Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. maí 1999.  Útgáfa 123b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

1980 nr. 46 28. maíI. kafli. Tilgangur og gildissvið.
1. gr. Með lögum þessum er leitast við, að
    a. tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu,
    b. tryggja skilyrði fyrir því, að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál, í samræmi við gildandi lög og reglur, í samræmi við ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og í samræmi við ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins.
2. gr. Lög þessi gilda um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn.
Undanþegin lögum þessum eru:
    a. siglingamál og önnur verkefni, sem sérstaklega eru falin [Siglingastofnun Íslands], 1) sbr. lög nr. 51/1970 2) og lög nr. 12/1976 um kafarastörf. 3) Einnig alþjóðasamþykktir, sem Ísland er og verður aðili að og falla undir verksvið [Siglingastofnunar Íslands], 1) þar með talið um gáma, um flutning á hættulegum efnum, um mengun sjávar og fleira,
    b. loftferðir, sbr. lög nr. 34/1964 og lög nr. 71/1974 um breyting á lögum nr. 34/1964 um loftferðir. Einnig alþjóðasamþykktir, sem Ísland er og verður aðili að og falla undir verksvið flugmálastjórnar,
    c. algeng heimilisstörf í einkaíbúðum.
    1)L. 7/1996, 7. gr., sbr. 30. gr. 2)l. 6/1996. 3)l. 31/1996
3. gr. Lög þessi ná til vinnu við loftför á jörðu niðri, nema um störf áhafnar sé að ræða.
Lög þessi ná einnig til fermingar og affermingar skipa, þar með talin fiskiskip, svo og til viðgerða um borð í skipum og starfsemi, sem því er tengd. Lögin ná þó ekki til búnaðar í skipum, sem notaður er í þessum tilgangi. Lögin ná heldur ekki til lögskráðra manna, nema þegar þeir starfa undir verkstjórn úr landi.
Ráðherra getur í samráði við forstjóra Vinnueftirlits ríkisins mælt svo fyrir í reglugerð, 1) að áhöld, vélar og mannvirki eða framkvæmdir, sem lög þessi ná ekki til, skuli vera háð því eftirliti, er lög þessi mæla fyrir um, enda séu viðkomandi atriði ekki háð öðrum lögum.
    1)Rg. 552/1989 (togbrautir fyrir skíðafólk). Rg. 214/1990 (toglyftur). Rg. 215/1990 (stólalyftur). Rg. 453/1991 (vélknúin leiktæki í skemmtigörðum). Rg. 324/1994, 325/1994, 326/1994, 327/1994, 328/1994, 329/1994, 330/1994, 331/1994, 496/1994, 497/1994, 501/1994, 503/1994, 504/1994 og 54/1995. Rg. 557/1995. Rg. 580/1995. Rg. 98/1996. Rg. 99/1996. Rg. 108/1996.

II. kafli. Öryggis- og heilbrigðisstarfsemi innan fyrirtækja. Samskipti atvinnurekenda og starfsmanna.
4. gr. Í fyrirtækjum, þar sem eru 1 til 9 starfsmenn, skal atvinnurekandi og/eða verkstjóri hans stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað, í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og félagslegan trúnaðarmann þeirra, sbr. þó 2. mgr. þessarar greinar.
Forstjóri Vinnueftirlits ríkisins getur þó ákveðið, ef þurfa þykir, að fyrirkomulag það, sem getið er um í 5. gr., gildi einnig fyrir starfshópa, sem getið er í þessari grein, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, sbr. til dæmis 40. og 44. gr. laga þessara.
5. gr. Í fyrirtækjum, þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri, skal atvinnurekandi tilnefna einn aðila af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu tilnefna annan úr sínum hópi öryggistrúnaðarmann. Þeir skulu í samvinnu fylgjast með því, að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lög þessi.
6. gr. Í fyrirtækjum, þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Þessi nefnd skal skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna um þessi efni og hafa eftirlit á vinnustöðum með því, að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum.
Þegar starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins koma í eftirlitsferðir í fyrirtæki, skulu þeir hafa samband við atvinnurekanda eða umboðsmann hans, öryggistrúnaðarmann starfsmanna, félagslegan trúnaðarmann starfsmanna, sbr. 1. mgr. 4. gr., og við öryggisnefndir, þar sem þær eru starfandi. Nefndum aðilum skal auðvelda, svo sem kostur er, að leggja vandamál fyrir Vinnueftirlit ríkisins.
7. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur 1) um skipulag og framkvæmd ráðstafana, er miða að auknu öryggi og bættum aðbúnaði og hollustuháttum innan fyrirtækja, svo sem um stofnun samstarfshópa og öryggisnefnda, um verkefni þeirra og um daglega stjórn þeirrar starfsemi, er lýtur að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum innan fyrirtækja.
    1)Rg. 77/1982.
8. gr. Atvinnurekanda er skylt, ef hann er ekki sjálfur í öryggisnefnd, að skipa í sinn stað aðila með fullu umboði.
Atvinnurekandi skal stuðla að samstarfi þeirra, sem kjörnir eru til þess að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og þeirra, sem annast heilbrigðisþjónustu. Ennfremur skal hann sjá um að þeir, sem til eru kjörnir að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað, og þeir, sem sitja í öryggisnefnd, fái hæfilegan tíma miðað við verkefnasvið, til þess að gegna skyldum sínum við eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi.
Atvinnurekandi skal sjá um, að þeir, sem kjörnir eru til að fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi í fyrirtæki hans, fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Atvinnurekandi skal veita nefndum aðilum hlutdeild í skipulagningu að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.
9. gr. Atvinnurekandi ber kostnað vegna starfs að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi og bætir þeim, sem að því vinna, tekjutap, sem af kann að hljótast.
Öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd njóta þeirrar verndar, sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
10. gr. Vinnueftirlit ríkisins skal sjá um, að þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefst þess, standi viðkomandi fyrirtækjum til boða sérfræðileg þjónusta við störf að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi.

III. kafli. Öryggisnefndir sérgreina.
11. gr. Setja má á fót öryggisnefndir í sérgreinum, sem í sitja fulltrúar atvinnurekenda og starfsmanna, til þess að vinna að lausn vandamála, er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan hverrar sérgreinar.
Nefndir þessar skulu hljóta viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins.
Vinnueftirlit ríkisins getur átt frumkvæði að stofnun slíkra nefnda, ef stjórn stofnunarinnar þykir ástæða til.
Öryggisnefndir sérgreina, sem viðurkenndar hafa verið, geta lagt fram tillögur og látið í ljós álit sitt um nýjar reglur og einstök mál, sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins ákveður að leggja fyrir þær.
Stjórn Vinnueftirlits ríkisins skal, áður en hún gefur álit sitt um reglugerðir, sem fjalla sérstaklega um ákveðnar atvinnugreinar, leita eftir áliti frá viðurkenndri öryggisnefnd viðkomandi sérgreinar.
Öryggisnefndir sérgreina hafa það verkefni að gefa atvinnurekendum og starfsmönnum upplýsingar um þær reglur og ákvæði, sem gilda fyrir viðkomandi sérgrein.
Öryggisnefndir sérgreina geta sent tillögur til stjórnar Vinnueftirlits ríkisins um breytingar á reglum, er fjalla um viðkomandi sérgrein.
Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur að öðru leyti reglur um skipulag, verkefni, starfsemi og fjármögnun öryggisnefnda sérgreina.

