Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2008.  Útgáfa 135a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kosningar til sveitarstjórna

1998 nr. 5 6. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 13. mars 1998, sjá þó 106. gr. Breytt með l. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998), l. 27/2002 (tóku gildi 8. apríl 2002), l. 50/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006) og l. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008).


I. kafli. Kjördagur.
1. gr. Almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram síðasta laugardag í maímánuði sem ekki ber upp á laugardag fyrir hvítasunnu.
[Samgönguráðuneytið] 1) skal auglýsa hvenær almennar reglulegar sveitarstjórnarkosningar skulu fara fram.
Kjörtímabil sveitarstjórnar er fjögur ár.
    1)L. 167/2007, 3. gr.

II. kafli. Kosningarréttur og kjörgengi.
2. gr. Kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu.
Nú eiga ákvæði 9. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990, við um hagi manns og telst hann þá ekki hafa glatað kosningarrétti þótt hann hafi tilkynnt flutning samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.
Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag [og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag], 1) enda fullnægi þeir að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.
    1)L. 27/2002, 1. gr.
3. gr. Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr. og hefur ekki verið sviptur lögræði.

III. kafli. Kjörskrár.
4. gr. Sveitarstjórnir gera kjörskrár til sveitarstjórnarkosninga á grundvelli kjörskrárstofna sem [Þjóðskrá] 1) lætur þeim í té.
    1)L. 50/2006, 18. gr.
5. gr. Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 2. gr. og skráðir voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag.
6. gr. Kjörskrá skal rita á eyðublöð er [Þjóðskrá] 1) lætur í té og skal farið nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum sem hún lætur skrá á þau.
    1)L. 50/2006, 18. gr.
7. gr. Þegar kjörskrá hefur verið samin … 1) skal hún undirrituð af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra hennar.
    1)L. 27/2002, 2. gr.
8. gr. [Samgönguráðuneytið] 1) skal eigi síðar en 12 dögum fyrir kjördag birta í útvarpi og dagblöðum auglýsingu um framlagningu kjörskráa. Í auglýsingunni skal tekið fram hvar kærum skuli komið á framfæri og hver kærufrestur er.
    1)L. 167/2007, 3. gr.
9. gr. Kjörskrá skal leggja fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.
Sveitarstjórn skal auglýsa hvar kjörskrá liggur frammi á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.
Eftir að kjörskrá hefur verið lögð fram skal hún liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags. Staðfest eftirrit af kjörskrá má hafa til að leggja fram.
10. gr. Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Slíka leiðréttingu má gera fram á kjördag.
Óheimilt er að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hefur ekki borist þjóðskrá fyrir þann tíma er greinir í 5. gr.
Sveitarstjórn skal enn fremur fram á kjördag leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát eða um að einhver hafi öðlast, eftir atvikum misst, íslenskt … 1) ríkisfang.
    1)L. 27/2002, 3. gr.
11. gr. Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi um leiðréttingar á kjörskrá skv. 10. gr., svo og sveitarstjórn er mál getur varðað.
Sveitarstjórn skal jafnframt tilkynna hlutaðeigandi kjörstjórn um leiðréttingar á kjörskrá.
12. gr. Nú hefur kjörskrá ekki verið samin eða lögð fram í tæka tíð eða um það hefur ekki verið fylgt ákvæðum laga þessara, og skal þá sýslumaður, jafnskjótt og hann fær vitneskju um það, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kjörskrá verði tafarlaust samin og leiðrétt það sem skort hefur á að færi lögum samkvæmt.

IV. kafli. Kjördeildir.
13. gr. Hvert sveitarfélag er ein kjördeild, nema sveitarstjórn hafi ákveðið að skipta því í fleiri kjördeildir.
Kjördeildir skal að jafnaði kenna við kjörstað eða tölusetja til aðgreiningar.

