Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1271, 143. löggjafarþing 319. mál: fiskeldi (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 49 26. maí 2014.

Lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (flutningur verkefna, stofnun sjóðs o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó.

2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast tvær nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
 1. Burðarþolsmat: Mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
 2. Sjókvíaeldissvæði: Fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi þar sem gert er ráð fyrir einum árgangi eldisfisks hverju sinni og möguleiki er að fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfræki sjókvíaeldisstöðvar á sama svæði með skilyrtri samræmingu í útsetningu seiða og hvíld svæðisins. Afmörkun sjókvíaeldissvæða tekur á hverjum tíma mið af niðurstöðum rannsókna á dreifingu sjúkdómsvalda.


3. gr.

     Í stað orðsins „Fiskistofu“ í 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 12. gr., 1. og 4. málsl. 2. mgr. og 1. og 2. málsl. 3. mgr. 14. gr., 17. gr. og 2. mgr. 21. gr. laganna; og í stað orðsins „Fiskistofa“ í 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 14. gr., 2. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 16. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælastofnun.

4. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Móttaka og afgreiðsla umsókna.
     Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar.
     Afhenda skal Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 1. mgr. og skulu þær afgreiddar samhliða.
     Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skal afgreiða innan sex mánaða frá því að þær berast. Matvælastofnun skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi innan mánaðar frá því að umsóknin berst stofnuninni. Verði tafir á málsmeðferð vegna ófullnægjandi gagna umsækjanda framlengist frestur til afgreiðslu sem því nemur. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Ef umsóknir eru samþykktar skulu starfsleyfi og rekstrarleyfi afhent umsækjanda samtímis.

5. gr.

     2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt getur Matvælastofnun aflað umsagnar Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við á um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Þá skal Matvælastofnun meta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um heilbrigðiskröfur vegna lagareldisdýra og afurða þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum.

6. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, að gæðakerfi stöðvarinnar og eldisbúnaður standist kröfur, sem nánar er kveðið á um í reglugerð um fiskeldi, um stærð og framleiðslugetu stöðvar, eldistegundir, eldisstofna og eldisaðferðir. Umsókn um rekstrarleyfi sjókvíaeldisstöðvar skulu fylgja upplýsingar um að eldisbúnaður umsækjanda standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó en nánar er kveðið á um þær kröfur sem þarf að uppfylla samkvæmt þessum stöðlum í reglugerð um fiskeldi. Þá skal fylgja umsókn burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði sem framkvæmt hefur verið af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, nema fyrir liggi heimild Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 17. gr. þeirra laga til að vinna samtímis að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.
     Umsókn skv. 1. mgr. skulu fylgja skilríki um heimild til afnota af landi, vatni og sjó. Umsókn skal einnig fylgja áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar, ásamt staðfestingu um a.m.k. 30% eigin fjármögnun eldisins, rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferil eldis, öflun hrogna og seiða og leyfi til mannvirkjagerðar, svo og önnur gögn sem Matvælastofnun eru nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.

7. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á sama sjókvíaeldissvæði skulu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun, enda fullnægi umsókn skilyrðum laga þessara.
     Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skal Matvælastofnun leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í rekstrarleyfi fyrir laxeldi skal kveðið á um skyldu til notkunar erfðavísa þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um utanáliggjandi merkingu á eldislaxi til að auðveldara sé að aðgreina hann frá villtum laxi.
 2. 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
 3. Við bætast fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 4.      Matvælastofnun skal hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem felur í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þolir samkvæmt burðarþolsmati. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.
       Gefi Matvælastofnun út rekstrarleyfi til sjókvíaeldis sem gerir ráð fyrir minni nýtingu en 40% af burðarþoli viðkomandi sjókvíaeldissvæðis skulu þau einungis veitt til tiltekins tíma, allt að fjórum árum. Heimilt er að endurnýja slíkt leyfi í fjögur ár í senn en liggi fyrir, við lok leyfistíma, fleiri en ein umsókn um rekstrarleyfi á umræddu svæði og þær uppfylla skilyrði laga þessara skal Matvælastofnun gefa út rekstrarleyfi til þess umsækjanda sem nær hagkvæmastri nýtingu á svæðinu með tilliti til burðarþols. Þó er heimilt að endurnýja fyrra leyfi sem ekki er með hagkvæmasta nýtingu ef munur á nýtingu er óverulegur.
       Matvælastofnun skal hafna umsókn um rekstrarleyfi ef umsækjandi uppfyllir ekki kröfur skv. 2. málsl. 2. mgr. 7. gr.
       Matvælastofnun skal hafna umsókn ef umsækjandi leggur ekki fram þau gögn sem kveðið er á um í 8. gr., enda hafi umsækjanda verið gefinn hæfilegur frestur til að leggja fram þau gögn sem vantar.
       Matvælastofnun skal hafna umsókn ef mat skv. 2. mgr. 9. gr. bendir til þess að fyrirhugað eldi feli í sér umtalsverða hættu á útbreiðslu sjúkdóma eða umtalsverð óæskileg áhrif á vistkerfi.


