Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1145, 123. löggjafarþing 354. mál: meðferð opinberra mála (réttarstaða brotaþola, endurupptaka mála o.fl.).
Lög nr. 36 19. mars 1999.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. B-liður 1. mgr. orðast svo: til hlífðar brotaþola, vitnum eða öðrum sem málið varðar.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      2. Dómari tekur ákvörðun um lokað þinghald að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola. Ákvörðunina skal bóka í þingbók og vísa til þess ákvæðis í grein þessari sem við á. Sá sem fellir sig ekki við ákvörðun dómara getur krafist þess að hann kveði upp úrskurð um það hvort þinghald skuli háð fyrir luktum dyrum.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „sakbornings eða mönnum“ í 2. mgr. kemur: sakbornings, brotaþola eða öðrum.
 2. Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
 3.      3. Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eru afhent öðrum en aðilum máls og brotaþola skal ef sérstök ástæða er til afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 27. gr. laganna:
 1. Við d-lið bætist: og 1. mgr. 218. gr.
 2. Í stað orðanna „og 232. gr.“ í e-lið kemur: 232. og 233. gr.


4. gr.

     1. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
     1. Heimilt er dómara endranær eftir ósk sakbornings að skipa honum verjanda við rannsókn máls áður en til málshöfðunar kemur ef ástæða er til þess að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna.

5. gr.

     36. gr. laganna orðast svo:
     Skylt er lögreglu að verða við ósk sakbornings um að tilnefna honum verjanda ef hann hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar opinbers máls. Tilnefning fellur sjálfkrafa úr gildi þegar sakborningur er látinn laus eða er leiddur fyrir dóm skv. 102. gr.

6. gr.

     37. gr. laganna orðast svo:
     1. Sakborningi er á öllum stigum opinbers máls heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta réttar síns og halda uppi vörnum sem talsmaður.
     2. Talsmaður hefur sömu réttindi og skyldur og verjandi eftir því sem við á. Meðan á rannsókn máls stendur getur dómari eða lögregla þó takmarkað rétt hans til að ræða við sakborning, vera viðstaddur yfirheyrslur, kynna sér gögn og fylgjast með framvindu rannsóknar ef hætta er á að hún torveldist við það.

7. gr.

     38. gr. laganna orðast svo:
     1. Dómara eða lögreglu ber þegar skylt er eða heimilt að skipa eða tilnefna sakborningi verjanda að vekja athygli hans á þeim rétti.
     2. Áður en verjandi er skipaður eða tilnefndur skal gefa sakborningi eða lögráðamanni hans, ef sakborningur er ekki sjálfráða, kost á að benda á löghæfan mann til að fara með starf verjanda. Við skipun eða tilnefningu verjanda skal að jafnaði fara eftir ósk sakbornings eða lögráðamanns. Þó getur dómari eða lögregla neitað að skipa eða tilnefna þann verjanda sem óskað er eftir ef uggvænt þykir að hann muni hindra rannsókn málsins á ólögmætan hátt.
     3. Nú eru fleiri en einn maður hafðir fyrir sökum í sama máli og er þá heimilt að skipa eða tilnefna sama mann verjanda beggja eða allra ef telja má að hagsmunir þeirra rekist ekki á.

8. gr.

     39. gr. laganna orðast svo:
     1. Verjandi skal að jafnaði skipaður eða tilnefndur úr hópi lögmanna.
     2. Þar sem ekki er kostur á lögmanni er heimilt eftir ósk sakbornings að skipa eða tilnefna einhvern annan löghæfan mann til að gegna starfi verjanda ef telja má hag sakbornings borgið í höndum slíks manns og engar sérstakar ástæður mæla því annars í gegn. Það er borgaraleg skylda manns að taka að sér starf verjanda samkvæmt þessari málsgrein innan lögsagnarumdæmis þar sem hann er búsettur.
     3. Ekki má skipa eða tilnefna þann mann verjanda sem kann að verða kvaddur til að bera vitni eða hefur verið skipaður mats- eða skoðunarmaður í málinu, eða er að öðru leyti svo viðriðinn mál eða aðila að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna sakbornings sem skyldi.

