Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1589, 144. löggjafarþing 456. mál: Menntamálastofnun (heildarlög).
Lög nr. 91 10. júlí 2015.

Lög um Menntamálastofnun.


1. gr.

Hlutverk.
     Menntamálastofnun er stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.
     Menntamálastofnun skal sinna verkefnum á sviði menntamála samkvæmt lögum þessum og því sem ráðherra felur stofnuninni.

2. gr.

Skipulag.
     Ráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og þekkingu á verksviði stofnunarinnar.
     Forstjóri ber ábyrgð á að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf.

3. gr.

Ráðgjafarnefnd.
     Forstjóri hefur sér til ráðuneytis sjö manna ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir án tilnefningar og er annar þeirra formaður, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn samkvæmt tilnefningu Félags íslenskra framhaldsskóla, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu Kennarasambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Heimilis og skóla. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Forstjóri situr fundi með ráðgjafarnefnd.
     Ráðgjafarnefnd skal funda einu sinni á ári og oftar ef þurfa þykir. Formaður nefndarinnar kveður hana saman til fundar.
     Verkefni nefndarinnar er að vera forstjóra til ráðgjafar um langtímastefnumótun um starfsemi stofnunarinnar.

4. gr.

Fagráð.
     Forstjóri skal setja á fót fagráð fyrir helstu verksvið stofnunarinnar sem skipuð skulu sérfróðum aðilum á viðkomandi sviði. Fagráð skulu vera stofnuninni til ráðgjafar og aðstoðar. Ráðherra setur reglugerð um stofnun og starf fagráða.

5. gr.

Verkefni.
     Verkefni Menntamálastofnunar er að stuðla að umbótum og framþróun í skólastarfi með því að:
 1. sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið,
 2. annast söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál,
 3. hafa eftirlit með og meta árangur af skólastarfi og bera saman við sett viðmið,
 4. veita stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar um málefni á verksviði stofnunarinnar,
 5. sinna framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla,
 6. veita ráðherra aðstoð og ráðgjöf við undirbúning laga, reglugerða og aðalnámskráa á sviði menntamála og
 7. annast önnur verkefni sem stofnuninni verða falin með lögum, reglugerðum eða samkvæmt ákvörðun ráðherra.


6. gr.

Sérstök heimildarákvæði.
     Menntamálastofnun er heimilt að:
 1. semja við aðra aðila um afmörkuð verkefni sem stofnuninni er falið að annast enda sé ekki um að ræða starfsemi sem felur í sér vald til að taka ákvarðanir er lúta að réttindum og skyldum aðila,
 2. krefja skóla og rekstraraðila þeirra um upplýsingar og gögn sem stofnunin telur nauðsynleg til að sinna hlutverki sínu á því formi sem óskað er og innan tiltekinna tímamarka; er þeim skylt að verða við slíkri kröfu án þess að taka gjald fyrir; Menntamálastofnun skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað og hvernig úrvinnslu, varðveislu og birtingu niðurstaðna verður háttað; Menntamálastofnun skal hafa samstarf við Hagstofu Íslands um söfnun gagna þar sem það á við og er öðrum stjórnvöldum og stofnunum skylt að afhenda stofnuninni gögn, sem safnað er um fræðslumál, án þess að taka gjald fyrir,
 3. leggja próf og kannanir fyrir nemendur og birta upplýsingar um niðurstöður þeirra eftir skólum, sveitarfélögum, landshlutum og öðrum breytum sem kunna að skýra niðurstöður,
 4. setja og birta reglur um afhendingu námsgagna,
 5. hafa námsgögn sem stofnunin framleiðir og dreifir til skóla einnig til sölu á almennum markaði,
 6. ívilna fámennum skólum en réttur hvers grunnskóla til að fá afhent námsgögn vegna skyldunáms nemenda, sbr. a-lið 5. gr., ræðst af nemendafjölda.


7. gr.

Sértekjur.
     Menntamálastofnun er heimilt að afla sértekna fyrir sérþjónustu við skýrslugerð og þjónustu við skóla, rekstraraðila þeirra, hagsmunasamtök, rannsóknaraðila og aðra gagnabeiðendur, svo og vegna hagnýtingar á upplýsingakerfum stofnunarinnar, þjónustu í því sambandi og fyrir útgefið efni.
     Menntamálastofnun skal birta gjaldskrá á aðgengilegan hátt.

8. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra setur reglugerð þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd laga þessara.

9. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó taka 1. gr. og 4.–7. gr. ekki gildi fyrr en 1. júlí 2015 og á sama tíma falla úr gildi lög um Námsmatsstofnun, nr. 168/2000, með síðari breytingum, og a-liður 2. gr., 3.–5. gr. og 8. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007, með síðari breytingum.

10. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög nr. 90/2008, um leikskóla:
  1. Við 1. mgr. 19. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að taka við upplýsingum samkvæmt grein þessari.
  2. 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
  3.      Ráðuneytið annast greiningu og miðlun upplýsinga um starf leikskóla á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum skv. 19. gr. og með sjálfstæðri gagnaöflun. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast verkefni samkvæmt þessari grein.
  4. 24. gr. laganna orðast svo:
  5.      Sveitarstjórn skal tilkynna ráðuneytinu þegar það stofnar nýjan leikskóla og þegar rekstri leikskóla er hætt. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að taka við tilkynningum samkvæmt þessari grein.
  6. 3. mgr. 25. gr. laganna orðast svo:
  7.      Sveitarstjórn skal tilkynna ráðuneytinu um veitingu rekstrarleyfis sem og ef rekstrarleyfi fellur úr gildi. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að taka við tilkynningum samkvæmt þessari grein.
 2. Lög nr. 91/2008, um grunnskóla:
  1. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
  2.      Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra. Auk þess skal skólastjóri boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári. Heimilt er, með rökstuddri greinargerð, að sækja tímabundið um undanþágu frá ákvæði þessarar málsgreinar til ráðuneytis. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast undanþágur samkvæmt þessari grein. Í greinargerð þarf að koma fram með hvaða hætti verkefnum skólaráðs verður sinnt. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða.
  3. 3. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
  4.      Ráðuneyti er skylt að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt aðalnámskrá. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast þá skyldu.
  5. 1. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
  6.      Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5. og 6. gr., og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að taka við upplýsingum samkvæmt þessari grein.
  7. 1. mgr. 38. gr. laganna orðast svo:
  8.      Ráðuneyti eða Menntamálastofnun í umboði þess annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum skv. 37. gr. og með sjálfstæðri gagnaöflun. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast verkefni samkvæmt þessari grein.
  9. 2.–4. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:
  10.      Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði skulu lögð fyrir alla nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla. Nemendur á unglingastigi, þ.e. í 8.–10. bekk, skulu þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Önnur próf skal halda samkvæmt ákvörðun ráðherra.
        Skólastjóra er heimilt ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta könnunarpróf í einstökum greinum.
        Menntamálastofnun eða annar til þess bær aðili, sem ráðherra ákveður, hefur umsjón með gerð og framkvæmd samræmds námsmats og prófa samkvæmt grein þessari. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats, prófa og rannsókna í grunnskólum og undanþágur nemenda frá samræmdu námsmati samkvæmt þessari grein.
  11. 4. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
  12.      Skólastjóri skal samræma innan hvers skóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, námsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs. Jafnframt skal stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eftir því sem þurfa þykir. Heimilt er, með rökstuddri greinargerð, að sækja um tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum í reglugerð um nemendaverndarráð til ráðuneytis. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að veita undanþágur samkvæmt þessari grein.
  13. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 43. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að veita viðurkenningar.
  14. Við 1. mgr. 46. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að veita viðurkenningar.
  15. Við 2. mgr. 46. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að taka við tilkynningum samkvæmt grein þessari.
 3. Lög nr. 92/2008, um framhaldsskóla:
  1. Orðið „ráðherra“ í 2. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.
  2. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast viðurkenningar samkvæmt þessari grein.
  3. 5. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
  4.      Uppfylli skóli, sem fengið hefur viðurkenningu, ekki skilyrði laga þessara og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast afturkallanir samkvæmt þessari grein.
  5. 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Stjórn skóla, sem hlýtur viðurkenningu ráðherra eða eftir atvikum Menntamálastofnunar á grundvelli 12. gr., ræður skólameistara til að stýra daglegri starfsemi skólans.
  6. 16. gr. laganna orðast svo:
  7.      Til að útskrifast með framhaldsskólapróf skal nemandi hafa lagt stund á nám sem svarar til 90–120 eininga samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu skv. 23. gr.
  8. Orðið „ráðherra“ í 17. gr. laganna fellur brott.
  9. 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
  10.      Til að útskrifast með stúdentspróf frá framhaldsskóla skal nemandi hafa lokið námi með fullnaðarárangri samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu, sbr. 23. gr. Námsbraut til stúdentsprófs skal innihalda að lágmarki 45 námseiningar er skiptast milli náms í kjarnagreinum framhaldsskóla, þ.e. íslensku, stærðfræði og ensku, samkvæmt nánari ákvæðum í aðalnámskrá.
  11. Orðið „ráðherra“ í 19. gr. laganna fellur brott.
  12. 3.–5. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
  13.      Heimilt er ráðherra eða Menntamálastofnun að setja sérstakar reglur um flokkun og þrepaskiptingu náms í samræmi við færni- og lokamarkmið námsins. Setji Menntamálastofnun slíkar reglur eru þær háðar staðfestingu ráðuneytisins.
        Staðfesting á námsbrautarlýsingu er háð því að skilyrðum aðalnámskrár skv. 21. gr. sé fullnægt.
        Ráðherra er heimilt að gefa út námsbrautarlýsingar sem einstakir framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar í starfi sínu. Slíkar viðmiðunarnámskrár eru hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla og geta náð til eftirfarandi námsbrauta:
   1. námsbrauta sem leiða til starfsréttindaprófs, þar á meðal þeirra sem leiða til sveinsprófs,
   2. námsbrauta sem leiða til stúdentsprófs,
   3. annarra námsbrauta sem leiða til prófa og skilgreindra námsloka samkvæmt ákvörðun ráðherra eða eftir atvikum Menntamálastofnunar.