V. kafli. Kjörstjórnir og undirbúningur kosninga.
14. gr. Yfirkjörstjórn skal kosin á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára í senn. Yfirkjörstjórnir skulu jafnan vera reiðubúnar til þess að mæta fyrirvaralaust á fundi á kjördegi til ákvarðana og úrskurða í sambandi við kosninguna ef með þarf.
Í sveitarfélagi sem skipt er í kjördeildir skal kjósa undirkjörstjórnir jafnmargar og fjöldi kjördeilda er. Þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað skal sveitarstjórn kjósa hverfiskjörstjórn til að hafa umsjón með kosningastarfi á kjörstaðnum í umboði yfirkjörstjórnar.
Heimilt er að kjósa undirkjörstjórnir og hverfiskjörstjórnir síðar en kveðið er á um í 1. mgr.
Í hverri kjörstjórn eiga sæti þrír aðalmenn og þrír varamenn sem allir skulu eiga kosningarrétt í sveitarfélaginu. Kjörstjórn kýs sér oddvita og ritara úr sínum hópi.
Kjörstjórnir eru í störfum sínum óháðar ákvörðunarvaldi sveitarstjórnar.
Í sveitarfélagi, sem ekki er skipt í kjördeildir, gegnir kjörstjórn störfum yfir- og undirkjörstjórna.
Sveitarstjórn getur ákveðið að sama kjörstjórn stýri kosningum til sveitarstjórnar og kosningum til Alþingis.
[Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram.] 1)
    1)L. 27/2002, 4. gr.
15. gr. Allar kjörstjórnir skulu halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.
Yfirkjörstjórnir bóka viðtöku framboða, útsendingu og viðtöku kjörseðla og bréfa, hvers konar úrskurði, talningu atkvæða, úrslit kosninga og annað þess háttar. Undirkjörstjórnir bóka allt sem fyrir er mælt í lögum þessum eða skiptir máli um kosningarathöfnina.
Sveitarstjórnir skulu láta yfirkjörstjórnum í té gerðabækur. Yfirkjörstjórnir láta undirkjörstjórnum og hverfiskjörstjórnum í té gerðabækur, nema þeim kjörstjórnum séu lögð til sérstök eyðublöð er komi í stað gerðabókar.
16. gr. Sá sem sæti á í kjörstjórn skal víkja sæti ef hann er í kjöri til sveitarstjórnar í bundnum hlutfallskosningum.
Einnig skal kjörstjórnarmaður víkja sæti ef til úrskurðar er mál er varðar maka hans eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar.
17. gr. Varamenn taka sæti í kjörstjórnum í forföllum aðalmanna eftir venjulegum reglum þegar hlutfallskosningar eru viðhafðar en annars eftir þeirri röð sem þeir eru kosnir. Ef einhver kjörstjórn verður ekki á þennan hátt fullskipuð kveður hún sjálf til þann eða þá sem þarf til þess að talan sé fyllt.
Það er borgaraleg skylda að taka við kosningu í kjörstjórn.

