Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1007, 146. löggjafarþing 216. mál: vextir og verðtrygging o.fl. (lán tengd erlendum gjaldmiðlum, EES-reglur).
Lög nr. 36 14. júní 2017.

Lög um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum).


I. KAFLI
Breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Skuldbindingar sem varða lánsfé í erlendum gjaldmiðlum og lánsfé þar sem greiðslur breytast í samræmi við gengi erlendra gjaldmiðla eða gengisvísitölur, þ.m.t. samsetta gjaldmiðla sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir, falla ekki undir ákvæði þessa kafla.

2. gr.

     Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Það á þó ekki við um neytendalán eða fasteignalán til neytenda.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum.

3. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, sem orðast svo:
     Seðlabanka Íslands er heimilt, í þágu fjármálastöðugleika og að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu.
     Í reglum skv. 1. mgr. getur Seðlabankinn ákveðið lánstíma, tegundir tryggingar og hámarkshlutfall lána sem eru tengd erlendum gjaldmiðlum af heildarútlánasafni lánastofnunar. Hámarkshlutfallið getur hvort heldur sem er verið hlutfall af heildarútlánum viðkomandi stofnunar eða sérstakt hlutfall vegna einstakra flokka óvarinna lántaka. Einnig er í reglunum heimilt að kveða á um skýrsluskil lánastofnana til Seðlabankans.

4. gr.

     Í stað orðanna „og gjaldeyrisjöfnuð“ í 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: gjaldeyrisjöfnuð og lán tengd erlendum gjaldmiðlum.

III. KAFLI
Breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, með síðari breytingum.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „t-lið 5. gr.“ í 1. mgr. kemur: v-lið 5. gr.
 2. Í stað orðanna „n-lið 5. gr.“ í 2. mgr. kemur: p-lið 5. gr.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Á undan a-lið kemur nýr stafliður sem orðast svo: Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
 2. Á eftir g-lið kemur nýr stafliður sem orðast svo: Lán tengd erlendum gjaldmiðlum: Lán:
  1. tilgreint í eða bundið öðrum gjaldmiðli en tekjur neytanda og eignir sem hann ætlar til endurgreiðslu lánsins, eða
  2. tilgreint í eða bundið öðrum gjaldmiðli en gjaldmiðli þess aðildarríkis sem neytandi er búsettur í.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þrátt fyrir fjárhæðarmörk 1. og 2. málsl. skal lánveitandi framkvæma greiðslumat áður en samningar um lán tengd erlendum gjaldmiðlum eru gerðir.
 2. 3. mgr. orðast svo:
 3.      Lánveitandi skal aðeins veita lán ef hann telur líklegt að neytandi geti staðið í skilum með lánið að teknu tilliti til niðurstöðu lánshæfis- og greiðslumats og að uppfylltum skilyrðum 10. gr. a ef um er að ræða lán tengd erlendum gjaldmiðlum. Niðurstaða greiðslumats telst jákvæð ef neytandi getur staðið við greiðslu fjárskuldbindingar samkvæmt lánssamningi á þeim tíma þegar matið er framkvæmt. Niðurstaða greiðslumats felur ekki í sér ákvörðun um lánveitingu. Lánveitandi eða lánamiðlari skal útskýra fyrir neytanda niðurstöðu greiðslumats. Lánveitandi getur á grundvelli frekari upplýsinga frá neytanda fallist á að veita lán, önnur en lán tengd erlendum gjaldmiðlum, þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats, enda sýni þær fram á að líklegt sé að neytandi geti staðið í skilum með lánið. Lánveitandi skal skjalfesta rökstuðning fyrir þessari ákvörðun, útskýra hana fyrir neytanda og varðveita gögn henni til stuðnings, eins og við á.
 4. Í stað orðanna „og undanþágur“ í 5. mgr. kemur: lán tengd erlendum gjaldmiðlum og undanþágur.


8. gr.

     Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Greiðslumat lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.
     Lánveitandi skal aðeins veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum til neytanda sem:
 1. hefur nægilegar tekjur í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til að standast greiðslumat, eða
 2. hefur staðist greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum, eða
 3. hefur staðist greiðslumat og leggur fram fjárhagslegar tryggingar sem draga verulega úr gjaldeyrisáhættu hans vegna lánsins á lánstímanum.


9. gr.

     Í stað orðanna „a- og g-lið 5. gr.“ í f-lið 5. mgr. 12. gr. laganna kemur: b- og h-lið 5. gr.

10. gr.

     Í stað orðanna „t-lið 5. gr.“ í b-lið 5. mgr. 18. gr. laganna kemur: v-lið 5. gr.

11. gr.

     Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.
     Neytandi á ávallt rétt á að breyta eftirstöðvum láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í lán sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum. Sé ekki mælt fyrir á annan veg í lánssamningi skal við umbreytingu láns miða við nýjasta skráða opinbera viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands.
     Neytandi skal upplýstur um rétt sinn samkvæmt þessari grein í lánssamningi og í upplýsingum sem veita skal fyrir og við gerð lánssamnings skv. 7. og 8. gr.
     Við upplýsingagjöf skv. 7. og 8. gr. skal veita skýringar á áhrifum þess ef gengi breytist verulega miðað við það gengi sem fram kemur í lánssamningi.

12. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Lánveitandi skal samhliða upplýsingum skv. 7. gr., vegna lánssamnings sem kallar á greiðslumat, veita neytanda upplýsingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um eftirfarandi:
 1. Sögulega þróun verðlags og áhrif þróunar verðlags á höfuðstól og greiðslubyrði ef lán er verðtryggt.
 2. Sögulega þróun breytilegra vaxta á neytendalánum og áhrif breytinga á vöxtum á greiðslubyrði ef lán er með breytilegum vöxtum.
 3. Sögulega gengisþróun viðkomandi gjaldmiðla og áhrif gengisþróunar á höfuðstól og greiðslubyrði ef lán er tengt erlendum gjaldmiðlum.
 4. Þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár.

     Neytandi getur óskað eftir að fá niðurgreiðslutöflu verðtryggðs láns á föstu verðlagi.
     Neytendastofa skal birta opinberlega á vef sínum almennar upplýsingar og dæmi sem lánveitendur skulu byggja upplýsingar sínar skv. 1. mgr. á.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 30. gr. laganna:
 1. E-liður orðast svo: 3. mgr. 10. gr. um að lánveitandi skuli ekki veita lán nema líklegt sé að neytandi geti staðið í skilum með lánið.
 2. Á eftir f-lið kemur nýr stafliður sem orðast svo: 10. gr. a um greiðslumat lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.
 3. W-liður orðast svo: 25. gr. um sérstaka upplýsingaskyldu lánveitanda.


IV. KAFLI
Breyting á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.

14. gr.

     5. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

     Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Samningur um fasteignalán.
     Samningar um fasteignalán skulu skráðir á pappír eða vera á öðrum varanlegum miðli. Allir samningsaðilar skulu fá afrit af samningi.

16. gr.

     Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Upplýsingagjöf um fasteignalán.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
 1. Orðin „og leggur fram erlendar eignir í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til tryggingar láninu“ í 2. tölul. falla brott.
 2. 3. tölul. orðast svo: hefur staðist greiðslumat og leggur fram fjárhagslegar tryggingar sem draga verulega úr gjaldeyrisáhættu hans vegna lánsins á lánstímanum.


18. gr.

     Í stað orðanna „íslenskar krónur“ í 2. tölul. 2. mgr. og 3. mgr. 33. gr. laganna kemur: fasteignalán sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum.

19. gr.

     3. tölul. 61. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2017.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.