Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 808, 141. löggjafarþing 198. mál: opinber stuðningur við vísindarannsóknir (sameining og skipulag sjóða, markáætlun o.fl.).
Lög nr. 149 29. desember 2012.

Lög um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „vísindarannsóknir“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og rannsóknartengt framhaldsnám.
 2. Á eftir orðinu „sjóðurinn“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og.
 3. Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Innviðasjóður veitir styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framfarir í rannsóknum.
 4. Í stað orðsins „Tækjasjóði“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Innviðasjóði.
 5. 3. mgr. fellur brott.
 6. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Rannsóknasjóður og Innviðasjóður.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Tækjasjóðs“ í 2. mgr. kemur: Innviðasjóðs.
 2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tekjur Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Ráðherra skipar fimm manna stjórn til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Tilnefndir skulu fimm einstaklingar sem hafa reynslu og staðgóða þekkingu á vísindarannsóknum, þar af skal einn tilnefndur úr vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
 3. Í stað orðsins „Tækjasjóðs“ í 2. mgr. kemur: Innviðasjóðs.
 4. 3. mgr. orðast svo:
 5.      Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði og Innviðasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðanna geta veitt ef þurfa þykir.
 6. Orðið „Rannsóknasjóðs“ í 4. mgr. og í upphafi 7. mgr. fellur brott.
 7. Orðin „Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs“ í 5. og 6. mgr. falla brott.
 8. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Stjórn Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.


4. gr.

     5. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:
Fagráð Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs.
     Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr Rannsóknasjóði og Innviðasjóði. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega. Fagráð eru jafnframt ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.
     Fagráð Rannsóknasjóðs skal vera skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá vísindalegu gildi, færni og aðstöðu umsækjenda til að framkvæma verkið og líkum á að verkefnið skili mælanlegum árangri og ávinningi.
     Fagráð Innviðasjóðs skal vera skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá mikilvægi tækja og búnaðar til framfara í rannsóknum í samræmi við áherslur í stefnu Vísinda- og tækniráðs.

5. gr.

     Í stað 6.–9. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 6.–11. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
     
     a. (6. gr.)
Úthlutunarreglur.
     Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn sjóðanna gefur út reglur um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests viðkomandi sjóðs og skulu þær kynntar ráðherra. Í reglunum skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.
     
     b. (7. gr.)
Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
     Í fjárlögum eru veittir styrkir til grunnrannsókna og hagnýtra verkefna undir formerkjum Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar nær yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skulu unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Markmið verkefna skulu falla að almennum áherslum og markmiðum Vísinda- og tækniráðs.
     
     c. (8. gr.)
Tekjur Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
     Tekjur Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar eru:
 1. Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
 2. Önnur framlög.

     
     d. (9. gr.)
Stjórn Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
     Ráðherra skipar stjórn Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar til þriggja ára í senn. Stjórnin skal skipuð þremur einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs og þremur einstaklingum úr stjórn Tækniþróunarsjóðs, sem skipuð er skv. 12. gr. laga nr. 75/2007, og jafnmörgum til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
     Vísinda- og tækniráð markar áherslur nýrrar Markáætlunar. Stjórn Markáætlunar setur reglur varðandi umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs.
     Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Markáætlunar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
     Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur Markáætlunar skal greiddur af ráðstöfunarfé.
     Ákvarðanir stjórnar um veitingu styrkja úr Markáætlun eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
     
     e. (10. gr.)
Niðurstöður rannsókna.
     Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið. Styrkþegar skulu í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður rannsókna geta um þátt sjóðanna í viðkomandi verki.
     
     f. (11. gr.)
Önnur verkefni.
     Ráðherra getur falið stjórn úthlutunarsjóða, sbr. 4. gr., úthlutun annarra sjóða samkvæmt frekari ákvörðun þar um.

6. gr.

     Í stað orðanna „Tækjasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs“ í 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: Innviðasjóðs og Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.

7. gr.

     Í stað ákvæðis til bráðabirgða í lögunum koma þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Við gildistöku laga þessara skulu eignir og skuldbindingar Rannsóknarnámssjóðs falla til Rannsóknasjóðs og eignir og skuldbindingar Tækjasjóðs falla til Innviðasjóðs eins og þær standa í lok árs 2012.
     
     b. (II.)
     Þeir sem þegið hafa styrk úr Rannsóknasjóði, Rannsóknarnámssjóði, Tækjasjóði og Markáætlun á sviði vísinda og tækni fyrir gildistöku laga þessara halda óbreyttum réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.
     
     c. (III.)
     Núverandi stjórnir Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs skulu halda umboði sínu og starfa þar til ný stjórn úthlutunarsjóða hefur verið skipuð skv. 4. gr.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 2012.