IV. kafli. Almennar skyldur.
a. Skyldur atvinnurekenda.
12. gr. Atvinnurekandi merkir í lögum þessum hvern þann, sem rekur atvinnustarfsemi, sbr. 90. gr. laga þessara.
Sé starfsemi, sem lög þessi ná til, rekin af tveim mönnum eða fleiri í sameiningu, telst aðeins einn þeirra atvinnurekandi samkvæmt þessum lögum, en hinn/hinir teljast vera starfsmenn, enda vinni hann/þeir við fyrirtækið. Skal það tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins hver sé talinn atvinnurekandi.
Framkvæmdastjóri fyrirtækis telst atvinnurekandi í merkingu þessara laga.
Sé um opinberan rekstur að ræða, telst atvinnurekandi sá, er umsjón hefur með starfseminni, og skal það tilkynnt Vinnueftirlitinu hver það er.
13. gr. Atvinnurekandi skal tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Sérstaklega er vísað til:
    a. V. kafla um framkvæmd vinnu,
    b. VI. kafla um vinnustaði,
    c. VII. kafla um vélar, tækjabúnað og fleira,
    d. VIII. kafla um hættuleg efni og vörur.
14. gr. Atvinnurekandi skal gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kann að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi skal þar að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af.
Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur um skyldur atvinnurekenda, samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar.
15. gr. Atvinnurekandi skal skýra öryggistrúnaðarmönnum frá fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins og skulu öryggistrúnaðarmenn eiga aðgang að eftirlitsbók og öðrum gögnum, er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað, sbr. 88. gr. laga þessara.
16. gr. Atvinnurekandi skal tryggja, að samstarf um öryggismál, aðbúnað og hollustuhætti, samkvæmt II. kafla þessara laga, geti orðið sem best, og tekur þátt í samstarfi um þessi mál.
17. gr. Þar sem fleiri atvinnurekendur eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, skulu þeir og aðrir, sem þar starfa, sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum.
Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett nánari reglur 1) um það hvernig samstarfi samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skuli fyrir komið.
    1)Rg. 77/1982.
18. gr. Þegar Vinnueftirlit ríkisins krefst þess eða þegar aðstæður að öðru leyti gefa tilefni til þess, skal atvinnurekandi láta gera rannsókn eða úttekt, ef við á, af sérfræðingum, til þess að ganga úr skugga um, hvort starfsskilyrðin fullnægi ákvæðum laga þessara um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, sbr. og 80. gr. laga þessara.
19. gr. Atvinnurekandi skal fullnægja tilkynningaskyldu til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt XII. kafla og halda skrár eftir þeim reglum, sem Vinnueftirlitið setur.
Forstjóri Vinnueftirlits ríkisins getur vegna skýrslugerðar og úrvinnslu úr þeim skýrslum krafist upplýsinga frá atvinnurekanda um:
    a. fjölda starfsmanna, kyn þeirra og aldur,
    b. vélar, vélahluta, geyma, ílát, áhöld, tæki og annan tæknibúnað,
    c. sprengi- og eldfim efni, eiturefni og hættuleg efni,
    d. aðrar upplýsingar, sem þýðingu kunna að hafa varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Í skýrslum, sem unnar eru samkvæmt slíkum upplýsingum, má ekki nefna nöfn einstaklinga eða fyrirtækja.
b. Skyldur verkstjóra.
20. gr. Verkstjóri merkir í lögum þessum hvern þann, sem á vegum atvinnurekenda hefur með höndum verkstjórn og eftirlit með starfsemi í fyrirtæki eða hluta þess.
21. gr. Verkstjóri er fulltrúi atvinnurekanda og sér um, að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustöðum, sem hann hefur umsjón með.
22. gr. Verkstjóri skal taka þátt í samstarfi, er miðar að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustað, sbr. II. kafla laga þessara.
23. gr. Verkstjóri skal beita sér fyrir, að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórnar, séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skal sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfylgt.
Verði verkstjóri var við einhver þau atriði, sem leitt geta til hættu á slysum eða sjúkdómum, skal hann tryggja að hættunni sé afstýrt. Sé ekki hægt að afstýra hættunni með því, sem tiltækt er á staðnum, skal hann umsvifalaust gera vinnuveitanda viðvart. Verkstjóra ber jafnframt að gæta þeirrar skyldu, sem kveðið er á um í 86. gr. laga þessara.
c. Skyldur starfsmanna.
24. gr. Starfsmaður merkir í lögum þessum hvern þann, sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu.
25. gr. Starfsmenn skulu taka þátt í samstarfi er miðar að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustað, sbr. II. kafla laga þessara.
26. gr. Starfsmenn skulu stuðla að því, að starfsskilyrði innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, og einnig að því, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, samkvæmt lögum þessum, sé framfylgt.
Starfsmaður, sem verður var við ágalla eða vanbúnað, sem leitt gæti til skerts öryggis eða lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta, sem hann getur ekki sjálfur bætt úr, skal umsvifalaust tilkynna það öryggisverði, öryggistrúnaðarmanni, verkstjóra eða atvinnurekanda.
27. gr. Ef fjarlægja þarf öryggishlífar eða annað tilsvarandi vegna viðgerðar eða niðursetningar á tæki eða vél, skal sá, sem verkið framkvæmir umsvifalaust setja öryggisbúnað á sinn stað aftur eða gera aðrar ráðstafanir, sem jafngildar eru, að verki loknu.
28. gr. Þeir, sem starfa á vinnustað, þar sem fleiri atvinnurekendur eiga aðild að starfi manna, skulu fara eftir þeim reglum, sem gilda um samstarf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, sbr. 17. og 36. gr. laga þessara, auk þeirra reglna, sem gilda um það starf, sem þeir sjálfir inna af hendi. Þegar starfsmaður er við vinnu utan síns venjulega vinnustaðar, skal hann fara eftir þeim reglum varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, sem gilda fyrir viðkomandi vinnustað, auk þeirra reglna, sem gilda um það verk, sem hann á að vinna.
d. Skyldur þeirra, sem selja, setja upp, gera við og hanna vélar, tæki, áhöld og annan búnað, sem ætlaður er til notkunar við atvinnurekstur.
29. gr. Sá, sem selur, afhendir eða sýnir vélar, vélahluta, geyma, ílát, katla, húseiningar, verkfæri, áhöld, tæki og annað það, sem ætlað er til notkunar við atvinnurekstur, skal tryggja, að það, sem hér um ræðir, sé, þegar það er sýnt eða afhent til notkunar, útbúið með tilskildum hlífðar- og öryggisbúnaði og notkun þess leiði ekki af sér slysa- eða sjúkdómshættu, sbr. VII. kafla laga þessara.
Nauðsynlegar og auðskildar leiðbeiningar á íslensku um meðferð, viðhald, flutning, uppsetningu og frágang skulu fylgja með, þegar viðkomandi hlutir eru afhentir.
Sé einhver sá búnaður, sem talinn er í 1. mgr. þessarar greinar og tilbúinn er til notkunar, afhentur áfram, endurseldur, lánaður út eða leigður, gilda þær reglur, sem að ofan greinir.
Þegar Vinnueftirlit ríkisins krefst þess eða þegar aðstæður að öðru leyti gefa tilefni til, skal innflytjandi eða framleiðandi láta gera rannsóknir, athuganir, mælingar, þrýstiraunir og aðrar þær kannanir, sem nauðsynlegar eru til þess að ganga úr skugga um, að viðkomandi búnaður standist þær kröfur, sem gerðar eru varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. 1)
    1)Sjá rg. 478/1985 og rg. 153/1986, sbr. 424/1987 og 561/1987. Rg. 500/1994.
30. gr. Sérhver vél, sem afhent er eða sýnd hér á landi, skal vera greinilega og varanlega merkt framleiðanda og sé um innflutta vél að ræða, skal hún einnig merkt nafni og heimilisfangi þess, sem flytur vélina inn, eða merkt á annan þann hátt, að auðvelt sé að komast að raun um, hver sé framleiðandi vélarinnar, og þegar við á, hver sé innflytjandinn.
31. gr. Sá, sem tekur að sér að setja upp, breyta eða gera við vélar, tæki eða annan búnað, skal fara eftir þeim reglum og fyrirmælum, sem gilda fyrir viðkomandi tæki, vélar eða annan búnað.
Taki viðgerð aðeins til eins eða nokkurra hluta vélar eða tækis, skal sá, sem verkið framkvæmir, fara eftir þeim reglum og fyrirmælum, sem gilda fyrir hvern einstakan hluta tækis eða vélar.
Verði sá, sem setur upp, breytir eða gerir við tæki, vélar eða annan búnað, var við einhverja ágalla eða vanbúnað, sem þýðingu kynni að hafa að því er varðar aðbúnað, heilsu eða öryggi manna, skal hann umsvifalaust gera eigandanum eða þeim, sem notar tækið, viðvart.
32. gr. Þeir, sem annast hönnun á þeim búnaði, sem talinn er í 1. mgr. 29. gr., framleiðslusamstæðum, húsnæði vinnustaða og hverjum þeim mannvirkjum öðrum, sem ætluð eru til notkunar vegna atvinnurekstrar, skulu við hönnunarstarf taka tillit til góðs aðbúnaðar, hollustuhátta og öryggis, hvað varðar starf og rekstur í þeim byggingum og mannvirkjum, sem um er að ræða.
Fylgja skal þeim lögum og reglum, 1) sem á hverjum tíma gilda um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um þá, sem taka að sér ráðgjafarstörf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
    1)Rg. 478/1985 og 500/1994.
33. gr. Ákvæðin í 29. gr., 30. gr., 32. gr. og 2. mgr. 34. gr. gilda einnig um þá, sem útvega, selja eða afhenda efni eða vörur, sem geta verið hættuleg eða á annan hátt dregið úr öryggi eða valdið sjúkdómshættu.
34. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur 1) um þau atriði, sem um er fjallað í 29.–33. gr.
Ákvæðin í 29.–33. gr. leysa notandann ekki undan neinum skyldum samkvæmt lögum þessum.
    1)Rg. 491/1987, 492/1987, 90/1989, 453/1991, 324/1994, 325/1994, 326/1994, 327/1994, 328/1994, 329/1994, 330/1994, 331/1994, 496/1994, 503/1994, 504/1994 og 580/1995. Rg. 98/1996. Rg. 99/1996. Rg. 377/1996. Rg. 379/1996. Rg. 380/1996. Rg. 382/1996. Rg. 383/1996. Rg. 118/1998. Rg. 140/1998.
35. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur, þegar sérstaklega stendur á, sett reglur 1) eða tekið ákvarðanir, sem víkja frá kröfunum í 29.–33. gr. Slíkar ákvarðanir getur forstjóri Vinnueftirlits ríkisins tekið í algerum undantekningartilvikum, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
    1)Rg. 580/1995.
e. Skyldur verktaka og fleiri.
36. gr. Ef fleiri en einn verktaki starfa við mannvirkjagerð samtímis, skal byggingarstjóri, ef hann er til staðar, en annars byggingarmeistari, sjá um, að samhæfðar séu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slys eða óhollustu.
Ákvæði þetta rýrir ekki að neinu leyti skyldur einstakra framkvæmdaaðila sem atvinnurekenda samkvæmt lögum þessum.
Stjórn Vinnueftirlits ríkisins skal setja nánari reglur um þessi atriði.

