Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1511, 132. löggjafarþing 556. mál: fjármálaeftirlit (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 67 13. júní 2006.

Lög um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

1. gr.

     Á eftir 2. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Lögin taka jafnframt til eftirlits og annarra verkefna gagnvart einstaklingum og lögaðilum sem Fjármálaeftirlitinu er falið að framkvæma samkvæmt ákvæðum sérlaga.

2. gr.

     3. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði laga þessara eiga, eftir því sem við á, við um eftirlit Fjármálaeftirlitsins, athuganir þess og upplýsingaöflun samkvæmt ákvæðum sérlaga. Er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita eftirlitsúrræðum þessara laga við eftirlit og önnur verkefni gagnvart einstaklingum og lögaðilum sem því er falið að framkvæma á grundvelli sérlaga og annarra reglna. Um starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins fer að öðru leyti eftir ákvæðum sérlaga.

3. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið skal athuga rekstur eftirlitsskyldra aðila svo oft sem þurfa þykir. Þeim er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að öllu bókhaldi sínu, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegan. Vegna starfsemi sinnar getur Fjármálaeftirlitið gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem það telur þörf á.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að skipa sérfræðing til að gera athugun á tilteknum þáttum í starfsemi eða rekstri eftirlitsskylds aðila eða til að hafa að öðru leyti sértækt eftirlit með eftirlitsskyldum aðila. Sérfræðingurinn skal skipaður til tiltekins tíma, ekki lengri en fjögurra vikna í senn. Á hann rétt á að hafa starfsstöð hjá hinum eftirlitsskylda aðila og skal honum veittur aðgangur að öllu bókhaldi, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum og upplýsingum sem eftirlitsskyldi aðilinn hefur í sinni vörslu og óskað er eftir. Sérfræðingurinn hefur rétt til að sitja fundi í stjórn eftirlitsskylds aðila sem áheyrnarfulltrúi með málfrelsi. Um þagnarskyldu hans fer skv. IV. kafla þessara laga.
     Í tengslum við eftirlit og athuganir mála samkvæmt ákvæðum sérlaga er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Fjármálaeftirlitinu í té allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að eftirlitsskyldur aðili eða einstaklingar og lögaðilar hafi brotið gegn lögum eða reglum sem Fjármálaeftirlitinu er falið að hafa eftirlit með eða ástæða er til að ætla að athuganir eða aðgerðir Fjármálaeftirlitsins nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri. Skal ákvæðum laga um meðferð opinberra mála beitt við framkvæmd slíkra aðgerða.

4. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar eftirlitsskyldra aðila uppfylla ekki hæfisskilyrði þeirra sérlaga sem um starfsemi hinna eftirlitsskyldu aðila gilda getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að viðkomandi láti af störfum, ýmist tímabundið eða til frambúðar. Ef kröfum Fjármálaeftirlitsins er ekki sinnt innan hæfilegra tímamarka getur Fjármálaeftirlitið einhliða vikið viðkomandi frá störfum. Slíkar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins útiloka ekki beitingu annarra heimilda þess.

5. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið getur lagt dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Ákvæði þetta tekur jafnt til eftirlitsskyldra aðila sem og einstaklinga og lögaðila sem falla undir lög er Fjármálaeftirlitinu er falið að framkvæma. Sama gildir um aðila er veitt geta upplýsingar í þágu athugana samkvæmt ákvæðum þessara laga eða sérlaga. Greiðast dagsektirnar þangað til farið hefur verið að kröfum Fjármálaeftirlitsins. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri eftirlitsskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Ákvarðanir um dagsektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins. Stjórn er heimilt að fela forstjóra að taka ákvarðanir um dagsektir vegna reglubundinna gagnaskila eftirlitsskyldra aðila.
     Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
     Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Fjármálaeftirlitsins nema stjórn Fjármálaeftirlitsins ákveði það sérstaklega.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt févíti á aðila sem brýtur gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af Fjármálaeftirlitinu. Ákvæði þetta tekur jafnt til eftirlitsskyldra aðila sem og einstaklinga og lögaðila sem falla undir lög er Fjármálaeftirlitinu er falið að framkvæma. Til ákvarðana samkvæmt þessari grein teljast kröfur um úrbætur skv. 10. gr. Févíti getur numið frá 10.000 kr. til 2 millj. kr. Við ákvörðun um fjárhæð févítis skal tekið tillit til alvarleika brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Ákvarðanir um févíti skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins.
     Ákvarðanir um févíti og dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
     Innheimt févíti og innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu févítis og dagsekta í reglugerð.

6. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Ef brot eru alvarleg og eftirlitsskyldur aðili eða einstaklingar og lögaðilar hafa að mati Fjármálaeftirlitsins með refsiverðum hætti gerst brotlegir við lög eða reglur sem Fjármálaeftirlitinu er falið að framfylgja ber Fjármálaeftirlitinu að greina ríkislögreglustjóra frá þeim. Aðgerðum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein verður ekki skotið til dómstóla.
     Kröfur, athugasemdir og fyrirhugaðar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins skv. 4. mgr. 9. gr. og 11. gr. skulu þegar í stað tilkynntar stjórn aðilans eða viðkomandi aðila ef stjórn er ekki til að dreifa nema ástæða sé til að ætla að fyrirhugaðar aðgerðir nái að öðrum kosti ekki tilætluðum árangri.