9. gr.

     Við fyrri málslið 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: og m.a. staðfest að því er varðar sjókvíaeldi laxfiska að framkvæmd og eldisbúnaður standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „hins vegar“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: einnig.
 2. 4. mgr. orðast svo:
 3.      Fyrir eftirlit Matvælastofnunar eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum skulu fiskeldisstöðvar greiða eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Eftirlitsgjald skal greitt samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðir dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Eftirlitsgjaldið skal ekki vera hærra en raunkostnaður sem hlýst af eftirlitinu og er ætlað að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:
  1. launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
  2. öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
  3. kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.

 4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Matvælastofnun sér um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Nánar skal kveðið á um umfang og tilhögun eftirlits og gerð og efni þjónustusamnings í reglugerð sem ráðherra setur.


11. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli A, Gjaldtaka og trygging, með tveimur nýjum greinum, 14. gr. a og 14. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (14. gr. a.)
Gjaldtaka.
     Við móttöku Matvælastofnunar á umsókn um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum skulu umsækjendur greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem til fellur við afgreiðslu umsóknar. Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu sem stofnuninni er falið að annast í tengslum við afgreiðslu á umsóknum um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum. Umsóknir um rekstrarleyfi skulu ekki teknar til afgreiðslu fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt.
     
     b. (14. gr. b.)
Trygging.
     Fyrir útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skal umsækjandi leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Ábyrgðartrygging takmarkast við að greiða þann kostnað sem til fellur við að fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu, sbr. 21. gr. b. Ábyrgðartrygging skal gilda út gildistíma rekstrarleyfis og í tvö ár að gildistíma loknum. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um trygginguna í reglugerð.

12. gr.

     1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
     Ef fiskeldisstöð hefur ekki innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun sem fylgdi umsókn samkvæmt ákvæðum 8. gr. skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá 1. málsl. ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, þó ekki lengur en 12 mánuði. Rekstrarleyfi skal fellt úr gildi ef starfsemi fiskeldisstöðvar stöðvast í tvö ár. Matvælastofnun er heimilt, fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis, að minnka leyfilegt framleiðslumagn samkvæmt rekstrarleyfi sé nýting þess minni en 50% af burðarþoli sjókvíaeldissvæðis.

13. gr.

     3. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

     Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Umhverfissjóður sjókvíaeldis, með sjö nýjum greinum, 20. gr. a – 20. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (20. gr. a.)
Umhverfissjóður sjókvíaeldis.
     Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki úr sjóðnum til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.
     
     b. (20. gr. b.)
Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
     Umhverfissjóður sjókvíaeldis lýtur fjögurra manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með umhverfismál. Ráðherra skal skipa formann sjóðsins án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jafnt. Varamenn skal skipa með sama hætti.
     
     c. (20. gr. c.)
Verkefni stjórnar.
     Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Verkefni stjórnar eru að:
 1. skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
 2. taka ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum,
 3. taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
 4. tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg.

     
     d. (20. gr. d.)
Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
     Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er:
 1. innheimt árgjald af rekstrarleyfishöfum sjókvíaeldis,
 2. arður af eigin fé.

     
     e. (20. gr. e.)
Árgjald Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
     Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skal greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
     Árgjald skal endurskoðað á fimm ára fresti.
     
     f. (20. gr. f.)
Álagning og innheimta árgjalds.
     Matvælastofnun annast álagningu og innheimtu árgjalds skv. 20. gr. e. Ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
     Eigi síðar en 30. ágúst ár hvert skal Matvælastofnun hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 20 gr. e og skal gjaldendum tilkynnt bréflega um hana.
     Gjöld skv. 20. gr. e vegna yfirstandandi almanaksárs falla í gjalddaga 1. október ár hvert. Ef gjöld eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds eða úrskurður um gjaldtöku eru aðfararhæfar ákvarðanir. Matvælastofnun getur krafist fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga.
     
     g. (20. gr. g.)
Reglugerðarheimild. Kostnaður af rekstri.
     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, þ.m.t. um málsmeðferð og reglur um greiðslur úr sjóðnum.
     Allur kostnaður af starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis greiðist af sjóðnum.

15. gr.

     Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um skyldu til notkunar geldstofns í sjókvíaeldi.

16. gr.