9. gr.

     40. gr. laganna orðast svo:
     1. Nú óskar sakborningur eftir því að skipun eða tilnefning verjanda verði afturkölluð og nýr verjandi skipaður eða tilnefndur og skal þá verða við slíkri ósk nema hætta sé á að málið tefjist af þeim sökum eða aukinn kostnað leiði af breytingunni.
     2. Ef ætla má að verjandi hafi hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti eða brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt getur ákærandi eða lögregla leitað atbeina dómara og krafist þess að hann verði leystur frá störfum og annar skipaður í hans stað. Verjandinn getur krafist þess að dómari úrskurði um þá kröfu.

10. gr.

     2. mgr. 41. gr. laganna orðast svo:
     2. Verjandi skal sjálfur sinna starfsskyldum sínum, þar á meðal annast flutning máls. Honum er þó heimilt að láta fulltrúa sinn eða annan lögmann vera viðstaddan skýrslutökur og rannsóknarathafnir, svo og sækja einstök þinghöld fyrir sína hönd, meðan á rannsókn máls eða meðferð stendur.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
 1. Orðin „sbr. þó 1. mgr. 43. gr.“ í 1. mgr. falla brott.
 2. Á eftir orðunum „og ber“ í 3. mgr. kemur: dómara.


12. gr.

     43. gr. laganna orðast svo:
     1. Verjandi skal jafnskjótt og unnt er fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verða endurrituð. Lögregla getur þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins.
     2. Þegar verjandi hefur fengið aðgang að gögnum máls er honum heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti.
     3. Lögregla skal gefa verjanda færi á að fylgjast með framvindu rannsóknar að svo miklu leyti sem kostur er. Skal hún taka til greina ábendingar hans um tilteknar rannsóknaraðgerðir nema hún telji þær óheimilar eða þýðingarlausar.

13. gr.

     44. gr. laganna orðast svo:
     1. Þóknun skipaðs verjanda skal ákveðin í dómi eða úrskurði ef máli lýkur þannig nema hann hafi afsalað sér þóknun. Ef máli lýkur ekki með þeim hætti ákveður dómari þóknun með bókun í þingbók eða skriflega á annan hátt. Nú hefur dómi verið áfrýjað og verjandi skipaður, en fallið er frá áfrýjun eða mál fellt niður, og ákveður þá Hæstiréttur þóknun verjanda.
     2. Dómari ákveður þóknun í einu lagi ef sá sem tilnefndur hefur verið verjandi sakbornings er síðar skipaður til að gegna því starfi. Að öðrum kosti skal lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður hans ákveða þóknun tilnefnds verjanda.
     3. Þóknun verjanda greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar skv. 164. gr.

14. gr.

     Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Brotaþoli og réttargæslumaður, með níu nýjum greinum, svohljóðandi:
     
     a. (44. gr. a.)
     1. Lögreglu er skylt, eftir því sem við á, að leiðbeina brotaþola um réttindi hans lögum samkvæmt.
     2. Nú liggur fyrir hver brotaþoli er og skal þá tilkynna honum ef rannsókn máls er hætt eða það fellt niður með öðrum hætti án tillits til þess hvort hann hefur kært brotið. Ber að rökstyðja ákvörðunina ef brotaþoli krefst þess. Jafnframt skal lögregla benda brotaþola á að hann geti borið ákvörðun hennar um að hætta rannsókn undir ríkissaksóknara skv. 1. mgr. 76. gr.
     3. Ef ákæra er gefin út skal ákærandi tilkynna brotaþola það þegar hún hefur verið birt. Jafnframt ber ákæranda að tilkynna brotaþola um niðurstöðu dóms, ef því er að skipta, eða afdrif máls að öðru leyti, svo sem ef málinu eða einkaréttarkröfu hans er vísað frá dómi.
     4. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um leiðbeiningar- og tilkynningarskyldu samkvæmt þessari grein.
     
