Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1458, 132. löggjafarþing 520. mál: lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði (skipulag löggæslunnar, greiningardeildir).
Lög nr. 46 13. júní 2006.

Lög um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989.


I. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 29 8. apríl 1998:
 1. B-liður 2. mgr. orðast svo: að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.
 2. 4. mgr. orðast svo:
 3.      Ríkislögreglustjóra til aðstoðar eru aðstoðarríkislögreglustjórar. Einn þeirra skal vera staðgengill ríkislögreglustjóra.


2. gr.

     6. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Lögregluumdæmi og stjórn þeirra.
     Landið skiptist í 15 lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar og sýslumenn sem hér segir:
 1. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer með lögreglustjórn á svæði sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Sveitarfélagið Álftanes.
 2. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, sem jafnframt er sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, fer með lögreglustjórn á svæði sem nær yfir Grindavík, Sandgerði, Sveitarfélagið Garð, Reykjanesbæ og Sveitarfélagið Voga auk þeirra svæða á Suðurnesjum sem eru varnarsvæði samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.
 3. Sýslumenn með aðsetur á Akranesi, í Borgarnesi, í Stykkishólmi, á Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Seyðisfirði, Eskifirði, Hvolsvelli, í Vestmannaeyjum og á Selfossi. Með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Búðardal fer sýslumaðurinn í Borgarnesi, með lögreglustjórn í umdæmum sýslumannanna á Patreksfirði, í Bolungarvík og á Hólmavík fer sýslumaðurinn á Ísafirði, með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins á Siglufirði fer sýslumaðurinn á Akureyri, með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins á Höfn fer sýslumaðurinn á Eskifirði og með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Vík fer sýslumaðurinn á Hvolsvelli. Umdæmi lögreglustjóra samkvæmt þessum tölulið skulu að öðru leyti ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórna.

     Við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum skulu starfa aðstoðarlögreglustjórar.
     Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæmi sínu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Vaktskipulag og almenn löggæsla í lögregluumdæmum á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi skal í hverjum fjórðungi samhæfð og samræmd eftir því sem við verður komið. Ráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag samvinnu og til hvaða umdæma hún skuli ná.
     Lögreglustjórar fara með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða í landi. Um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Ráðherra setur reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita.

3. gr.

     8. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 56 1. júní 2004, ásamt fyrirsögn orðast svo:
Lögreglurannsóknir.
     Lögregla annast rannsókn brota í samráði við ákærendur.
     Við embætti eftirtalinna lögreglustjóra skulu vera sérstakar rannsóknardeildir:
 1. lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir umdæmi hans,
 2. lögreglustjórans á Akranesi fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans í Borgarnesi og Stykkishólmi,
 3. lögreglustjórans á Ísafirði fyrir umdæmi hans,
 4. lögreglustjórans á Akureyri fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans á Blönduósi, á Sauðárkróki og á Húsavík,
 5. lögreglustjórans á Eskifirði fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Seyðisfirði,
 6. lögreglustjórans á Selfossi fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum,
 7. lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir umdæmi hans.

     Ráðherra setur nánari reglur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um hvaða brot skuli rannsaka hjá sérstökum rannsóknardeildum skv. 2. mgr. Önnur brot skal rannsaka í því umdæmi þar sem þau eru framin, sbr. þó ákvæði a- og b-liðar 2. mgr. 5. gr. Jafnframt setur ráðherra reglur um hvernig stjórn rannsóknar skuli háttað, hvenær brot skuli rannsakað undir stjórn ríkislögreglustjóra skv. a-lið 2. mgr. 5. gr. og um rannsóknaraðstoð.
     Sá lögreglustjóri sem rannsóknardeild á undir fer með forræði á rannsókn máls sem til rannsóknar er hjá sérstakri rannsóknardeild.
     Ráðherra er heimilt að ákveða að við einstök embætti lögreglustjóra starfi, undir eftirliti ríkislögreglustjóra, greiningardeildir til að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.
     Við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu skal starfrækt tæknideild sem sinni vettvangsrannsóknum, samanburðarrannsóknum og öðrum slíkum rannsóknum og varðveiti fingrafarasafn lögreglu og ljósmyndasafn og haldi því við. Tæknideildin skal þjóna öllum lögregluumdæmum landsins og setur ríkislögreglustjóri nánari reglur um starfrækslu hennar.

4. gr.

     Í stað orðsins „vararíkislögreglustjóri“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: aðstoðarríkislögreglustjórar; og í stað orðanna „varalögreglustjórinn í Reykjavík“ í sömu málsgrein kemur: aðstoðarlögreglustjórar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

5. gr.

     28. gr. laganna, sbr. 31. gr. laga nr. 83 27. maí 1997 og 5. gr. laga nr. 29 8. apríl 1998, ásamt fyrirsögn orðast svo:
Veiting starfa í lögreglu.
     Ráðherra skipar til fimm ára í senn ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.
     Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórar skulu fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og sýslumenn til skipunar í embætti. Sama gildir um staðgengla þeirra.
     Aðstoðarríkislögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar skulu fullnægja sömu skilyrðum og ríkislögreglustjóri til skipunar í embætti, en eftirtalin skilyrði gilda um menntun og starfsreynslu þeirra:
 1. hefur lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi, eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt, eða lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins svo og stjórnunarnámi eða öðru sambærilegu námi;
 2. hefur í þrjú ár gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi eða verið stjórnandi innan lögreglunnar, en leggja má saman starfstíma í þessum greinum.

