Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1722, 151. löggjafarþing 585. mál: breyting á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (mennta- og menningarmál).
Lög nr. 89 22. júní 2021.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (mennta- og menningarmál).


I. KAFLI
Breyting á lögum um leikskóla, nr. 90/2008.

1. gr.

     Í stað orðsins „sérfræðiþjónustu“ í 1. mgr. 4. gr. og orðsins „sérfræðiþjónusta“ í 1. mgr. 21. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: skólaþjónusta.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á X. kafla laganna:
  1. Á eftir 30. gr. kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
  2. Vinnsla persónuupplýsinga.
         Leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að veita börnum í leikskóla lögbundna þjónustu. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar barna, svo sem vegna skimana, mats, greininga og vottorða.
         Leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum er heimilt að afla og miðla persónuupplýsingum frá og til stofnana og fagaðila sem veita börnum lögbundna þjónustu, þ.m.t. Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, félagsþjónustu sveitarfélaga, grunnskóla, frístundaheimila, stofnana og fagaðila sem tilgreindir eru í reglugerð sem ráðherra setur, enda sé slík miðlun nauðsynleg til þess að þessir aðilar geti gegnt hlutverkum sínum.
         Leikskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum ber að upplýsa foreldra og forsjáraðila í skilningi barnalaga um vinnsluna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
         Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.
  3. Fyrirsögn kaflans verður: Meðferð ágreiningsmála og vinnsla persónuupplýsinga.


II. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.

3. gr.

     Við 2. málsl. 1. mgr. 33. gr. laganna bætist: t.d. í félagsmiðstöð, í frístundastarfi eða skólahljómsveit.

4. gr.

     Á eftir 47. gr. laganna kemur ný grein, 47. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Vinnsla persónuupplýsinga.
     Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að veita nemendum í grunnskóla lögbundna þjónustu. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, svo sem vegna skimana, greininga, vottorða og námsmats og í tengslum við framkvæmd samræmdra könnunarprófa.
     Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum er heimilt að afla og miðla persónuupplýsingum frá og til stofnana og fagaðila sem veita nemendum lögbundna þjónustu, þ.m.t. Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, félagsþjónustu sveitarfélaga, félagsmiðstöðva, frístundaheimila, leikskóla, stofnana og fagaðila sem tilgreindir eru í reglugerð sem ráðherra setur, enda sé slík miðlun nauðsynleg til þess að þessir aðilar geti gegnt hlutverki sínu.
     Grunnskólum, skólaþjónustu og þeim aðilum sem hafa lögbundið hlutverk samkvæmt lögum þessum ber að upplýsa foreldra og forsjáraðila í skilningi barnalaga um vinnsluna í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Við lok grunnskólanáms skulu grunnskólar bjóða nemendum, foreldrum og forsjáraðilum í skilningi barnalaga miðlun upplýsinga um nemendur sem unnar hafa verið eða aflað hefur verið á grundvelli þessarar greinar til framhaldsskóla. Samþykki nemenda, foreldra og forsjáraðila er skilyrði miðlunar og skal hún vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.

III. KAFLI
Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Á undan 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  2.      Framhaldsskólum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, um vímuefna- og áfengisnotkun í tengslum við viðburði á vegum nemendafélaga skv. 39. gr. og heilsufarsupplýsingar um nemendur með sérþarfir í skilningi 34. gr.
         Um þagnarskyldu starfsmanna framhaldsskóla fer eftir X. kafla stjórnsýslulaga og gildir hún einnig um þriðja aðila sem rækir þjónustu í þágu framhaldsskóla. Um trúnað og þagnarskyldu fer að öðru leyti eftir ákvæðum annarra laga.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Vinnsla persónuupplýsinga og upplýsingagjöf.


