Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 963, 141. löggjafarþing 132. mál: skráð trúfélög (lífsskoðunarfélög, aðild barna o.fl.).
Lög nr. 6 12. febrúar 2013.

Lög um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999, með síðari breytingum (lífsskoðunarfélög, aðild barna að skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum o.fl.).


1. gr.

     3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
     Óheimilt er að taka upp heiti á trúfélag eða lífsskoðunarfélag sem er svo líkt heiti annars trúfélags eða lífsskoðunarfélags að misskilningi geti valdið.

2. gr.

     Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Almenn ákvæði um trúfélög og lífsskoðunarfélög.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 1. og 2. málsl. orðast svo: Heimilt er að skrá trúfélög utan þjóðkirkjunnar og lífsskoðunarfélög. Með skráningu fá trúfélög og lífsskoðunarfélög réttindi og skyldur sem lög ákveða.
  2. Við 3. málsl. bætist: og lífsskoðunarfélaga.
  3. Á eftir orðinu „trúfélag“ í 4. málsl. kemur: eða lífsskoðunarfélag.
  4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skráning trúfélags og lífsskoðunarfélags.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú.
  3. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt og fjallar um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti.
  5. 2. mgr. orðast svo:
  6.      Enn fremur er það skilyrði skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taka þátt í starfsemi þess og styðja lífsgildi félagsins í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Þá er það skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir.
  7. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  8.      Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögum þessum.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „Trúfélag“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélag.
  2. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: heiti félags og heimilisfang.
  3. 3. tölul. 1. mgr. orðast svo: stefnuskrá og/eða trúarkenningar félagsins og tengsl þeirra við önnur trúarbrögð, trúarhreyfingar eða aðrar lífsskoðanir eða lífsskoðunarfélög.
  4. Á eftir orðinu „trúfélags“ í 2. mgr. og „trúfélag“ í 3. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: eða lífsskoðunarfélag.
  5. 4. mgr. orðast svo:
  6.      Áður en leyfi er veitt til skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags skal leita álits nefndar sem ráðherra skipar. Einn nefndarmaður er skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar hér á landi á háskólastigi, og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar tilnefndur af félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, sá þriðji tilnefndur af guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og sá fjórði tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Falli atkvæði nefndarmanna jafnt skal atkvæði formanns nefndarinnar hafa tvöfalt vægi.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „trúfélag skal“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: trúfélög og lífsskoðunarfélög skulu.
  2. Í stað orðsins „félagsins“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: félags.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Eftirlit með skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum.


7. gr.

     Á eftir orðunum „trúfélag“ í 1. málsl. 1. mgr., „trúfélags“ í 3. málsl. 1. mgr. og orðunum „Þegar skráð trúfélag“ og „sem skráð trúfélag“ í 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: eða lífsskoðunarfélag.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „trúfélags“ í 1. málsl. 1. mgr., 2. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélags.
  2. Við 2. málsl. 4. mgr. bætist: eða lífsskoðunarfélagsins.
  3. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga er heimilt að tilnefna einstaklinga innan þess félags sem þeir veita forstöðu til að annast þau embættisverk sem forstöðumanni skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eru falin samkvæmt lögum. Um hæfi umræddra einstaklinga gilda sömu hæfisskilyrði og reglur og um forstöðumenn skv. 1.–3. mgr. Ráðuneytið getur, samkvæmt umsókn forstöðumanns, veitt tilnefndum einstaklingum löggildingu til þess að gegna verkum forstöðumanns, en ekki lengur en til þriggja ára í senn. Tilnefndir einstaklingar skulu starfa á ábyrgð og í umboði forstöðumanns viðkomandi skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
         Ráðuneytið skal upplýsa Þjóðskrá Íslands um þá einstaklinga innan skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem hafa heimild til þess að annast embættisverk forstöðumanns viðkomandi félags.
  5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „trúfélag“ og „trúfélagi“ í 1. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: eða lífsskoðunarfélag.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Barn getur frá fæðingu heyrt til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða verið utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með eftirfarandi hætti:
    1. Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana.
    2. Ef foreldrar barns sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra til. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.
    3. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið.