VI. kafli. Framboð og umboðsmenn.
18. gr. Þeim sem er kjörgengur, heill og hraustur og yngri en 65 ára er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn. Ekki verður nafn manns þó sett á framboðslista án skriflegs samþykkis hans.
Þeim sem setið hefur í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur er ekki skylt að taka kjöri fyrr en liðinn er jafnlangur tími og hann átti þar samfellt sæti síðast, enda tilkynni hann yfirkjörstjórn fyrir lok framboðsfrests að hann skorist undan endurkjöri.
19. gr. Fulltrúar í sveitarstjórnum skulu kjörnir í leynilegum almennum kosningum sem geta verið með tvennu móti:
    a. Bundnar hlutfallskosningar þar sem kosning er bundin við framboð á listum og fulltrúar á hverjum lista ná kjöri í hlutfalli við það atkvæðamagn sem listinn fær.
    b. Óbundnar kosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð en allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.
20. gr. Í sveitarfélögum skal almennt kjósa bundinni hlutfallskosningu.
Nú kemur enginn framboðslisti fram áður en framboðsfresti lýkur eða svo fá nöfn eru á framboðslistum að sveitarstjórn verður ekki fullskipuð í bundinni kosningu og skal þá kosning verða óbundin.
21. gr. Þegar sveitarstjórnarkosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi þann dag þegar þrjár vikur eru til kjördags.
Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega fullt nafn frambjóðanda, kennitölu hans, stöðu og heimili, til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir í kjöri eru.
22. gr. Framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Framboðslista skal og fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi sveitarfélagi. [Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili.] 1) Hver kjósandi má einvörðungu mæla með einum lista við hverjar kosningar. [Ekki er gerð krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri.] 1)
Lágmarksfjöldi meðmælenda skv. 1. mgr. skal vera sem hér segir:
    a. í sveitarfélagi með [101–500] 1) íbúa 10 meðmælendur,
    b. í sveitarfélagi með 501–2.000 íbúa 20 meðmælendur,
    c. í sveitarfélagi með 2.001–10.000 íbúa 40 meðmælendur,
    d. í sveitarfélagi með 10.001–50.000 íbúa 80 meðmælendur,
    e. í sveitarfélagi með 50.001 og fleiri íbúa 160 meðmælendur.
Hámarkstala meðmælenda skal vera tvöföld tilskilin lágmarkstala.
[Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.
Kjósandi, sem mælt hefur með framboðslista, getur ekki afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.] 1)
    1)L. 27/2002, 5. gr.
23. gr. Hverjum framboðslista skal fylgja til yfirkjörstjórnar skrifleg tilkynning frá frambjóðendum listans um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans. Ef umboðsmenn listans eru ekki tilgreindir eða nauðsynjar hamla umboðsmanni eru frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn hans. Þessir umboðsmenn gæta réttar lista þeirra sem þeir eru fyrir við skoðun og úrskurðun listanna. Þeir gefa þær upplýsingar um listana er yfirkjörstjórn óskar. Þeim er heimilt að vera viðstaddir eða gefa öðrum umboð til að vera viðstaddir kosningar á hinum einstöku kjörstöðum og talningu atkvæða. Skyldir eru umboðsmenn að hlíta þeim fundarreglum sem kjörstjórnir setja.
24. gr. Þegar frestur sá er liðinn, sem ákveðinn er um framboð, heldur yfirkjörstjórn fund næsta dag og skal umboðsmönnum framboðslista veittur kostur á að vera viðstaddir. Finnist þá gallar á framboðslista skal hlutaðeigandi umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa. Séu gallar, sem yfirkjörstjórn hefur bent á, ekki leiðréttir innan tilsetts frests kveður hún upp úrskurð um hvort listi skuli fyrir það ógildur teljast. Verði ágreiningur innan yfirkjörstjórnar um úrskurð ræður afl atkvæða úrslitum.
25. gr. Yfirkjörstjórn úrskurðar um kjörgengi. Úrskurði hennar má skjóta til sveitarstjórnar. Úrskurð sveitarstjórnar má kæra á sama hátt sem fyrir er mælt í 93. gr. ef úrskurður fellur um að fulltrúaefni hafi misst kjörgengi.
26. gr. Á framboðslista í sveitarfélagi skulu vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á sem aðalmenn í sveitarstjórn í hvert skipti, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Nú berst yfirkjörstjórn listi með fleiri nöfnum en tilskilið er og skal þá nema burt af listanum öftustu nöfnin sem fram yfir eru tilskilda tölu.
Við hinar sömu sveitarstjórnarkosningar má enginn bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum.
27. gr. Nú berst yfirkjörstjórn listi er nafn manns stendur á án þess að skriflegt leyfi hans fylgi, eða maður hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri listum en einum, og skal þá yfirkjörstjórn nema það nafn burt af listanum eða listunum.
[Nú berast yfirkjörstjórn meðmælendalistar þar sem sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði og verður kjósandinn þá ekki talinn meðmælandi neins þeirra.] 1)
    1)L. 27/2002, 6. gr.
28. gr. Nú er framboðslisti úrskurðaður ógildur og skal eftirrit af úrskurði þá þegar afhent hlutaðeigandi umboðsmanni eða umboðsmönnum ásamt eftirriti af lista þeim sem úrskurðaður er ógildur.
29. gr. Nú kemur aðeins fram einn framboðslisti og skal þá yfirkjörstjórn framlengja framboðsfrest um tvo sólarhringa. Komi ekki fram nýr framboðslisti áður en þeim fresti lýkur verður framkominn framboðslisti sjálfkjörinn.
30. gr. Nú deyr frambjóðandi áður en kosning fer fram, en eftir að framboðsfrestur er liðinn eða á næstu þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur er liðinn, og má þá innan viku, ef fullur helmingur meðmælenda listans krefst þess, setja annan mann í stað hins látna á listann, enda sé fullnægt öðrum almennum skilyrðum um framboðið.
31. gr. Er yfirkjörstjórn hefur lagt úrskurð sinn á framboðslista merkir hún lista framboðanna með hliðsjón af skrá dómsmálaráðuneytisins um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar.
Ef framboðslistar eru ekki bornir fram af stjórnmálaflokkum merkir yfirkjörstjórn þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna.
32. gr. Þegar yfirkjörstjórn hefur úrskurðað framboðin gerir hún þau kunn almenningi með auglýsingu sem birt er á sama hátt og á hverjum stað er títt að birta opinberar auglýsingar.
Greina skal í auglýsingu bókstaf framboðslista og nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð.
Nú fer óbundin kosning fram, framboðsfrestur framlengist samkvæmt ákvæðum 29. gr. eða maður skorast undan endurkjöri skv. 18. gr. og skal þá yfirkjörstjórn auglýsa það með sama hætti og framboð.
33. gr. Ef frambjóðandi hefur dáið og annar boðið sig fram í hans stað samkvæmt heimild og að fullnægðum skilyrðum 30. gr. skal hlutaðeigandi yfirkjörstjórn birta listann þannig breyttan með auglýsingu sem birt er á sama hátt og á hverjum stað er títt að birta opinberar auglýsingar.