     b. (44. gr. b.)
     1. Skylt er lögreglu að tilnefna réttargæslumann ef rannsókn máls beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli óskar þess. Þó skal ávallt tilnefna réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst.
     2. Skylt er lögreglu endranær eftir ósk brotaþola eða lögráðamanns hans að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.–253. gr. laganna, ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins og hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.
     3. Lögregla getur tilnefnt brotaþola réttargæslumann þótt hann eða lögráðamaður hans hafi ekki óskað þess ef skilyrðum 2. mgr. er fullnægt og brotaþoli er sérstaklega sljór eða skilningslítill.
     4. Þegar skilyrði eru til þess að tilnefna réttargæslumann skv. 1.–3. mgr. skal það gert jafnskjótt og tilefni gefst. Tilnefning fellur sjálfkrafa niður við skipun réttargæslumanns skv. 44. gr. c, en ella skal lögregla taka ákvörðun um það hverju sinni.
     
     c. (44. gr. c.)
     1. Þegar mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til þess að tilnefna réttargæslumann skv. 1.–3. mgr. 44. gr. b skipar dómari brotaþola réttargæslumann.
     2. Ef lögregla neitar eða lætur hjá líða að tilnefna brotaþola réttargæslumann skv. 44. gr. b getur hann eða lögráðamaður hans leitað atbeina dómara og óskað eftir því að honum verði skipaður réttargæslumaður.
     
     d. (44. gr. d.)
     1. Brotaþola er heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna í málinu sem talsmaður.
     2. Talsmaður hefur sömu réttindi og skyldur og réttargæslumaður eftir því sem við á. Meðan á rannsókn máls stendur getur dómari eða lögregla þó takmarkað rétt hans til að vera viðstaddur skýrslutöku af brotaþola og kynna sér gögn ef hætta er á að rannsókn torveldist við það.
     
     e. (44. gr. e.)
     Ákvæði 38.–40. gr. gilda um tilnefningu, skipun og hæfi réttargæslumanns, svo og afturköllun á tilnefningu og skipun hans eftir því sem við á.
     
     f. (44. gr. f.)
     1. Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur skv. XX. kafla laga þessara.
     2. Réttargæslumaður skal sjálfur sinna starfsskyldum sínum, þar á meðal tjá sig fyrir dómi skv. 5. mgr. 172. gr. Honum er þó heimilt að láta fulltrúa sinn eða annan lögmann vera viðstaddan skýrslutöku af brotaþola og sækja einstök þinghöld fyrir sína hönd.
     3. Þagnarskylda hvílir á réttargæslumanni um það sem brotaþoli trúir honum fyrir og um önnur þau atriði sem hann hefur komist að í starfa sínum og ekki eru þegar kunn.
     
     g. (44. gr. g.)
     1. Meðan á rannsókn stendur er réttargæslumanni ætíð heimilt að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola. Sé réttargæslumaður viðstaddur skýrslutöku getur hann beint því til lögreglu að spyrja brotaþola um tiltekin atriði. Telji réttargæslumaður ástæðu til getur hann krafist þess að fá bókaða stuttorða athugasemd um framkvæmd skýrslutöku í lok hennar.
     2. Eftir að ákæra hefur verið gefin út á réttargæslumaður rétt á því að vera viðstaddur öll þinghöld í máli og ber dómara að tilkynna honum fyrir fram hvenær þau hefjist.
     3. Réttargæslumaður má ekki beina spurningum til þeirra sem gefa skýrslu fyrir dómi. Þó getur hann óskað þess að dómari spyrji brotaþola tiltekinna spurninga eða dómari heimilað honum að spyrja brotaþola beint, sbr. 2. mgr. 59. gr. Þá er honum einungis heimilt að tjá sig munnlega fyrir dómi um réttarfarsatriði sem snúa sérstaklega að brotaþola og um einkaréttarkröfur hans skv. 5. mgr. 172. gr., en ekki um kröfur ákæruvalds að öðru leyti. Þó á réttargæslumaður rétt á að fá bókaðar stuttorðar athugasemdir í þingbók samkvæmt nánari ákvörðun dómara.
     
