Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1206, 128. löggjafarþing 415. mál: tóbaksvarnir (EES-reglur).
Lög nr. 24 20. mars 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Með tjöru er í lögum þessum átt við hráa þéttingu tóbaksreyks, vatnsfirrta og nikótínlausa.
     Með nikótíni er í lögum þessum átt við nikótínbeiskjuefni.
     Með kolsýringi er í lögum þessum átt við kolmónoxíð (CO).
     Með innihaldsefnum er í lögum þessum átt við öll efni eða efnisþætti, nema tóbakslauf og aðra náttúrulega eða óunna hluta tóbaksplöntunnar, sem eru notaðir við framleiðslu eða tilreiðslu á tóbaki og er enn að finna í fullunnu vörunni, jafnvel þótt í breyttu formi sé, þ.m.t. pappír, síur, blek og lím.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „tjöru- og nikótíninnihald“ í 2. mgr. kemur: tjöru-, nikótín- og kolsýringsinnihald.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um merkingar skv. 1. og 2. mgr., þar á meðal viðvörunartexta, stærð þeirra, letur, og annað sem máli kann að skipta, í samræmi við gildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki.
  4. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Óheimilt er með öllu að hafa á umbúðum tóbaks texta, heiti, vörumerki, myndir og myndræn eða annars konar tákn sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Á eftir 7. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 8. og 9. mgr., og orðast svo:
  2.      Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks gefi upplýsingar um innihald vörunnar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.
         Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks leggi fram sýnishorn af vörunni eða geri prófanir sem eru nauðsynlegar til þess að meta eiginleika og áhrif hennar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.
  3. Við 8. mgr. sem verður 10. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Tóbaksframleiðendur standa straum af kostnaði við mælingar og prófanir samkvæmt þessari málsgrein, svo og við upplýsingar og prófanir skv. 8. og 9. mgr.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði c-liðar 2. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 30. september 2003.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.