Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1407, 133. löggjafarþing 660. mál: skattlagning kaupskipaútgerðar (tonnaskattur og ríkisaðstoð).
Lög nr. 86 30. mars 2007.

Lög um skattlagningu kaupskipaútgerðar.


1. gr.

     Hlutafélög og einkahlutafélög, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og gera út kaupskip sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá (IIS), geta ákveðið að greiða af kaupskipaútgerð sinni skatt samkvæmt lögum þessum í stað tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003.
     Með kaupskipi samkvæmt lögum þessum er átt við hvert það skip sem flytur farm eða farþega gegn endurgjaldi í siglingum milli landa og farmflutningum innan lands og er 100 brúttótonn eða stærra.

2. gr.

     Tilkynna skal skattstjóra skriflega um ákvörðun skv. 1. gr. fyrir upphaf fyrsta tekjuárs sem skattlagningunni er ætlað að taka til. Skattlagningin skal standa í þrjú ár hið skemmsta. Kjósi útgerðarfélag að þremur árum liðnum að hverfa aftur til almennrar skattlagningar samkvæmt lögum um tekjuskatt skal tilkynna skattstjóra það skriflega fyrir upphaf tekjuárs. Útgerðarfélag getur ekki valið skattlagningu samkvæmt lögum þessum að nýju fyrr en að þremur árum liðnum.
     Sameinist tvö eða fleiri félög sem valið hafa skattlagningu samkvæmt lögum þessum skal þriggja ára lágmarkstími miðast við það félaganna sem skemmst hefur sætt slíkri skattlagningu. Hafi eitthvert hinna sameinuðu félaga ekki sætt skattlagningu samkvæmt lögum þessum skal hið sameinaða félag skattlagt samkvæmt þeim í þrjú ár hið skemmsta frá og með sameiningu. Þriggja ára lágmarkstími tekur einnig til skiptingar félaga.
     Útgerðarfélagi sem velur skattlagningu samkvæmt lögum þessum heimilast ekki samsköttun skv. 55. gr. laga um tekjuskatt.

3. gr.

     Kaupskipaútgerð samkvæmt lögum þessum telst flutningur í atvinnuskyni á farmi eða farþegum á milli áfangastaða með:
 1. kaupskipum sem útgerðarfélagið á,
 2. kaupskipum sem leigð eru án áhafnar (bareboat-charter) og
 3. kaupskipum sem leigð eru með áhöfn (time-charter).

     Til kaupskipaútgerðar telst jafnframt útleiga kaupskips sem leigutaki notar til flutninga á farmi eða farþegum. Til kaupskipaútgerðar telst ekki útleiga kaupskips án áhafnar (bareboat-charter) til lengri tíma en þriggja ára.
     Eftirtalið teljast rekstrarþættir í kaupskipaútgerð samkvæmt lögum þessum:
 1. notkun gáma við farmflutninga,
 2. rekstur út-, uppskipunar- og viðhaldsaðstöðu,
 3. rekstur á miðasölu og farþegasölum,
 4. rekstur skrifstofu og stjórnunaraðstöðu,
 5. sala á vörum til neyslu um borð í kaupskipi.

     Skattlagning samkvæmt lögum þessum tekur til útgerðar allra kaupskipa útgerðarfélags sem uppfylla skilyrði til skráningar á íslenska alþjóðlega skipaskrá.
     Geri útgerðarfélag út kaupskip í sameign með öðrum tekur skattlagningin til hlutdeildar útgerðarfélagsins í útgerð þess kaupskips.

4. gr.

     Önnur starfsemi en útgerð skipa sem uppfylla skilyrði 1. og 3. gr. fellur ekki undir sérstaka skattlagningu samkvæmt lögum þessum. Hafi útgerðarfélag jafnframt kaupskipaútgerð aðra starfsemi með höndum skulu tekjur af þeirri starfsemi skattleggjast samkvæmt lögum um tekjuskatt. Hafi kaupskipi verið lagt varanlega telst notkun þess ekki til kaupskipaútgerðar. Til kaupskipaútgerðar telst ekki notkun kaupskipa við t.d.:
 1. undirbúningsrannsóknir, leit og úrvinnslu á kolvetnissamböndum eða öðrum náttúruauðlindum,
 2. fiskveiðar og vinnslu afla,
 3. byggingu og viðgerð hafna eða annarra mannvirkja, lagningu leiðslna á hafsbotni, jarðefnanám og -vinnslu,
 4. köfun,
 5. lóðsun og björgun,
 6. fræðslu- og uppeldisstarf eða aðra félagslega starfsemi,
 7. safnastarfsemi,
 8. íþrótta-, skemmti- og tómstundastarf, þ.m.t. hvalaskoðun,
 9. farþegasiglingar milli hafna innan lands sem ekki eru áfangar á leið milli landa.


5. gr.

     Selji útgerð saman farmflutning með eigin kaupskipi og flutningsfari í eigu annars farmflytjanda skal heildarþjónustan skattleggjast hjá útgerðinni eftir lögum þessum. Annist útgerð sjálf flutning með öðru flutningsfari en kaupskipi skattleggst sá þáttur flutningsins ekki samkvæmt lögum þessum heldur samkvæmt lögum um tekjuskatt. Skipting söluverðs milli rekstrarþátta skal miðast við almennt gangverð.

6. gr.

     Stofn til skatts af kaupskipaútgerð ákvarðast á grundvelli stærðar þeirra skipa sem gerð eru út óháð afkomu. Skattstofn ákvarðast samkvæmt eftirfarandi grunnfjárhæðum fyrir hver 100 nettótonn (NT) hvers skips á hverjum byrjuðum sólarhring, hvort sem skipið er í rekstri eða ekki:
 1. Til og með 25.000 NT: 30 kr. á hver 100 NT.
 2. Frá 25.001 NT: 10 kr. á hver 100 NT.

