Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1149, 126. löggjafarþing 481. mál: tekjuskattur og eignarskattur (samvinnufélög).
Lög nr. 30 7. maí 2001.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um samvinnufélög sem hafa ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa eða hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs samvinnufélaga eða samvinnuhlutabréf sem félagsaðilum eru afhent við slíka hækkun séreignarhluta í samvinnufélagi samkvæmt lögum um samvinnufélög.

2. gr.

     Á eftir 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Kaupverð hlutabréfa í B-deild stofnsjóðs samvinnufélags sem skattaðili hefur eignast við sértækt endurmat A-deildar stofnsjóðs samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um samvinnufélög skal ákvarðast jafnt fjárhæð hækkunar séreignarsjóðshluta A-deildar yfirfærðs stofnsjóðs.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
  1. Í stað „78. gr.“ og „81. gr.“ í 2. mgr. kemur: 56. gr., og: 59. gr.
  2. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
  3.      Sé samvinnufélagi slitið á þann hátt að því sé breytt í hlutafélag og félagsaðilar samvinnufélagsins fái eingöngu hlutabréf í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir séreignarhluti sína í samvinnufélaginu skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem séreignarhlutinn lét af hendi. Hafi samvinnufélag sem breyta á í hlutafélag myndað sérstaka B-deild stofnsjóðs með sölu hluta og eigendur samvinnuhlutabréfanna í B-deild fá eingöngu hlutabréf í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir B-deildarhluti sína í samvinnufélaginu, þá skulu skiptin á sama hátt ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem samvinnuhlutabréfin lét af hendi. Þegar samvinnufélagi er breytt í hlutafélag skal hlutafélagið, sem við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum samvinnufélagsins sem slitið var.


4. gr.

     Við 1. mgr. 56. gr. A laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Sé samvinnufélagi skipt þannig að fleiri en eitt samvinnufélag eða hlutafélag taki við eignum og skuldum frá félaginu skulu ákvæði þessarar málsgreinar gilda um slíka skiptingu. Séreignarhlutir félagsaðila í samvinnufélögunum skulu vera innbyrðis í sömu hlutföllum og séreignarhlutirnir í hinu skipta félagi en taki hlutafélag við eignum og skuldum frá samvinnufélaginu skulu allir hlutir í hlutafélaginu vera í eigu hins skipta félags.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Til þess að sértækt endurmat stofnsjóðs A-deildar samvinnufélags samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um samvinnufélög njóti skattalegs hagræðis skv. 2. málsl. 1. mgr. 9. gr., 4. málsl. 2. mgr. 17. gr. og 3. mgr. 56. gr. laganna skal endurmatið lagt fyrir skattstjóra til staðfestingar ásamt upplýsingum um skiptihlutfallið milli félagsaðila fyrir árslok 2004.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2002 vegna tekna og eigna á árinu 2001.

Samþykkt á Alþingi 27. apríl 2001.