Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1243, 125. löggjafarþing 325. mál: höfundalög (EES-reglur).
Lög nr. 60 19. maí 2000.

Lög um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
     Ákvæði 1. mgr. taka til gagnagrunna að því er tekur til niðurröðunar og samsetningar þeirra að fullnægðum almennum skilyrðum fyrir höfundaréttarlegri vernd. Ekki raskar sá réttur höfundarétti að verkum sem gagnagrunnurinn kann að geyma. Þá raskar hann eigi að heldur samhliða rétti framleiðenda skv. 50. gr.
     Með gagnagrunni í skilningi laga þessara, sbr. 3. mgr. þessarar greinar og 50. gr., er átt við safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða annarra efnisatriða sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum hætti eða öðrum aðferðum. Tölvuforrit sem notað er við gerð eða rekstur gagnagrunns og aðgangur er veittur að með rafrænum hætti telst ekki til gagnagrunns í skilningi laga þessara.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Á eftir 4. tölul. 2. mgr. kemur nýr töluliður sem orðast svo: eftirgerðar véllæsilegra eintaka gagnagrunns.
  2. Í stað 3. og 4. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  3.      Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skulu greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum.
         Gjöld skv. 3. mgr. skulu nema:
    1. Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða.
    2. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr.
    3. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr.
    4. Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.

         Menntamálaráðherra setur nánari reglur um gjöld skv. 3. og 4. mgr., þar á meðal af hvaða hlutum og tækjum gjöldin skuli greidd. Lækka má fjárhæðir, sem greindar eru í 4. mgr., af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr.
         Samtök höfundaréttarfélaga, þar með talin félög listflytjenda og framleiðenda, sjá um innheimtu á gjöldum skv. 3. mgr. og ráðstafa þeim. Samtökunum er heimilt að fela tollyfirvöldum innheimtu á gjöldum þeim sem innflytjendur skulu standa skil á. Samtökunum skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og eru þær háðar staðfestingu þess. Í samþykktunum skal meðal annars ákveða skiptingu tekna með aðildarfélögum og þar má einnig mæla fyrir um framlög til styrktar útgáfu hljóð- og myndrita.


3. gr.

     1. mgr. 11. gr. a laganna orðast svo:
     Eiganda eða lögmætum notanda eintaks af tölvuforriti, sem út hefur verið gefið, er heimil, þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 11. gr., gerð eintaka eftir forritinu, þar á meðal til gerðar vara- og öryggiseintaka sem honum eru nauðsynleg vegna nýtingar þess. Slík eintök má ekki nota á annan hátt og réttur til nýtingar þeirra fellur niður ef eigandi ráðstafar frumeintaki sínu til annarra.

4. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 21. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „bókmenntaverks eða tónverks, sem út hefur verið gefið og ekki er leiksviðsverk“ í 1. mgr. kemur: verks, sem út hefur verið gefið.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Ákvæði þessarar greinar taka ekki til leiksviðsverka eða kvikmyndaverka.


5. gr.

     Í stað 3. mgr. 25. gr. b laganna koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Réttur höfundar skv. 1. mgr. er óframseljanlegur og helst meðan höfundaréttur hans er í gildi, sbr. 43. gr. Höfundaréttarsjóður myndlistarmanna eða annar sjóður sem kæmi í hans stað annast innheimtu gjalda skv. 1. mgr., svo og skil á þeim til höfunda að frádregnu hæfilegu endurgjaldi vegna innheimtunnar. Að höfundi látnum fellur rétturinn til skylduerfingja, en sé þeim ekki til að dreifa rennur gjaldið til Höfundaréttarsjóðs myndlistarmanna eða annars sjóðs sem kæmi í hans stað. Krafa rétthafa á hendur samtökunum er gjaldkræf innan þriggja ára frá lokum þess árs er endursala fór fram. Fyrning kröfu rofnar við skriflega greiðsluáskorun frá rétthafa.
     Aðili, sem fæst við endursölu listaverka í atvinnuskyni, skal ársfjórðungslega senda skilagrein um sölu listaverka á næstliðnu tímabili, staðfesta af löggiltum endurskoðanda, til samtaka þeirra sem getið er í 3. mgr. Skylt er að senda skilagrein fyrir þau tímabil er engin sala fer fram hjá seljanda. Menntamálaráðherra skal að fengnum tillögum samtaka rétthafa skv. 3. mgr. setja nánari reglur um form skilagreina og innheimtu gjaldsins.

6. gr.

     Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Hafi höfundur kvikmyndaverks framselt rétt sinn til útleigu kvikmyndaverks, sbr. 1. mgr., á hann ætíð rétt til hæfilegrar þóknunar fyrir útleiguna og verður ekki fallið frá rétti þessum með samningum.

7. gr.

     1. mgr. 42. gr. a laganna orðast svo:
     Sá sem hefur rétt til að nota tölvuforrit hefur heimild til að gera þær breytingar á forritinu sem nauðsyn ber til vegna nýtingar þeirrar sem heimil er.

