Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 615, 144. löggjafarþing 5. mál: hafnalög (ríkisstyrkir o.fl., EES-reglur).
Lög nr. 119 12. desember 2014.

Lög um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum (ríkisstyrkir o.fl.).


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Skipaafdrep er í lögum þessum höfn eða hluti hafnar eða öruggt skipalægi eða akkerislægi eða annað skýlt svæði sem Samgöngustofa útnefnir til að taka á móti nauðstöddum skipum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Höfn í eigu íslenska ríkisins.
 2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Höfn skv. 4. tölul. 1. mgr. skal eingöngu byggð og rekin til að tryggja reglubundnar samgöngur milli tveggja eða fleiri áfangastaða. Skal hún byggð og rekin fyrir framlög úr ríkissjóði eins og þau eru ákveðin í fjárlögum hverju sinni. Um stjórnun, rekstur og starfsheimildir slíkra hafna fer að öðru leyti samkvæmt sérlögum.
       Íslenska ríkinu er heimilt að eiga og reka nauðsynleg mannvirki vegna ferja. Þar sem mannvirki vegna ferja tengist annarri hafnarstarfsemi getur ríkið gert samkomulag við eiganda viðkomandi hafnar um uppbyggingu og rekstur.


3. gr.

     Orðin „Samgöngustofu og“ í 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna falla brott og í stað orðanna „stofnanirnar kunna“ í sama málslið kemur: stofnunin kann.

4. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Eigendur hafna geta gert samning um samrekstur einstakra þátta í starfsemi hafna.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
 1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Samgöngustofa útnefnir skipaafdrep hér á landi í áætlun um að liðsinna nauðstöddum skipum á hafsvæðum í lögsögu Íslands, að undangenginni málsmeðferð skv. 2. mgr.
 3. Í stað hugtaksins „neyðarhöfn“ í 3. málsl. og „neyðarhafnir“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: skipaafdrep.
 4. Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 5. og 6. mgr. kemur: 5. mgr.; og í stað tilvísunarinnar „5. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 6. mgr.
 5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Lóðarleigugjöld á hafnarsvæði sem er staðfest í aðalskipulagi eru tryggð með lögveði í viðkomandi fasteign. Það veð gengur í tvö ár fyrir samningsveðskuldum. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu á fasteign vegna vanefnda á lóðarleigugjöldum án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms og án þess að þörf sé á undangenginni áskorun til eiganda.


6. gr.

     3. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
     Við tillögugerð og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat er taki mið af mikilvægi hafnarmannvirkis fyrir samgöngukerfi landsins, fyrir almannahagsmuni á viðkomandi stað og hagkvæmni framkvæmdar. Óheimilt er að styrkja með framlagi úr ríkissjóði framkvæmdir sem geta raskað samkeppni milli hafna eða hafnir sem eru ætlaðar til afnota fyrir einstaka aðila í flutningastarfsemi samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

7. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að veita framlög úr ríkissjóði til verkefna á sviði hafnargerðar skv. 2. mgr. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs tekur mið af fjárhagslegri getu viðkomandi hafnarsjóðs til að standa undir kostnaði vegna nauðsynlegra hafnarframkvæmda, en verður þó aldrei meiri en greint er í 2. mgr. Skilyrði fyrir úthlutun styrkja úr ríkissjóði til framkvæmda er að um sé að ræða framkvæmd sem hefur mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni á viðkomandi stað, viðkomandi höfn hafi skilað jákvæðum rekstrarafgangi að teknu tilliti til vaxta eða hafi nýtt kosti sína til tekjuöflunar með eðlilegum hætti og framlag ríkissjóðs raski ekki ótilhlýðilega samkeppni milli hafna samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     Ríkissjóði er heimilt að styrkja:
 1. Endurbyggingu og endurbætur á skjólgörðum og dýpkun þar sem reglulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs skal vera allt að 85%.
 2. Endurbyggingu og endurbætur á bryggjum og niðurrif hafnarmannvirkja sem þarf að fjarlægja vegna slysahættu sem af þeim stafar. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs skal vera allt að 75%.
 3. Nýframkvæmd við bryggjugerð, skjólgarð, aðrar brimvarnir og dýpkun í innsiglingu og innan hafnar, enn fremur stofnkostnað við hafnsögubáta á stöðum þar sem aðstæður í höfn og nágrenni hennar kalla á slíkt öryggistæki og innsiglingarmerki, svo og löndunarkrana og hafnarvogir. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs skal vera allt að 60%. Heimild þessi tekur ekki til framkvæmda í þágu einstakra fyrirtækja þar sem gerður er sérstakur afnotasamningur til lengri tíma.
 4. Aðgerðir eiganda hafnar sem miða að því að hætta eða draga úr hefðbundnum hafnarrekstri. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs getur samkvæmt sérstöku samkomulagi numið allt að 60% af neikvæðu eigin fé hafnar.
 5. Aðgerðir hafnarsjóða vegna fyrirhugaðrar sameiningar. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs skal ákveðin samkvæmt samkomulagi milli viðkomandi hafnarsjóða annars vegar og ríkisins hins vegar.

