Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1644, 145. löggjafarþing 673. mál: Vatnajökulsþjóðgarður (stjórnfyrirkomulag, verndaráætlun, leyfisveitingar).
Lög nr. 101 20. september 2016.

Lög um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, með síðari breytingum (stjórnfyrirkomulag, verndaráætlun, leyfisveitingar o.fl.).


1. gr.

     Á eftir orðinu „stjórn“ í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: valdheimildir.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Markmið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að:
 1. Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.
 2. Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
 3. Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.
 4. Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. Við 3. málsl. bætist: og skal annar þeirra hafa fagþekkingu á verksviði þjóðgarða.
 2. 5. málsl. orðast svo: Einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum skulu eiga áheyrnaraðild að fundum stjórnar.


4. gr.

     5. málsl. 5. gr. laganna orðast svo: Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „verndaráætlun“ í 2. tölul. og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: stjórnunar- og verndaráætlun.
 2. 3. tölul. orðast svo: Að samþykkja fjárhagsáætlun um rekstur þjóðgarðsins, að ráðstafa fé til rekstrarsvæða og samþykkja rekstraráætlun hvers svæðis.
 3. Við bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Að gera tillögu til ráðherra að skipan framkvæmdastjóra.
  2. Yfirumsjón með gerð atvinnustefnu, þ.m.t. að móta skilyrði fyrir því að aðilar megi stunda atvinnu innan þjóðgarðsins, og samninga þar um.
  3. Að setja framkvæmdastjóra og þjóðgarðsvörðum starfslýsingar.


6. gr.

     Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sömu aðilar tilnefna jafnmarga varamenn sem eru skipaðir með sama hætti.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „vinna“ í 2. tölul. kemur: hafa yfirumsjón með gerð.
 2. Í stað orðsins „gera“ í 3. tölul. kemur: samþykkja.


8. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 8. gr. a – 8. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (8. gr. a.)
Samstarf stjórnar og svæðisráða.
     Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráð einstakra rekstrarsvæða skulu vinna saman að málefnum þjóðgarðsins og markmiðum hans skv. 2. gr.
     
     b. (8. gr. b.)
Framkvæmdastjóri.
     Ráðherra skipar framkvæmdastjóra til fimm ára í senn samkvæmt tillögum stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.
     
     c. (8. gr. c.)
Hlutverk framkvæmdastjóra.
     Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs í umboði stjórnar og samkvæmt starfslýsingu sem stjórn þjóðgarðsins setur honum. Framkvæmdastjóri framfylgir ákvörðunum stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, annast daglegan rekstur þjóðgarðsins, fjárreiður og reikningsskil og ber ábyrgð á að þjóðgarðurinn starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Framkvæmdastjóri fer með yfirstjórn starfsmannamála.

9. gr.

     1. málsl. 9. gr. laganna orðast svo: Á hverju rekstrarsvæði skal starfa þjóðgarðsvörður sem ráðinn er samkvæmt tillögu viðkomandi svæðisráðs.

10. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Þjóðgarðsvörður annast daglegan rekstur, starfsmannahald og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í samráði við framkvæmdastjóra og samkvæmt starfslýsingu sem stjórn þjóðgarðsins setur honum. Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningshaldi gagnvart framkvæmdastjóra.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stjórnunar- og verndaráætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins. Áætlunin tilgreinir nánar markmið verndunar, stefnu stjórnar og leiðir til að framfylgja stjórnun og vernd, í samræmi við markmið laga þessara.
 2. Í stað 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Í stjórnunar- og verndaráætlun skal nánar tiltekið gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu, mannvirkjagerð, samgöngum og öðrum innviðum á svæðinu. Þar skal fjallað um umferðarrétt almennings, aðgengi að svæðinu og not þess.
       Í stjórnunar- og verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari, landslagi eða menningarminjum í Vatnajökulsþjóðgarði.
 4. Við 1. málsl. 3. mgr. og 4. málsl. 4. mgr. bætist: og eftir atvikum aðrar hlutaðeigandi fagstofnanir ríkisins.
 5. Á eftir orðunum „í bága við lög þessi“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: eða; og orðin „eða verndarmarkmið þjóðgarðsins“ í sama málslið falla brott.
 6. Í stað „3.–5. mgr.“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: 4.–6. mgr.
 7. Á eftir orðunum „skal ávallt leita umsagnar“ í 3. málsl. 6. mgr. kemur: viðkomandi.
 8. Við 6. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Við stækkun þjóðgarðsins er heimilt að gera viðauka við stjórnunar- og verndaráætlun með lýsingu á mörkum og náttúru og ákvæðum um stjórnun og vernd hins nýja svæðis, án þess að öll áætlunin sé tekin til endurskoðunar. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum 4.–6. mgr. Sameina skal viðaukann við stjórnunar- og verndaráætlun við næstu endurskoðun hennar.


12. gr.

     Í stað 2. mgr. 13. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ekki þarf sérstakt leyfi Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt lögum þessum fyrir þeim framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í stjórnunar- og verndaráætlun. Slíkar framkvæmdir kunna eigi að síður að vera háðar framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi viðkomandi sveitarfélags. Ávallt skal hafa samráð við viðkomandi þjóðgarðsvörð áður en framkvæmd hefst.
     Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með framkvæmdum og að virt séu ákvæði laga þessara, reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og stjórnunar- og verndaráætlunar og þeim skilyrðum sem framkvæmdinni voru sett þar.
     Allir þeir sem fara um þjóðgarðinn og dvelja þar, svo sem vegna ferðalaga eða í atvinnuskyni, eru bundnir af áætluninni, eftir því sem við á. Að öðru leyti gilda ákvæði náttúruverndarlaga um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um réttaráhrif stjórnunar- og verndaráætlunar.

