Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 2000.  Útgáfa 125a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um æskulýðsmál

1970 nr. 24 17. aprílI. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Tilgangur þessara laga er að setja reglur um opinberan stuðning við æskulýðsstarfsemi.
Þeir aðilar, sem njóta skulu stuðnings samkvæmt lögum þessum, eru:
    1. Félög, er vinna að æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjárframlögum félagsmanna.
    2. Aðrir aðilar, er sinna einkum velferðarmálum ófélagsbundins æskufólks í skipulögðu starfi.
Lögin taka til íþrótta- og bindindisstarfsemi og félags- og tómstundastarfsemi í skólum, að svo miklu leyti sem við á og önnur lög og aðrar reglur gilda ekki þar um.
Lögin miðast einkum við æskulýðsstarfsemi fyrir ungmenni á aldrinum 12–20 ára.

II. kafli. Stjórn æskulýðsmála.
2. gr. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra æskulýðsmála, sem lög þessi fjalla um.
Stofna skal Æskulýðsráð ríkisins, skipað fimm mönnum. Ráðherra skipar formann ráðsins án tilnefningar. Þrír menn skulu tilnefndir af aðildarsamtökum Æskulýðssambands Íslands og öðrum hliðstæðum æskulýðssamböndum, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Einn maður skal tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sömu reglur gilda um varamenn. Skipunartími er tvö ár.
3. gr. Hlutverk Æskulýðsráðs ríkisins er:
    1. Að skipuleggja og samræma opinberan stuðning við æskulýðsstarf í landinu og örva starfsemi þeirra samtaka, sem að æskulýðsmálum vinna.
    2. Að leitast við að samræma æskulýðsstarfsemi félaga, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál og efla þá til sameiginlegra átaka um lausn ákveðinna verkefna.
    3. Að gera tillögur til menntamálaráðuneytisins um fjárveitingar til æskulýðsmála. Tillögur skulu berast ráðuneytinu fyrir 1. júní ár hvert.
    4. Að efna til umræðufunda og/eða ráðstefna um æskulýðsmál eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
    5. Að safna gögnum um æskulýðsmál hérlendis og erlendis, fylgjast með þróun þeirra mála og láta í té umsagnir til stjórnvalda um mál, er varða æskulýð og æskulýðsstarfsemi. Ráðið hlutist til um, að fram fari fræðilegar rannsóknir á sviði æskulýðsmála.
    6. Að sinna öðrum verkefnum, sem talin eru í lögum þessum eða ráðuneytið kann að fela því.
Menntamálaráðherra setur Æskulýðsráði ríkisins starfsreglur, þar sem verkefni ráðsins skulu rakin ítarlegar og fyllra en gert er í lögum þessum.
Kostnaður við störf ráðsins greiðist úr ríkissjóði.
4. gr.1)
    1)L. 83/1997, 94. gr.
5. gr. Heimilt skal að stofna æskulýðsnefndir eins eða fleiri sveitarfélaga. Skulu starfsreglur þeirra samþykktar af sveitarstjórn og staðfestar af Æskulýðsráði ríkisins.

III. kafli. Stuðningur við félags- og tómstundastarfsemi.
6. gr. Þjálfun leiðbeinenda. Stuðningur ríkissjóðs við félags- og tómstundastarfsemi skal meðal annars fólginn í þátttöku í kostnaði við þjálfun leiðbeinenda.
Menntamálaráðuneytið setur reglur um leiðbeinendaþjálfun, að fengnum tillögum Æskulýðsráðs ríkisins.
7. gr. Menntun æskulýðsleiðtoga. Æskulýðsráð ríkisins gengst fyrir því, að haldin séu námskeið fyrir æskulýðsleiðtoga. Skulu námskeið þessi, ef ástæða þykir til, haldin í samráði við Kennaraskóla Íslands eða Íþróttakennaraskóla Íslands. Allur kostnaður við námskeiðin greiðist úr ríkissjóði.
Menntamálaráðuneytið setur reglur um námskeið þessi, þar sem m.a. skal ákveða lágmarkstölu þátttakenda, inntökuskilyrði, námsgreinar og próf.
Heimilt skal að styrkja efnilega æskulýðsleiðtoga til framhaldsnáms og þjálfunar erlendis, eftir því sem fjárveitingar leyfa.
8. gr. Sumarbúðir og útivistarsvæði. Heimilt skal að veita viðurkenndum aðilum styrki:
    a. til sumarbúðastarfsemi fyrir æskufólk og
    b. til að laga og bæta aðstæður á ákveðnum útivistarsvæðum. Um framangreindar styrkveitingar skulu settar sérstakar reglur.
9. gr. Önnur starfsemi í þágu æskufólks. Heimilt skal að styðja einstök verkefni í þágu æskufólks, þ. á m. nýjungar og tilraunir í æskulýðsstarfi, svo og ráðstafanir, sem miða að lausn sérstakra æskulýðsvandamála, er skapast kunna, enn fremur til námskeiða og annars fræðslustarfs einstakra samtaka.

IV. kafli. Stuðningur bæjar- og sveitarfélaga við æskulýðsmál.
10. gr. Samband íslenskra sveitarfélaga semur í samráði við sveitar- og bæjarstjórnir og borgarstjórn Reykjavíkur reglur um stuðning þessara aðila við æskulýðsmál, en menntamálaráðherra staðfestir reglurnar. Skal stuðningur þessara aðila m.a. ná til þátttöku í kostnaði við störf leiðbeinenda, tækjakaup og húsnæði.

V. kafli. Reglugerð og gildistaka.
11. gr. Menntamálaráðuneytið setur reglugerð 1) um framkvæmd þessara laga. …
    1)Rg. 11/1989.