Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1412, 125. löggjafarþing 535. mál: sjúklingatrygging.
Lög nr. 111 25. maí 2000.

Lög um sjúklingatryggingu.


Sjúklingar sem lögin taka til.

1. gr.

     Rétt til bóta samkvæmt lögum þessum eiga sjúklingar, sbr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til starfans. Sama á við um þá sem missa framfæranda við andlát slíkra sjúklinga.
     Sjúklingar sem brýn nauðsyn er að vista á erlendu sjúkrahúsi eða á annarri heilbrigðisstofnun erlendis, sbr. 35. gr. almannatryggingalaga, og verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á viðkomandi stofnun eiga rétt á bótum samkvæmt lögum þessum, að frádregnum bótum sem þeir kunna að eiga rétt á í hinu erlenda ríki.
     Þeir sem gangast undir læknisfræðilega tilraun sem ekki er liður í sjúkdómsgreiningu eða meðferð á sjúkdómi þess er í hlut á eiga sama rétt og sjúklingar samkvæmt lögum þessum nema annars sé getið sérstaklega.
     Þeir sem gefa vef, líffæri, blóð eða annan líkamsvökva eiga sama rétt og sjúklingar samkvæmt lögum þessum nema annars sé getið sérstaklega.

Tjónsatvik sem lögin taka til.

2. gr.

     Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
  1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
  2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
  3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
  4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.


3. gr.

     Greiða skal bætur fyrir tjón sem hlýst af því að sjúkdómsgreining er ekki rétt í tilvikum sem nefnd eru í 1. eða 2. tölul. 2. gr. Þetta á hins vegar ekki við um atvik sem falla undir 3. og 4. tölul. 2. gr.
     Slasist sjúklingur af öðrum orsökum en þeim sem greindar eru í 2. tölul. 2. gr. skal því aðeins greiða bætur að sjúklingur hafi verið í rannsókn eða meðferð hjá stofnun eða öðrum aðila sem lögin taka til og slysið hafi borið að þannig að telja verði að þeir beri bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.
     Bætur samkvæmt lögum þessum greiðast ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

4. gr.

     Bætur skal greiða einstaklingum sem nefndir eru í 3. og 4. mgr. 1. gr. ef þeir verða fyrir tjóni sem getur verið afleiðing læknisfræðilegrar tilraunar, brottnáms vefs eða annars þess háttar, nema allt bendi til þess að tjónið verði rakið til annars.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við um tjón sem rekja má til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, sbr. 3. mgr. 3. gr.

Ákvörðun bóta.

5. gr.

     Um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögum þessum fer eftir skaðabótalögum, sbr. þó 2. mgr. 10. gr.
     Bætur skv. 1. mgr. greiðast ef virt tjón nemur 50 þús. kr. eða hærri fjárhæð. Hámark bótafjárhæðar fyrir einstakt tjónsatvik skal þó vera 5.000.000 kr. Fjárhæðir þessar breytast miðað við 1. janúar ár hvert í samræmi við lánskjaravísitölu.
     Ákvæði 2. mgr. taka ekki til tjóns sem um ræðir í 1. mgr. 4. gr., sbr. 3. og 4. mgr. 1. gr.
     Ekki skal greiða bætur eftir þessum lögum til að fullnægja endurkröfum.

Eigin sök.

6. gr.

     Heimilt er að lækka eða fella niður bætur ef sjúklingur er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Skaðabótaréttur eftir almennum reglum.

7. gr.

     Skaðabótakrafa verður ekki gerð á hendur neinum sem er bótaskyldur samkvæmt reglum skaðabótaréttar nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt skv. 5. gr. og þá einungis um það sem á vantar.

Endurkröfuréttur.

8. gr.

     Beri bótaskyldur aðili skv. 9. gr., starfsmaður hans eða fyrrverandi starfsmaður bótaábyrgð gagnvart sjúklingi samkvæmt reglum skaðabótaréttar verður endurkrafa ekki gerð á hendur hinum skaðabótaskylda til greiðslu skv. 5. gr. nema hann hafi valdið tjóni af ásetningi.

Bótaskyldir aðilar.

9. gr.

     Allir sem veita heilbrigðisþjónustu, innan stofnana sem utan, bera bótaábyrgð samkvæmt lögunum. Þeir eru:
  1. heilsugæslustöðvar, hvort sem þær eru reknar af ríki, sveitarfélagi eða öðrum,
  2. sjúkrahús, hvort sem þau eru rekin af ríki, sveitarfélagi eða öðrum,
  3. aðrar heilbrigðisstofnanir, án tillits til þess hver ber ábyrgð á rekstri,
  4. heilbrigðisstarfsmenn sem starfa sjálfstætt og hafa hlotið löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til starfans, án tillits til þess hvort þeir veita heilbrigðisþjónustu sem sjúklingur greiðir að fullu sjálfur eða sem greidd er af sjúkratryggingum samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins,
  5. Tryggingastofnun ríkisins vegna sjúklinga sem brýn nauðsyn er að vista á erlendu sjúkrahúsi eða annarri heilbrigðisstofnun erlendis, sbr. 2. mgr. 1. gr., og
  6. þeir sem annast sjúkraflutninga.


Vátryggingarskylda.

10. gr.

     Bótaskyldir aðilar skv. 9. gr. skulu tryggðir með vátryggingu (sjúklingatryggingu) hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi, sbr. þó 11. gr.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur reglugerð m.a. um lágmark vátryggingarfjárhæðar innan hvers vátryggingarárs og framkvæmd vátryggingarskyldu. Heimilt er ráðherra að binda starfsleyfi heilbrigðisstofnana sem ekki falla undir 11. gr. og heimild heilbrigðisstarfsmanna til að starfa sjálfstætt því að vátryggingarskyldu samkvæmt lögum þessum sé fullnægt.

