Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2007.  Útgáfa 134.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Stjórnarráð Íslands

1969 nr. 73 28. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 1970. Breytt með l. 12/1986 (tóku gildi 1. jan. 1987), l. 3/1990 (tóku gildi 23. febr. 1990), l. 14/1991 (tóku gildi 4. apríl 1991), l. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997), l. 121/1999 (tóku gildi 30. des. 1999) og l. 109/2007 (tóku gildi 28. júní 2007 nema a–e-liður 1. gr. og 2. gr. sem taka gildi 1. jan. 2008).


I. kafli.
1. gr. Forseti lýðveldisins skipar ráðherra, ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
Ráðherrar fara með stjórnarmálefni í Stjórnarráði Íslands, sem hefur aðsetur í Reykjavík.
2. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál.
Málefni, sem bera á upp fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar, skulu áður tekin til meðferðar á ráðherrafundi.
Forsætisráðherra stjórnar ráðherrafundum.
3. gr. [Forsætisráðherra felur starfsmanni forsætisráðuneytis að gegna störfum ritara ráðherrafunda.] 1)
Ritari skráir fundargerð ráðherrafundar í gerðabók, er ráðherrar hafa staðfest fundargerðina.
    1)L. 83/1997, 1. gr.
4. gr. Stjórnarráð Íslands greinist í ráðuneyti, og skulu þau vera þessi: Forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Hagstofa Íslands, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, [umhverfisráðuneyti], 1) utanríkisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. 2)
Ráðuneyti má eigi á stofn setja né af leggja nema með lögum. [Þó er heimilt að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands.] 3)
    1)L. 3/1990, 1. gr. 2)Málsgreininni var breytt með l. 109/2007, 1. gr. Breytingin tekur gildi 1. jan. 2008 skv. 5. gr. s.l. 3)L. 109/2007, 1. gr.
5. gr. Þegar skipt er störfum með ráðherrum, skal hvert ráðuneyti óskipt lagt til eins og sama ráðherra.
6. gr.1)
    1)L. 14/1991, 1. gr.
7. gr. [Ráðherra kveður á 1) um skiptingu ráðuneytis í skrifstofur og starfsdeildir eftir verkefnum.] 2)
    1) Augl. 181/2007 (um skipulag menntamálaráðuneytisins). 2)L. 83/1997, 2. gr.
8. gr. Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðar, 1) er forseti Íslands setur samkvæmt tillögum forsætisráðherra, enda sé þess jafnan gætt, að ráðuneyti lúti málefni, sem eðli sínu samkvæmt eiga þar heima, sbr. 4. gr.
Nú þykir vafi á leika, undir hvert ráðuneyti málefni heyri, og sker forsætisráðherra þá úr.
    1) Rg. A 3/2004, sbr. rg. A 118/2006, rg. A 123/2006 og rg. A 125/2006.
9. gr. Ráðuneyti hefur eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það ber, og eignum á vegum þeirra stofnana.
[Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.] 1)
    1)L. 121/1999, 1. gr.

II. kafli.
10. gr. Ráðuneytisstjórar og hagstofustjóri stýra ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra. 1)
2)
Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis skal jafnframt því embætti sínu gegna störfum ritara ríkisráðs Íslands.
Heimilt er forsætisráðherra að kveða á um, að ráðuneytisstjóri veiti fleiri en einu ráðuneyti forstöðu og að fleiri en eitt ráðuneyti hafi, eftir því sem við verður komið, sameiginlegt starfslið og húsnæði.
Slíka skipan sem í 5. mgr. 3) greinir getur forsætisráðherra afnumið, er nauðsyn krefur, og þá jafnframt ákveðið, hverju þeirra ráðuneyta, sem um er að tefla, ráðuneytisstjóri skuli áfram stýra.
    1)Málsgreininni var breytt með l. 109/2007, 2. gr. Breytingin tekur gildi 1. jan. 2008 skv. 5. gr. s.l. 2)L. 14/1991, 2. gr. 3)Hér er vísað til 3. mgr.
11. gr. [Skrifstofu ráðuneytis stýrir skrifstofustjóri og starfsdeild deildarstjóri undir umsjón ráðuneytisstjóra.] 1)
1)
[Nú er starfsmaður ráðuneytis ráðinn deildarstjóri og þarf þá eigi að auglýsa stöðuna sem hann er fluttur í.] 1) [Sama á við ef starfsmanni, sem ráðinn er ótímabundið, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er boðið annað starf innan Stjórnarráðsins. Í reglum, sem forsætisráðherra setur, skal mæla fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis.] 2)
Ráðherra setur deildarstjórum og skrifstofustjórum erindisbréf, þar sem meðal annars skal kveðið á um starfssvið þeirra og starfsskyldur.
    1)L. 83/1997, 3. gr. 2)L. 109/2007, 3. gr.
12. gr. Auk ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og deildarstjóra eru starfsmenn ráðuneyta fulltrúar, bókarar og ritarar eftir ákvörðun ráðherra. [Heimilt er þó ráðherra að ráða starfsmenn í ráðuneyti undir öðrum starfsheitum.] 1)
    1)L. 83/1997, 4. gr.
13. gr. [Ráðherra skipar ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra til fimm ára í senn.
Aðrir starfsmenn ráðuneytis eru ráðnir.] 1)
    1)L. 83/1997, 5. gr.
[14. gr. Nú flytjast stjórnarmálefni milli ráðuneyta, sbr. 8. gr., og skal þá bjóða hlutaðeigandi starfsmönnum að sinna þeim áfram í því ráðuneyti er tekur við málefninu. Við flutninginn verða ekki breytingar á starfskjörum starfsmanna. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eiga ekki við um ráðstöfun starfa samkvæmt þessari grein.] 1)
    1)L. 109/2007, 4. gr.
[15. gr.]1) Ráðherra er heimilt að kveðja sér til aðstoðar, meðan hann gegnir embætti, mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem [skrifstofustjóri], 2) enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðherra, en njóti þá launa þrjá mánuði, hafi hann ekki áður verið ríkisstarfsmaður, en ella eigi hann rétt á að hverfa til fyrra starfs síns eða annars starfs eigi lakara að föstum launum í þjónustu ríkisins.
    1)L. 109/2007, 4. gr. 2)L. 83/1997, 6. gr.
[16. gr.]1) Með úrskurði forseta Íslands má samkvæmt tillögum forsætisráðherra setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    1)L. 109/2007, 4. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða. …] 1)
    1)L. 3/1990, brbákv.