V. kafli. Framkvæmd vinnu.
37. gr. Vinnu skal haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.
Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.
38. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur 1) um, hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, svo sem:
    a. um öryggis- og heilbrigðisráðstafanir, er varða störf, starfsaðferðir, vinnslu- og framleiðsluaðferðir, t.d. til þess að koma í veg fyrir hrun, fall, skrið, titring, hávaða, sprengi- og brunahættu eða heilsuvá vegna geislunar, eitraðra eða hættulegra efna, gastegunda, gufu, reyks eða annarrar loftmengunar, hita, kulda, ódauns, sýkingar af smitnæmum sjúkdómum eða heilsutjón vegna rangrar stöðu við vinnu, rangra hreyfinga eða of mikils álags og um aðrar þær ráðstafanir, sem þýðingu kynnu að hafa í þessu sambandi,
    b. um bann gegn sérlega hættulegum störfum, framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum,
    c. um að settar skuli upp á vinnustað greinilegar aðvaranir og/eða vinnusvæði girt eða afmörkuð með öðrum hætti,
    d. um gerð og notkun hlífðarbúnaðar, svo sem um hentugan fatnað, öryggishjálma, hlífðarbúnað gegn hávaða og geislun, hlífðargleraugu, vinnuskó, rykgrímur, gasgrímur, annan búnað til þess að verjast loftmengun og annan búnað ótalinn. Starfsmenn eru skyldir til þess að nota slíkan öryggisbúnað, þegar þeir, að mati Vinnueftirlits ríkisins, þarfnast hans við vinnu sína.
    1)Rg. 478/1985; 491/1987; 492/1987; 493/1987; 90/1989; 453/1991; 430/1992; 324/1994; 325/1994; 326/1994; 327/1994; 328/1994; 329/1994; 330/1994; 331/1994; 496/1994; 497/1994; 498/1994; 499/1994; 500/1994; 501/1994, sbr. 690/1998; 503/1994; 504/1994; 578/1995; 580/1995; 581/1995; 621/1995; 698/1995; 699/1995; 707/1995; 98/1996; 99/1996; 108/1996; 377/1996; 382/1996; 383/1996; 496/1996; 498/1996; 547/1996; 552/1996; 553/1996; 554/1996, sbr. 529/1998; 80/1998; 118/1998; 140/1998 og 228/1998.
39. gr. Þar sem aðstæður með tilliti til heilbrigðis og öryggis starfsmanna krefjast þess, skal stjórn Vinnueftirlits ríkisins hlutast til um, að hlutaðeigandi fyrirtæki geri áætlanir um framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðir.
Slíkar áætlanir og breytingar á þeim skulu kynntar öryggisnefndum, áður en þær eru framkvæmdar.
40. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur reglur um:
    a. að störf, sem í kann að vera falin veruleg hætta á slysum, eitrunum eða sjúkdómum, verði aðeins framkvæmd af einstaklingum, sem fengið hafa tiltekna fræðslu, þjálfun, lokið hafa sérstöku prófi og/eða náð hafa ákveðnum aldri,
    b. ráðningu manna, sem er líkamlega eða andlega áfátt, til ákveðinna starfa, þegar bæklun þeirra, sjúkdómur eða aldur getur leitt til aukinnar slysa- eða sjúkdómshættu,
    c. takmarkanir á eða bann við, að starfsmenn vinni einir að tilteknum verkefnum eða störfum,
    d. vinnu- og hvíldartíma bifreiðastjóra, sem að staðaldri flytja fólk, og stjórnenda þeirra véla og tækja, sem mönnum getur stafað sérstök hætta af, sbr. 58. gr. laga þessara,
    e. önnur hliðstæð tilvik ótalin.

VI. kafli. Vinnustaður.
41. gr. Vinnustaður merkir í lögum þessum umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna.
42. gr. Vinnustaður skal þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.
Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.
43. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur reglur 1) um fyrirkomulag fastra og bráðabirgðavinnustaða, innan húss og utan, sem m.a. fjalla um:
    a. húsnæði, svo sem vinnurými, lofthæð, loftrými, gólf, veggi, loft, lýsingu, hita, loftræstingu og loftskipti, varnir gegn hávaða, titringi, geislun og fleira,
    b. aðbúnað starfsmanna og fleira, svo sem setu- og matsali, kaffistofur, búningsherbergi, fatageymslur og fatahengi, salerni og þvagstæði, þvotta- og baðherbergi, svo og um gæðakröfur og staðla slíks húsnæðis,
    c. neyðarútgang frá vinnustað, svo og umferðarleiðir innan vinnusvæða, svo sem göngubrautir, stiga og útgönguleiðir,
    d. annað ótalið, sem stuðlað getur að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi.
    1)Rg. 478/1985 og 493/1987, sbr. 430/1992. Rg. 500/1994. Rg. 581/1995.
44. gr. Þar sem sérstakar aðstæður með tilliti til öryggis og heilbrigðis starfsmanna krefjast þess, setur stjórn Vinnueftirlits ríkisins sérstakar reglur 1) um, að áætlanir og hönnunargögn vegna nýbygginga eða breytinga á tiltekinni starfsemi, uppsetningu á húshlutum, vélum, tækjum eða öðrum búnaði skuli lagðar fyrir Vinnueftirlit ríkisins til umsagnar eða samþykktar, áður en breyting eða uppsetning er gerð.
    1)Rg. 493/1987, sbr. 430/1992. Rg. 581/1995.

