Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1173, 138. löggjafarþing 115. mál: eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu (heildarlög).
Lög nr. 58 14. júní 2010.

Lög um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að auka alþjóðaöryggi og tryggja virðingu fyrir mannréttindum, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, með því meðal annars að hafa eftirlit með, banna og/eða leyfisbinda útflutning á hlutum sem má nota, með beinum eða óbeinum hætti, til hryðjuverka, bælingar eða í hernaðarlegum tilgangi, svo og hafa eftirlit með þjónustu og fjárfestingum þeim tengdum.
     Með lögum þessum eru settar reglur um örugga vörslu hluta og geymslu gagna um hluti skv. 1. mgr. og þjónustu og fjárfestingar þeim tengdar, svo og viðurlög og stjórnsýsluleg úrræði við brotum á lögum þessum.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til íslenskra ríkisborgara og útlendinga samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um refsilögsögu, en gera að auki íslenskum ríkisborgurum refsiábyrgð fyrir verknað sem þeir fremja erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt lögum þess ríkis þar sem brotið var framið.
     Lögin gilda gagnvart lögaðilum sem eru skráðir eða stofnaðir samkvæmt íslenskum lögum, hvar sem þeir starfa eða eru staðsettir. Nú er lögaðili skráður eða stofnaður erlendis og taka þá lögin til starfsemi hans að því leyti sem hún fer fram innan íslenskrar lögsögu.
     Nú leggja lög tiltekinn málaflokk til viðkomandi fagráðherra og skal það ekki vera því til fyrirstöðu að utanríkisráðuneytið veiti leyfi eða setji reglur samkvæmt lögum þessum, enda sé haft samráð um útgáfu leyfisins eða setningu reglnanna við viðkomandi ráðuneyti eða undirstofnun þess eftir atvikum. Lögreglustjóri veitir þó leyfi fyrir útflutningi á þeim vopnum sem falla undir gildissvið vopnalaga, að höfðu samráði við utanríkisráðuneyti.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
  1. Aðili er einstaklingur eða lögaðili, þ.m.t. ríkisstjórnir, fyrirtæki, samsteypur, stofnanir, sjóðir og samtök.
  2. Hergögn eru vopn og skotfæri sem hafa hernaðarlega þýðingu, hernaðarökutæki, herbúnaður, aðföng til hernaðar, hernaðarleg tækni, herbúnaður sem er ekki ætlaður ríkisher og varahlutir í framangreinda hluti.
  3. Hlutur tekur m.a. til vöru, búnaðar, hugbúnaðar og tækni. Hergögn eru meðtalin.
  4. Hlutur með tvíþætt notagildi er hlutur sem má nota bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi, þ.m.t. allir hlutir sem má bæði nota án þess að þeir springi og við hvers konar framleiðslu kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar.
  5. Miðlun er milliganga við samningsgerð um kaup, sölu eða útvegun hluta eða þjónustu þar sem milligöngumaðurinn gerir hvorki löggerninga varðandi viðskiptin í eigin nafni né í nafni samningsaðilanna. Miðlun á m.a. við um viðskipti sem eiga sér stað milli aðila í erlendum ríkjum.
  6. Útflutningur tekur til útflutnings og umflutnings, þ.m.t. endurútflutnings, í skilningi tollalaga, nr. 88/2005, með eða án endurgjalds. Hugtakið tekur einnig til þess að láta af hendi hugbúnað og tækni með rafrænum miðlum, með faxi eða gegnum síma til áfangastaða erlendis.
  7. Þjónusta tekur m.a. til sölu, miðlunar, útvegunar, flutnings, fjármögnunar, aðstoðar, ráðgjafar og þjálfunar, með eða án endurgjalds.

