættri þeirri fjárhæð sem heimilt væri að gefa út af jöfnunarhlutabréfum samkvæmt þeim reglum sem giltu í árslok 1996. Hafi hlutafélag ekki gefið út jöfnunarhlutabréf eða, ef um einkahlutafélag er að ræða, tilkynnt nýtt nafnverð til hlutafélagaskrár, eða gert skattstjóra grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis í síðasta lagi í árslok 1999, skal jöfnunarverðmætið við sölu bréfanna vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996. Jöfnunarverðmætið skv. 1. og 2. málsl. skal árlega tilgreina á skattframtali hlutafélagsins og hlutafjármiðum.
         Við sölu á hlutabréfum, sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 1996, skal skattskyldur söluhagnaður vera söluverð bréfanna að frádregnu jöfnunarverðmæti þeirra, sbr. 3. mgr., eða upphaflegu kaupverði hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli skv. 26. gr. til ársloka 1996 ef það er hærra. Þó skal kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila, þar með talið einstaklinga, ákvarðast sem upphaflegt kaupverð þeirra eða jöfnunarverðmæti í árslok 1996 þegar það hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr., til söluárs, enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.
  4. 3. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Við 1. tölul. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta á þó ekki við um þann hluta lífeyrissparnaðar sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
  1. 3. tölul. A-liðar orðast svo: Tekjur skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða vinninga í happdrættum sem fengið hafa leyfi dómsmálaráðuneytisins, enda sé öllum ágóða af þeim varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi og ríkisskattstjóri hefur staðfest að uppfylli skilyrði þessa töluliðar.
  2. 1. tölul. B-liðar orðast svo: Fé sem varið er til aukningar á fjárfestingu í innlendum hlutabréfum á árunum 1998–2002 samkvæmt þessum tölulið.
  3.      Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og vera 60% af verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa, en þó aldrei hærri en 80.000 kr. hjá einstaklingi og 160.000 kr. hjá hjónum.
         Til keyptra hlutabréfa skv. 2. mgr. teljast einungis hlutabréf í félögum sem uppfylla skilyrði 5. mgr. og ríkisskattstjóri hefur staðfest eða hlutabréf í félögum sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands.
         Það er skilyrði frádráttar skv. 1. mgr. að maður eigi viðkomandi hlutabréf yfir fimm áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra. Þó skal skilyrðið um þriggja ára eignarhaldstíma samkvæmt lögum nr. 137/1996 halda gildi sínu fyrir þá sem nutu frádráttar samkvæmt þeim lögum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Ekki skal þó beita ákvæði um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir á sama ári og eigi síðar en 30 dögum eftir söluna önnur hlutabréf í innlendu hlutafélagi fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og söluverð hinna seldu hlutabréfa var og félagið uppfyllir skilyrði þessa töluliðar. Sé kaupverðið lægra skal ákvæði 3. málsl. eiga við um mismuninn. Reglur þessarar málsgreinar eiga jafnframt við um kaup og sölu hlutabréfa fyrir gildistöku laga þessara.
         Frádráttur samkvæmt þessum tölulið er bundinn því skilyrði að um sé að ræða kaup á hlutabréfum í félagi með hlutafé a.m.k. að fjárhæð 22.000.000 kr., fjöldi hluthafa sé a.m.k. 25, engar hömlur séu lagðar á viðskipti með hlutabréf félagsins og ársreikningar þess öllum aðgengilegir. Hlutafélag, sem ekki er skráð á Verðbréfaþingi Íslands, skal innan fimm mánaða frá lokum hvers reikningsárs senda ríkisskattstjóra ársreikning sinn fyrir næstliðið reikningsár. Ríkisskattstjóri skal árlega veita þeim hlutafélögum staðfestingu um að skilyrðum þessa töluliðar sé fullnægt.
         Ríkisskattstjóri getur heimilað frádrátt frá tekjum samkvæmt þessum tölulið þótt skilyrðum 5. mgr. hafi ekki verið fullnægt í árslok þegar um félag er að ræða sem stofnað var á árinu og fyrir liggur yfirlýsing þess um að stefnt sé að því að skilyrðum verði fullnægt innan árs frá því að sala hlutabréfa hófst. Einnig getur ríkisskattstjóri heimilað frádrátt frá tekjum samkvæmt þessum tölulið þótt skilyrðum 5. mgr. sé ekki fullnægt þegar um er að ræða starfandi hlutafélag sem er að auka hlutafé sitt eða hluthafafjölda. Til að ríkisskattstjóri veiti slíku hlutafélagi staðfestingu þarf að liggja fyrir yfirlýsing frá stjórn hlutafélagsins og gögn er geri það líklegt að skilyrðum verði fullnægt innan árs frá því að ákvörðun var tekin um hlutafjáraukningu eða fjölgun hluthafa.
         Reglur þessa töluliðar skulu gilda á sama hátt um samvinnuhlutabréf og stofnfjárbréf í sparisjóðum, enda sé útboð slíkra stofnfjárbréfa opið fyrir alla einstaklinga sem eiga lögheimili á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs og það staðfest af ríkisskattstjóra.
         Ekki er heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. þessa töluliðar. Þetta á þó ekki við um aukningu á fjárfestingu í atvinnurekstri sem heimilt var að flytja á milli ára á árunum 1996 og fyrr, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 137/1996.
         Frádráttur samkvæmt þessum tölulið heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr.
         Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd frádráttar samkvæmt þessum tölulið.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. A laganna:
  1. Orðin „og því slitið“ í 1. málsl. falla brott.
  2. 2. málsl. orðast svo: Eignarhlutir hluthafa í félögunum skulu vera innbyrðis í sömu hlutföllum og eignarhlutirnir voru í því félagi sem skipt er.
  3. 4. málsl. orðast svo: Ákvæði þessarar málsgreinar eiga einnig við þegar hlutafélagi er skipt þannig að fleiri en eitt hlutafélag taka við hluta eigna og skulda í upprunalegu félagi.
  4. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Við skiptingu skv. 1. mgr. skiptast skattalegar skyldur og réttindi milli félaganna í sama hlutfalli og bókfært verð eigna að frádregnum skuldum sem flytjast til þeirra.


