Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1318, 125. löggjafarþing 570. mál: bílaleigur.
Lög nr. 64 20. maí 2000.

Lög um bílaleigur.


1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um leigu á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns. Lögin taka þó ekki til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila.
     Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að eigi þurfi leyfi til leigu á tilteknum flokkum ökutækja eða fyrir tiltekinni leigustarfsemi.

2. gr.

Orðskýringar.
      Bílaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki um skemmri tíma, að jafnaði ekki lengri en þriggja vikna.
      Leigusamningur er samningur milli bílaleigu og leigutaka um leigu á bifreið eða öðru ökutæki til afnota gegn gjaldi.
      Starfsleyfi er leyfi til reksturs bílaleigu.

3. gr.

Starfsleyfi.
     Hver sá sem vill reka bílaleigu skal hafa til þess starfsleyfi samgönguráðuneytisins. Starfsleyfi skal veitt til fimm ára í senn að fenginni umsögn lögreglustjóra í því umdæmi sem bílaleiga mun hafa fasta starfsstöð. Gjald fyrir útgáfu starfsleyfis skal vera 10.000 kr.
     Samgönguráðuneytið skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti.
     Þeim einum er heimilt að hafa orðið bílaleiga í nafni starfsemi sinnar sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.
     Bílaleiga á grundvelli starfsleyfis skal rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi. Bílaleiga getur á grundvelli starfsleyfis sett á fót útibú. Á fastri starfsstöð skal framkvæmdastjóri eða yfirmaður fullnægja skilyrðum 4. gr. Fyrirsvarsmaður útibús skal einnig fullnægja skilyrðum 4. gr.
     Heimilt er leyfishafa að leggja inn til samgönguráðuneytis starfsleyfi sitt. Honum er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni skv. 4. gr. fyrr en að fenginni staðfestingu samgönguráðuneytisins á innlögn leyfisins.

4. gr.

Skilyrði starfsleyfis.
     Framkvæmdastjóri bílaleigu samkvæmt lögum þessum og fyrirsvarsmaður útibús skulu fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
  1. Hafa búsetu á Íslandi.
  2. Hafa náð tuttugu ára aldri.
  3. Vera lögráða og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, lögum um sölu notaðra ökutækja, né lögum þessum.
  4. Hafa forræði á búi sínu.

     Áður en starfsleyfi er veitt skal umsækjandi leggja fram skírteini um að hann hafi tekið starfsábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðra tryggingu sem ráðherra metur gilda til að bæta leigutökum tjón er hann kann að baka þeim vegna vanefndar á leigusamningi. Nánari ákvæði um ábyrgðartrygginguna, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingarskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
     Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 1. mgr. Þó er stjórnarmaður sem er ríkisborgari í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og búsettur í einhverju ríkja þess undanþeginn búsetuskilyrðum 1. tölul. 1. mgr. Ráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.

5. gr.

Skyldur bílaleigu.
     Leyfishafi skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að viðskiptamenn hans njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Leyfishafi ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við leigu bíla sem væru þau verk hans sjálfs.
     Skylt er að leyfisbréf til starfseminnar liggi frammi á starfsstöð og afrit þess í útibúum.
     Bílaleiga skal tryggja að skráningarskyld ökutæki til útleigu séu ætíð í góðu ásigkomulagi og fullnægi kröfum sem gerðar eru um þau.
     Bílaleiga skal bjóða upp á bifreiðar til útleigu jafnt til almennings sem fyrirtækja. Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að bifreiðar bílaleigna skuli merktar sérstaklega.

6. gr.

Leigusamningur.
     Leyfishafi skal sjá um að gengið sé frá leigusamningi. Leigusamningur skal vera undirritaður af báðum aðilum og skal hvor halda sínu eintaki. Í samningnum skal greina helstu atriði varðandi leigu ökutækisins eftir því sem nánar skal ákveðið í reglugerð. Samgönguráðherra getur með reglugerð birt form leigusamnings og kveðið á um skyldu bílaleigna til að nota það.
     Leyfishafi skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðarmerki og reglur um bann við umferð utan vega. Jafnframt skal leyfishafi vekja sérstaka athygli á hættu sem stafar af dýrum á vegum.
     Varðveita skal leigusamning í a.m.k. eitt ár frá undirritun hans.

7. gr.

Leigutaki.
     Óheimilt er að leigja bifreið eða annað ökutæki öðrum en þeim sem hafa réttindi til að stjórna bifreiðinni eða ökutækinu sem leigja á. Bílaleigu er þó heimilt að gera leigusamning við aðila sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann skriflega og má sá aka bifreiðinni eða ökutækinu. Skal ökumaður uppfylla framangreind skilyrði.

8. gr.

Reglugerð.
     Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um leigustarfsemina og framkvæmd laganna að öðru leyti.

9. gr.

Refsiákvæði o.fl.
     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim varða sektum.
     Samgönguráðherra afturkallar starfsleyfi bílaleigu ef umsækjandi hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar til að fá leyfið eða fullnægir ekki lengur skilyrðum laga þessara.
     Nú rekur aðili starfsemi sem starfsleyfi þarf til samkvæmt lögum þessum án slíks leyfis og skal þá lögreglustjóri þegar í stað stöðva starfsemina, þar á meðal með lokun starfsstöðvar.

10. gr.

Gildistaka o.fl.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi 70. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þær bílaleigur sem starfa við gildistöku laga þessara skulu uppfylla skilyrði laganna og afla sér starfsleyfis fyrir 1. september 2000.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.