Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1260, 131. löggjafarþing 159. mál: virðisaukaskattur (samskráning hlutafélaga).
Lög nr. 20 11. maí 2005.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. A, svohljóðandi:
     Skattstjóri getur heimilað að tvö eða fleiri hlutafélög og einkahlutafélög verði samskráð. Skilyrði samskráningar eru að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum sé í eigu móðurfélagsins sem óskar samskráningar eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samskráningunni. Jafnframt hafi öll félögin sama reikningsár. Samskráning skal vera í nafni móðurfélagsins og skal að lágmarki standa í fimm ár. Ef samskráningu er slitið er ekki heimilt að fallast á slíka skráningu að nýju fyrr en að liðnum fimm árum frá því að fyrri samskráningu var slitið.
     Umsókn um samskráningu skal beint til skattstjóra í því skattumdæmi þar sem móðurfélagið er heimilisfast eigi síðar en átta dögum fyrir upphaf fyrsta reikningsárs sem samskráningu er ætlað að taka til. Breytingar á forsendum samskráningar, svo sem breytt eignarhald, skal tilkynna eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað.
     Með samskráningu falla á móðurfélagið allar skyldur varðandi uppgjör, skil og álagningu virðisaukaskatts skv. VII. og IX. kafla laga þessara vegna allra þeirra félaga sem samskráð eru. Öll bera félögin þó óskipta ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts á grundvelli samskráningarinnar.
     Við uppgjör virðisaukaskatts samskráðra félaga skal litið á þau sem eina lögpersónu. Viðskipti milli samskráðra félaga hafa þannig ekki í för með sér skyldu til að greiða virðisaukaskatt nema velta sé skattskyld, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 11. gr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við skráningu frá og með 1. júlí 2005.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2005.