     h. (44. gr. h.)
     1. Meðan á rannsókn stendur á réttargæslumaður einungis rétt á að fá aðgang að þeim gögnum máls sem honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna brotaþola. Við þingfestingu máls á réttargæslumaður rétt á að fá aðgang að öllum gögnum þess nema dómari telji að það kunni að torvelda að mál upplýsist. Í því tilviki skal hann þó í síðasta lagi fá aðgang að gögnunum áður en málið er flutt.
     2. Þegar réttargæslumaður hefur fengið aðgang að gögnum máls er honum heimilt að láta brotaþola í té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti.
     3. Brotaþoli, sem ekki nýtur aðstoðar réttargæslumanns, á rétt til aðgangs að gögnum máls skv. 1. mgr.
     
     i. (44. gr. i.)
     1. Þóknun skipaðs réttargæslumanns skal ákveðin í dómi eða úrskurði, ef máli lýkur þannig, nema hann hafi afsalað sér þóknun. Ef máli lýkur ekki með dómi ákveður dómari þóknun með bókun í þingbók eða skriflega með öðrum hætti. Nú hefur dómi verið áfrýjað og réttargæslumaður skipaður, en fallið er frá áfrýjun eða mál fellt niður, og ákveður þá Hæstiréttur þóknun réttargæslumanns.
     2. Dómari ákveður þóknun í einu lagi ef sá sem tilnefndur hefur verið réttargæslumaður brotaþola er síðar skipaður til að gegna því starfi. Að öðrum kosti skal lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður hans ákveða þóknun tilnefnds réttargæslumanns.
     3. Þóknun réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar skv. 164. gr.

15. gr.

     Fyrirsögn VII. kafla laganna, sem verður VIII. kafli þeirra, verður: Sönnun og sönnunargögn.

16. gr.

     2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
     2. Dómara er heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 74. gr. a og 105. gr. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
 1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
 2.      3. Nú er vitni statt fjarri þingstað, eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm, og getur þá dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem staddir eru á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið.
 3. 3. mgr. verður 4. mgr.


18. gr.

     Við 59. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     7. Þegar skýrsla er tekin af brotaþola yngri en 18 ára getur dómari kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku. Þá eiga ákærandi, ákærði og verjandi hans ekki rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð hans. Í því tilviki skal dómari sjá til þess að málsaðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og er honum rétt að leggja fyrir brotaþola þær spurningar sem þeir óska. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um tilhögun skýrslutöku samkvæmt þessari málsgrein.

19. gr.

     Fyrirsögn og númer VIII. kafla laganna falla brott.

20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
 1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
 2.      4. Þegar sérstaklega stendur á er ríkissaksóknara heimilt að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök er fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því.
 3. 4. mgr. verður 5. mgr.


21. gr.

     Við 1. mgr. 69. gr. laganna bætist: sbr. þó 74. gr. a.

22. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 74. gr. laganna orðast svo: Sama á við um aðrar aðgerðir sem nauðsynlegar eru vegna máls, þar á meðal skýrslutökur af sakborningi, brotaþola eða vitni skv. 74. gr. a.

23. gr.

     Á eftir 74. gr. laganna kemur ný grein, 74. gr. a, sem orðast svo:
     1. Meðan á rannsókn stendur fer fram skýrslutaka fyrir dómi í eftirgreindum tilvikum:
 1. Ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst ber lögreglu að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af honum.
 2. Ef lögregla telur nauðsynlegt að skýrsla verði tekin fyrir dómi af sakborningi, brotaþola eða vitnum til þess að upplýsa mál, áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess, ber dómara að verða við slíkri beiðni þótt ákæra hafi ekki verið gefin út. Ef þörf krefur getur dómari framlengt frest skv. 1. mgr. 43. gr. í allt að þrjár vikur svo að hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans.
 3. Í öðrum tilvikum en greinir í a- og b-lið er heimilt að taka skýrslur af brotaþolum eða vitnum fyrir dómi áður en ákæra er gefin út ef þau neita að svara spurningum hjá lögreglu eða ef ætla má að þau komist ekki fyrir dóm við meðferð málsins, enn fremur ef það er talið æskilegt með tilliti til hagsmuna brotaþola eða vitna, svo sem ef um börn er að ræða.