     Ráðherra skipar yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn. Ríkislögreglustjóri skipar aðra lögreglumenn til fimm ára í senn. Hver sá sem skipaður er til lögreglustarfa skal hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig innan lögreglunnar.
     Ríkislögreglustjóri getur heimilað lögreglustjórum að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 38. gr. laganna og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins er tiltækur í stöðuna.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 49 16. maí 2000 og 5. gr. laga nr. 56 6. maí 2002:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      Lögreglumannsefni skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:
  1. vera íslenskir ríkisborgarar, 20–40 ára,
  2. hafa ekki gerst brotleg við refsilög; þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að það var framið,
  3. vera andlega og líkamlega heilbrigð og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum,
  4. hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri eða starfsþjálfun sem jafna má til slíks náms, hafa gott vald á íslensku og ensku, hafa almenn ökuréttindi til bifreiðaaksturs og vera synd,
  5. standast inntökupróf samkvæmt kröfum valnefndar með áherslu á íslensku og þrek.

 3. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
 4.      Valnefnd er heimilt að setja sér verklagsreglur þar sem fram koma þau viðmið sem stuðst er við þegar meta á skilyrði skv. b- og c-lið 2. mgr. og um val á nemum í lögregluskólann.


II. KAFLI
Breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989.

7. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Landið skiptist í 24 stjórnsýsluumdæmi auk Reykjavíkurumdæmis, sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp. Aðsetur sýslumanna eru sem hér segir: 1. Reykjavík, 2. Akranes, 3. Borgarnes, 4. Stykkishólmur, 5. Búðardalur, 6. Patreksfjörður, 7. Bolungarvík, 8. Ísafjörður, 9. Hólmavík, 10. Blönduós, 11. Sauðárkrókur, 12. Siglufjörður, 13. Akureyri, 14. Húsavík, 15. Seyðisfjörður, 16. Eskifjörður, 17. Höfn, 18. Vík, 19. Hvolsvöllur, 20. Vestmannaeyjar, 21. Selfoss, 22. Reykjanesbær, 23. Keflavíkurflugvöllur, 24. Hafnarfjörður, 25. Kópavogur. Umdæmi sýslumanna skv. 2.–25. tölul. skulu ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi sýslumanna og sveitarstjórna.
     Eigi má fækka stjórnsýsluumdæmum eða taka upp ný nema með lögum.

8. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Með þau verkefni sem sýslumönnum eru falin í öðrum umdæmum fara lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, tollstjórinn í Reykjavík og sýslumennirnir í Hafnarfirði, á Keflavíkurflugvelli, í Kópavogi, í Reykjanesbæ og í Reykjavík sem hér segir:
 1. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Suðurnesjum fara með lögreglustjórn, þar á meðal útlendingaeftirlit, ásamt störfum sem þeim eða lögreglustjórum eru almennt falin með fyrirmælum einstakra laga, hvor í sínu umdæmi.
 2. Tollstjórinn í Reykjavík fer með tollstjórn, innheimtu tekna ríkissjóðs, að því leyti sem hún er ekki sérstaklega falin öðrum, og lögskráningu skipshafna, auk starfa samkvæmt fyrirmælum einstakra laga.
 3. Með önnur störf en þau sem falla innan marka 1. og 2. tölul. fer sýslumaðurinn í Reykjavík í sínu umdæmi. Með önnur störf en þau sem falla innan marka 1. tölul. fara sýslumennirnir í Hafnarfirði, á Keflavíkurflugvelli, í Kópavogi og í Reykjanesbæ, hver í sínu umdæmi.

     Um lögreglustjórn í umdæmum sýslumannanna í Búðardal, á Patreksfirði, í Bolungarvík, á Hólmavík, Siglufirði, Höfn og í Vík fer samkvæmt lögreglulögum.
     Dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra setja sér sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem varða verksvið lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Skulu reglur þessar birtar.
     Dómsmálaráðherra sker að öðru leyti úr um hvaða verkefni heyri undir einstök embætti skv. 1. mgr.

III. KAFLI
Gildistaka o.fl.

9. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007, fyrir utan 6. gr. og ákvæði til bráðabirgða sem öðlast þegar gildi.

10. gr.

     Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi lagaákvæði:
 1. Í stað orðanna „vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórinn og varalögreglustjórinn í Reykjavík“ í 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70 11. júní 1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, kemur: aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar.
 2. Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 43 24. mars 2003, um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, kemur: lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Suðurnesjum.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Starfsmenn lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu skulu hafa forgang að störfum hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þeir skulu við þann flutning njóta áunninna réttinda sinna.
     Dómsmálaráðherra skal eigi síðar en 1. júlí 2006 skipa lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk hans er að undirbúa stofnun lögregluembættis á höfuðborgarsvæðinu. Skal hann í því starfi hafa samráð við sveitarfélög á svæðinu.
     Dómsmálaráðherra skal jafnframt skipa nefnd til ráðgjafar við stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu og flutning starfsmanna til þess. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en aðrir nefndarmenn skulu tilnefndir af Landssambandi lögreglumanna, Stéttarfélagi í almannaþjónustu, Stéttarfélagi lögfræðinga í ríkisþjónustu og þremur fulltrúum starfsmanna embættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu.
     Dómsmálaráðherra skipar enn fremur nefnd þriggja manna til að fylgjast með endurskipulagningu lögregluumdæma. Skal hún skila ráðherra eigi síðar en einu ári frá gildistöku laganna greinargerð um breytingarnar þar sem sérstök áhersla verður lögð á að meta með hvaða hætti markmið um aukna og eflda löggæslu hafa náð fram að ganga.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.