     Heimilt er að veita viðbótarframlag úr ríkissjóði til lítilla hafnarsjóða innan skilgreinds byggðakorts, samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA, með tekjur undir 40 millj. kr. og þar sem verðmæti meðalafla síðustu ára er undir 1.000 millj. kr. Viðbótarframlagið getur orðið allt að 15%. Þó má heildarframlag ríkissjóðs aldrei vera meira en 90%.

8. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Umsóknir um framlög úr ríkissjóði skulu sendar Vegagerðinni. Með umsókn skal leggja fram upplýsingar um viðkomandi framkvæmd, viðskiptaáætlun verkefnisins, mikilvægi þess fyrir almannahagsmuni, rekstrarafkomu hafnar, fjármögnun og annað það sem máli getur skipt. Vegagerðin getur óskað eftir frekari upplýsingum eða gögnum telji hún þess þörf. Stofnunin vinnur úr umsóknum og tekur þær fyrir við endurskoðun samgönguáætlunar, sbr. 23. gr.
     Áður en umsókn um framlög úr ríkissjóði er tekin fyrir skal Vegagerðin staðfesta að höfn hafi nýtt alla kosti sína til tekjuöflunar með eðlilegum hætti svo að framlagið raski ekki ótilhlýðilega samkeppni við aðrar hafnir. Staðfesting þessi skal m.a. byggjast á samanburði við gjaldtöku annarra sambærilegra hafna.
     Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum er ákveðin af Alþingi í fjárlögum og tekin til endurskoðunar á tveggja ára fresti við endurskoðun samgönguáætlunar að því marki sem verkefni rúmast innan fjárheimilda í fjárlögum. Allar hafnarframkvæmdir sem njóta greiðsluþátttöku úr ríkissjóði skulu vera á svæðum sem eru í eigu hafnar eða sveitarfélaga. Hafnarmannvirki sem hlotið hafa styrk úr ríkissjóði skulu vera opin almennri skipaumferð eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum, hafnarreglugerð viðkomandi hafnar og öðrum reglum sem um aðgengi að höfnum gilda. Í reglugerð skal kveðið nánar á um þau skilyrði sem höfn skal uppfylla til þess að teljast styrkhæf samkvæmt ákvæðum 24. gr.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um skilyrði sem hafnir þurfa að uppfylla til þess að njóta framlags ríkissjóðs til endurbóta og nýframkvæmda.

9. gr.

     Í stað orðanna „b-lið 2. mgr. 24. gr. eða tjón á upptökumannvirkjum“ í 3. tölul. 3. mgr. 26. gr. laganna kemur: c-lið 2. mgr. 24. gr.

10. gr.

     Í stað ákvæða til bráðabirgða I–V í lögunum kemur nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 18. gr. kemur til framkvæmda 1. janúar 2016.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

12. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Sjómannalög, nr. 35/1985: Í stað orðsins „neyðarhöfn“ í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: skipaafdrep.
 2. Lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003: Í stað orðsins „neyðarhafnir“ í h-lið 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: skipaafdrep.


Samþykkt á Alþingi 28. nóvember 2014.