Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 704, 133. löggjafarþing 408. mál: ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Lög nr. 176 20. desember 2006.

Lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.


1. gr.

Markmið og yfirstjórn.
     Markmið laga þessara er að kveða á um skipan mála til bráðabirgða á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda og þar til varanlegri skipan er komið á. Um ytri mörk og skiptingu svæðisins í flugvallarsvæði (svæði A), öryggissvæði (svæði B) og starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (svæði C) vísast til uppdráttar í fylgiskjali.
     Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn mála, þ.m.t. skipulagsmála, á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli uns forsætisráðherra gefur út auglýsingu um að landsvæðið, að hluta eða í heild, hafi verið tekið til annarra nota, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 3. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, sbr. lög nr. 46/2006. Í slíkri auglýsingu er heimilt að ákveða að utanríkisráðherra fari til bráðabirgða áfram með yfirstjórn tiltekinna málaflokka á slíku svæði þótt að öðru leyti gildi um það almennar reglur.

2. gr.

Flugvallarsvæði.
     Flugvallarsvæði, þ.e. flugbrauta- og flugverndarsvæði, Keflavíkurflugvallar, sbr. lög nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, er afmarkað sem svæði A í fylgiskjali.
     Utanríkisráðherra skal að höfðu samráði við samgönguráðherra skipa fimm manna nefnd sérfræðinga sem hafi það hlutverk að undirbúa snurðulausa færslu á stjórnun og rekstri Keflavíkurflugvallar, samkvæmt þessari grein, yfir til samgönguyfirvalda. Nefndin skal ljúka störfum og leggja fram tillögur sínar um framkvæmd yfirfærslunnar fyrir febrúarlok 2007.

3. gr.

Öryggissvæði.
     Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn öryggissvæðis sem afmarkað er sem svæði B í fylgiskjali. Öryggissvæðið er ætlað til varnarþarfa, þ.m.t. heræfinga og eftir atvikum friðargæsluæfinga, m.a. á vegum Bandaríkjanna eða annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins.
     Heimilt er utanríkisráðherra í reglugerð að mæla nánar fyrir um takmarkanir á umferð og dvöl á öryggissvæði og önnur öryggisatriði. Brot á fyrirmælum reglugerðarinnar varða sviptingu aðgangsheimildar, sektum eða fangelsi allt að fimm árum.
     Utanríkisráðherra er heimilt að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. umsýslu tiltekinna fasteigna á öryggissvæði ef þörf krefur.

4. gr.

Starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf.
     Heimilt er að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á svæði sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not og merkt er sem svæði C í fylgiskjali.
     Enn fremur er heimilt að fela félaginu umsýslu tiltekinna fasteigna á flugvallarsvæði og önnur verkefni sem tengjast framtíðarþróun og umbreytingu flugvallarsvæðis og starfssvæðis.
     Forsætisráðherra fer með hlutafé ríkisins í félaginu.

5. gr.

Opinber gjöld.
     Fasteignir ríkisins og mannvirki sem Bandaríkin eða Atlantshafsbandalagið hafa skilað til eignar, á svæðum sem tilgreind eru í 2. gr. og 1. mgr. 4. gr., eru undanþegin öllum opinberum gjöldum og skyldutryggingu fasteigna. Sú undanþága fellur niður er þeim hefur verið ráðstafað með leigu eða sölu enda sé ekki sérstaklega mælt fyrir um undanþágu frá slíkum gjöldum í öðrum lögum. Undanþágan gildir einnig þótt gefin sé út auglýsing um svæðin skv. 2. mgr. 1. gr.
     Fasteignir og mannvirki ríkisins eða Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæði skv. 3. gr., og starfsemi þeim tengd, skulu enn fremur undanþegin öllum opinberum gjöldum og skyldutryggingu fasteigna. Utanríkisráðherra er heimilt í samráði við fjármálaráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd undanþágu frá opinberum gjöldum samkvæmt málsgrein þessari.

6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Reglugerðir, reglur og önnur stjórnvaldsfyrirmæli, sem sett hafa verið á grundvelli laga nr. 106/1954 og 10. gr. laga nr. 82/2000, skulu halda gildi sínu uns nýjar reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið gefin út.

7. gr.

Breyting á lögum.
     Við gildistöku laga þessara kemur í stað orðsins „utanríkisráðherra“ í 1. og 4. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar: ráðherra.


Fylgiskjal.

Ytri mörk og skipulag varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli.
Ytri mörk og skipulag varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.