7. gr.

     2. og 3. mgr. 13. gr. laganna verða svohljóðandi:
     Upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum eru háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu.
     Upplýsingar skv. 1. mgr. má veita í samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ópersónugreinanlegir.

8. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í tengslum við athuganir tiltekinna mála er Fjármálaeftirlitinu heimilt að afla upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.

9. gr.

     18. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Málshöfðunarfrestur o.fl.
     Nú vill aðili ekki una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins né heimild til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó 2. mgr. 11. gr. laganna.
     Ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins verður ekki skotið til ráðherra.

10. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir brottfall ákvæða um kærunefnd í 18. gr. skal kærunefnd ljúka meðferð þeirra mála sem skotið hefur verið til hennar við gildistöku laga þessara. Jafnframt er heimilt að skjóta til kærunefndar þeim ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins sem teknar eru fyrir gildistöku laga þessara. Kæran skal berast nefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæru sem berst eftir lok kærufrests skal vísa frá nefndinni. Úrskurður kærunefndar skal liggja fyrir innan átta vikna frá því að kæra berst henni. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að bera úrskurði kærunefndar samkvæmt þessu ákvæði undir dómstóla.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

11. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 40. gr. laganna orðast svo: Samþykkis Fjármálaeftirlitsins skal enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili eykur svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti fer yfir 20, 25, 33 eða 50% eða nemur svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans.

12. gr.

     Á eftir 40. gr. laganna kemur ný grein, 40. gr. a, svohljóðandi:
     Með óbeinni hlutdeild í skilningi 40. gr. er átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við hafi eignast eða fari sameiginlega með virkan eignarhlut í skilningi laganna.
     Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti.
     Samstarf skal þó alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
  1. Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og ófjárráða börn aðila.
  2. Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 3. og 4. tölul. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög, systurfélög og félög þeim tengd, sem og eigendur þeirra, teljast jafnan í samstarfi. Félög sem fyrrnefnd félög eða eigendur þeirra hafa bein eða óbein yfirráð yfir teljast einnig samstarfsaðilar, nema sýnt sé fram á annað.
  3. Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. að aðili eigi með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 2. og 4. tölul.
  4. Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.


13. gr.

     Í stað orðanna „nánum tengslum við í skilningi 2. mgr. 18. gr.“ í 2. mgr. 70. gr. laganna kemur: samstarfi við í skilningi 40. gr. a.

14. gr.

     1. og 2. mgr. 107. gr. laganna verða svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði sem fellur undir ákvæði laga þessara, svo og starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt fer Fjármálaeftirlitið með eftirlit með dótturfyrirtækjum, hlutdeildarfyrirtækjum og sjóðum sem stunda starfsemi þá sem talin er upp í IV. kafla að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsskyldrar starfsemi, auk eftirlits með eigendum virkra eignarhluta skv. VI. kafla. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í fjármálafyrirtækjum í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. VI. kafla og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut. Fjármálaeftirlitið getur krafist sömu upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem hafa selt eignarhlut eða haft milligöngu um viðskipti með eignarhlut. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum.

15. gr.

     3. mgr. 74. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, með síðari breytingum.

16. gr.

     2. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í hlutafélagi sem starfar samkvæmt lögum þessum í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 6. gr. og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut. Fjármálaeftirlitið getur krafist sömu upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem hafa selt eignarhlut eða haft milligöngu um viðskipti með eignarhlut. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.

17. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna orðast svo: Samþykkis Fjármálaeftirlitsins skal enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili eykur svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti fer yfir 20, 25, 33 eða 50% eða nemur svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans.

18. gr.

     Á eftir 39. gr. laganna kemur ný grein, 39. gr. a, svohljóðandi:
     Með óbeinni hlutdeild í skilningi 1. mgr. 39. gr. er átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við hafi eignast eða fari með virkan eignarhlut í skilningi laganna.
     Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti.
     Samstarf skal þó alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
  1. Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og ófjárráða börn aðila.
  2. Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 3. og 4. tölul. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög, systurfélög og félög þeim tengd, sem og eigendur þeirra, teljast jafnan í samstarfi. Félög sem fyrrnefnd félög eða eigendur þeirra hafa bein eða óbein yfirráð yfir teljast einnig samstarfsaðilar, nema sýnt sé fram á annað.
  3. Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. að aðili eigi með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. 1., 2. og 4. tölul.
  4. Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.


19. gr.

     6. mgr. 55. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í vátryggingafélagi í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 39. gr. og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut skv. 39. og 40. gr. Fjármálaeftirlitið getur krafist sömu upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem hafa selt eignarhlut eða haft milligöngu um viðskipti með eignarhlut. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, með síðari breytingum.

20. gr.

     1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn, framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum verðbréfamiðstöðvarinnar, svo og endurskoðendum, er óheimilt að skýra frá nokkru því sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða stöðu sinni samkvæmt um hagi reikningseiganda, verðbréfamiðstöðvarinnar og viðskiptamanna hennar nema skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

VII. KAFLI
Gildistaka.

21. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.