Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1866, 149. löggjafarþing 752. mál: kynrænt sjálfræði.
Lög nr. 80 1. júlí 2019.

Lög um kynrænt sjálfræði.


I. KAFLI
Markmið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.
     Lög þessi kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.

2. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
 1. Kyn (kynverund): Safnhugtak sem nær meðal annars yfir kyneinkenni, kyngervi, kynvitund og kyntjáningu.
 2. Kyneinkenni: Líffræðilegir þættir sem tengjast kyni, svo sem kynlitningar, hormónastarfsemi, kynkirtlar og kynfæri.
 3. Kyntjáning: Félagsleg tjáning einstaklings á kyni sínu.
 4. Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.
 5. Líkamleg friðhelgi: Óskoraður réttur einstaklings til sjálfræðis um eigin líkama og að borin sé virðing fyrir rétti hans til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar.


II. KAFLI
Réttur einstaklings til að skilgreina kyn sitt.

3. gr.

Réttur einstaklings til að skilgreina kyn sitt.
     Sérhver einstaklingur nýtur, í samræmi við aldur og þroska, óskoraðs réttar til:
 1. að skilgreina kyn sitt,
 2. viðurkenningar á kyni sínu, kynvitund og kyntjáningu,
 3. að þroska persónuleika sinn í samræmi við eigin kynvitund,
 4. líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis um breytingar á kyneinkennum.


4. gr.

Réttur til að breyta opinberri skráningu kyns.
     Sérhver einstaklingur sem náð hefur 18 ára aldri hefur rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Beiðni um slíka breytingu skal beint til Þjóðskrár Íslands. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á umsækjandi rétt á að breyta nafni sínu.
     Óheimilt er að gera skurðaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð, svo sem geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð, að skilyrði fyrir breytingu á skráningu kyns.
     Breyting skv. 1. mgr. felur í sér rétt einstaklingsins til að fá útgefin persónuskilríki sem samrýmast breytingunni, svo og gögn sem varða menntun hans og starfsferil.
     Í opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skal kyn einstaklings skráð eins og það er skráð í þjóðskrá.

5. gr.

Breyting á skráðu kyni barns.
     Barn yngra en 18 ára getur með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns.
     Beiðni um breytta skráningu kyns skal beint til Þjóðskrár Íslands. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á barnið rétt á að breyta nafni sínu. Ákvæði 2.–4. mgr. 4. gr. gilda jafnframt um ákvæði þetta.
     Barn sem ekki nýtur stuðnings forsjáraðila sinna, annars eða beggja, til að breyta skráðu kyni sínu getur lagt ósk um breytingu fyrir sérfræðinefnd skv. 9. gr. og breytt skráningunni ef sérfræðinefndin fellst á erindi þess.
     Ákvörðun um að breyta kynskráningu barns skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og vera í samræmi við vilja þess og þróun kynvitundar.

6. gr.

Hlutlaus skráning kyns.
     Hlutlaus skráning kyns er heimil.
     Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum, og skal skráningin táknuð á óyggjandi hátt. Í vegabréfum skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X.

7. gr.

Takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns.
     Breyting á skráningu kyns samkvæmt lögum þessum og samhliða nafnbreyting skal einungis heimiluð einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars. Óski einstaklingur aftur að breyta skráningu kyns skal hann leggja fram skriflega greinargerð um ástæður beiðninnar til Þjóðskrár Íslands.

8. gr.

Áhrif breyttrar skráningar kyns á réttarstöðu.
     Réttarstaða barns gagnvart foreldri sem breytt hefur opinberri skráningu kyns síns, sbr. 4. og 5. gr., er sú sama og áður en breytingin var gerð.
     Einstaklingur sem hefur breytt opinberri skráningu kyns síns nýtur allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.
     Sérhver einstaklingur á rétt á heilbrigðisþjónustu í samræmi við kyneinkenni sín, óháð skráningu kyns.
     Reglur sem gilda um konu sem gengur með og fæðir barn gilda einnig um einstakling sem gengur með og fæðir barn eftir að hafa breytt skráningu kyns síns.

9. gr.

Sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna.
     Ráðherra skipar sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti þrír einstaklingar. Einn þeirra skal vera læknir með barnalækningar sem sérgrein, tilnefndur af landlækni, annar sálfræðingur með barnasálfræði sem sérsvið, tilnefndur af Sálfræðingafélagi Íslands, og sá þriðji lögfræðingur með sérþekkingu á réttindum barna, tilnefndur af ráðherra sem fer með mannréttindamál.
     Sérfræðinefndin tekur ákvarðanir skv. 3. mgr. 5. gr. Við meðferð mála getur nefndin aflað álits annarra sérfræðinga eftir því sem ástæða þykir til.
     Nefndarmenn og sérfræðingar sem aflað er umsagna hjá samkvæmt þessari grein skulu gæta fyllsta trúnaðar um málefni þeirra sem til nefndarinnar leita.
     Ákvörðun sérfræðinefndar skv. 3. mgr. 5. gr. er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds nema hvað málsmeðferð varðar.

10. gr.

Viðurkenning erlendrar kynskráningar og umsækjendur um alþjóðlega vernd.
     Úrskurður erlends dómstóls eða skráning erlends lögbærs yfirvalds á breyttri skráningu kyns og breyttu nafni einstaklings nýtur fullrar viðurkenningar á Íslandi.
     Einstaklingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi getur óskað eftir því að í skráningarskírteini, sbr. 34. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, verði kyn hans skráð í samræmi við kynvitund hans enda þótt það samrýmist ekki skilríkjum hans frá heimaríki.

III. KAFLI
Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum.

11. gr.

Líkamleg friðhelgi.
     Óheimilt er að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis hans. Þegar um er að ræða barn á aldrinum 16–18 ára þarf jafnframt mat teymis barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni skv. 13. gr. á því að það sé barni fyrir bestu að framkvæma aðgerðina. Til varanlegra breytinga teljast meðal annars skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip.
     Um undantekningar frá meginreglu 1. mgr. gilda lög um réttindi sjúklinga.
     Áður en breytingar skv. 1. mgr. eru gerðar skal veita einstaklingnum ítarlegar upplýsingar um fyrirhugaða meðferð, þar á meðal um framgang hennar, áhættu og gagnsemi, hvort hún hafi áhrif á getu hans til að auka kyn sitt, svo og um önnur hugsanleg úrræði og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst. Einnig skal einstaklingnum boðið að leita álits annars sérfræðings um nauðsyn meðferðarinnar honum að kostnaðarlausu. Hafi meðferð í för með sér skerta getu einstaklings til að auka kyn sitt eða varanlega ófrjósemi skal upplýsa hann um möguleika á varðveislu kynfrumna.

12. gr.

Teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum.
     Á Landspítala skal starfa teymi sérfræðinga um kynvitund og breytingar á kyneinkennum, skipað af forstjóra sjúkrahússins. Teymið skal vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Teyminu er heimilt að kalla aðra sérfræðinga til ráðgjafar og samstarfs, m.a. svo að tryggja megi þekkingu á félagslegum þætti kynvitundar. Um réttindi og skyldur starfsfólks teyma samkvæmt þessari grein og 13. gr. gilda ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn.
     Teymið veitir skjólstæðingum, 18 ára og eldri, upplýsingar, ráðgjöf og meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins. Teymið veitir jafnframt aðstandendum skjólstæðinga upplýsingar og ráðgjöf.
     Teymið setur sér verklagsreglur og skulu þær vera í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðlegum vettvangi. Synji teymið einstaklingi um meðferð sem felur í sér breytingu á kyneinkennum hans getur hann skotið málinu til landlæknis. Ákvörðun landlæknis er kæranleg til ráðuneytis heilbrigðismála.
     Ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu getur sett nánari ákvæði um verkefni og þjónustu teymisins í reglugerð.

13. gr.

Teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni.
     Á barna- og unglingageðdeild Landspítala skal starfa teymi sérfræðinga um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni, skipað af forstjóra sjúkrahússins. Teymið skal vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Teyminu er heimilt að kalla aðra sérfræðinga til ráðgjafar og samstarfs, m.a. svo að tryggja megi þekkingu á félagslegum þætti kynvitundar.
     Teymi barna- og unglingageðdeildar veitir börnum yngri en 18 ára, sem upplifa misræmi milli kynvitundar sinnar og þess kyns sem þeim var úthlutað við fæðingu, meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins og veitir forsjáraðilum þeirra stuðning og ráðgjöf. Jafnframt veitir teymið börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og forsjáraðilum þeirra stuðning og ráðgjöf. Enn fremur metur teymið hvort það sé barni á aldrinum 16–18 ára fyrir bestu að undirgangast varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings, sbr. 11. gr.
     Teymið setur sér verklagsreglur og skulu þær vera í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðlegum vettvangi. Ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu getur sett nánari ákvæði um verkefni og þjónustu teymisins í reglugerð.

14. gr.