Eigin áhætta.

11. gr.

     Heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir sem ríkið á í heild eða að hluta eru undanþegin vátryggingarskyldu skv. 10. gr. Sama gildir um Tryggingastofnun ríkisins og þá sem annast sjúkraflutninga á vegum ríkisins. Þeim er þó heimilt að kaupa vátryggingu skv. 10. gr.

Meðferð bótamála hjá vátryggingafélögum.

12. gr.

     Kröfu um bætur samkvæmt lögum þessum vegna tjóns hjá öðrum en þeim sem 11. gr. tekur til skal beina til vátryggingafélags hins bótaskylda.
     Starfsmenn vátryggingafélaga sem fjalla um málefni sjúklinga eða annarra tjónþola skulu gæta fyllstu þagmælsku um allar persónuupplýsingar sem þeir komast að í starfi eða í tengslum við það.

Meðferð bótamála þegar hinn bótaskyldi er undanþeginn vátryggingarskyldu.

13. gr.

     Kröfu um bætur samkvæmt lögum þessum vegna tjóns hjá þeim sem hafa nýtt sér heimild til að kaupa ekki vátryggingu, sbr. 11. gr., skal beina til Tryggingastofnunar ríkisins.

Sjúklingatrygging Tryggingastofnunar ríkisins.

14. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins skal annast sjúklingatryggingu vegna þeirra sem hafa nýtt sér heimild til að kaupa ekki vátryggingu, sbr. 11. gr.
     Ráðherra setur reglugerð um starfsemi og málsmeðferð sjúklingatrygginga hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Málsmeðferð hjá Tryggingastofnun ríkisins.

15. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins aflar gagna eftir því sem þurfa þykir og getur m.a. aflað skýrslna fyrir héraðsdómi þar sem skýrslugjafi býr. Stofnunin getur krafið heilsugæslustöðvar, sjúkrahús, aðrar heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisstarfsmenn sem starfa sjálfstætt og hlotið hafa löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, svo og þá sem annast sjúkraflutninga, um hvers konar gögn, þar á meðal sjúkraskýrslur sem hún telur máli skipta um meðferð máls samkvæmt lögunum.
     Að gagnaöflun lokinni tekur Tryggingastofnun ríkisins afstöðu til bótaskyldu og ákveður fjárhæð bóta.
     Starfsmenn stofnunarinnar sem fjalla um málefni sjúklinga eða annarra tjónþola skulu gæta fyllstu þagmælsku um allar persónuupplýsingar sem þeir komast að í starfi eða í tengslum við það.

16. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins tilkynnir öllum hlutaðeigandi niðurstöðu sína í hverju máli. Niðurstöðu má skjóta til úrskurðarnefndar almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Ársskýrsla um sjúklingatryggingu.

17. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins skal árlega taka saman skýrslu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um störf vegna sjúklingatryggingarinnar og þau mál sem hún afgreiðir. Jafnframt skal upplýsa í ársskýrslu stofnunarinnar, eftir því sem kostur er, um málsmeðferð vátryggingafélaga á bótakröfum vegna sjúklingatryggingar. Skýrslan skal vera aðgengileg almenningi.

Upplýsingaskylda Tryggingastofnunar ríkisins.

18. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins er skylt að kynna fyrir almenningi ákvæði laga þessara um sjúklingatryggingu. Í þeim upplýsingum skal m.a. koma fram að sé um að ræða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn skuli beina kröfu til vátryggingafélaga.

Ýmis ákvæði.

19. gr.

     Kröfur um bætur samkvæmt lögum þessum fyrnast þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt.
     Krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér.

20. gr.

     Brot gegn 1. mgr. 10. gr., sbr. þó 11. gr., varða sektum.
     Brot gegn 2. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 15. gr. varða sektum eða fangelsi.
     Sé refsivert brot framið í starfi hjá félagi, stofnun eða öðrum ópersónulegum aðila er hann ábyrgur fyrir greiðslu sektar.

21. gr.

     Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þar skal m.a. skilgreina frekar hvað fellur undir sjúkdómsmeðferð skv. 1. gr. og hvað telst læknisfræðileg tilraun skv. 3. mgr. sömu greinar.

22. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 og taka til tjónsatvika sem verða eftir þann tíma. Endurskoða skal lög þessi innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra.

Breytingar á öðrum lögum.

23. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirtaldar breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117 20. desember 1993:
  1. F-liður 1. mgr. 24. gr. laganna fellur brott.
  2. Síðari málsliður lokamálsgreinar 29. gr. laganna fellur brott.
  3. Í stað orðanna „og f-liðum“ í lokamálslið 1. mgr. 31. gr. laganna kemur: lið.
  4. D-liður 2. mgr. 43. gr. laganna fellur brott.
  5. Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður sem orðast svo: Sjúklingar sem áttu rétt til bóta skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. fyrir 1. janúar 2001 skulu halda rétti sínum skv. III. kafla laganna.

     Ef krafa er gerð eftir 1. janúar 2001 vegna tjónsatviks sem varð fyrir þann tíma gilda ákvæði f-liðar 1. mgr. 24. gr. og d-liðar 2. mgr. 43. gr. almannatryggingalaga, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.

24. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirtaldar breytingar á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993:
  1. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
  2.      Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir ákvæðum 1., 3., 4. og 5. málsl. 4. mgr. 5. gr.
  3. Á eftir 2. málsl. 4. mgr. 5. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skal einnig draga frá skaðabótakröfu.


Samþykkt á Alþingi 13. maí 2000.