     2. Þegar skýrslutaka fer fram skv. 1. mgr. skal þess gætt að ákæranda, verjanda og réttargæslumanni brotaþola sé tilkynnt um hana fyrir fram þannig að þeir geti verið viðstaddir hana. Sé þess kostur skal framburður sakbornings, brotaþola og vitna tekinn upp á myndband. Ef skýrsla er tekin af brotaþola yngri en 18 ára skal enn fremur gætt ákvæða 7. mgr. 59. gr.

24. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 76. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Sá sem á hagsmuna að gæta getur borið ákvörðun lögreglu undir ríkissaksóknara sem tekur fullnaðarákvörðun um hvort rannsókn skuli fara fram eða ekki.
 2. Síðari málsliður 2. mgr. orðast svo: Skal honum jafnframt bent á að hann geti borið ákvörðunina undir ríkissaksóknara.


25. gr.

     1. mgr. 87. gr. laganna orðast svo:
     1. Til aðgerða sem taldar eru upp í 86. gr. þarf úrskurð dómara. Þó ber að veita lögreglu upplýsingar skv. b-lið þeirrar greinar án dómsúrskurðar ef fyrir liggur samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis. Í úrskurði skal m.a. taka fram hvaða tiltekinn síma eða fjarskiptatæki sé um að ræða, sbr. a- og b-lið, og hvar og með hverjum hætti samtöl, hljóð eða merki skulu numin eða myndir teknar, sbr. c- og d-lið. Í úrskurði skal setja aðgerð ákveðin tímamörk.

26. gr.

     1. mgr. 114. gr. laganna orðast svo:
     1. Nú er mál fellt niður skv. 112. gr. eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. og skal ákærandi sem þá ákvörðun tók tilkynna hana sakborningi og ef því er að skipta brotaþola, enda liggi fyrir hver hann er. Ber að rökstyðja ákvörðunina ef þess er krafist.

27. gr.

     Síðari málsliður 4. mgr. 115. gr. a laganna orðast svo: Dómari er ekki bundinn af slíkri ákvörðun ef til saksóknar kemur vegna brotsins.

28. gr.

     3. mgr. 119. gr. laganna orðast svo:
     3. Ef héraðsdómari telur að gallar séu á málatilbúnaði sem varðað geta frávísun skal hann benda ákæranda á þá. Hins vegar má hann ekki synja um útgáfu fyrirkalls af þeim sökum, enda er hann óbundinn af slíku áliti sínu við úrlausn máls.

29. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 120. gr. laganna orðast svo: Eftir að dómara hefur borist ákæra ákveður hann stað og stund þinghalds þar sem málið verður þingfest.

30. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 122. gr. laganna:
 1. Orðin „eftir atvikum“ í 2. mgr. falla brott.
 2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
 3.      3. Ef skilyrði eru til þess að skipa brotaþola réttargæslumann skal það gert við þingfestingu máls eða ef það er ekki unnt, svo sem vegna þess að ekki hefur náðst til brotaþola, svo fljótt sem verða má eftir þingfestingu.
 4. 3. mgr. verður 4. mgr.


31. gr.

     Við 1. mgr. 129. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt skal dómari taka ákvörðun um það hvort aðalflutningur skuli fara fram fyrir luktum dyrum skv. 2. mgr. 8. gr.

32. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 142. gr. laganna:
 1. Orðin „lokun þinghalds“ í b-lið falla brott.
 2. Við d-lið bætist: eða réttargæslumann.


33. gr.

     3. mgr. 145. gr. laganna orðast svo:
     3. Aðilar kærumáls geta sent Hæstarétti skriflegar athugasemdir sínar um kærumálið innan sólarhrings eftir að kæra hefur borist réttinum.

34. gr.

     Við 153. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     4. Ríkissaksóknari tilkynnir brotaþola enn fremur um áfrýjun. Ef úrlausn héraðsdóms um einkaréttarkröfur hans hefur verið áfrýjað skal honum um leið gefinn kostur á að bera fram ósk um réttargæslumann. Ef skilyrði eru til þess að skipa brotaþola réttargæslumann gerir Hæstiréttur það.

35. gr.