VII. kafli. Vélar, tækjabúnaður og fleira.
45. gr. Aflvél merkir í lögum þessum vél, eða hluta vélar, sem breytir einu orkuformi í annað.
Farandvél merkir í lögum þessum tæki, sem getur flutt sig úr stað með eigin aflvél.
Vinnuvél merkir í lögum þessum tæki, sem knúið er af aflvél og hægt er að vinna með nánar tiltekin störf.
Farandvinnuvél merkir í lögum þessum tæki, sem er hvort tveggja í senn farandvél og vinnuvél.
Búvél merkir í lögum þessum hvers konar áðurnefndar vélar, sem notaðar eru við bústörf.
46. gr. Vélar, vélahlutar, ílát, geymar, katlar, áhöld, tæki, virki hvers konar og húshlutar, samstæður og annar búnaður skal þannig úr garði gerður, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.
Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.
47. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur 1) um gerð og notkun véla, tækja og annars búnaðar, sem nota á við atvinnurekstur, svo sem um:
    a. gerð, útfærslu, uppsetningu, tilkynningarskyldu og prófanir,
    b. á hvern hátt eða hvort leggja skuli fyrir Vinnueftirlitið til umsagnar eða samþykktar áætlanir eða önnur gögn um gerð, framleiðslu eða uppsetningu slíks búnaðar,
    c. notkun, viðhald og gæslu slíks búnaðar.
    1)Rg. 475/1985; 476/1985; 492/1987; 90/1989; 153/1986, sbr. 424/1987; 561/1987; 453/1991; 324/1994; 325/1994; 326/1994; 327/1994; 328/1994; 329/1994; 330/1994; 331/1994; 496/1994; 500/1994; 501/1994, sbr. 690/1998; 503/1994; 504/1994 og 580/1995. Rg. 616/1995. Rg. 98/1996. Rg. 99/1996. Rg. 108/1996. Rg. 377/1996. Rg. 380/1996. Rg. 382/1996. Rg. 383/1996. Rg. 164/1997. Rg. 118/1998. Rg. 140/1998.
48. gr. Vinnueftirlit ríkisins getur lagt bann við framleiðslu, innflutningi, sölu, afhendingu, notkun og auglýsingum á sérlega hættulegum búnaði.
49. gr. Hvers konar vélar, tæki og búnað, sem getið er um í 46. gr., nema bifreiðar og vélar, sem lúta öðrum lögum, skal skrá og skoða samkvæmt nánari fyrirmælum í reglum, 1) sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur í samráði við forstjóra Vinnueftirlitsins.
Um greiðslur fyrir skráningu og skoðun farandvéla, farandvinnuvéla og búvéla skal Vinnueftirlit ríkisins semja gjaldskrá, 2) sem félagsmálaráðuneytið staðfestir.
Stjórn Vinnueftirlitsins setur reglur 3) um kennslu, þjálfun og próf, er gefi til kynna næga hæfni og þekkingu þeirra aðila, sem óska eftir leyfi til að mega stjórna eða fara með tilteknar vélar, enda sé ekki kveðið á um slík leyfi í öðrum lögum.
    1)Rg. 153/1986, sbr. 424/1987 og 561/1987. Rg. 203/1972, sbr. 62/1988. Rg. 198/1983, sbr. 300/1995. 2) Gjaldskrá 433/1996. 3)Rg. 198/1993, sbr. 21/1999.

VIII. kafli. Hættuleg efni og vörur.
50. gr. Efni og vörur, sem geta verið hættuleg eða á annan hátt stofnað heilsu og öryggi manna í voða, þar með talin sprengi- og eldfim efni og sprengiefni, má aðeins framleiða eða nota við framleiðslu eða á annan hátt á vinnustað, ef þeim framleiðslu-, starfs- og vinnsluaðferðum er beitt, sem tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, eitrunum og sjúkdómum.
Nauðsynlegar og auðskildar leiðbeiningar á íslensku skulu fylgja með, um meðferð, viðhald, flutning, uppsetningu og frágang, þegar viðkomandi hlutir eru afhentir.
Við framleiðslu, geymslu, merkingu, flutning og notkun skal fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar hollustuhætti og öryggi.
51. gr. Vinnueftirlit ríkisins gefur út leiðbeiningar 1) um framleiðslu, umbúðir, áfyllingu, merkingu, meðferð, geymslu, flutning og notkun efna og vara, sem geta verið hættuleg, dregið verulega úr öryggi eða leitt geta til lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta.
Vinnueftirlit ríkisins getur bannað 1) framleiðslu, flutning og notkun hættulegra efna og vara. Sama gildir um efni og vörur, þegar ekki liggja fyrir, að mati stofnunarinnar, fullnægjandi upplýsingar um innihald, samsetningu, meðferð, notkun eða vörslu þeirra.
Framkvæmd ákvæða þessarar greinar skal gerð í samráði við viðkomandi heilbrigðisyfirvöld og/eða aðra sérfróða aðila, sem um þessi mál fjalla.
    1) Augl. 382/1991. Rg. 578/1995, 698/1995, 379/1996, 496/1996 og 498/1996.

IX. kafli. Hvíldartími og frídagar.
52. gr. Vinnutíma skal haga þannig, að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn a.m.k. [11 klukkustunda] 1) samfellda hvíld.
Samfelldan hvíldartíma má stytta í 8 klukkustundir, með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd, þegar um er að ræða:
    a. vaktavinnu,
    b. störf að landbúnaði,
    c. björgun verðmæta frá skemmdum, svo sem sjávarafla.
    1)L. 52/1997, 1. gr.
53. gr. Verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna, svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilunar í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra tilsvarandi ófyrirséðra atburða, má víkja frá ákvæðum 52. gr., að því marki sem nauðsynlegt er, til þess að koma í veg fyrir verulegt tjón, þar til regluleg starfsemi hefur komist á að nýju.
Aðilar vinnumarkaðarins skulu gera með sér samkomulag um framkvæmd slíkra frávika.
54. gr. Vinnueftirlit ríkisins getur veitt undanþágur frá ákvæðum 52. gr., þegar:
    a. starfið er þess eðlis, að ekki er hægt að stöðva starfsemina,
    b. sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg.
Aðilar vinnumarkaðarins skulu gera með sér samkomulag um slíka vinnuframkvæmd.
Frávik frá samfelldri hvíld má gera í undantekningartilvikum, án þess að slíkt leyfi hafi verið fengið, ef ekki hefur verið unnt að afla þess í tæka tíð.
Atvinnurekandi skal tilkynna slík frávik tafarlaust til Vinnueftirlits ríkisins.
Samkomulag aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd 52., 53. og 54. gr. skal tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins, sem bannar styttingu hvíldartímans, ef það telur hættu stafa af lengingu vinnutímans.
55. gr. Á hverju sjö daga tímabili skulu starfsmenn fá a.m.k. einn vikulegan frídag, sem tengist beint samfelldum daglegum hvíldartíma, sbr. 52. gr.
Að svo miklu leyti sem því verður við komið, skal vikulegur frídagur vera á sunnudegi og að svo miklu leyti sem því verður við komið, skulu allir þeir, sem starfa í fyrirtækinu, fá frí á þeim degi.
Ef nauðsyn krefur má fresta vikulegum frídegi og gefa þess í stað frí síðar:
    a. þeim sem starfa í heilbrigðis- og vistunarstofnunum eða við önnur hjúkrunar- og líknarstörf,
    b. þeim sem vinna við vörslu dýra og gróðurs,
    c. þeim sem annast framleiðslu- og þjónustustörf, þar sem sérstakar aðstæður gera slík frávik nauðsynleg,
    d. þeim sem annast þau störf, sem nauðsynleg eru vegna öryggismála og varðveislu verðmæta.
Ennfremur má veita frávik, þegar ytri aðstæður, svo sem veður og önnur náttúruöfl, slys, orkuskortur, bilun á vélum, tækjum eða öðrum búnaði, eða aðrir tilsvarandi ófyrirséðir atburðir trufla eða hafa truflað rekstur.
Aðilar vinnumarkaðarins skulu gera með sér samkomulag um framkvæmd þessarar greinar.
56. gr. Vinnueftirlit ríkisins getur veitt undanþágu frá 1. mgr. 55. gr. þegar:
    a. ekki er hægt að gera hlé á vinnu vegna eðlis hennar,
    b. sérstakir starfshættir valda því, að slík frávik eru nauðsynleg.
Frávik að því er varðar einstakan frídag má þó gera, án þess að slíkt leyfi hafi verið fengið, ef ekki hefur verið unnt að afla þess í tæka tíð. Atvinnurekandi skal tilkynna slík frávik tafarlaust til Vinnueftirlits ríkisins.
Aðilar vinnumarkaðarins skulu gera með sér samkomulag um framkvæmd 1. mgr. þessarar greinar.
Þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur Vinnueftirlit ríkisins ákveðið tímabundnar undanþágur frá ákvæðunum um vikulega frídaga, skv. 55. gr.
57. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett reglur um það, hvenær megi víkja frá reglunum um vikulegan frídag, með samkomulagi við þá aðila, sem hlut eiga að máli.
58. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett reglur um takmörkun vinnutíma við störf, sem geta verið hættuleg heilsu manna eða öryggi.