     Útflutnings-, innflutnings-, þjónustu- og fjárfestingaleyfi samkvæmt lögum þessum, hér nefnd heimildir, geta verið almenn leyfi, heildarleyfi eða stök leyfi:
  1. Almenn leyfi veita öllum aðilum heimildir gagnvart tilgreindum ríkjum, enda séu leyfisskilyrðin uppfyllt. Þau skulu birt í B-deild Stjórnartíðinda.
  2. Heildarleyfi veita einum aðila heimildir, eftir tegundum eða flokkum, gagnvart einum eða fleiri tilgreindum lokaviðtakendum og/eða einu eða fleiri tilgreindum ríkjum.
  3. Stök leyfi veita einum aðila heimildir gagnvart aðila í öðru ríki varðandi einn eða fleiri hluti, tegundir þjónustu eða fjárfestinga.


4. gr.

Leyfisskyldur inn- og útflutningur.
     Enginn má flytja út hergögn eða hluti með tvíþætt notagildi nema með leyfi ráðherra, sbr. þó 2. málsl. 3. mgr. 2. gr. Listar yfir slík hergögn og hluti skulu birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Listarnir skulu uppfærðir til samræmis við skyldur og skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir sem aðili að alþjóðasamstarfi um bann við útbreiðslu hergagna og hluta með tvíþætt notagildi og um fyrirkomulag útflutningseftirlits eða sem aðili að alþjóðasamningum, eftir því sem við á.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um að útflutningsleyfi þurfi fyrir búnaði sem nota mætti til bælingar innan lands í öðrum ríkjum.
     Auk þess sem tilgreint er í 1. og 2. mgr. er óheimilt að flytja út hluti sem útflytjanda er kunnugt um, hann má ætla eða ráðuneytið tilkynnir honum að séu eða kunni að vera ætlaðir, í heild eða að hluta, til notkunar í hernaðarlegum tilgangi, til hryðjuverka eða til bælingar innan lands og að útflutningurinn brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eða ógni varnar- eða öryggishagsmunum þess eða bandalagsríkja. Hið sama á við um hluti sem ráðuneytið tilkynnir útflytjanda að séu eða kunni að vera ætlaðir til nota, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða við þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um að leyfi þurfi fyrir innflutningi eða viðkomu hluta hérlendis sem geta nýst, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn. Einungis má þó veita slíkt leyfi ef fyrir liggur að innflutningurinn eða viðkoman brjóti ekki í bága við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

5. gr.

Leyfisskyld þjónusta og leyfisskyldar fjárfestingar.
     Enginn má stunda þjónustuviðskipti í tengslum við útflutning hluta skv. 4. gr. nema með leyfi ráðherra, enda hafi verið settar um þau nánari reglur.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um að leyfi þurfi til miðlunar með hluti skv. 4. gr. óháð því hvort um útflutning er að ræða eða ekki.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um að leyfi þurfi til fjárfestinga erlendis í starfsemi sem tengist þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstri, viðhaldi, geymslu, greiningu, auðkenningu, útbreiðslu, öflun, söfnun, notkun, útvegun, eignarhaldi, flutningi, miðlun eða viðskiptum með hluti skv. 4. gr. ef viðkomandi ríki er ekki aðili að alþjóðasamstarfi um útflutningseftirlit sem ráðherra metur fullnægjandi.

6. gr.

Leyfisskilyrði.
     Ráðherra getur sett skilyrði í tengslum við útgáfu innflutnings-, útflutnings-, þjónustu- og fjárfestingaleyfa samkvæmt lögum þessum, þar á meðal varðandi upplýsingagjöf um sölukjör, greiðslukjör, lánskjör, flutningaleiðir, meðferð skjala og framlagningu vottorða um lokanotanda og/eða lokanot hluta og þjónustu.
     Ráðherra getur breytt leyfisskilyrðum eftir að leyfi hefur verið gefið út eða afturkallað leyfi hvenær sem er, til bráðabirgða eða fyrir fullt og allt, ef:
  1. forsendur fyrir útgáfu leyfis eru brostnar,
  2. leyfishafi hefur ekki farið eftir settum leyfisskilyrðum eða
  3. brýna nauðsyn ber til
og skal þá leyfishafi skila leyfinu tafarlaust til ráðuneytisins.
     Nú hefur almennt innflutnings-, útflutnings-, þjónustu- eða fjárfestingaleyfi verið gefið út en leyfishafa verður kunnugt um eða hann má ætla, vegna síðari atburða eða af öðrum ástæðum, að útflutningurinn, innflutningurinn, þjónustan eða fjárfestingin brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og er honum þá óheimilt að nota leyfið.
     Aðili máls getur ávallt óskað eftir því að ákvörðun ráðherra um leyfisskilyrði, breytingu leyfisskilyrða, afturköllun eða synjun leyfis verði endurupptekin í samræmi við ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