  14. F-liður 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: að veita ráðherra eða eftir atvikum Menntamálastofnun umsögn um námsbrautarlýsingar starfsnáms sem einstakir skólar leita eftir staðfestingu á, sbr. 23. gr.
  15. 2. mgr. 25. gr. laganna orðast svo:
  16.      Ráðherra eða eftir atvikum Menntamálastofnun getur leitað álits starfsgreinaráðs við mat á beiðni skóla um viðurkenningu, sbr. 12. gr.
  17. Við 3. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast framkvæmd þessa.
  18. Við 2. mgr. 42. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að fylgja eftir innra og ytra mati.
  19. 1. mgr. 55. gr. laganna orðast svo:
  20.      Ráðuneytið og Menntamálastofnun í umboði þess annast söfnun og miðlun upplýsinga um skólahald og skólastarf á framhaldsskólastigi sem varða lögbundið eftirlitshlutverk ráðuneytisins. Skulu framhaldsskólar gera ráðuneytinu eða Menntamálastofnun árlega eða oftar, sé þess óskað, grein fyrir framkvæmd skólahalds.
 4. Lög nr. 63/2006, um háskóla:
  1. Orðið „ráðuneytisins“ í 1. gr. laganna fellur brott.
  2. 3. gr. laganna orðast svo:
  3.      Háskóla má reka sem ríkisstofnun, sjálfseignarstofnun eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Ríkisrekinn háskóli er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir ráðherra nema yfirstjórn hennar sé falin öðrum ráðherra með lögum. Háskóli skal ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.
        Ráðherra veitir háskólum viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum laga þessara. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að veita slíka viðurkenningu.
        Ráðherra gefur út reglur um viðurkenningu háskóla sem byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Í þeim skulu tilgreind skilyrði sem háskólar skulu fullnægja til að öðlast viðurkenningu. Skilyrðin lúta að eftirtöldum þáttum:
   1. hlutverki og markmiðum háskóla,
   2. stjórnskipan og skipulagi,
   3. fyrirkomulagi kennslu og rannsókna,
   4. hæfisskilyrðum starfsmanna,
   5. inntökuskilyrðum og réttindum og skyldum nemenda,
   6. aðstöðu kennara og nemenda og þjónustu við þá, þ.m.t. fatlaðra nemenda,
   7. innra gæðakerfi,
   8. lýsingu á inntaki náms út frá þekkingu, leikni og hæfni við námslok,
   9. fjárhag.

