Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 49, 134. löggjafarþing 9. mál: fjármálafyrirtæki o.fl. (EES-reglur).
Lög nr. 111 26. júní 2007.

Lög um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. 6. tölul. 1. mgr. orðast svo: Viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti:
  1. Móttaka og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga.
  2. Framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina.
  3. Eignastýring.
  4. Fjárfestingarráðgjöf.
  5. Sölutrygging í tengslum við útgáfu fjármálagerninga og/eða útboð fjármálagerninga.
  6. Umsjón með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar.
  7. Rekstur markaðstorgs fjármálagerninga (MTF).
 2. 3. mgr. orðast svo:
 3.      Aðilar þessir falla ekki undir gildissvið laganna:
  1. Seðlabankar ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðrar opinberar stofnanir sem annast eða hafa afskipti af lánamálum ríkja.
  2. Vátryggingafélög.
  3. Verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og lífeyrissjóðir sem og vörslufyrirtæki og rekstrarfélög slíkra sjóða.
  4. Lögmenn og löggiltir endurskoðendur, enda sé um tilfallandi þjónustu að ræða og hún veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni á starfssviði þeirra.
  5. Aðilar sem veita þjónustu fyrir móðurfélög sín, dótturfélög sín eða fyrir önnur dótturfélög móðurfélags síns.
  6. Aðilar sem veita aðeins þjónustu í tengslum við stjórnun á sjóðum starfsmanna um fjárfestingar.
  7. Aðilar sem hafa ekki leyfisskylda starfsemi samkvæmt lögum þessum að meginstarfsemi sinni, metið á samstæðugrunni, og eiga í viðskiptum með fjármálagerninga fyrir eigin reikning eða veita viðskiptavinum meginstarfsemi sinnar þjónustu með hrávöruafleiður eða afleiðusamninga skv. d-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
  8. Aðilar sem veita fjárfestingarráðgjöf sem hluta af þjónustu sem fellur ekki undir lög þessi að öðru leyti svo framarlega sem ekki er greitt sérstaklega fyrir ráðgjöfina.
  9. Aðilar sem hafa að meginstarfsemi að eiga í viðskiptum fyrir eigin reikning með hrávöru eða hrávöruafleiður, svo framarlega sem þeir eru ekki hluti af samstæðu sem hefur að meginstarfsemi að stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt lögum þessum.

 4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um undanþágur skv. 3. mgr.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. 6. tölul. 1. mgr. orðast svo: Verðbréfamiðlun skv. a- og/eða d-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Fjármálafyrirtæki sem ekki er heimilt að eiga viðskipti fyrir eigin reikning er þrátt fyrir það heimilt að fjárfesta í fjármálagerningum utan veltubókar, í því skyni að ávaxta eigið fé sitt. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði.


3. gr.

     Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ekki er heimilt að veita starfsleyfi sem tekur eingöngu til viðbótarþjónustu skv. 25. gr. Fjármálafyrirtæki, sem hyggst auka við starfsemi sína þannig að hún taki til annarrar starfsemi skv. IV. kafla sem fellur ekki undir starfsleyfi þess, skal sækja um leyfi til Fjármálaeftirlitsins til að stunda þá starfsemi.

4. gr.

     2. málsl. 8. gr. laganna orðast svo: Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu, fyrir fram ef við á, um allar breytingar á áður veittum upplýsingum, þar á meðal upplýsingum um stjórn eða framkvæmdastjóra, um fjölgun eða fækkun útibúa og ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
 1. 4. og 5. mgr. orðast svo:
 2.      Hlutafé verðbréfafyrirtækis sem hefur ekki starfsheimildir til að stunda viðskipti fyrir eigin reikning eða sinna sölutryggingu fjármálagerninga og hefur eina af eftirfarandi starfsheimildum, ásamt því að fara með vörslur fjármuna eða fjármálagerninga viðskiptavinar, skal að lágmarki nema 11 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur jafnvirði 125 þúsunda evra í íslenskum krónum:
  1. móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga,
  2. framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina eða
  3. eignastýringu.

       Hlutafé verðbréfamiðlunar skal að lágmarki nema 5 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur jafnvirði 50 þúsunda evra í íslenskum krónum.
 3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessari grein.


6. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Starfsemi verðbréfafyrirtækis getur tekið til eftirfarandi þátta í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga:
 1. Þjónustu:
  1. Móttöku og miðlunar fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga.
  2. Framkvæmdar fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina.
  3. Viðskipta með fjármálagerninga fyrir eigin reikning.
  4. Eignastýringar.
  5. Fjárfestingarráðgjafar.
  6. Sölutryggingar í tengslum við útgáfu fjármálagerninga og/eða útboð fjármálagerninga.
  7. Umsjónar með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar.
  8. Rekstrar markaðstorgs fjármálagerninga (MTF).
 2. Viðbótarþjónustu:
  1. Vörslu og stjórnunar í tengslum við einn eða fleiri fjármálagerninga fyrir reikning viðskiptavinar, þ.m.t. vörslu fjármálagerninga og tengdrar þjónustu, svo sem vegna fjármuna eða trygginga.
  2. Veitingar lánsheimilda, ábyrgða eða lána til fjárfestis þannig að hann geti átt viðskipti með einn eða fleiri fjármálagerninga ef verðbréfafyrirtæki sem veitir lánsheimildina eða lánið annast viðskiptin.
  3. Ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, stefnumótun og skyld mál og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
  4. Þjónustu í tengslum við sölutryggingu.
  5. Gjaldeyrisþjónustu ef umrædd viðskipti eru liður í fjárfestingarþjónustu.
  6. Fjárfestingarrannsókna og greininga eða annarra forma af almennum ráðleggingum í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga.
  7. Þjónustu í tengslum við undirliggjandi eignir afleiðusamninga skv. e- og h-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti þegar þær tengjast þeirri þjónustu sem er veitt skv. 1. og 2. tölul.