8. gr.

     Á eftir 42. gr. b laganna kemur ný grein, 42. gr. c, er orðast svo:
     Sá sem hefur rétt til að nota gagnagrunn, sbr. 50. gr., hefur heimild til aðgerða sem nauðsynlegar eru til aðgangs að efni gagnagrunnsins og venjulegrar nýtingar hans.

9. gr.

     3. mgr. 45. gr. laganna orðast svo:
     Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.

     50. gr. laganna orðast svo:
     Sá sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar hefur einkarétt til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta. Endurtekinn og kerfisbundinn útdráttur og/eða endurnýting óverulegs hluta af gagnagrunni er óheimil ef þær aðgerðir stríða gegn venjulegri nýtingu hans eða ganga með óeðlilegum hætti gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda gagnagrunnsins.
     Einkaréttur til þeirrar sérstöku verndar sem kveðið er á um í grein þessari helst í 15 ár frá næstu áramótum eftir að verkið varð til. Ef verkið er birt innan greinds verndartímabils skal verndin þó haldast í 15 ár frá næstu áramótum eftir að gagnagrunnurinn telst birtur almenningi.
     Njóti verk eða verkshluti, sem fjallað er um í grein þessari, höfundaréttarverndar verður þeim rétti einnig beitt samhliða.
     Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum II. kafla laga þessara.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. tölul. 2. mgr. kemur nýr töluliður er orðast svo: Vanræksla aðila sem fæst við endursölu listaverka í atvinnuskyni á að senda samtökum rétthafa skilagrein um seld listaverk skv. 4. mgr. 25. gr. b.
  2. 3. tölul. 2. mgr., er verður 4. tölul., orðast svo: Brot á 1. mgr. 45. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. tilvitnanir þar í 4. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmæli sem getur í 2. mgr. 31. gr.


12. gr.

     1. málsl. 57. gr. laganna orðast svo: Takist ekki samningur um fjárhæð þóknunar skv. 14. gr., 15. gr. a, 16., 17., 20. og 21. gr., 23. gr. a, 25. gr., 45. gr. a og 47. gr. getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem menntamálaráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir.

13. gr.

     Í stað orðanna „sbr. 2. mgr. 45. gr.“ í 2. mgr. 59. gr. laganna kemur: sbr. 3. mgr. 45. gr.

14. gr.

     Á eftir 60. gr. laganna kemur ný grein, 60. gr. a, er orðast svo:
     Ákvæði 50. gr. gilda um verk ríkisborgara eða manna búsettra í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

15. gr.

     61. gr. laganna kemur í stað 63. gr. og við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Vernd gagnagrunna skv. 50. gr. sem gerðir eru á tímabilinu frá 1. janúar 1983 til gildistöku laganna helst til 1. janúar 2016.

16. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 61. gr. og orðast svo:
     Ákvæði 45. gr. taka til:
  1. Listflutnings íslenskra ríkisborgara, hvar sem hann hefur fram farið.
  2. Listflutnings erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra manna sem hér segir:
    1. Ef listflutningur hefur farið fram hér á landi.
    2. Ef listflutningur hefur verið tekinn upp á hljóðrit sem verndar nýtur eftir ákvæðum 2. tölul. 3. mgr.
    3. Ef listflutningi, sem ekki hefur verið tekinn upp á hljóðrit, er útvarpað af útvarpsstofnun sem verndar nýtur eftir ákvæðum í 4. mgr.


     Ákvæði 46. gr. taka til myndrita og hljóðrita hvar og af hverjum sem þau hafa verið framleidd, en réttur til endurgjalds skv. 3. og 4. mgr. 11. gr. fylgir aðeins upptökum sem gerðar eru hér á landi eða í ríkjum sem veita íslenskum upptökum sams konar rétt.
     Ákvæði 47. gr. taka til:
  1. Listflutnings íslenskra ríkisborgara sem tekinn hefur verið upp á hljóðrit.
  2. Hljóðrita, svo og listflutnings þess er þau hafa að geyma, ef framleiðandi hljóðrits er íslenskur ríkisborgari eða fyrirtæki sem hefur aðsetur hér á landi.

     Ákvæði 48. gr. taka til útvarpsstofnana ef þær fullnægja öðru hvoru því skilyrði sem hér segir:
  1. Að aðalstöðvar stofnunarinnar séu hér á landi.
  2. Að útvarpað hafi verið með senditæki, staðsettu hér á landi.


17. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Frá og með gildistöku laga þessara skal menntamálaráðherra undirbúa niðurlagningu Myndlistarsjóðs Íslands með skipun sérstakrar skilanefndar. Skal skilanefnd um niðurlagningu Myndlistarsjóðs Íslands skipuð einum fulltrúa samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra myndlistarmanna og tveimur án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar.
     Uppgjöri skilanefndar á fjárreiðum Myndlistarsjóðs Íslands skal lokið innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 2000.