Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1168, 123. löggjafarþing 359. mál: álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 29 18. mars 1999.

Lög um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.


I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 1. málsl. 8. tölul. 31. gr. laganna bætist: þó ekki af félögum sem hafa starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags.

2. gr.

     Við 3. mgr. 67. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir um arð og söluhagnað einstaklinga utan rekstrar af hlutafé í félagi sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags.

3. gr.

     Við 1. mgr. 72. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Tekjuskattur félags sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags skal vera 5% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 62. gr.

4. gr.

     Á eftir 3. mgr. 84. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal félag sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags vera undanþegið eignarskatti.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

5. gr.

     Við b-lið 3. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Félag sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags skal þó undanþegið sérstökum eignarskatti samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

6. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., ákvæði 4. gr. og ákvæði III. kafla skulu skjöl er ella væru stimpilskyld samkvæmt lögum þessum vera stimpilfrjáls ef þau varða kaup og sölu félags, sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags, á flugvélum og skipum sem því eru heimil lögum samkvæmt, skrásetningu réttinda og stofnun takmarkaðra eignarréttinda yfir slíkum eignum alþjóðlegs viðskiptafélags eða lántökur, lánveitingar eða viðskipti slíks félags vegna lögheimillar starfsemi þess.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

7. gr.

     Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, 1. og 2. tölul., svohljóðandi:
  1. Starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags 100.000 kr.
  2. Árlegt eftirlitsgjald alþjóðlegs viðskiptafélags 100.000 kr.


V. KAFLI
Gildistaka.

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Ákvæði 1.–5. gr. koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999 og eigna í lok þess.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.