7. gr.

Varsla hluta og gagna.
     Útflytjendur, innflytjendur og vörsluaðilar hluta skv. 4. gr. skulu tryggja örugga vörslu þeirra. Ráðherra getur sett nánari reglur þar að lútandi.
     Útflytjendur, innflytjendur og vörsluaðilar hluta skv. 4. gr. og þjónustuaðilar og fjárfestar skv. 5. gr. skulu geyma ítarlegar upplýsingar og gögn um útflutning, innflutning, eignarhald, birgðahald, sölu, miðlun, útvegun og flutning þeirra, eftir því sem við á, í að minnsta kosti tíu ár. Gögnin skulu m.a. ná til:
  1. lýsingar á hlutum, þjónustu og/eða fjárfestingum,
  2. magns,
  3. nafns og heimilisfangs viðtakanda, ef við á,
  4. lokanotanda og/eða lokanota hluta og þjónustu, ef um þau er vitað.
Ráðherra getur sett nánari reglur þar að lútandi.

8. gr.

Upplýsingaskylda.
     Útflytjendur hluta skv. 4. gr. og þjónustuaðilar og fjárfestar skv. 5. gr. skulu veita ráðuneytinu allar þær upplýsingar og alla þá aðstoð sem nauðsynleg er til þess að framfylgja lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Skal ráðuneytið miðla upplýsingum til ríkislögreglustjóra samkvæmt þessari grein, eftir því sem við á.
     Ráðuneytið, og þeir opinberu aðilar sem það tilnefnir, getur m.a. krafist:
  1. aðgangs að öllum gögnum og bókhaldi sem snertir framkvæmd laga þessara,
  2. aðgangs að öllu viðkomandi skrifstofuhúsnæði og allri tilheyrandi rekstraraðstöðu,
  3. afrita og þýðinga á efni skv. a-lið,
  4. aðstoðar við vinnslu og túlkun á efni skv. a-lið.

     Ef ekki er orðið við kröfu ráðuneytisins samkvæmt þessari grein getur það ákveðið að sá eða þeir sem krafan beinist að greiði dagsektir þar til orðið er við henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega og á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið allt að 100.000 kr. á dag. Ákvarðanir ráðuneytisins um dagsektir eru aðfararhæfar skv. 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.

9. gr.

Tilkynningarskylda.
     Útflytjendur, innflytjendur og vörsluaðilar hluta skv. 4. gr. skulu tilkynna ráðuneytinu um útflutning, innflutning og birgðahald samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     Nú er útflytjanda, innflytjanda, þjónustuaðila eða fjárfesti kunnugt um eða hann má ætla að hlutur sem hann vill flytja út eða inn, stunda þjónustuviðskipti með eða fjárfesta í tengslum við, sbr. 5. gr., sé eða kunni að vera ætlaður til nota, í heild eða að hluta, í hernaðarlegum tilgangi, til hryðjuverka eða til bælingar innan lands og skal hann þá tilkynna ráðuneytinu þar um, sem tekur afstöðu til þess hvort leyfi skuli veitt, eftir því sem við á. Hið sama á við um hluti sem honum er kunnugt um eða hann má ætla að kunni að vera ætlaðir til nota, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða við þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn.
     Ráðherra getur sett reglur um að tilkynna skuli flugskeytaskot innan íslenskrar lofthelgi.

10. gr.

