Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1496, 126. löggjafarþing 732. mál: almannatryggingar og félagsleg aðstoð (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.).
Lög nr. 93 31. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „tekjutryggingar“ í 1. mgr. kemur: tekjutryggingarauka.
  2. Við 2. málsl. 2. mgr. bætist: og tekjur öryrkja af atvinnu metnar að 60 hundraðshlutum við útreikning á tekjutryggingu.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.
  2. 3. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Á eftir 7. mgr. 17. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Ef einhleypingur hefur eingöngu tekjur frá lífeyristryggingum skal hann til viðbótar við heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eiga rétt á fullum tekjutryggingarauka sem er 14.062 kr. á mánuði. Hafi lífeyrisþegi aðrar tekjur, eins og þær eru skilgreindar í 10. gr., sbr. 11. mgr., skerða þær tekjutryggingaraukann um 67%.
     Lífeyrisþegi í sambýli við einstakling 18 ára eða eldri á rétt á tekjutryggingarauka, 10.548 kr. Tekjur lífeyrisþega eins og þær eru skilgreindar í 10. gr., sbr. 11. mgr., skerða tekjutryggingaraukann um 67% og skal við útreikning tekjutryggingarauka hjá hjónum leggja til grundvallar helming sameiginlegra tekna.
     Með sambýli í 9. mgr. er átt við hjúskap, óvígða sambúð og staðfesta samvist, eða þegar lífeyrisþegi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra óskylda aðila, skyldmenni eða venslafólk, eða hefur sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði.

II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum.

4. gr.

     Orðin „sérstök heimilisuppbót“ í 1. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 2. mgr. fellur brott.
  2. Orðin „og sérstök heimilisuppbót“ í fyrirsögn greinarinnar falla brott.


6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.