Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1345, 125. löggjafarþing 547. mál: tekjuskattur og eignarskattur (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.).
Lög nr. 86 22. maí 2000.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir orðunum „skv. 14. gr. sömu laga“ í 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: eða af meðlagsúrskurði sýslumanns eða samkomulagi um framfærslu barns sem staðfest hefur verið af sýslumanni, þó aldrei hærra en sem nemur fjárhæð tvöfalds barnalífeyris skv. 14. gr. laga um almannatryggingar.

2. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna koma tvær nýjar greinar með fyrirsögninni Kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti, svohljóðandi:
     
     a. (8. gr. A.)
     Tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, sbr. þó 8. gr. B, skulu ákveðnar eins og kveðið er á um í þessari grein. Til skattskyldra tekna telst mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur. Með gangverði er átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði þegar kaupréttur er nýttur. Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð í kauphöll skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags.
     
     b. (8. gr. B.)
     Tekjur skv. 8. gr. A skulu skattlagðar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
 1. Kaupréttur að hlutabréfum eða hlutum í viðkomandi félagi hafi náð til allra starfsmanna.
 2. Starfsmaður hafi verið í föstu starfi hjá félaginu eða í öðru félagi í sömu félagasamstæðu, sbr. lög um ársreikninga.
 3. Að lágmarki 12 mánuðir þurfi að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur.
 4. Kaupverð sé eigi lægra en gangverð, sbr. 8. gr. A, þegar samningur er gerður.
 5. Starfsmaður eigi hlutabréfin eða hlutina í tvö ár eftir að kaupréttur er nýttur.
 6. Samningur um kauprétt sé ekki framseljanlegur.
 7. Hámark kaupréttar hvers starfsmanns sé samanlagt 600.000 kr. á ári miðað við kaupverð samkvæmt samningi.
 8. Félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum kauprétt hafi sent ríkisskattstjóra fyrir fram til staðfestingar áætlun um kauprétt starfsmanna ásamt upplýsingum um framangreind atriði í því formi sem hann ákveður.

     Í lok hvers árs skal senda skattstjóra upplýsingar um þá starfsmenn sem hafa nýtt kauprétt á árinu samkvæmt staðfestri áætlun ásamt upplýsingum um kaupverð bréfanna. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Tekjur samkvæmt þessari grein koma til skattlagningar þegar starfsmaður selur hlutabréfin. Teljast þær mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði þeirra. Sá mismunur telst ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi 31. gr. laganna.
     Kaup á hlutabréfum samkvæmt þessari grein veita ekki rétt til frádráttar frá tekjum skv. 1. tölul. B-liðar 30. gr.

3. gr.

     Á eftir 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. laganna kemur nýr málsliður svohljóðandi: Kaupverð hlutabréfa sem seljandi hefur eignast vegna kaupréttar skv. 8. gr. A skal ákvarðast jafnt gangverði því sem lagt var til grundvallar við ákvörðun tekna samkvæmt því ákvæði.

4. gr.

     5. tölul. 28. gr. laganna orðast svo: Framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þó skal telja framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni skapa réttindi til greiðslu ellilífeyris umfram þau meðallaun sem greitt hefur verið af síðustu fimm ár miðað við að ellilífeyrir sé tekinn með jöfnum greiðslum frá 65 ára aldri. Við mat á réttindum til ellilífeyris skal miðað við að áfram sé greitt í lífeyrissjóð af meðallaunum síðustu fimm ára eftir því sem lög eða kjarasamningar mæla fyrir um. Hafi í kjarasamningum verið samið um iðgjald í lífeyrissjóð eða það bundið í lögum skal það aldrei teljast til skattskyldra tekna.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna:
 1. Í stað hlutfallstölunnar „2%“ í 5. tölul. kemur: 4%.
 2. Í stað hlutfallstölunnar „2%“ í 6. tölul. kemur: 4%.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna:
 1. Orðið „innlendum“ í 1. mgr. fellur brott.
 2. Í stað orðanna „á Verðbréfaþingi Íslands“ í 3. og 5. mgr. kemur: í kauphöll á Evrópska efnahagssvæðinu.
 3. Orðið „innlendu“ í 4. málsl. 4. mgr. fellur brott.


7. gr.

     Á eftir orðunum „þar á meðal“ í 1. málsl. 1. tölul. 31. gr. laganna kemur: iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna í lífeyrissjóði sem starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
 1. Í stað tilvísunarinnar „og 5. tölul.“ í 2. málsl. 4. mgr. A-liðar kemur: 5. og 6. tölul.
 2. Í stað tilvísunarinnar „og 5. tölul.“ í 4. málsl. 4. mgr. B-liðar kemur: 5. og 6. tölul.


9. gr.

     Við 1. mgr. 5. tölul. 74. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Erlend hlutabréf skal færa til eignar á nafnverði, en ef nafnverð er ekki þekkt skulu bréfin færð til eignar á kaupverði.

10. gr.

     Tilvísunin „sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr.“ í 1. málsl. 78. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

     Orðin „og að frádregnum bótum skv. 69. gr.“ í 4. mgr. 110. gr. laganna falla brott.

12. gr.

     Við 117. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
     Fjármálaráðherra fer með túlkun samninga sem gerðir eru á grundvelli þessarar greinar. Getur hann sett verklagsreglur um túlkun og framkvæmd þeirra sem önnur skattyfirvöld eru bundin af.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga um bindandi álit í skattamálum skal fjármálaráðherra í stað ríkisskattstjóra gefa álit um túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir eru á grundvelli þessarar greinar. Álit fjármálaráðherra eru ekki kæranleg til yfirskattanefndar.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2001 vegna tekna og eigna á árinu 2000.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Beiðni um bindandi álit, sbr. 12. gr. laga þessara, sem borist hefur ríkisskattstjóra til ákvörðunar á grundvelli laga um bindandi álit í skattamálum skal við gildistöku laga þessara sent fjármálaráðherra til ákvörðunar. Bindandi álit ríkisskattstjóra sem kært hefur verið eða kæranlegt er til yfirskattanefndar skv. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal sæta úrlausn hjá yfirskattanefnd.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.