        Viðurkenning háskóla er bundin við tiltekin fræðasvið og undirflokka þeirra.
        Háskóli skal sækja um heimild til ráðherra óski hann eftir viðurkenningu til að stunda kennslu eða rannsóknir á öðru fræðasviði en viðurkenning hans nær þegar til. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að veita slíka viðurkenningu. Háskólar geta eingöngu starfað á fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nær til.
        Ráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um umsóknir um viðurkenningu er taki til einstakra fræðasviða. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að skipa nefndina.
        Hyggist háskóli láta af kennslu eða rannsóknum á tilteknu fræðasviði skal ráðuneytinu eða eftir atvikum Menntamálastofnun tilkynnt um það. Hafi ekki verið stunduð kennsla eða rannsóknir í tvö ár samfleytt á fræðasviði, sem viðurkenning háskóla nær til, fellur viðurkenning háskólans á því fræðasviði úr gildi.
        Í viðurkenningu háskóla felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi háskóla sé í samræmi við lög þessi og reglur sem settar kunna að vera með stoð í þeim. Viðurkenning felur ekki í sér að stjórnvöld séu skuldbundin til að veita fé til viðkomandi háskóla. Engri stofnun er heimilt að starfa á Íslandi undir heitinu háskóli nema hún hafi hlotið viðurkenningu ráðherra eða eftir atvikum Menntamálastofnunar.
        Ráðherra skal setja reglur um erlendar þýðingar á heitum þeirra háskóla sem hann veitir viðurkenningu. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að setja slíkar reglur.
  4. Við 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast afturköllun samkvæmt þessari grein.
  5. 4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
  6.      Háskólar skulu leita heimildar ráðherra til að bjóða nám til doktorsprófs. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að veita slíkar heimildir. Skal sýnt fram á að viðkomandi háskóli uppfylli viðeigandi kröfur og skilyrði sem tilgreind eru í reglum um doktorsnám í háskólum. Ráðherra eða Menntamálastofnun, samkvæmt ákvörðun ráðherra, skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um hæfi háskóla til að veita doktorsgráður.
  7. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
  8.      Við undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða skal háskóli senda ráðuneytinu eða Menntamálastofnun, samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra, upplýsingar um hvernig námið uppfyllir viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.
 5. Lög nr. 27/2010, um framhaldsfræðslu:
  1. Við 1. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast söfnun og miðlun upplýsinga samkvæmt þessari grein.
  2. Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast umsjón samkvæmt þessari grein.
  3. 15. gr. laganna orðast svo:
  4.      Heimilt er ráðherra að semja við félag eða fela Menntamálastofnun eða öðrum ríkisaðila umsjón með verkefnum sem tilgreind eru í 6. gr. um vottun námskráa og námslýsinga, í 7. gr. um viðurkenningu fræðsluaðila, í 10. gr. um umsýslu með Fræðslusjóði og í 13. gr. um söfnun og miðlun upplýsinga.
 6. Lög nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla:
  1. 3. tölul. 1. gr. laganna orðast svo: kennir samkvæmt námskrá útgefinni af ráðuneytinu eða námslýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðuneytisins; ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að staðfesta námslýsingu; ef námskrá skortir skal hverjum nemanda veitt kennsla í aðalnámsgrein eina stund á viku; auk þess séu a.m.k. tvær aukanámsgreinar kenndar í hóptímum (tónfræði, tónheyrn, tónlistarsaga og samleikur).
  2. 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
  3.      Ráðuneytið skal hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að fara með verkefni samkvæmt málsgrein þessari.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Frá gildistöku laga þessara er ráðherra heimilt að skipa forstjóra Menntamálastofnunar og verður honum þar með heimilt að undirbúa starfsemi Menntamálastofnunar.
     Embætti og störf þeirra sem eru með ráðningarsamband við Námsgagnastofnun, Námsmatsstofnun og eftir atvikum mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem heyra munu undir Menntamálastofnun við gildistöku laga þessara, verða lögð niður 30. september 2015. Þessum starfsmönnum skal boðið nýtt starf hjá Menntamálastofnun. Þeir kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Við ráðstöfun þessara starfa þarf ekki að gæta að auglýsingaskyldu 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

II.
     Þar sem ákvæði til bráðabirgða I sleppir tekur Menntamálastofnun, frá 1. október 2015, við eigum, réttindum og skyldum Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar.

Samþykkt á Alþingi 1. júlí 2015.