Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1459, 132. löggjafarþing 388. mál: tóbaksvarnir (reykingabann).
Lög nr. 83 14. júní 2006.

Lög um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Með þjónusturými er í lögum þessum átt við öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi, þ.m.t. áhorfendasvæði, biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar, snyrtiherbergi o.fl.

2. gr.

     Við 6. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sérverslunum með tóbak, þ.e. verslunum sem einkum hafa tóbak og reykfæri á boðstólum, er þó heimilt að koma tóbaki og vörumerkjum tóbaks þannig fyrir innan verslunar að það sé sýnilegt viðskiptavinum þegar inn í verslunina er komið.

3. gr.

     11. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Til að selja tóbak í smásölu þarf sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði. Til reksturs sérverslunar með tóbak þarf jafnframt sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði. Auðkenna skal sérverslun með tóbak sérstaklega. Leyfi samkvæmt þessari grein skulu veitt til fjögurra ára í senn og verða einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja almennum skilyrðum laga um verslunaratvinnu. Heimilt er sveitarfélögum að innheimta gjald fyrir leyfi og eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda. Um gjaldtöku fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ráðherra er heimilt í samráði við umhverfisráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um leyfisveitingu samkvæmt þessari grein, m.a. um umbúnað sérverslana með tóbak, hvernig þær skuli auðkenndar og hvernig koma megi tóbaki og vörumerkjum tóbaks fyrir á útsölustöðum og í sérverslunum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. íþrótta- og tómstundastarf. Sama gildir um tilsvarandi svæði utan húss séu þau ekki nægilega opin til að tryggja viðunandi loftstreymi.
  3. 2. og 5. mgr. falla brott.
  4. 6. mgr. orðast svo:
  5.      Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð, í samráði við samgönguráðherra og umhverfisráðherra, nánari ákvæði um reykingar á gististöðum og um framkvæmd banns við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum, m.a. hvað varðar svæði utan dyra, sbr. 1. mgr.


5. gr.

     1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
     Með þeirri undantekningu sem leiða kann af 3. mgr. 9. gr. skal hver maður eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitandi hans sjá til þess að hann njóti þess réttar.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 4. og 5. gr. koma til framkvæmda 1. júní 2007.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.