     164. gr. laganna orðast svo:
     1. Til sakarkostnaðar teljast óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og meðferðar þess, þar á meðal:
 1. þóknun verjanda og réttargæslumanns, svo og annar kostnaður vegna varnar í málinu og réttargæslu fyrir brotaþola,
 2. kostnaður við sérfræðilegar álitsgerðir, mats- og skoðunargerðir og afnot muna annarra manna, svo og vitnaþóknun,
 3. birtingargjöld,
 4. kostnaður af fullnustu refsingar og annarra viðurlaga með aðfarargerð og eftir atvikum nauðungarsölu.

     2. Af opinberu máli greiðast engin dómsmálagjöld.

36. gr.

     167. gr. laganna orðast svo:
     Kostnað, sem ákærandi, verjandi, réttargæslumaður eða lögregla valda vegna vanrækslu eða skeytingarleysis í starfi sínu, skal ekki dæma ákærða til að greiða.

37. gr.

     1. mgr. 168. gr. laganna orðast svo:
     1. Í dómi eða úrskurði, ef máli lýkur án dóms, skal almennt kveða á um skyldu ákærða til að greiða sakarkostnað án ákvörðunar fjárhæðar. Þóknun verjanda og réttargæslumanns skal þó ákveða með tiltekinni fjárhæð.

38. gr.

     169. gr. laganna orðast svo:
     1. Ef ákærði áfrýjar héraðsdómi og hann er sýknaður með öllu eða að hluta með dómi Hæstaréttar eða viðurlög eru þar milduð skal kostnaður af áfrýjun málsins felldur á ríkissjóð eða honum skipt samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 165. gr.
     2. Ef ríkissaksóknari áfrýjar héraðsdómi en ákærði ekki og viðurlög eru ekki þyngd svo neinu nemi með dómi Hæstaréttar verður kostnaður af áfrýjun málsins felldur á ríkissjóð.
     3. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur fyrir Hæstarétti nema máli sé þá lokið með dómi.
     4. Eftir því sem við á fer að öðru leyti um málskostnað fyrir Hæstarétti samkvæmt því sem mælt er fyrir í 164.–168. gr.

39. gr.

     Í stað orðsins „umboðsmanni“ í 5. mgr. 172. gr. laganna kemur: réttargæslumanni.

40. gr.

     Í stað orðanna „kröfur borgararéttarlegs eðlis“ í 174. gr. laganna kemur: einkaréttarkröfur.

41. gr.

     Fyrirsögn XX. kafla laganna verður: Einkaréttarkröfur.

42. gr.

     1. mgr. 175. gr. laganna orðast svo:
     1. Kröfu um bætur samkvæmt þessum kafla má taka til greina ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi sem sakborningur var borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana, eða sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.

43. gr.

     Orðin „enda þótt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 175. gr. sé ekki fullnægt“ í 177. gr. laganna falla brott.

44. gr.

     Í stað orðanna „3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga“ í 180. gr. laganna kemur: 18. gr. skaðabótalaga.

45. gr.

     Við 1. mgr. 184. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi:
 1. ef verulegar líkur er leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.


46. gr.

     Við 187. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
     2. Hæstiréttur getur ákveðið að varadómari, einn eða fleiri, verði kvaddur til að taka ákvörðun um hvort mál skuli tekið upp á ný þótt ekki sé fullnægt almennum skilyrðum til að kveðja varadómara til starfa.

47. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. maí 1999.

48. gr.

     Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði annarra laga sem hér segir:
 1. Á eftir 1. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991, kemur ný málsgrein og breytist röð annarra málsgreina samkvæmt því:
 2.      2. Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eru afhent öðrum en aðilum máls skal ef sérstök ástæða er til afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.
 3. Í stað orðanna „getur sakborningur“ í síðari málslið 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37 30. apríl 1993, kemur: geta sakborningur og brotaþoli.
 4. Í stað orðsins „ákærða“ í 2. mgr. 2. gr. laga um lögmenn, nr. 77 15. júní 1998, kemur: brotaþola, og á eftir orðunum „við skipun“ í 1. mgr. 20. gr. sömu laga kemur: eða tilnefningu.


Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.