     Verðbréfafyrirtæki, sem fellur undir 4. mgr. 14. gr., með leyfi til að framkvæma fyrirmæli varðandi fjármálagerninga fyrir hönd viðskiptavina er heimilt að varðveita slíka fjármálagerninga fyrir eigin reikning séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
 1. Slíkar stöður í fjármálagerningum megi einungis rekja til þess að ekki hafi tekist að mæta fyrirmælum viðskiptavina nákvæmlega.
 2. Heildarmarkaðsverðmæti fjármálagerninga samkvæmt þessari málsgrein fari ekki yfir 15% af hlutafé verðbréfafyrirtækisins.
 3. Ákvæði IV. kafla C og X. kafla séu uppfyllt.
 4. Um sé að ræða ráðstafanir til bráðabirgða sem takmarkast við það tímamark sem nauðsynlegt er til að framkvæma fyrirmælin.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Starfsemi verðbréfamiðlunar tekur til milligöngu um kaup eða sölu fjármálagerninga og/eða fjárfestingarráðgjafar um verðbréfaviðskipti þar sem endurgjald kemur fyrir. Verðbréfamiðlun er ekki heimilt að eiga viðskipti fyrir eigin reikning og er einungis heimilt að taka við fjármunum eða verðbréfum viðskiptavina í starfsemi sinni um skamman tíma, enda sé slíkt nauðsynlegt til að ljúka viðskiptum sem fyrirtækið hefur annast milligöngu um.
 3. 2. mgr. fellur brott.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
 1. Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Fjármálaeftirlitinu er heimilt að krefja útibú erlendra fjármálafyrirtækja með heimild til verðbréfaviðskipta um allar nauðsynlegar upplýsingar til að meta hvort útibúið fylgi viðeigandi reglum um fjárfestavernd og gegnsæi viðskipta.
       Ef Fjármálaeftirlitið hefur rökstudda ástæðu til að ætla að erlent fjármálafyrirtæki með starfsemi hérlendis, hvort sem er með eða án útibús, brjóti gegn ákvæðum laga þessara eða annarra laga skal Fjármálaeftirlitið gera lögbæru yfirvaldi í heimaríkinu aðvart, enda sé um að ræða brot gegn ákvæðum sem Fjármálaeftirlitinu er ekki falið eftirlit með sem gistiríki. Reynist ráðstafanir lögbærs yfirvalds í heimaríkinu ófullnægjandi til að stöðva ólögmæta háttsemi fyrirtækisins getur Fjármálaeftirlitið, eftir að hafa upplýst lögbært yfirvald heimaríkisins, gert nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda fjárfesta og heilbrigða starfsemi fjármálamarkaða hérlendis. Í þessu felst m.a. heimild til að koma í veg fyrir að hið brotlega fyrirtæki stundi frekari viðskipti hérlendis. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir án tafar.
       Ef Fjármálaeftirlitið staðreynir að útibú erlends fjármálafyrirtækis sem hefur starfsemi hérlendis hefur gerst brotlegt gegn ákvæðum þessara laga eða annarra laga sem Fjármálaeftirlitinu er falið eftirlit með sem gistiríki skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að umræddri háttsemi sé hætt þegar í stað. Verði útibúið ekki við þeim kröfum skal Fjármálaeftirlitið grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir hina ólögmætu háttsemi. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbæru yfirvaldi heimaríkisins um þær ráðstafanir. Haldi útibúið engu síður áfram hinni ólögmætu háttsemi skal Fjármálaeftirlitið, eftir að hafa tilkynnt lögbæru yfirvaldi heimaríkis, grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir umrædda háttsemi eða beita viðeigandi viðurlögum og, eftir því sem kann að reynast nauðsynlegt, koma í veg fyrir að hið brotlega fyrirtæki stundi frekari viðskipti hérlendis. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir án tafar.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrræði vegna starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „almennum hegningarlögum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: samkeppnislögum.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á félagsstjórn og framkvæmdastjórn og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1. og 2. mgr. sé fullnægt.


10. gr.

     Í stað orðanna „skv. b- og d-lið 1. tölul. 25. gr., verðbréfamiðlanir sem ekki hafa heimildir til viðskipta fyrir eigin reikning“ í 2. mgr. 84. gr. laganna kemur: skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr., verðbréfamiðlanir.

11. gr.

     92. gr. laganna orðast svo:
     Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri eða atriði er varða innra eftirlit, greiðslutryggingar útlána, önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fyrirtækis eða atriði sem leiða til þess að hann mundi synja um áritun eða gera fyrirvara, svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um fyrirtækið hafi verið brotnar, skal endurskoðandi gera stjórn þess og Fjármálaeftirlitinu viðvart. Þetta á einnig við um sambærileg atriði sem endurskoðandi fær vitneskju um við framkvæmd endurskoðunarstarfa hjá fyrirtæki sem er í nánum tengslum við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. 18. gr.
     Tilkynning endurskoðanda skv. 1. mgr. felur ekki í sér brot gegn þagnarskyldu hvort sem hún er reist á lögum eða samningi. Skal tilkynnandi ekki sæta neins konar ábyrgð vegna tilkynningarinnar.

12. gr.

     Í stað orðanna „93/22/EBE um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta“ í 117. gr. laganna kemur: 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

13. gr.

     8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: kauphalla, skipulagðra verðbréfamarkaða og markaðstorga fjármálagerninga (MTF).

III. KAFLI
Innleiðing og gildistaka.

14. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2005 frá 29. apríl 2005.

15. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2007.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2007.