Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 757, 136. löggjafarþing 365. mál: tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur (greiðsludreifing aðflutningsgjalda).
Lög nr. 17 19. mars 2009.

Lög um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.

1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, III, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 122. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabila á árinu 2009 vera sem hér segir:
  1. Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
  2. Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 15. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
  3. Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 122. gr., skal skila eigi síðar en á 5. degi þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.


II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laganna skal fyrirkomulag gjalddaga vörugjalds, hjá aðilum sem skráðir eru skv. 2. mgr. 4. gr., vegna uppgjörstímabila á árinu 2009 vera sem hér segir:
  1. Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
  2. Helmingi af vörugjöldum á viðkomandi uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal skila eigi síðar en á 28. degi þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.


III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna reglubundinna uppgjörstímabila á árinu 2009, sbr. 1. mgr. 24. gr., heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í tollalögum, nr. 88/2005.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 15. mars 2009.

Samþykkt á Alþingi 18. mars 2009.