     Frá skattstofni skv. 1. mgr. heimilast enginn frádráttur.
     Skattur skal nema 18% af skattstofni.

7. gr.

     Útgerðarfélög sem greiða skatt samkvæmt lögum þessum skulu halda tekjum og gjöldum af kaupskipaútgerð aðgreindum frá tekjum og gjöldum af annarri starfsemi í bókhaldi og ársreikningum.

8. gr.

     Vextir, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. tekjuskattslaga, skiptast milli kaupskipaútgerðar og annarrar starfsemi í réttu hlutfalli við bókfært verð eigna til nota í kaupskipaútgerð annars vegar og til annarra nota hins vegar.

9. gr.

     Útgerðarkostnaður kaupskipa, svo og annar kostnaður sem eingöngu eða fyrst og fremst varðar tekjuöflun í kaupskipaútgerð, verður ekki færður til frádráttar þeim tekjum útgerðarinnar sem skattleggjast skulu samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga.
     Varði kostnaður, annar en fjármagnskostnaður, í senn bæði öflun tekna í kaupskipaútgerð og öflun annarra tekna, að frátöldum fjármagnstekjum, skal skipta kostnaðinum í réttu hlutfalli við tekjurnar. Frádráttarbærni þess hluta kostnaðarins sem þannig telst varða öflun annarra tekna ræðst af ákvæðum laga um tekjuskatt.
     Varði vaxtagjöld, afföll og gengistöp skv. 49. gr. laga um tekjuskatt í senn öflun tekna í kaupskipaútgerð og öflun annarra tekna skal skipta þeim fjármagnskostnaði í réttu hlutfalli við bókfært verð eigna til nota í kaupskipaútgerð annars vegar og til annarra nota hins vegar. Frádráttarbærni þess hluta kostnaðarins sem þannig telst varða aðra tekjuöflun en í kaupskipaútgerð ræðst af ákvæðum laga um tekjuskatt.

10. gr.

     Nemi tekjur sem tilheyra kaupskipaútgerð skv. 8. gr. hærri fjárhæð en kostnaður sem heyrir kaupskipaútgerðinni til skv. 3. mgr. 9. gr. skal mismunurinn skattlagður samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt.

11. gr.

     Tap af kaupskipaútgerð verður ekki fært til frádráttar tekjum af annarri starfsemi útgerðarfélags, hvorki á því ári þegar tap myndast né á síðari árum.
     Hafi fyrir upphaf skattlagningar samkvæmt lögum þessum myndast rekstrartap í margþættri starfsemi, þ.e. kaupskipaútgerð og annarri starfsemi, skal því tapi skipt milli rekstrarþátta í réttu hlutfalli við bókfært verð eigna til nota í kaupskipaútgerð annars vegar og til annarra nota hins vegar.

12. gr.

     Reikna skal árlega fyrningu eftir ákvæðum tekjuskattslaga og færa til lækkunar stofnverði rekstrarfjármunanna, þó ekki á því ári þegar eign er seld eða nýtingu hennar lýkur. Fyrning skal árlega nema meðalfyrningu í viðkomandi eignaflokki skv. 37. gr. laga um tekjuskatt.

13. gr.

     Hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna í kaupskipaútgerð skal ákvarðaður og skattlagður með sama hætti og af fyrnanlegum eignum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt að teknu tilliti til lækkunar stofnverðs skv. 12. gr. Heimilt er að fresta tekjufærslu söluhagnaðar og færa hann til lækkunar stofnverði varanlegra rekstrarfjármuna í kaupskipaútgerð sem keyptir eru á næstu tveimur rekstrarárum. Komi ekki til slíkra kaupa innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist. Ákvæði þessarar greinar taka til hagnaðar af sölu varanlegra rekstrarfjármuna í kaupskipaútgerð sem frestað hefur verið á síðustu tveimur rekstrarárum fyrir upptöku skattlagningar samkvæmt lögum þessum.

14. gr.

     Við skiptingu tekna og kostnaðar skal miða verð og viðskiptakjör við það sem almennt gerist í viðskiptum óháðra aðila. Fari útgerð ekki eftir því getur skattstjóri leiðrétt tekjur og kostnað í samræmi við ákvæði 57. gr. laga um tekjuskatt.

15. gr.

     Um álagningu og innheimtu skatts samkvæmt lögum þessum skal fara eftir ákvæðum laga um tekjuskatt, sbr. IX.–XIV. kafla.

16. gr.

     Hlutafélög og einkahlutafélög, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og gera út kaupskip, sbr. 3. gr., sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá (IIS), skulu fá styrk sem svarar til 90% af réttilega ákvarðaðri fjárhæð tekjuskatts og útsvars í staðgreiðslu af launum áhafna á viðkomandi kaupskipum, að teknu tilliti til persónuafsláttar og sjómannaafsláttar. Staðgreiðslunni skal að öðru leyti ráðstafað þannig að 5% hennar skulu renna í ríkissjóð og 5% skulu renna til sveitarfélags viðkomandi manns í áhöfn. Ráðstöfun þessi skal koma í stað ráðstöfunar staðgreiðslu og skiptingar samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
     Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða á um framkvæmd greiðslna skv. 1. mgr., þar með talið um form styrkumsóknar, greiðslutíma og skuldajöfnun á móti vangreiddum opinberum gjöldum.

17. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Hafi útgerðarfélag nýtt sér heimild í 1. gr. laga nr. 48/2006 skulu tekjur, sem þannig var frestað skattlagningu á, skattleggjast eftir ákvæðum tekjuskattslaga þrátt fyrir að útgerðarfélagið hafi síðar valið skattlagningu samkvæmt lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.