Þátttaka Sjúkratrygginga Íslands.
     Rétt til að nýta sér þjónustu teyma skv. 12. og 13. gr. eiga þeir sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

15. gr.

Sektir.
     Brot gegn 3. mgr. 4. gr., 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 9. gr. laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektir renna í ríkissjóð.
     Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn ákvæðum skv. 1. mgr. og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.

16. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, t.d. um kröfur til gagna sem lögð eru fram skv. 1. mgr. 10. gr. og um störf sérfræðinefndar um breytingu á kynskráningu barna skv. 9. gr., m.a. um það í hvaða tilvikum barnaverndarnefnd skuli vera gert viðvart við störf sérfræðinefndarinnar.

17. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi taka þegar gildi.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. hafa aðilar sem skrásetja kyn 18 mánaða frest frá gildistöku laga þessara til að laga skráningarform, eyðublöð, skilríki og þess háttar að fyrirmælum 2. mgr. 6. gr.

18. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum: Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Ákvæði þessa kafla taka einnig til þeirra sem hafa hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. 6. gr. laga um kynrænt sjálfræði.
 3. Lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum:
  1. 2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.
  2. 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.
  3. Við 3. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einstaklingi sem hefur hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá er heimilt að nota nafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótar eða að viðbættu bur.
  4. Á eftir 3. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Barn yngra en 18 ára getur með samþykki forsjáraðila sinna eða sérfræðinefndar skv. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði breytt eiginnafni og millinafni sínu samhliða breytingu á skráningu kyns.
  6. Á eftir 6. mgr. 14. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  7.      Barn yngra en 18 ára getur með samþykki forsjáraðila sinna eða sérfræðinefndar skv. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði óskað eftir breytingu á kenninafni sínu í tengslum við breytingu á skráðu kyni. Breyting samkvæmt þessari málsgrein getur einungis falist í að endingu kenninafns sé breytt til samræmis við kyn barnsins. Ef barnið fær hlutlausa skráningu kyns gildir ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 8. gr.
  8. Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
  9.      Einstaklingur sem neytir réttar til að breyta skráningu kyns síns í þjóðskrá hefur rétt til að breyta eiginnafni, millinafni og kenninafni. Ákvæði 6. mgr. 13. gr. eiga við um breytingu á eiginnafni og millinafni samkvæmt þessari grein.
 4. Lög um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, með síðari breytingum:
  1. Á eftir orðunum „aldurs, kynferðis“ í 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: kynvitundar.
  2. Orðið „kvenfangi“ í 1. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.
  3. Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
   1. Í stað orðsins „gagnstæðu“ í 2. mgr. kemur: öðru.
   2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
   3.      Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. getur forstöðumaður, í samráði við Fangelsismálastofnun, ákveðið annað ef brýnir hagsmunir fangans eða annarra fanga krefjast þess.
  4. Við 2. mgr. 70. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó getur forstöðumaður ákveðið annað ef brýnir hagsmunir fangans krefjast þess.
 5. Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum: Á eftir orðunum „um mannanöfn“ í 26. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: og leyfi til breytinga á skráningu kyns samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði, ásamt nafnbreytingu, þó ekki breytinga skv. 3. mgr. 5. gr. þeirra laga.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Ráðherra skipar starfshóp til að fjalla um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, þar á meðal um heilbrigðisþjónustu við þau, og gera tillögur um úrbætur. Einnig skal hópnum falið að semja frumvarp til laga um breytingar á lögum þessum sem feli í sér að bætt verði við lögin ákvæði sem fjallar um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Í hópnum skulu vera barnaskurðlæknir, barnainnkirtlalæknir, barnasálfræðingur, fulltrúi Intersex Íslands, fulltrúi Samtakanna ´78, kynjafræðingur, siðfræðingur og tveir lögfræðingar, annar með sérþekkingu á réttindamálum barna en hinn á mannréttindum. Skal hópurinn skila niðurstöðum sínum og tillögum tólf mánuðum eftir gildistöku laga þessara.

II.
     Ráðherra skipar starfshóp til að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks, þar á meðal barnalögum, nr. 76/2003, og lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, svo og reglum um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna aðgerða sem tengjast kynleiðréttingu. Enn fremur er starfshópnum, m.a. í samvinnu við Barnaverndarstofu, umboðsmann barna og hagsmunasamtök hinsegin fólks, ætlað að endurskoða aldursviðmið til lækkunar vegna réttar til að breyta skráningu kyns. Skal hópurinn skila niðurstöðum sínum og tillögum tólf mánuðum eftir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 18. júní 2019.