IV. KAFLI
Breyting á lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015.

6. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Vinnsla persónuupplýsinga.
     Menntamálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna upplýsingakerfa um námsefni og námsmat. Menntamálastofnun er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, svo sem vegna innritunar í framhaldsskóla, innlendra og erlendra skólaverkefna og framkvæmdar samræmdra könnunarprófa.
     Menntamálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga, að því marki sem nauðsynlegt er, um skólastjórnendur og starfsfólk til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna ytra mats og kannana. Menntamálastofnun er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar skólastjórnenda og starfsfólks, svo sem við veitingu leyfisbréfa og veitingu undanþágu til kennslustarfa, í tengslum við alþjóðlegar rannsóknir á aðstæðum og vinnuumhverfi kennara og skólastjórnenda.
     Menntamálastofnun er heimil öflun persónuupplýsinga um nemendur í tengslum við lögbundin verkefni stofnunarinnar, svo sem frá leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum, sveitarfélögum og frá þeim aðilum sem veita nemendum þjónustu samkvæmt sérlögum.
     Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.

V. KAFLI
Breyting á íþróttalögum, nr. 64/1998.

7. gr.

     Á eftir 3. mgr. 3. gr. a laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Aðila sem fer með framkvæmd lyfjaeftirlits er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, að því marki sem nauðsynlegt er í þeim tilgangi að sinna lyfjaeftirliti, um lyfja- og vímuefnanotkun og heilsufar þegar íþróttamaður fer í lyfjapróf ef grunur leikur á eða ábendingar berast um að hann hafi neytt efna eða beitt aðferðum sem bannaðar eru samkvæmt Alþjóðalyfjaeftirlitinu. Samkeyrsla skráa aðila sem fara með framkvæmd lyfjaeftirlitsins við kennitölur félagakerfis Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands er heimil í tengslum við athugun á meintri lyfja- og vímuefnanotkun, m.a. í tengslum við uppljóstrunarkerfi.

VI. KAFLI
Breyting á bókasafnalögum, nr. 150/2012.

8. gr.

     Á eftir 3. mgr. 15. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Hljóðbókasafni Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna afgreiðslu umsókna um afnot af safninu. Heimil er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, svo sem greiningar og vottorð til staðfestingar á þjónustu við einstaklinga með prentleturshömlun. Safninu er heimil vinnsla persónuupplýsinga sem því berast frá umsækjendum eða frá þriðja aðila í umboði umsækjanda, svo sem frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum og sérfræðingum í lestrargreiningu.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á I. kafla laganna:
  1. Á eftir 2. gr. kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
  2.      Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar vegna beiðna um táknmálstúlkaþjónustu, kennslu táknmáls og máltöku barna og í þágu rannsókna á íslensku táknmáli.
         Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er heimil öflun og miðlun persónuupplýsinga þegar nauðsyn krefur, þ.m.t. til og frá leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og aðilum samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.
         Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð samkvæmt þessu ákvæði.
  3. Fyrirsögn kaflans verður: Markmið, gildissvið og vinnsla persónuupplýsinga.


VIII. KAFLI
Breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.

10. gr.

     Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Vinnsla persónuupplýsinga.
     Rannsóknamiðstöð Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem hún er nauðsynleg í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar umsækjenda með sérstakar þarfir eða fötlun við undirbúning og veitingu styrkja.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  2.      Fjölmiðlanefnd er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem hún er nauðsynleg við athugun á þeim málum sem nefndin vinnur að í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum. Fjölmiðlanefnd er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, kynhneigð og kynhegðun vegna kvartana sem henni berast á grundvelli þess að fjölmiðlaveita hafi brotið gegn grundvallarréttindum einstaklinga um friðhelgi einkalífs og mannréttindum þeirra.
         Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um vinnslu persónuupplýsinga í reglugerð samkvæmt þessu ákvæði.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Málsmeðferð og vinnsla persónuupplýsinga.


X. KAFLI
Breyting á lögum um háskóla, nr. 63/2006.

12. gr.

     Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, svohljóðandi:
     Háskólum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er um umsækjendur og nemendur til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, þ.m.t. vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda í tengslum við inntöku og vegna þeirrar þjónustu sem til þarf skv. 19. gr. Háskólum er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt þykir í tengslum við meint brot sem geta leitt til brottrekstrar nemenda og annarra viðurlaga. Háskólum er heimil vinnsla upplýsinga um þjóðernislegan bakgrunn nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir í þeim tilgangi að styðja við þá og komast hjá brotthvarfi þeirra.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2021.