Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 451, 136. löggjafarþing 243. mál: ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 173 29. desember 2008.

Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum.


I. KAFLI
Breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands vera 855 kr. á mánuði árið 2009 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

II. KAFLI
Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 1. mgr. 30. gr., IX. kafla, X. kafla og XI. kafla laga þessara, reglugerða sem settar eru með stoð í lögunum og búvörusamninga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Bændasamtök Íslands og einstök landssamtök framleiðenda búvöru, þar sem m.a. er kveðið á um að framlög ríkissjóðs samkvæmt samningunum taki mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs, þá skulu heildarframlög ríkissjóðs samkvæmt ofangreindum heimildum vegna almanaksársins 2009 nema þeirri fjárhæð sem hér greinir:
  1. Framlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar dags. 25. janúar 2007 skulu nema 4.137,0 m.kr.
  2. Framlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu dags. 10. maí 2004 skulu nema 5.634,0 m.kr.
  3. Framlög samkvæmt aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða dags. 12. mars 2002 skulu nema 413,0 m.kr.


III. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

3. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „13,03%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 13,28%.

4. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði í 1. og 2. mgr. 24. gr. laganna skal sveitarstjórn ákveða fyrir 30. desember 2008 hvaða hundraðshluti verði lagðar á tekjur manna á árinu 2009, sbr. 1. mgr. 23. gr. laganna svo og 1. mgr. 9. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákvörðun sveitarstjórnar skal sömuleiðis tilkynna fjármálaráðuneytinu eigi síðar en 30. desember 2008.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, með síðari breytingum.

5. gr.

     Orðið „Þingeyjarumdæmi” í 2. mgr. 11. gr. laganna fellur brott og í stað orðsins „hvert“ í sömu málsgrein kemur: hvort.

V. KAFLI
Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „metnar að 50 hundraðshlutum“ í 1. málsl. a-liðar 1. mgr. kemur: teljast til tekna.
  2. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.


VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

7. gr.

     Í stað „480.000 kr.“ í 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 400.000 kr.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

8. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „22,75%“ í 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: 24,1%.

9. gr.

     Í stað „874“ í 1. málsl. 4. mgr. B-liðar 67. gr. laganna kemur: 987.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
  1. Í stað fjárhæðarinnar „57.891“ í 3. mgr. A-liðar kemur: 61.191.
  2. Í stað fjárhæðanna „144.116“, „171.545“, „240.034“ og „246.227“ í 4. mgr. A-liðar kemur: 152.331, 181.323, 253.716 og 260.262.
  3. Í stað fjárhæðanna „524.469“, „688.517“ og „852.562“ í 3. málsl. 3. mgr. B-liðar kemur: 554.364, 727.762 og 901.158.
  4. Í stað fjárhæðanna „179.713“, „231.125“, „297.194“ og „655“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 189.957, 244.299, 314.134 og 692.
  5. Orðin „svo og gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs“ í 14. mgr. B-liðar falla brott.


11. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 38/2008, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, orðast svo:
     Umsýsla stórfyrirtækja skv. 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal hefjast 1. janúar 2010. Ríkisskattstjóri skal fyrir árslok 2009 tilkynna formlega þeim fyrirtækjum sem falla undir tilgreind ákvæði að þau heyri undir Reykjavíkurumdæmi. Samkvæmt framansögðu heyra ákvarðanir er varða skatta og gjöld, sem tilgreind eru í II. kafla laga nr. 90/2003, undir sama umdæmi frá og með 1. janúar 2010. Jafnframt verður forræði í öllum málum aðila sem falla undir 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003 í Reykjavíkurumdæmi, óháð því hvort ákvörðun varðar endurskoðun, eftirlit eða kæruúrskurði tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003 og þeirra skatta og gjalda sem tilgreind eru í II. kafla. Þetta ákvæði tekur einnig til ólokinna mála að teknu tilliti til ákvæða 97. gr. laga nr. 90/2003 um endurupptöku skattlagningar.

12. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 8. mgr. A-liðar 68. gr., sbr. reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, verður barnabótum ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga á árinu 2009.

VIII. KAFLI
Brottfall laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., nr. 133/2005, með síðari breytingum.

13. gr.

     Lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., nr. 133/2005, með síðari breytingum, eru felld úr gildi.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „metnar að 50 hundraðshlutum“ í 1. málsl. a-liðar 2. mgr. kemur: teljast til tekna.
  2. 2. málsl. 3. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. falla brott.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða við lögin:
  1. 10. tölul. ákvæðisins fellur brott.
  2. Við bætist nýr töluliður sem orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 69. gr. laganna skulu bætur almannatrygginga, sem og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., hækka um 9,6% á árinu 2009.


X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.

16. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum skv. IV. kafla, þ.m.t. á fæðingarstofnunum, sbr. þó 23. gr., 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. eða ákvæði sérlaga.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna:
  1. Við töluliðinn bætast fjórir nýir málsliðir sem verða 1.–4. málsl. og orðast svo: Komu vegna innlagnar á sjúkrahús, sbr. 1. mgr. 18. gr. Gjaldið nær m.a. til kostnaðar við innritun og aðstöðu og er heimilt að innheimta einu sinni fyrir hverja legu á sjúkrahúsi. Ekki er þó heimilt að taka gjald vegna innlagnar á fæðingardeild. Gjald fyrir þjónustu skal vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum.
  2. Í stað orðsins „Almenna“ í 1. málsl., sem verður 5. málsl., kemur: Enn fremur almenna.


XI. KAFLI
Breyting á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.

18. gr.

     Við 28. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Skipulagssjóði er heimilt að standa fyrir gerð korta, svo sem gróður-, jarðfræði- og vistgerðarkorta. Sjóðurinn skal bera kostnað af slíkri kortagerð, sbr. 6. tölul. 34. gr.

19. gr.

     Við 6. tölul. 34. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nýti Skipulagssjóður heimild til gerðar korta, sbr. 2. mgr. 28. gr., ber sjóðurinn þó þann kostnað að fullu.

XII. KAFLI
Gildistaka.

20. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009 nema ákvæði 3. og 4. gr. sem taka gildi þegar í stað. Ákvæði 7. gr. á við um foreldra barna sem fæðast 1. janúar 2009 eða síðar. Ákvæði 8. og 9. gr. koma til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2009 og við álagningu tekjuskatts á árinu 2010. Ákvæði 10. gr. kemur til framkvæmda við álagningu á árinu 2009 vegna tekna og eigna á árinu 2008.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 2008.