Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 676, 131. löggjafarþing 183. mál: veðurþjónusta.
Lög nr. 142 22. desember 2004.

Lög um veðurþjónustu.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja almenningi, atvinnulífi og stjórnvöldum nauðsynlegar upplýsingar um veður og veðurhorfur á Íslandi.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um opinbera veðurþjónustu og veðurfræðilega sérþjónustu.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
 1. Almennar veðurhorfur: Yfirlitsspár um veðurlag á Íslandi til nokkurra vikna, mánaða eða lengri tíma eftir því sem aðstæður leyfa.
 2. Almennar veðurspár: Svæðis- eða staðbundnar spár um veður og veðurbreytingar á Íslandi og nærliggjandi hafsvæði sem unnar eru reglulega, daglega eða oftar, ná til nokkurra daga eða skemmri tíma og miðlað er til almennings, sbr. 8. gr.
 3. Grunnkerfi: Söfnun grunnupplýsinga um veður og rekstur veðurstöðvakerfis, meðhöndlun og varðveisla athuganagagna í gagnagrunnum og rekstur þeirra. Gerð eða öflun tölvureiknaðra spágagna.
 4. Grunnþjónusta: Miðlun rauntímagagna, vinnsla á almennum veðurspám og spám um almennar veðurhorfur, öryggisþjónusta og önnur veðurþjónusta sem Íslandi ber skylda til að veita samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum þar um.
 5. Opinber veðurþjónusta: Grunnþjónusta og rekstur grunnkerfa.
 6. Rauntímagögn: Mæli- og athuganagögn um veður eða einstaka veðurþætti sem nýtt eru vegna öryggisþjónustu eða miðlað til notenda eins fljótt og unnt er eftir að mæling hefur farið fram.
 7. Sérþjónusta: Veðurþjónusta sem ekki fellur undir grunnþjónustu. Hér er átt við þjónustu við fyrirtæki, stofnanir eða einstaklinga sem felst í gagnaafhendingu, sérhæfðri vinnslu, ráðgjöf eða túlkun gagna.
 8. Tölvureiknuð spágögn: Rafrænt reiknaðar spár um ýmsa veðurþætti sem settar eru fram á myndrænu eða stafrænu formi.
 9. Veður: Ástand lofthjúpsins á hverjum tíma, þ.m.t. vindur, loftþrýstingur, úrkoma, skýjafar, skyggni, lofthiti og loftraki.
 10. Veðurtengdir þættir: M.a. ofanflóð, hafís, snjóalög, sjólag, sjávarflóð, vatnsflóð, eldingar, dreifing gjósku í lofti, ókyrrð í lofti og ísing í lofti, á láði og á legi.
 11. Öryggisþjónusta: Vöktun og viðvaranir eða ráðgjöf um yfirvofandi hættu af völdum veðurs eða veðurtengdra þátta sem miðar að því að vernda líf og eignir.


4. gr.

Yfirstjórn.
     Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála sem lög þessi taka til. Veðurstofa Íslands er ráðherra til ráðgjafar.

5. gr.

Grunnkerfi.
     Veðurstofa Íslands skal reka grunnkerfi með því m.a. að starfrækja nauðsynlegan fjölda veðurathugunarstöðva í hverjum landshluta og með því að afla gagna frá erlendum veðurstofum. Enn fremur skal Veðurstofa Íslands afla annarra veðurfræðilegra gagna, svo sem fjarkönnunargagna, eftir því sem tök eru á. Markmið með rekstri grunnkerfa Veðurstofu Íslands er að afla gagna fyrir grunnþjónustu og að byggja upp, viðhalda og auka þekkingu á veðurfari landsins og orsökum veðurfarsbreytinga.
     Veðurstofa Íslands skal varðveita veðurupplýsingar þær sem fást úr rekstri grunnkerfa í aðgengilegum og áreiðanlegum gagnagrunnum.
     Veðurstofa Íslands skal beita sér fyrir samræmingu á grunnkerfum opinberra stofnana sem og fyrirtækja sem að einhverju leyti starfa á sviði veðurþjónustu.

6. gr.

