Lagasafn. Íslensk lög 1. maí 1999. Útgáfa 123b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um orlof
1987 nr. 30 27. mars
1. gr. Allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eiga rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum þessara laga.
2. gr. Lög þessi rýra ekki víðtækari eða hagkvæmari orlofsrétt samkvæmt öðrum lögum, samningum eða venjum.

Samningur um minni rétt til handa launþegum en lög þessi ákveða er ógildur.
3. gr. Orlof skal vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknast hálfur mánuður eða meira heill mánuður en skemmri tími telst ekki með. Það telst vinnutími samkvæmt þessari grein þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi.

Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl.
4. gr. Orlof samkvæmt lögum þessum skal veitt í einu lagi á tímabilinu frá 2. maí til 15. september. Heimilt er í kjarasamningum stéttarfélaga að kveða á um skemmra orlof á fyrrgreindu tímabili, þó að lágmarki 14 daga á sumarorlofstímabilinu, ef sérstakar rekstrarástæður gera það brýnt. Nú nýtur orlofsþegi eigi lengri orlofsréttar en lög þessi kveða á um og skal þá sá hluti orlofsins, sem tekinn er utan orlofstímabilsins, lengjast um
1/
4 ef orlof er tekið utan orlofstímabilsins að ósk atvinnurekanda.

Í vinnu við landbúnað og síldveiðar má veita allt að helmingi orlofsins utan orlofstímabilsins.

Aðilar geta með samkomulagi vikið frá reglum þessarar greinar um skiptingu orlofs. Orlofi skal þó alltaf lokið fyrir lok orlofsársins.
5. gr. Atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum launþega um hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja launþegans skal atvinnurekandi tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.
6. gr. Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem vinnuveitandi ákveður skv. 5. gr. skal hann sanna forföll sín með læknisvottorði. Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tímum en ákveðið er í 4. gr., en þó ekki síðar en svo að orlofi hans sé lokið fyrir 31. maí næstan á eftir.

Geti starfsmaður ekki vegna veikinda farið í orlof fyrir þann tíma á hann rétt á að fá orlofslaun sín greidd ef hann sannar veikindi sín á sama hátt og að ofan greinir.
7. gr. Launþegi á rétt til orlofslauna í samræmi við áunninn orlofsrétt á síðasta orlofsári.

Orlofslaun reiknast við hverja launagreiðslu þannig að af heildarlaunum reiknast orlofslaunahlutfall viðkomandi starfsmanns að lágmarki 10,17% miðað við lágmarksorlof skv. 3. gr. Reiknuð orlofslaun fyrir hvert launatímabil skulu kauptryggð þannig að deilt skal í fjárhæð áunninna orlofslauna með dagvinnukaupi starfsmannsins. Orlofslaun fyrir hvert launatímabil reiknast samkvæmt þessu í dagvinnutímum og skulu þau skráð sérstaklega á launaseðil við hverja launagreiðslu, bæði samtala áunninna orlofslauna frá upphafi orlofsárs og orlofslaun vegna þess greiðslutímabils.

Launþega skulu greidd áunnin orlofslaun samkvæmt framanskráðu næsta virkan dag fyrir töku orlofs og greiðast þau miðað við dagvinnutímakaup starfsmannsins eins og það er fyrsta dag orlofsins.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur fara fram, enda sé meiri hluti þeirra því samþykkur. Þá er stéttarfélögum einnig heimilt að semja um þá framkvæmd að orlofslaun séu jafnharðan greidd á sérstaka orlofsreikninga launþega hjá banka eða sparisjóði. Skal í slíkum samningi tryggt að sá aðili, sem tekur að sér vörslu orlofslauna, geri upp áunnin orlofslaun, þ.e. höfuðstól og vexti, til launþega við upphaf orlofstöku. Skylt er að afhenda félagsmálaráðuneytinu þegar í stað eintak af slíkum samningi og tilkynna um slit hans.

Orlofslaun reiknast ekki af orlofslaunum.
8. gr. Ljúki ráðningarsamningi launþega og vinnuveitanda skal vinnuveitandi við lok ráðningartímans greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans samkvæmt reglunni í 2. mgr. 7. gr.
9. gr. Nú liggur atvinnurekstur niðri á meðan á orlofi stendur vegna þess að starfsfólki er veitt orlof samtímis og geta þá þeir launþegar, sem ekki eiga rétt á fullu orlofi, ekki krafist launa eða orlofslauna fyrir þá daga sem á vantar.
10. gr. Félagsmálaráðherra setur reglur um útreikning orlofslauna launþega sem ekki taka laun beint frá atvinnurekanda sínum, heldur fá greitt í þjónustugjaldi eða á annan hátt sem er frábrugðinn venjulegum greiðslumáta launa.
11. gr. [Standi launagreiðandi ekki í skilum með útborgun orlofslauna skv. 7. eða 8. gr. vegna greiðsluerfiðleika án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta getur launþegi eða hlutaðeigandi verkalýðsfélag í umboði hans snúið sér til ábyrgðasjóðs launa, sbr.
lög nr. 53/1993, með orlofslaunakröfuna studda gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum, vottorði viðkomandi launagreiðanda eða löggilts endurskoðanda hans.

Ábyrgðasjóðurinn skal þegar í stað skora á vinnuveitanda að greiða kröfuna, en beri það ekki árangur skal ábyrgðasjóðurinn innleysa kröfuna frá launþeganum. Skal það gert innan þriggja vikna frá því að krafa launþegans á hendur ábyrgðasjóðnum var sett fram.

Á innleysta orlofskröfu ábyrgðasjóðsins falla 7,5% viðurlög við innlausnina. Á kröfuna reiknast síðan mánaðarlegir dráttarvextir samkvæmt
vaxtalögum, nr. 25/1987, fyrst 15 dögum eftir innlausn.

Kröfur ábyrgðasjóðsins vegna innleystrar orlofslaunakröfu eru aðfararhæfar samkvæmt
lögum nr. 90/1989. Krafan nýtur sama réttar og krafa launþegans hefði notið í þrotabúi vinnuveitandans.

Ábyrgð á vangreiddu orlofi samkvæmt grein þessari, svo og kostnað af rekstri málaflokksins, skal fjármagna með ábyrgðargjaldi því sem innheimt er skv.
3. gr. laga nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.]
1)
1)L. 127/1993, 7. gr.
12. gr. Óheimilt er manni að vinna fyrir launum í starfsgrein sinni eða skyldum starfsgreinum meðan hann er í orlofi og má setja um þetta nánari ákvæði í reglugerð.
13. gr. Framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára er óheimilt.
14. gr. Kröfur á hendur vinnuveitendum samkvæmt lögum þessum fyrnast eftir sömu reglum og kaupkröfur samkvæmt
lögum nr. 14 20. október 1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
15. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. maí 1988. …
Ákvæði til bráðabirgða. …