  4. Á eftir orðinu „trúfélagi“ í 1. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélagi.
  5. 5. mgr. orðast svo:
  6.      Enginn má samtímis heyra til þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi eða fleiri en einu skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða skráðu lífsskoðunarfélagi.
  7. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Aðild að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „trúfélagi“ í 1. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélagi.
  2. Á eftir orðinu „trúfélagi“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: lífsskoðunarfélagi.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Innganga og úrsögn úr trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og úrsögn úr þjóðkirkjunni.


11. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

12. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

13. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

14. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.
    1. 1. gr. laganna orðast svo:
    2.      Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem lög þessi ákveða.
    3. Við 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: og lífsskoðunarfélaga.
    4. 3. gr. laganna orðast svo:
    5.      Gjald skv. 2. gr. skiptist þannig:
      1. Vegna einstaklings, sem skráður er í þjóðkirkjuna, greiðist til þess safnaðar sem hann tilheyrir og miðast við 1. desember næst á undan gjaldári.
      2. Vegna einstaklings, sem tilheyrir skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi, samkvæmt lögum nr. 108/1999, greiðist gjaldið til hlutaðeigandi trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
      3. Vegna einstaklinga, sem eru í þjóðkirkjunni og eru óstaðsettir á landinu samkvæmt þjóðskrá, greiðist gjaldið til Jöfnunarsjóðs sókna, sbr. 5. gr.

           Skráning í trúfélag eða lífsskoðunarfélag miðast við 1. desember næst á undan gjaldári.
    6. Fyrirsögn I. kafla laganna orðast svo: Um hlutdeild þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í tekjuskatti.
  2. Hjúskaparlög, nr. 31/1993, með síðari breytingum.
    1. Á eftir orðunum „forstöðumanni skráðs trúfélags“ í 16. gr. laganna kemur: eða lífsskoðunarfélags eða fyrir einstaklingi sem starfar í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
    2. 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
    3.      Kirkjulega hjónavígslu annast prestar þjóðkirkjunnar og prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga hér á landi. Hjónavígslu, sem er ekki kirkjuleg eða borgaraleg, annast forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hér á landi. Prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skulu hafa fengið löggildingu ráðuneytisins.
           Þá er þeim einstaklingum sem starfa í umboði forstöðumanna skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins og uppfylla skilyrði 7. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög einnig heimilt að annast hjónavígslu.
    4. Fyrirsögn á undan 17. gr. laganna orðast svo: 2. Prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.
    5. Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
      1. Við 1. málsl. 4. mgr. bætist: og lífsskoðunarfélaga eða einstaklingar sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
      2. Á eftir orðunum „utan trúfélaga“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: og ekki í skráðu lífsskoðunarfélagi.
      3. Á eftir orðunum „sínu trúfélagi“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélagi.
      4. Á eftir orðinu „trúfélags“ í 6. mgr. kemur: eða lífsskoðunarfélags eða einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
  3. Lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum. 2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
  4.      Barn öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Þjóðskrár Íslands, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eða til einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
  5. Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum.
    1. Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
      1. Á eftir orðunum „forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga eða einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins.
      2. Á eftir orðunum „forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga, einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
    2. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    3.      Nú kemur það í ljós að prestur þjóðkirkjunnar, forstöðumaður eða prestur skráðs trúfélags eða forstöðumaður skráðs lífsskoðunarfélags eða einstaklingur sem starfar í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og hefur löggildingu ráðuneytisins hefur vanrækt að gera lögboðna skýrslu til Þjóðskrár Íslands um nafngjöf við skírn eða nafngjöf án skírnar, hjónavígslu eða mannslát eða skýrsla um slíkt er fyrst látin í té að liðnum skilafresti, og varðar það þá sekt.
  6. Lög um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, með síðari breytingum. Við 1. mgr. 41. gr. laganna bætist: eða lífsskoðunarfélags.
  7. Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Á eftir orðunum „annarra trúfélaga“ í a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: og samkomuhús skráðra lífsskoðunarfélaga.
  8. Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum. Á eftir orðunum „viðurkenndum trúfélögum“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: og skráðum lífsskoðunarfélögum.


Samþykkt á Alþingi 30. janúar 2013.