     Á eftir 21. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 21. gr. a – 21. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (21. gr. a.)
Dagsektir.
     Fari rekstrarleyfishafi ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi innan tiltekins frests getur stofnunin ákveðið að leyfishafi greiði dagsektir þar til úr verður bætt. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt leyfishafa.
     Dagsektir mega nema allt að 500.000 kr. á sólarhring. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta skal m.a. taka tillit til þess hve aðkallandi úrbæturnar eru og hversu stór og umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.
     Dagsektir skulu renna í ríkissjóð.
     Aðila er heimilt að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um beitingu dagsekta til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að honum er tilkynnt ákvörðunin. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra berst.
     Ákvarðanir Matvælastofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar. Málskot til ráðuneytisins frestar aðför.
     
     b. (21. gr. b.)
Úrbætur á kostnað rekstrarleyfishafa.
     Matvælastofnun er heimilt á kostnað rekstrarleyfishafa að láta fjarlægja búnað fiskeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, gera við búnað og hreinsa eldissvæði og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtast síðar hjá rekstrarleyfishafa eða úr ábyrgðartryggingu hans. Kostnað má innheimta með fjárnámi.
     
     c. (21. gr. c.)
Starfsemi án rekstrarleyfis.
     Ef fiskeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi sé í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina. Eftir þörfum ber lögreglu að veita Matvælastofnun liðsinni í því skyni. Matvælastofnun er heimilt að slátra eða farga eldisdýrum, fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir skv. 21. gr. b á kostnað þess aðila sem rekið hefur fiskeldisstarfsemi án leyfis. Eldisdýr sem hæf eru til manneldis skulu seld og andvirðið að frádregnum kostnaði Matvælastofnunar vegna sölunnar skal renna í ríkissjóð.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

17. gr.

     Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Umhverfisstofnun skal gera þjónustusamning við Matvælastofnun um að Matvælastofnun sinni afmörkuðum þáttum eftirlits Umhverfisstofnunar með fiskeldi. Nánar skal kveðið á um umfang og tilhögun eftirlits og gerð og efni þjónustusamnings í reglugerð sem ráðherra sem fer með málefni fiskeldis setur.

18. gr.

     11. tölul. fylgiskjals I með lögunum orðast svo: Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum.

19. gr.

     Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu ef hin tilkynnta framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar málsmeðferðar á grundvelli laga þessara og þar sem fullnægjandi gögn liggja fyrir að mati Skipulagsstofnunar. Sama gildir þegar fyrir liggur ákvörðun samkvæmt þessari grein eða álit skv. 11. gr. um framkvæmd á sama framkvæmdastað. Ef hin tilkynnta framkvæmd er þauleldi á fiski í sjó á sama við ef hún er innan tiltekinnar fjarlægðar frá útmörkum eldissvæðis framkvæmdar, sbr. reglugerð um fiskeldi. Ákvæði þetta á ekki við ef ekki hefur verið gefið út leyfi fyrir þeirri framkvæmd sem var til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun innan þriggja ára frá því að framkvæmd var tilkynnt samkvæmt þessari grein eða tillaga að matsáætlun var lögð fram til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 8. gr.

20. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun í þeim tilvikum þegar framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar meðferðar samkvæmt lögum þessum eða ef fyrir liggur ákvörðun skv. 6. gr. eða álit skv. 11. gr. um framkvæmd á sama framkvæmdastað. Ákvæði þetta á ekki við ef ekki hefur verið gefið út leyfi til framkvæmda fyrir þeirri framkvæmd sem var til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun innan þriggja ára frá því að tillagan barst Skipulagsstofnun.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum.

21. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að annast framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit með ákvæðum laga um fiskeldi, nr. 71/2008.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

22. gr.

     Orðið „fiskeldis“ í 1. og 2. gr. laganna fellur brott.

23. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 3. gr., 5. gr., 2. mgr. 7. gr., 3. og 5. mgr. c-liðar 8. gr., a-liður 11. gr. (14. gr. a), 12. gr., 16. gr. (21. gr. a – 21. gr. c), 21. gr. og 22. gr. gildi 1. janúar 2015.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Ákvæði laga þessara gilda um umsóknir um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis sem eru til meðferðar hjá Fiskistofu við gildistöku laga þessara. Skal Matvælastofnun í slíkum tilvikum kalla eftir þeim upplýsingum, umsögnum og gögnum sem þörf er á og skal málsmeðferð umsókna að öðru leyti vera í samræmi við lög þessi.

II.
     Ákvæði laga þessara gilda ekki um umsóknir um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem eru til meðferðar hjá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd sveitarfélaga við gildistöku laga þessara.

III.
     Fiskistofa skal gæta að ákvæðum 1. gr., 4. gr., 6. gr., 1. mgr. 7. gr., a- og b-liðar og 1., 2. og 4. mgr. c-liðar 8. gr., 9. gr. og b-liðar 11. gr. (14. gr. b) við málsmeðferð sína fram til 1. janúar 2015.

IV.
      Lög um fiskeldi, nr. 71/2008, skal endurskoða innan 18 mánaða frá gildistöku laga þessara. Við endurskoðunina skal m.a. hugað að vistfræðilegum þáttum og innleiðingu ýtrustu umhverfisstaðla í starfsemi fiskeldisfyrirtækja.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2014.