13. gr.

     Í stað orðanna „og landslagi“ í 1. málsl. 14. gr. laganna kemur: landslagi og menningarminjum.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
 1. Í stað 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Almenningi er heimil för um Vatnajökulsþjóðgarð og dvöl þar í lögmætum tilgangi.
       Öllum er skylt að ganga vel um náttúru þjóðgarðsins og menningarminjar og sýna ýtrustu varúð og tillitssemi svo að náttúru, menningarminjum og mannvirkjum þjóðgarðsins verði ekki spillt. Gestum þjóðgarðsins er skylt að hlíta fyrirmælum starfsmanna þjóðgarðsins um umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum.
       Setja skal í reglugerð ákvæði um tjöldun og umferð gangandi vegfarenda, ríðandi og hjólandi manna, sem og um umferð vélknúinna ökutækja í Vatnajökulsþjóðgarði.
 3. Í stað „3. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 6. mgr.
 4. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Afla skal leyfis þjóðgarðsvarðar til lendingar loftfars innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Nánar skal mælt fyrir um málsmeðferð og leyfisveitingar í reglugerð.
 6. Í stað orðanna „reglugerð um“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: stjórnunar- og verndaráætlun fyrir.
 7. 1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Liggi landsvæði eða lífríki undir skemmdum og talið er nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða getur viðkomandi þjóðgarðsvörður tekið ákvörðun um tímabundna lokun afmarkaðs svæðis fyrir umferð.
 8. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Dvöl, umgengni og umferð í þjóðgarðinum.


15. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli A, Starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði, með tveimur nýjum greinum, 15. gr. a og 15. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (15. gr. a.)
Samningar við þjónustuaðila.
     Óheimilt er að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð.
     Í slíkum samningum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndarmarkmiða þjóðgarðsins. Nánar skal mælt fyrir um slík skilyrði, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæði þessu í reglugerð.
     
     b. (15. gr. b.)
Leyfisveitingar.
     Afla skal leyfis þjóðgarðsvarðar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum, svo sem til kvikmyndunar, listviðburða, samkomuhalds og rannsókna. Þjóðgarðsverði er heimilt að setja þau skilyrði fyrir leyfisveitingu sem nauðsynleg eru.
     Þjóðgarðsverði er heimilt að loka tímabundið einstökum svæðum þjóðgarðsins ef það er nauðsynlegt vegna viðburða eða verkefna sem veitt hefur verið leyfi fyrir. Hafa skal samráð um slíka ákvörðun við fulltrúa ferðaþjónustu sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið eftir því sem kostur er. Ákvörðun þjóðgarðsvarðar um lokun svæðis samkvæmt ákvæði þessu skal birt í B-deild Stjórnartíðinda og með öðrum opinberum hætti í dagblöðum og á vefsíðu þjóðgarðsins.
     Ákvæði laga þessara um leyfisveitingar ganga framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.
     Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um leyfisveitingar í reglugerð.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Vatnajökulsþjóðgarði er enn fremur heimilt að reka upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar þar sem almenningi er veitt fræðsla um náttúruvernd í þjóðgarðinum og þjónusta eftir því sem þörf krefur og samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar þjóðgarðsins.
 2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórn þjóðgarðsins ákveður staðsetningu og rekstrarfyrirkomulag þjónustumiðstöðva og skal stefna stjórnar þar að lútandi koma fram í stjórnunar- og verndaráætlun.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Meginstarfsstöðvar og þjónustustöðvar.


17. gr.

     17. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „eða landslagi“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: landslagi eða menningarminjum.
 2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Ef brýna nauðsyn ber til er þjóðgarðsverði, í samráði við önnur yfirvöld eftir atvikum, heimilt að ráðast í framkvæmdir sem ekki er gert ráð fyrir í stjórnunar- og verndaráætlun, svo sem að láta leggja nýjan veg eða stíg, eða gera annað sem auðveldar aðkomu eða brottför af svæði. Skilyrði er að með framkvæmdinni sé brugðist við náttúruvá eða öðrum óvæntum aðstæðum og að framkvæmdin sé unnin í öryggisskyni eða vegna rannsókna sem nauðsynlegar eru til að tryggja almennt öryggi. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal útfæra nánar almenn skilyrði og umfang slíkra framkvæmda, sem til kynni að koma, svo sem um merkingar og stikun, afnám vega og aðrar framkvæmdir sem ráðast þarf í þegar náttúruváin eða aðrar óvæntar aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi.


19. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo: Í reglugerðinni skal kveðið á um stofnun þjóðgarðsins, mörk hans og rekstrarsvæða innan hans, verndun og verndarstig og staðsetningu meginstarfsstöðva.

20. gr.

     Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að innheimta gjöld vegna leyfisveitinga og samninga skv. 5. mgr. 15. gr. og 15. gr. a og 15. gr. b. Gjöldin skulu standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi. Ráðherra ákveður fjárhæð gjaldsins og nánara fyrirkomulag gjaldtöku í reglugerð að fengnum tillögum stjórnar þjóðgarðsins.

21. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. september 2016.