X. kafli. Vinna barna og unglinga.
59. gr. [Ákvæði þessa kafla gilda um vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Ákvæði kaflans gilda ekki um tilfallandi vinnu eða vinnu sem varir í skamman tíma að því er varðar heimilisaðstoð á einkaheimilum eða vinnu í fjölskyldufyrirtækjum sem hvorki telst skaðleg né hættuleg ungmennum.
Ungmenni merkir í lögum þessum einstakling undir 18 ára aldri. Barn merkir í lögum þessum einstakling sem er undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi. Unglingur merkir í lögum þessum einstakling sem er minnst 15 ára að aldri en hefur ekki náð 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi.] 1)
    1)L. 52/1997, 2. gr.
60. gr. [Börn má ekki ráða til vinnu.
Heimilt er að víkja frá meginreglu 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
    a. Börn er heimilt að ráða til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
    b. Heimilt er að ráða börn 14 ára og eldri til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
    c. Heimilt er að ráða börn sem náð hafa 14 ára aldri til starfa af léttara tagi. Börn, sem náð hafa 13 ára aldri, má ráða til starfa af léttara tagi í takmarkaðan stundafjölda á viku, svo sem léttra garðyrkju- og þjónustustarfa og annarra hliðstæðra starfa.] 1)
    1)L. 52/1997, 3. gr.
61. gr. [Unglinga er heimilt að ráða til vinnu með þeim takmörkunum sem greinir í kafla þessum.] 1)
    1)L. 52/1997, 4. gr.
62. gr. [Óheimilt er að ráða ungmenni til vinnu sem unnin er við eftirfarandi aðstæður:
    a. Vinnu sem líklega er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra.
    b. Vinnu sem líklega veldur varanlegu heilsutjóni.
    c. Vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun.
    d. Vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun.
    e. Vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu þeirra vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings.
Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði þegar það er nauðsynlegt vegna starfsnáms unglinga.] 1)
    1)L. 52/1997, 5. gr.
63. gr. [Virkur vinnutími barna, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., er takmarkaður með eftirfarandi hætti:
    a. Átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku ef vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
    b. Tvær klukkustundir á skóladegi og 12 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Daglegur vinnutími má þó aldrei vera lengri en sjö klukkustundir. Þó má daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri vera átta klukkustundir.
    c. Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á tíma sem skólinn starfar ekki. Daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri má þó vera átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
    d. Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu af léttara tagi sem unnin er af börnum sem eru ekki lengur í skyldunámi.
Virkur vinnutími unglinga er takmarkaður við átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. mgr. greinar þessarar í sérstökum tilvikum eða ef réttmætar ástæður leyfa.
Ef daglegur, virkur vinnutími er lengri en fjórir tímar á barn og unglingur rétt á minnst 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.] 1)
    1)L. 52/1997, 6. gr.
[63. gr. a. Óheimilt er að láta börn, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6. Óheimilt er að láta unglinga vinna á tímabilinu frá kl. 22 til kl. 6.
Heimilt er að víkja frá ákvæði 2. málsl. 1. mgr. þessarar greinar á sérstökum starfssviðum, enda skal fullorðinn einstaklingur hafa umsjón með unglingnum ef þörf er á slíkri umsjón til verndar honum. Þó er óheimilt að láta ungling vinna á tímabilinu frá kl. 24 til kl. 4.
Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. greinar þessarar þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Undanþága þessi á við þegar um er að ræða vinnu á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum og störf á sviði menningarmála, lista, íþrótta eða auglýsinga.
Unglingar eiga, áður en þeir hefja næturvinnu og með reglulegu millibili eftir það, rétt á heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni sinni sér að kostnaðarlausu, nema þeir vinni einungis í undantekningartilvikum á þeim tíma sem vinna er bönnuð. Framkvæmd slíkrar skoðunar er á ábyrgð viðkomandi atvinnurekanda.] 1)
    1)L. 52/1997, 7. gr.
[63. gr. b. Börn, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., skulu fá minnst 14 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Unglingar skulu fá minnst 12 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring.
Á hverju sjö daga tímabili skulu börn sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr. laga þessara og unglingar fá minnst tveggja daga hvíldartímabil sem skal vera samfellt ef kostur er. Lágmarkshvíldartími þessi skal að jafnaði taka til sunnudags.
Heimilt er að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. greinar þessarar þegar um er að ræða vinnu sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni.
Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. greinar þessarar þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Undanþága þessi á við þegar um er að ræða vinnu á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum, störf á sviði landbúnaðar, ferðamála eða í hótel- og veitingarekstri og vinnu sem er skipt upp yfir daginn.] 1)
    1)L. 52/1997, 8. gr.
[63. gr. c. Í óviðráðanlegum tilvikum (force majeure) sem atvinnurekandi fær ekki stjórnað er heimilt að víkja frá ákvæðum laga þessara um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga að því tilskildu að um sé að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið, ekki sé unnt að fá fullorðna starfsmenn til starfans og unglingarnir fái samsvarandi uppbótarhvíldartíma á næstu þremur vikum.] 1)
    1)L. 52/1997, 9. gr.
[63. gr. d. Börn í skyldunámi, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., eiga rétt á að fá leyfi árlega einhvern tíma á meðan á skólafríi stendur.] 1)
    1)L. 52/1997, 10. gr.
[63. gr. e. Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og heilbrigði ungmenna með gerð mats á áhættu sem starf getur skapað þeim. Þetta mat skal fara fram áður en ungmenni hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum. Sýni matið að öryggi, líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska ungmennis geti verið stofnað í hættu skal atvinnurekandi sjá til þess að reglulega fari fram viðeigandi skoðun og eftirlit með heilsu ungmennanna þeim að kostnaðarlausu.] 1)
    1)L. 52/1997, 11. gr.
[63. gr. f. Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um leyfisveitingar skv. a-lið 2. mgr. 60. gr., heimild til að ráða börn 14 ára og eldri til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi skv. b-lið 2. mgr. 60. gr., hvað teljist störf af léttara tagi og við hvaða skilyrði þau skuli unnin skv. c-lið 2. mgr. 60. gr., skilyrði og takmörk vegna frávika skv. 3. mgr. 63. gr., frávik skv. 2. og 3. mgr. 63. gr. a og 2.–4. mgr. 63. gr. b og um framkvæmd 62. gr., 63. gr. c og 63. gr. e.] 1)
    1)L. 52/1997, 12. gr.