Þagnarskylda.
     Starfsmenn ráðuneytisins og þeir aðilar sem það tilnefnir skv. 8. gr. skulu gæta þagmælsku um allt það sem þeir fá vitneskju um samkvæmt þessum lögum og leynt á að fara. Þagnarskyldan helst eftir að látið er af starfi. Þagnarskyldan gildir ekki að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er:
  1. til þess að ná markmiðum laganna, m.a. í tengslum við lögreglurannsókn og saksókn máls,
  2. milli þeirra aðila sem annast framkvæmd laganna, þar á meðal skjalavörslu,
  3. vegna samráðs eða samvinnu við aðra eftirlits- og samstarfsaðila hérlendis sem erlendis.


11. gr.

Réttindi og skyldur sem fara í bága við lög þessi.
     Óheimilt er að efna samninga eða fullnægja öðrum réttindum og skyldum sem fara í bága við lög þessi og reglugerðir settar með stoð í þeim. Þetta á við hvort sem þessi réttindi og skyldur stofnuðust fyrir eða eftir gildistöku laganna eða viðkomandi reglugerðar nema annað sé tekið fram í henni.
     Vanefnd á réttindum og skyldum skv. 1. mgr. skal ekki leiða af sér skaðabótaskyldu.

12. gr.

Undanþáguheimild.
     Ráðherra getur veitt undanþágu frá banni sem er sett samkvæmt þessum lögum þegar gildar ástæður eru fyrir hendi. Heimilt er að setja skilyrði fyrir undanþágu til þess að tryggja að með henni sé ekki grafið undan eða komist fram hjá markmiði bannsins.
     Þegar tekin er ákvörðun um undanþágu samkvæmt þessari grein skal m.a. taka tillit til skyldna og skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir sem aðili að alþjóðasamstarfi um bann við útbreiðslu hergagna og hluta með tvíþætt notagildi og um fyrirkomulag útflutningseftirlits eða sem aðili að alþjóðasamningum, eftir því sem við á.

13. gr.

Viðurlög.
     Sá sem brýtur gegn boði eða banni, sem mælt er fyrir um í eftirgreindum ákvæðum eða í reglugerð sem er sett til nánari útfærslu á þeim, skal sæta sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum:
  1. 7. gr. um vörslu hluta og gagna,
  2. 9. gr. um tilkynningarskyldu.

     Sá sem brýtur gegn boði eða banni, sem mælt er fyrir um í eftirgreindum ákvæðum eða í reglugerð sem er sett til nánari útfærslu á þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sé brotið stórfellt varðar það sektum eða fangelsi allt að sex árum:
  1. 4. gr. um bann við inn- eða útflutningi án leyfis,
  2. 5. gr. um bann við þjónustuviðskiptum, miðlun eða fjárfestingum án leyfis,
  3. 1. mgr. 6. gr. um leyfisskilyrði.

     Hafi brot, sem vísað er til í 2. mgr., verið framið af stórfelldu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári.
     Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila og í þágu hans má gera honum sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot má samhliða ákvörðun um refsingu þeirra gera lögaðilanum sekt ef brotið var í þágu hans.
     Gera má upptæka hluti, samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, sem hafa verið notaðir við brot, hafa orðið til við brot eða með öðrum hætti tengjast framningu brots. Þá má gera upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta.
     Tilraun og hlutdeild í brotum á reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum er refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum.

14. gr.

Nánari reglur o.fl.
     Utanríkisráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er heimilt:
  1. að setja nánari reglur þar að lútandi,
  2. að láta birta erlendan frumtexta lista yfir hluti skv. 4. gr. í B-deild Stjórnartíðinda,
  3. að fella niður gjald fyrir útgáfu útflutningsleyfis, sbr. 50. tölul. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, þegar hlutir, sem undir lög þessi heyra, eru fluttir tímabundið til eða frá landinu til prófana, sýningar eða í öðrum tilgangi.


15. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um útflutningsleyfi o. fl., nr. 4/1988.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2010.