Grunnþjónusta.
     Veðurstofa Íslands skal inna af hendi grunnþjónustu með því að:
 1. veita öryggisþjónustu vegna veðurs á landi, í lofti og á legi,
 2. miðla rauntímagögnum og sjá um að gerðar séu almennar veðurspár eins og þær eru skilgreindar á hverjum tíma fyrir Ísland og umhverfi þess,
 3. veita veðurþjónustu fyrir flugvelli og flugumferð í samræmi við lög, fyrirmæli stjórnvalda og samkvæmt alþjóðlegum reglum og samþykktum,
 4. veita öryggisþjónustu vegna veðurtengdra þátta,
 5. veita aðra þá grunnþjónustu sem ráðherra ákveður eða samið er um í alþjóðlegum samningum.


7. gr.

Fjármögnun grunnkerfa og grunnþjónustu.
     Kostnaður við uppbyggingu, rekstur, þróun og viðhald grunnkerfa, svo og grunnþjónustu, greiðist úr ríkissjóði.

8. gr.

Miðlun veðurupplýsinga.
     Veðurstofa Íslands skal miðla upplýsingum um veður, almennar veðurspár, almennar veðurhorfur og veðurtengda þætti a.m.k. daglega til fjölmiðla og annarra miðla sem hafa almenna útbreiðslu og ná til notenda innan lands, hafsvæða umhverfis landið og flugstjórnarsvæðis sem stofnunin vaktar samkvæmt alþjóðlegum samningum eða skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi.

9. gr.

Viðvaranir.
     Veðurstofu Íslands er skylt að gefa út viðvaranir um yfirvofandi hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta eftir því sem tilefni er til hverju sinni og í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir. Þess skal gætt að viðvaranir séu settar fram á skýran og ótvíræðan hátt. Veðurstofan skal koma viðvörunum sínum tafarlaust á framfæri, m.a. við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fjölmiðla og aðra miðla sem hafa almenna útbreiðslu og ná til notenda innan lands, hafsvæða umhverfis landið og flugstjórnarsvæðis sem stofnunin vaktar samkvæmt alþjóðlegum samningum eða skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi, sem og við staðbundna miðla, eftir því sem tilefni er til.

10. gr.

Sérþjónusta.
     Veðurstofa Íslands veitir veðurfræðilega sérþjónustu gegn greiðslu á forsendum jafnræðis gagnvart einkareknum veðurþjónustufyrirtækjum og öðrum ríkisveðurstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Veðurfræðileg sérþjónusta felst m.a. í framkvæmd og úrvinnslu veðurmælinga, fullvinnslu og ítarlegri túlkun grunnþjónustu og ráðgjöf um veðurfræðileg og veðurfarsleg málefni.
     Starfsemi sérþjónustu Veðurstofu Íslands skal rekin sem sjálfstæð eining og vera fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi stofnunarinnar.

11. gr.

Þjónustusamningar.
     Veðurstofa Íslands getur falið öðrum aðilum, stjórnvöldum sem einkaaðilum, að annast ákveðna verkþætti á starfssviði sínu með sérstökum samningi þar um.

12. gr.

Aðgangur að gögnum.
     Veðurstofu Íslands er skylt að afhenda gögn sem hún býr til eða aflar við rekstur grunnkerfa og grunnþjónustu gegn greiðslu þess kostnaðar sem hlýst af afhendingu þeirra, þó með þeim takmörkunum sem leiðir af aðild Íslands að fjölþjóðasamningum um meðferð veðurgagna, þar á meðal tölvureiknaðra spágagna, í markaðsumhverfi. Ráðherra setur að fengnum tillögum Veðurstofu Íslands gjaldskrá um afhendingarkostnað vegna gagna sem afhent eru samkvæmt ákvæði þessu.

13. gr.

Reglugerð.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um veðurþjónustu og veðurtengda öryggisþjónustu.

14. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Jafnframt verða eftirfarandi breytingar á 3. gr. laga um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985:
 1. 1. og 2. tölul. orðast svo:
  1. að sjá um rekstur grunnkerfa og annast grunnþjónustu á sviði veðurþjónustu, sbr. lög um veðurþjónustu,
  2. að annast verkefni á sviði ofanflóðavarna, sbr. lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.
 2. 3., 5. og 7. tölul. falla brott og breytist röð annarra liða samkvæmt því.


Samþykkt á Alþingi 10. desember 2004.