XI. kafli. Heilsuvernd, læknisskoðanir og aðrar rannsóknir.
64. gr. Rækja skal atvinnusjúkdómavarnir í samræmi við ákvæði laga þessara og laga um heilbrigðisþjónustu í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.
65. gr. Heilsuvernd starfsmanna merkir í lögum þessum þjónustu, sem komið er á fót, til þess að:
    a. stuðla að því, að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni, sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
    b. stuðla að því, að vinnu sé hagað þannig, að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,
    c. stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.
66. gr. Heilsuvernd starfsmanna skal falin þeirri heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi, sem næst liggur og/eða auðveldast er að ná til, sbr. 19. gr. laga nr. 57/1978.
Hvert fyrirtæki skal gera skriflegan samning við stjórn viðkomandi heilbrigðisstofnunar (stofnana) um fyrirkomulag og framkvæmd þeirrar þjónustu, sem veita skal. Vinnueftirlit ríkisins skal sjá um, að slíkir samningar séu gerðir, og hlutast til um að skorið sé úr ágreiningi, er upp kann að koma milli heilsugæslustöðvar, sjúkrahúss og atvinnurekanda.
67. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins skal í samráði við heilbrigðisyfirvöld setja reglur 1) um, að starfsmenn skuli gangast undir læknisskoðun, áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á, eftir að þeir eru hættir störfum, ef starfsskilyrði eru/voru slík að mati stjórnarinnar, að heilsutjón gæti hlotist af, enda sé ástæða til þess að ætla, að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma.
Í reglum þessum skal nánar kveðið á um, í hverju læknisskoðun skuli fólgin og hverjar mælingar eða aðrar rannsóknir skuli framkvæma. Taka skal tillit til starfsumhverfis. Hægt er að setja slíkar reglur fyrir einstaka vinnustaði og/eða starfsgreinar. Kveða skal á um, hvort slíkar skoðanir, mælingar eða rannsóknir skuli vera reglubundnar og hversu tíðar þær skuli vera.
Ákvarðanir um læknisskoðanir, mælingar og aðrar rannsóknir skal taka í samráði við sérfræðinga og stofnanir á viðkomandi sviðum læknisfræðinnar.
Reglur, sem settar eru samkvæmt þessari grein, skulu sendar landlækni til umsagnar.
    1)Rg. 478/1985 og 500/1994.
68. gr. Vinnueftirlit ríkisins skal hafa í þjónustu sinni lækni og skal hann vera sérmenntaður embættislæknir eða hafa jafngilda menntun til starfsins.
Verkefni hans er:
    a. að vera tengiliður Vinnueftirlits ríkisins við heilbrigðisyfirvöld,
    b. að veita forstöðu atvinnusjúkdóma- og heilsugæsludeild, sbr. 73. gr. laga þessara,
    c. að sjá um, að haldin sé skrá yfir atvinnusjúkdóma, vinnuslys og eitranir, sbr. 78. gr., staflið f og 81. gr. laga þessara,
    d. að vinna að þeim málum öðrum, er snerta heilbrigði og heilsuvernd starfsmanna, eftir nánari ákvörðun stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.
69. gr. Atvinnurekandi skal tryggja, að heilsuverndareftirlit, læknisskoðanir, mælingar og rannsóknir valdi ekki tekjutapi starfsmanna.
Starfsmönnum og fyrrverandi starfsmönnum ber skylda til að gangast undir eftirlit, skoðanir, mælingar og rannsóknir samkvæmt reglum þeim, 1) sem gilda á hverjum tíma.
    1)Sbr. rg. 478/1985 og 500/1994.
70. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins getur sett sérstakar reglur um læknisskoðun barna og unglinga undir 18 ára aldri, þegar þau hefja störf. Í þessum tilvikum gildir 67. gr. laga þessara. Sérstaka skoðun má fella niður, ef fyrir liggur nýtt vottorð skólalæknis um það, að hann hafi skoðað viðkomandi og ekki sé vitað til að hann hafi eða hafi áður haft neinn þann sjúkdóm, sem geti haft áhrif á öryggi hans eða heilbrigði í tilteknu starfi.
71. gr. Ef einstakir starfsmenn eða hópar manna vinna við skilyrði, er talist geta varasöm heilsu þeirra eða öryggi, skal Vinnueftirlit ríkisins hlutast til um, að jafnframt eftirliti með starfsmönnum sé veitt aukin fræðsla um þá slysa- og/eða sjúkdómshættu, sem kann að vera bundin við starfsumhverfi þeirra, sbr. 14. gr. og 78. gr., staflið e, laga þessara.
72. gr. Séu af hálfu þeirra aðila, sem fara með gæðaeftirlit á vinnustöðum vegna matvælaframleiðslu, gerðar aðrar kröfur en þær, sem Vinnueftirlit ríkisins gerir um læknisskoðun og aðrar rannsóknir með tilliti til heilbrigðis starfsmanna, skal stjórn Vinnueftirlits taka tillit til slíkra sérþarfa við ákvörðun á umfangi læknisskoðunar og annarra rannsókna.

