Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 845, 145. löggjafarþing 334. mál: höfundalög (EES-reglur, munaðarlaus verk).
Lög nr. 10 1. mars 2016.

Lög um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar, munaðarlaus verk).


1. gr.

     Við lögin bætast þrjár nýjar greinar, 12. gr. c – 12. gr. e, svohljóðandi:
     
     a. (12. gr. c.)
     Með munaðarlausu verki er átt við verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk þar sem enginn rétthafi hefur verið fundinn þrátt fyrir ítarlega leit, sbr. 12. gr. e.
     Ef fleiri en einn rétthafi er að verki sem fellur undir 1. mgr. og ekki hefur tekist að finna þá alla má nota verkið í samræmi við ákvæði þessa kafla, að því tilskildu að þeir rétthafar sem hafa fundist hafi heimilað slíka notkun að því er varðar þeirra réttindi.
     Ef rétthafi verks sem áður hefur ekki fundist gefur sig fram við stofnun sem notar verk samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal viðkomandi verk ekki lengur teljast munaðarlaust og afnot þess ekki lengur heimil nema með leyfi rétthafa. Rétthafinn á kröfu á sanngjörnu endurgjaldi frá viðkomandi stofnun fyrir afnot sem þegar hafa átt sér stað. Jafnframt skal stofnunin tilkynna breytta stöðu verksins til þess lögbæra stjórnvalds sem annast móttöku tilkynninga samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB, sbr. 5. mgr. 12. gr. e.
     Verk eða hljóðrit sem telst munaðarlaust samkvæmt löggjöf annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu skal einnig teljast munaðarlaust á Íslandi.
     
     b. (12. gr. d.)
     Bókasöfnum sem almenningur hefur aðgang að, menntastofnunum, söfnum, skjalasöfnum, varðveislustofnunum kvikmynda og hljóðrita og stofnunum sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er heimil notkun munaðarlausra verka í samræmi við þennan kafla.
     Stofnunum sem falla undir 1. mgr. og eru stofnsettar á Evrópska efnahagssvæðinu eru heimil eftirfarandi afnot af munaðarlausum verkum í söfnum sínum til að ná markmiðum sem varða hlutverk þeirra í almannaþágu:
 1. að gera eintök af munaðarlausum verkum til að setja þau á stafrænt form og til að skrá, flokka, varðveita, gera við og gera þau aðgengileg almenningi,
 2. að gera munaðarlaus verk aðgengileg almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem viðkomandi sjálfur kýs.

     Afnot skv. 2. mgr. eru heimil ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
 1. Verkið hefur tengsl við ríki á Evrópska efnahagssvæðinu með því að það:
  1. hefur verið fyrst útgefið í einhverju ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins,
  2. hefur verið fyrst útvarpað í einhverju ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins,
  3. hefur verið gert aðgengilegt almenningi af stofnun sem fellur undir 1. mgr. með samþykki rétthafa, þrátt fyrir að vera hvorki útgefið né útvarpað, og ekki er ástæða til að ætla að rétthafi væri andsnúinn notkuninni.
 2. Tekjur vegna afnota mega eingöngu vera til að standa straum af kostnaði við stafvæðingu munaðarlausra verka og til að gera þau aðgengileg almenningi í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
 3. Rétthafar munaðarlausra verka sem eru þekktir skulu nafngreindir þegar verkin eru notuð.

     Stofnanir sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu geta einungis notað munaðarlaus hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk úr eigin safni sem þau hafa sjálf framleitt fyrir 1. janúar 2003.
     Stofnanir sem falla undir 1. mgr. geta notað verk sem eru innfelld eða eru órjúfanlegur hluti af munaðarlausu verki í samræmi við önnur ákvæði þessarar greinar.
     
     c. (12. gr. e.)
     Áður en verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk telst vera munaðarlaust verk í samræmi við ákvæði 12. gr. c skal fara fram ítarleg leit að rétthöfum slíkra verka. Sú stofnun sem hefur heimild skv. 1. mgr. 12. gr. d til að nota munaðarlaus verk og hyggst gera það skal tryggja að slík leit hafi farið fram og verið skráð.
     Leitin skal taka til heimilda sem eru viðeigandi fyrir verkin sem um ræðir. Hún skal ávallt taka til þeirra heimilda sem upp eru taldar í viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB.
     Leitin skal fara fram í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem verkið var fyrst útgefið eða útvarpað. Ef verkið hefur hvorki verið útgefið né því útvarpað en hefur verið gert aðgengilegt almenningi af stofnun sem fellur undir 1. mgr. 12. gr. d, með samþykki rétthafa, skal leitin fara fram í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem stofnunin er staðsett í. Ef um er að ræða kvikmyndaverk og framleiðandi þess hefur höfuðstöðvar sínar eða fast aðsetur í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu skal leitin fara fram í því ríki.
     Ef vísbendingar eru um að viðeigandi upplýsingar um rétthafa gæti verið að finna í öðru ríki en skv. 3. mgr. skal einnig kanna heimildir þaðan.
     Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd og skráningu fyrir ítarlega leit og notkun munaðarlausra verka, þ.m.t. um þær heimildir sem rétt er að nota fyrir einstakar tegundir verka og um miðlun skráðra upplýsinga til þess lögbæra stjórnvalds sem ráðherra felur að annast móttöku tilkynninga samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB.

2. gr.

     64. gr. laganna orðast svo:
     Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi en taka hvorki til verka sem ekki njóta höfundaréttarverndar við gildistöku laganna né til athafna sem átt hafa sér stað fyrir gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2016.