Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1358, 133. löggjafarþing 617. mál: breytingar á ýmsum lögum um neytendavernd (EES-reglur, neytendavernd).
Lög nr. 57 27. mars 2007.

Lög um breytingar á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.


I. KAFLI
Breytingar á lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005.

1. gr.

     Á eftir 20. gr. laganna kemur ný grein er verður 20. gr. a, svohljóðandi:
     Neytendastofa getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöðvum þeirra sem lög þessi taka til og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum Neytendastofu.
     Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

2. gr.

     Á eftir 21. gr. laganna kemur ný grein er verður 21. gr. a, svohljóðandi:
     Neytendastofu er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd laga í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt milliríkjasamningum.
     Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
 1. farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
 2. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í viðkomandi milliríkjasamningi og
 3. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki Neytendastofu og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.


II. KAFLI
Breytingar á lögum um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, nr. 23/1997, með síðari breytingum.

3. gr.

      Á eftir 9. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (10. gr.)
     Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.
     Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
     
     b. (11. gr.)
     Neytendastofa getur lagt bann við athöfnum sem brjóta í bága við ákvæði laga þessara.
     Neytendastofa getur lagt dagsektir á aðila sem brýtur gegn ákvörðun sem stofnunin tekur á grundvelli 1. mgr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag.

III. KAFLI
Breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum.

4. gr.

     Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein er verður 14. gr. a, svohljóðandi:
Upplýsingaskipti.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
 1. gætt sé þagnarskyldu í samræmi við ákvæði laga þessara,
 2. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upplýsingar,
 3. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki Fjármálaeftirlitsins og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.


5. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna orðast svo: Þagnarskylda. Upplýsingaskipti. Samskipti við eftirlitsstjórnvöld og Seðlabanka Íslands.

IV. KAFLI
Breytingar á útvarpslögum, nr. 53/2000, með síðari breytingum.

6. gr.

     Á eftir 1. málsl. 5. mgr. 6. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Útvarpsréttarnefnd getur krafið leyfishafa um skriflegar upplýsingar vegna ætlaðra brota hans á ákvæðum VI. kafla og skulu þær veittar innan hæfilegs frests sem nefndin setur. Nefndin getur í framhaldi af slíkri athugun lagt bann við útsendingu efnis sem telst andstætt ákvæðum VI. kafla. Útvarpsréttarnefnd getur við rannsókn ætlaðra brota gegn VI. kafla gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð leyfishafa eða stað þar sem gögn eru varðveitt, þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn 7.–14. gr. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

7. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein er verður 6. gr. a, svohljóðandi:
Upplýsingaskipti.
     Útvarpsréttarnefnd er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd ákvæða VI. kafla í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
 1. farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
 2. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upplýsingar,
 3. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki útvarpsréttarnefndar og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.


V. KAFLI
Breytingar á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

8. gr.

     Við 3. mgr. 126. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Jafnframt skal í reglugerð kveða á um heimildir Flugmálastjórnar Íslands til að tryggja eftirfylgni slíkra reglna, svo sem með hvers konar upplýsingaöflun, vettvangsskoðun, heimildum til að stöðva brot og krefjast þess að látið sé af brotum, auk birtingar slíkra ákvarðana eftir því sem við á. Þá skal setja í reglugerð ákvæði um heimild Flugmálastjórnar til að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu nauðsynlegar upplýsingar og gögn.

VI. KAFLI
Breytingar á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

9. gr.

     Við 18. gr. bætast þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Lyfjastofnun getur krafið einstaklinga og lögaðila um skriflegar upplýsingar vegna ætlaðra brota á ákvæðum 13.–17. gr. og skulu þær veittar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Lyfjastofnun getur við rannsókn ætlaðra brota gegn ákvæðum 13.–17. gr. gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð eða stað þar sem gögn eru varðveitt, enda séu ríkar ástæður til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðunum. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.
     Lyfjastofnun er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd ákvæða 13.–17. gr. í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
 1. farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
 2. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upplýsingar,
 3. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki Lyfjastofnunar og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.


VII. KAFLI
Gildistaka.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.