XII. kafli. Vinnueftirlit ríkisins.
73. gr. Vinnueftirlit er eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum. Það eftirlit er í höndum sérstakrar stofnunar, sem nefnist Vinnueftirlit ríkisins.
Félagsmálaráðherra fer með þessi mál.
Vinnueftirlit ríkisins er sjálfstæð stofnun.
Ráðherra er heimilt að skipta stofnuninni í deildir að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar.
Ráðherra skal setja reglur um skiptingu landsins í eftirlitsumdæmi að fengnum tillögum stjórnar og forstjóra stofnunarinnar.
Ráðherra setur með reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd á lögum þessum.
    1)Rg. 153/1986, sbr. 424/1987 og 561/1987. Rg. 431/1997. Rg. 433/1997. Rg. 679/1998.
74. gr. Ráðherra skipar stjórn stofnunarinnar þannig: Þrjá stjórnarmenn tilnefnda af Alþýðusambandi Íslands, tvo stjórnarmenn tilnefnda af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn stjórnarmann tilnefndan af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, einn stjórnarmann tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn stjórnarmann tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn stjórnarmann án tilnefningar. Varamenn í stjórnina skulu skipaðir á sama hátt.
Ráðherra skipar formann stjórnar úr hópi stjórnarmanna og ákveður stjórnarlaun. Skipun stjórnar skal vera til fjögurra ára í senn.
75. gr. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins hefur með höndum stjórn stofnunarinnar, markar henni stefnu og starfssvið í samræmi við lög og fer, ásamt forstjóra, með tengsl stofnunarinnar við félagsmálaráðuneytið.
76. gr. [Ráðherra skipar forstjóra Vinnueftirlits ríkisins til fimm ára í senn og setur honum erindisbréf, hvort tveggja að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar.] 1)
Forstjóri sér um daglega stjórn stofnunarinnar. Hann skal gera tillögur til stjórnarinnar um starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á fjárreiðum stofnunarinnar.
Forstjóri ræður starfslið stofnunarinnar … 1)
Forstjóri stofnunarinnar situr stjórnarfundi og ennfremur aðrir starfsmenn stofnunarinnar, þegar við á. Þeir skulu hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
    1)L. 83/1997, 34. gr.
77. gr. Til þess að standast kostnað af framkvæmd laga þessara skulu fyrirtæki þau, er lög þessi gilda um, greiða í ríkissjóð iðgjöld, sem innheimt skulu ásamt slysatryggingagjaldi, sbr. lög um almannatryggingar.
Iðgjöld skulu reiknast af sama stofni og slysatryggingaiðgjald, sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Hundraðshluti iðgjalds skal ákveðinn með reglugerð 1) fyrir eitt ár í senn, með hliðsjón af fjárhagsáætlun Vinnueftirlits ríkisins, ásamt leiðréttingu vegna tekjuafgangs eða tekjuhalla næsta reikningsárs á undan.
Aðrar tekjur stofnunarinnar eru skrásetningar- og eftirlitsgjöld samkvæmt 1. mgr. 49. gr. og gjöld fyrir aukaþjónustu samkvæmt 4. mgr. 80. gr.
    1)Rg. 480/1983, sbr. 239/1989 og 232/1990.
78. gr. Vinnueftirlit ríkisins hefur það verkefni að:
    a. leiðbeina fyrirtækjum, öryggisnefndum, öryggisnefndum sérgreina, aðilum vinnumarkaðarins og opinberum aðilum um mál er varða starfsumhverfi,
    b. aðstoða félagsmálaráðuneytið við undirbúning á reglugerðum í samræmi við lög þessi,
    c. gefa út reglur og leiðbeiningar í samræmi við lög þessi,
    d. afla og viðhalda þekkingu um félagslega og tæknilega þróun í þeim tilgangi að stuðla að því að efla öryggi og bæta hollustuhætti í starfsumhverfi,
    e. veita, í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, fræðslu og upplýsingar varðandi hættur á vinnustöðum og varnir gegn þeim, svo og um nýja tækni og þekkingu, sem stuðlað getur að umbótum á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum,
    f. sjá um að haldin sé skrá yfir hvers konar sjúkdóma, sem ætla má, að eigi orsakir í starfsumhverfi, tíðni þeirra og útbreiðslu. Vinnueftirlitið skal m.a. á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga eiga frumkvæði að því, að rannsóknir verði framkvæmdar af viðeigandi stofnunum á hinum ýmsu tegundum atvinnusjúkdóma, svo og fylgjast með, að aðgerðir séu viðhafðar til varnar gegn og lækningar á þeim,
    g. fjalla um öryggisþætti í áætlunum um vinnslu- og framleiðsluaðferðir, vinnustaði, tækni- og tækjabúnað og fleira. Einnig um notkun efna, þegar í lögum eða reglugerðum er mælt svo fyrir, að leyfi Vinnueftirlits ríkisins þurfi til,
    h. hafa eftirlit með og sjá um, að lögunum og þeim reglum, sem settar eru samkvæmt þeim, sé framfylgt.
79. gr. Ráðherra setur Vinnueftirliti ríkisins starfsreglur í samráði við stjórn stofnunarinnar.
Ráðherra getur falið Vinnueftirliti ríkisins að fjalla um tiltekin mál og verkefni, skyld þeim verkefnum, sem lög þessi fjalla um.
80. gr. Forstjóri Vinnueftirlits ríkisins eða stjórn stofnunarinnar ákveður hvaða tiltekin verkefni samkvæmt nánari skilgreiningu verði falin öðrum. Vinnueftirlit ríkisins skal fylgjast með slíku eftirliti annarra aðila.
Fyrir ýmiss konar aukaþjónustu, svo sem eftirlit með lokuðum vatnshitunarkerfum, þrýstiraunir, gasmælingar í geymum vegna eld- og sprengihættu, fallprófanir á lyftum, eftirlit með fermingu og affermingu kaupskipa, námskeið og próf, upplýsingaspjöld og -rit, ber þeim að greiða, sem óska slíkrar þjónustu eða þarfnast hennar að dómi Vinnueftirlits ríkisins. Hið sama gildir um kannanir og rannsóknir, sem fram eiga að fara annars staðar en hjá þeim, sem þjónustunnar þarfnast.
Vinnueftirlit ríkisins setur nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr. þessarar greinar.
Ráðherra setur gjaldskrá 1) um aukaþjónustu að fengnum tillögum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins.
Heimilt er að innheimta greiðslu fyrir aukaþjónustu áður en hún er veitt.
    1) Gjaldskrá 433/1996.
81. gr. Ráðherra skal að fengnum tillögum Vinnueftirlits ríkisins setja reglur 1) um tilkynningar- og skráningarskyldu hvers konar vinnuslysa og meiðsla, eitrana, atvinnusjúkdóma og annarra þeirra tilvika, sem þýðingu geta haft í þessu sambandi. Læknir, sem kemst að því eða fær grun um, að einstaklingar eða hópar manna hafi orðið fyrir skaðlegum verkunum vegna vinnu sinnar, skal tafarlaust tilkynna það Vinnueftirliti ríkisins. Ráðherra skal setja nánari reglur um skyldu lækna og um það, til hvaða annarra aðila hún nær.
Komi fyrir eitrun eða slys á vinnustað, skal atvinnurekandi eða fulltrúi hans á vinnustað tilkynna það lögreglustjóra og Vinnueftirliti ríkisins, svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en innan sólarhrings.
Tryggingastofnun ríkisins skal senda Vinnueftirliti ríkisins afrit af tilkynningum um slys á vinnustöðum, sem stofnuninni berast.
Vinnueftirlitið skal framkvæma rannsókn á orsökum eitrana og slysa, sem því berst vitneskja um, í þeim tilgangi að geta stuðlað að því, að komið sé í veg fyrir slíkar eitranir og slys á vinnustöðum.
    1)Rg. 612/1989.
82. gr. Öllum starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins skal, hvenær sólarhrings sem er, heimill frjáls aðgangur að sérhverjum vinnustað, sem lög þessi taka til, enda geri þeir atvinnurekanda ekki ónæði utan venjulegs vinnutíma, nema nauðsyn krefji. Þeim er heimilt að krefjast nauðsynlegra upplýsinga starfi sínu viðkomandi af atvinnurekanda og sérhverjum starfsmanni, sem er í vinnu eða hefur verið í vinnu einhvern tíma síðustu þrjá mánuði. Þeim er heimilt að skoða skjöl þau og skilríki, sem eiga að vera fyrir hendi samkvæmt lögum þessum.
Starfsmenn Vinnueftirlitsins skulu sýna skilríki um starf sitt.
Löggæslumenn aðstoða við eftirlit sé nauðsyn á því. Félagsmálaráðherra getur sett nánari reglur um slíka aðstoð að höfðu samráði við dómsmálaráðherra.
83. gr. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins mega ekki nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga um starfsemina en þeirra, sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar vegna eftirlitsins. Eigi mega þeir heldur láta öðrum í té upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila, ef þeir hafa fengið vitneskjuna vegna eftirlits síns og ástæða er til að ætla, að henni skuli haldið leyndri.
Starfsmenn Vinnueftirlitsins mega ekki láta uppi við atvinnurekanda eða fulltrúa hans, að eftirlitsferð sé gerð vegna umkvörtunar.
84. gr. Hafi Vinnueftirlit ríkisins krafist þess með hæfilegum fyrirvara, að lagfæring á vanbúnaði eða öðru ástandi, sem brýtur gegn lögum þessum eða reglum og tilkynningum, sem eru í samræmi við lögin, og umbætur hafa ekki verið gerðar, þegar frestur sá er liðinn, sem gefinn var, getur Vinnueftirlitið látið stöðva vinnu eða lokað starfseminni eða þeim hluta hennar, sem krafan beinist að.
85. gr. Telji Vinnueftirlitið að veruleg hætta sé á ferðum fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna eða annarra, getur það krafist þess, að strax sé bætt úr skorti á nægjanlegu öryggi, eða látið hætta vinnu í þeim hluta starfseminnar, sem þannig er á sig kominn.
Áfrýjun á ákvörðunum samkvæmt 84. gr. og 85. gr. frestar ekki stöðvun vinnu eða lokun starfsemi eða hluta hennar.
86. gr. Ef atvinnurekanda eða starfsmönnum, sem falin hefur verið verkstjórn, öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf, sbr. 4., 5., 6., 13. og 23. gr., verður ljóst að skyndilega hafi upp komið bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað, svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, hættu á hruni jarðvegs, vörustæðu eða burðarvirkis, fallhættu, sprengihættu eða annarrar alvarlegrar hættu, er þeim skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð strax og/eða að starfsfólk hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir.
Aðgerðir samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar gera þá aðila, sem að ofan greinir, ekki ábyrga fyrir því tjóni, sem fyrirtækið kann að verða fyrir vegna stöðvunar eða fráhvarfa starfsmanna af vinnustað, þar sem hið bráða hættuástand var talið ríkja samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar.
Vinnueftirliti ríkisins skal gert aðvart svo fljótt sem verða má, og skal það umsvifalaust senda fulltrúa sinn á staðinn til að meta ástand og kringumstæður og til að úrskurða um hvort starfsemin skuli stöðvuð áfram, hafi hún verið stöðvuð, og um nauðsynlegar úrbætur, sem gera þarf til þess að starfsemin og vinnustaðurinn teljist hættulaus.
87. gr. Ef stöðvun starfsemi virðist geta haft þau áhrif, að eyðilegging á verðmætum eða þjóðhagslegt tjón geti hlotist af, getur Vinnueftirlitið lagt dagsektir á fyrirtækið í stað lokunar. Sektirnar skulu ákveðnar annaðhvort sem viðurlög strax þegar krafa er gerð eða þegar frestur til umbóta er útrunninn. Upphæð dagsektanna skal fara eftir því, hve aðkallandi umbæturnar eru, og eftir stærð og umsvifum fyrirtækisins.
Atvinnurekandi getur innan hálfs mánaðar frá kröfugerðinni áfrýjað sektarákvæðum til stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, sem strax og unnt er skal taka ákvörðun um málið og eigi síðar en eftir einn mánuð. Hafi stjórnin ekki fellt úrskurð sinn þá gildir úrskurður Vinnueftirlitsins.
Sektir þessar eru kræfar með lögtaksrétti.
88. gr. Í hverju fyrirtæki skal vera eftirlitsbók eða annað tilsvarandi skráningarform, þar sem skráðar eru heimsóknir eftirlitsmanna og athugasemdir þeirra, bönn Vinnueftirlits ríkisins og önnur fyrirmæli og tilkynningar, er varða starfsumhverfi.
Ennfremur skal skrá hvers konar meiðsli, eitranir og slys og annað það, sem máli kann að skipta fyrir starfsmenn og/eða fyrirtæki.
Vinnueftirlit ríkisins skal setja nánari reglur um gerð, notkun og varðveislu eftirlitsbóka og annarra skjala.
89. gr. Ráðherra setur reglur um samstarf Vinnueftirlitsins við aðra opinbera aðila og leitar áður álits meðráðherra sinna.