7. gr.

     Við 57. gr. A laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við skiptingu eða sameiningu félaga er heimilt að miða uppgjör rekstrar og framtalsskil, sbr. 91. gr., félaga þeirra er skiptingin eða slitin varða við það tímamark þegar skiptingin eða slitin eiga sér stað samkvæmt samþykktum félaganna.

8. gr.

     Á eftir 57. gr. A laganna kemur ný grein, 57. gr. B, með fyrirsögninni Samsköttun hlutafélaga, svohljóðandi:
     Skattstjóri getur heimilað að tvö eða fleiri hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., séu skattlögð saman. Skilyrði samsköttunar eru að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum sé í eigu móðurfélagsins sem óskar samsköttunar eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samsköttuninni. Jafnframt hafi öll hlutafélögin sama reikningsár og eignarhald hafi varað allt reikningsárið, nema þegar um nýstofnuð dótturfélög er að ræða eða slit á dótturfélagi. Samsköttun skal að lágmarki standa í fimm ár og ef samsköttun er slitið er ekki heimilt að fallast á hana að nýju fyrr en að liðnum fimm árum frá því að henni var slitið.
     Umsókn um samsköttun skal beint til skattstjóra í því skattumdæmi þar sem móðurfélag er heimilisfast eigi síðar en þrjátíu dögum fyrir lok framtalsfrests vegna þess tekjuárs sem óskað er eftir að verði samskattað.
     Við samsköttun skal tekjuskattur af sameiginlegum tekjuskattsstofni allra hlutafélaga sem taka þátt í samsköttuninni lagður á móðurfélagið en öll hlutafélögin bera sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslum. Þó er skattstjóra heimilt að leggja tekjuskatt á hvert og eitt félag óski hlutafélögin í samsköttun sérstaklega eftir því.
     Tap sem verður á rekstri eins eða fleiri samskattaðra hlutafélaga má draga frá tekjum hinna áður en tekjuskattur er reiknaður. Þó skal viðkomandi tekjuár ávallt gert upp áður en tekið er tillit til yfirfæranlegs taps fyrri ára. Yfirfæranlegt tap hlutafélags sem stafar af rekstri frá því fyrir samsköttun má aðeins nýta í því félagi. Þó er heimilt að nýta yfirfæranlegt tap sem varð til fyrir samsköttun ef skilyrði 1. mgr. eru til staðar við gildistöku laga þessara og ef uppfyllt eru öll skilyrði 57. gr. A, um sameiningu félaga.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um samsköttun móður- og dótturfélaga, svo sem um nýtingu taps á milli félaga.

9. gr.

     Orðin „t.d. við slit félags og lækkun hlutafjár“ í 3. málsl. 3. mgr. 67. gr. laganna falla brott.

10. gr.

     4. málsl. 2. mgr. A-liðar 68 gr. laganna orðast svo: Af þeim persónuafslætti sem þá er óráðstafað skal 10/ 38 hlutum ráðstafað til að greiða tekjuskatt sem lagður er á fjármagnstekjur, sbr. 3. mgr. 67. gr.

11. gr.

     120. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða XXV með lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 97/1996, orðast svo:
     Gera skal grein fyrir útreikningi jöfnunarverðmætis hlutabréfa skv. 3. mgr. 17. gr. í síðasta lagi í árslok 1999. Skattstjóri skal staðfesta útreikninginn.
     Ríkisskattstjóri skal gefa út reglur og útbúa eyðublöð til notkunar við ákvörðun jöfnunarverðmætis.

13. gr.

     Í stað orðanna „17., 30., 41.“ í ákvæði til bráðabirgða XXXVI með lögunum, sbr. f-lið 5. gr. laga nr. 65/1997, kemur: 17. gr., 2. tölul. B-liðar 30. gr., 41. gr.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu árið 1999 vegna tekna á árinu 1998. Við gildistöku laganna falla úr gildi lög nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 1998.