XIII. kafli. Tilkynningarskylda fyrirtækja, veiting starfsleyfa og fleira.
90. gr. Starfsemi merkir í lögum þessum skipulagða aðgerð eða framkvæmd, hvort sem um vinnustað samkvæmt 41. gr. er að ræða eða ekki.
Fyrirtæki merkir í lögum þessum alla þá, sem reka starfsemi, hvort sem um er að ræða stofnanir, félagasamtök, einstaklinga eða aðra aðila. Um einstaklinga gildir einu, hvort þeir vinna einir eða hafa aðra í þjónustu sinni.
91. gr. Vinnueftirlit ríkisins skal halda skrá yfir þau fyrirtæki, sem lög þessi gilda um. Stofnunin hagnýtir sér í þessu efni þær skrár, sem tiltækar eru hjá Hagstofu Íslands og öðrum opinberum aðilum.
Vinnueftirlit ríkisins hefur samvinnu um þessi mál við þá aðila, sem með lögum eða reglugerðum er falið að veita fyrirtækjum framleiðslu-, iðnaðar-, starfs- eða vinnsluleyfi, hverju nafni sem nefnast.
92. gr. Senda skal Vinnueftirliti ríkisins afrit af iðnaðarleyfum, sem lögreglustjórar láta af hendi samkvæmt 12. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978.
93. gr. Sérhver, sem ætlar að hefja rekstur fyrirtækis eða breyta eldra fyrirtæki, skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins um það, hvort hin fyrirhugaða starfsemi sé í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Í því skyni skal hann láta stofnuninni í té sundurliðaða greinargerð með nægilegum uppdráttum yfir húsakynni og fyrirkomulag véla, tækja og annars búnaðar og öðrum upplýsingum, sem máli kunna að skipta, eftir reglum, sem Vinnueftirlit ríkisins setur, eða eftir fyrirmælum forstjóra stofnunarinnar.
Vilji hlutaðeigandi ekki una fyrirmælum forstjórans, getur hann skotið máli sínu til stjórnar stofnunarinnar, sbr. 98. gr. laga þessara.
94. gr. Hver sá, sem tekur að sér byggingu verksmiðja, verkstæða eða annars þess háttar, uppsetningu véla, tækja eða annars búnaðar, hverju nafni sem nefnist, skal vera ábyrgur gagnvart Vinnueftirliti ríkisins um, að öryggisbúnaður sé samkvæmt lögum þessum og í samræmi við tillögur, fyrirmæli eða úrskurði forstjóra eða stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.
95. gr. Hver sá, sem hefur með höndum starfsemi, sem lög þessi gilda um, skal hafa sérstakt starfsleyfi Vinnueftirlits ríkisins til tryggingar því, að starfsemi fullnægi viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum snertir.
Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur nánari reglur um veitingu starfsleyfa og um gildistíma þeirra.
96. gr. Sérhver starfsemi, sem lög þessi ná til, skal tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins áður en hún hefst.
Óheimilt er að hefja rekstur í fyrirtæki eða hluta fyrirtækis fyrr en eftirlitsmaður hefur gefið réttum aðilum vottorð um, að allur útbúnaður sé í fullu lagi og í samræmi við fyrirmæli forstjóra eða stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, að mati eftirlitsmannsins.
97. gr. Sé öðrum aðilum með lögum eða reglugerðum falið að veita fyrirtækjum framleiðslu-, iðnaðar-, starfs- eða vinnsluleyfi, hverju nafni sem nefnast, tekur starfsleyfi, sem Vinnueftirlit ríkisins gefur út, ekki gildi fyrr en viðkomandi fyrirtæki hefur aflað sér annarra tilskilinna leyfa.

XIV. kafli. Áfrýjun úrskurða.
98. gr. Ákvörðunum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins og annarra starfsmanna stofnunarinnar má skjóta til stjórnarinnar innan fjögurra vikna frá því viðkomandi aðila hefur verið tilkynnt ákvörðunin. Stjórnin skal fella úrskurð um málið, svo fljótt sem verða má.
Úrskurði stjórnarinnar má skjóta til ráðherra innan fjögurra vikna frá því ákvörðun stjórnarinnar var tilkynnt viðkomandi, sbr. þó 2. mgr. 87. gr.

XV. kafli. Refsiákvæði.
99. gr. Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.
Sektir renna í ríkissjóð.
Með mál út af brotum á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim fer að hætti opinberra mála.

XVI. kafli. Gildistaka.
100. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1981. …
Bráðabirgðaákvæði. 1. Nú brýtur starfsemi við gildistöku laga þessara að einhverju leyti í bága við ákvæði þeirra, og skal þá forstjóra Vinnueftirlits ríkisins heimilt að veita tiltekinn frest til þess að koma því í lag, sem ábótavant kann að reynast.
    2. Reglugerð samkvæmt 6. mgr. 73. gr., svo og reglur samkvæmt lögum þessum skal setja svo fljótt sem verða má. Þar til þær hafa verið staðfestar, skulu þær reglugerðir og reglur, 1) sem nú gilda um þau mál, er lög þessi taka til, vera í gildi, enda brjóti ákvæði þeirra eigi í bága við ákvæði laga þessara.
    3. Félagsmálaráðherra skal fyrir 1. júní 1981 setja reglugerð 2) um þau ákvæði laga þessara, sem snerta landbúnaðinn. Skal þar m.a. kveðið á um aðild Stéttarsambands bænda að ákvörðunum um þau ákvæði laganna er sérstaklega varða landbúnaðinn. Reglugerðin skal samin í samráði við stjórn Vinnueftirlits ríkisins, Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands.
    4.
    5. [Lög þessi skal endurskoða í samráði við aðila vinnumarkaðarins og stjórn Vinnueftirlits ríkisins eigi síðar en fyrir árslok 1990.] 3)
    1)Um rg. skv. fyrri lögum, sjá Lagasafn 1973, d. 553. 2)Rg. 288/1981. 3)L. 15/1986, 1. gr.