VII. kafli. Kjörgögn.
34. gr. Um kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, gerð þeirra og meðferð fer eftir lögum um kosningar til Alþingis.
35. gr. Yfirkjörstjórn lætur gera kjörseðla sem notaðir verða við atkvæðagreiðslu á kjörfundi.
36. gr. Kjörseðlar til atkvæðagreiðslu á kjörfundi skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, [a.m.k. 125 g/m 2 að þyngd]. 1) Skipta skal um lit kjörseðla við hverjar sveitarstjórnarkosningar.
    1)L. 27/2002, 7. gr.
37. gr. Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina að um sé að ræða sveitarstjórnarkosningar í tilteknu sveitarfélagi, dagsetningu þeirra og ártal.
Þar sem bundnar hlutfallskosningar fara fram skal prenta framboðslistana hvern við annars hlið í röð eftir bókstöfum þeirra og skal ætla hverjum lista um 6 sm breidd en lengd skal miðuð við fulla löglega tölu frambjóðenda. Niður undan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð ásamt stöðu og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Listarnir skulu aðgreindir með feitum langstrikum og skal að minnsta kosti 1/ 2 sm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.
Þess skal getið um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök eða annað framboð hann er í kjöri á þann hátt að prenta með skýru letri neðan við listabókstafinn en ofan við nöfnin á listanum: Listi … (nafn stjórnmálasamtakanna eða annars framboðs).
38. gr. Ef um óbundnar kosningar er að ræða skal kjörseðill vera tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á.
39. gr. Kjörseðlana skal brjóta saman þannig að óprentaða hliðin snúi út.
Ekki skal fullgera fleiri seðla en nauðsynlegt er að mati yfirkjörstjórnar og skal yfirkjörstjórn varast að láta óviðkomandi sjá seðlana áður en hún sendir þá frá sér.
40. gr. Kjörseðlar skulu fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag og skal yfirkjörstjórn síðan afhenda með öruggum hætti hverri undirkjörstjórn jafnmarga seðla og kjósendur eru á kjörskrá í hennar kjördeild og minnst 10% fram yfir.
Seðlarnir skulu afhentir í vönduðum umbúðum er yfirkjörstjórn innsiglar svo vandlega að eigi sé auðið að opna umbúðirnar og ná út seðlum án þess að brjóta innsiglið.
Seðlum, sem eigi eru afgreiddir til undirkjörstjórnar, gerir yfirkjörstjórn grein fyrir þegar atkvæði eru talin.
41. gr. Sömu atkvæðakassar skulu að jafnaði notaðir og við alþingiskosningar. Sýslumenn eða fulltrúar þeirra varðveita atkvæðakassana milli kosninga og sjá um að þeir séu til taks í tæka tíð þar sem þarf að nota þá við kosningar. Skulu kassarnir allir vera af sömu gerð, eigi minni en 31,5 sm að lengd, 21 sm að breidd og 15,7 sm á hæð, með loki á hjörum og góðri læsingu fyrir. Langs eftir miðju lokinu skal vera rifa er sé 15,7 sm löng að minnsta kosti og 6,5 mm víð að ofan en víðari að neðan.
Yfirkjörstjórn ber ábyrgð á að jafnan séu til nægir atkvæðakassar með pokum til afnota í sveitarfélaginu.
42. gr. [Samgönguráðuneytið] 1) lætur hverri yfirkjörstjórn í té sérprentun af lögum þessum ásamt skýringum og leiðbeiningum, ef þurfa þykir. Yfirkjörstjórn skal sjá til þess að undirkjörstjórnir fái slíka sérprentun.
Formenn yfir- og undirkjörstjórna geyma eintök þessi og skulu þau jafnan vera við höndina á kjörstað meðan kjörfundur stendur yfir.
    1)L. 167/2007, 3. gr.

VIII. kafli. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.
43. gr. Kjósandi hefur heimild til að greiða atkvæði utan kjörfundar frá þeim degi er átta vikur eru til kjördags.
Nú hefur kjördagur verið ákveðinn með skemmri fyrirvara en átta vikum og á kjósandi þá rétt á að greiða atkvæði frá og með næsta virka degi eftir að kjördagur hefur verið ákveðinn.
Þegar kosning er óbundin ritar kjósandi, er greiðir atkvæði utan kjörfundar, á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang þeirra aðal- og varamanna er hann kýs. Tilgreina skal varamenn í þeirri röð sem kjósandi kýs að þeir taki sæti.
Um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar fer að öðru leyti eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.

IX. kafli. Atkvæðagreiðsla á kjörfundi.
44. gr. Kjörstað í hverri kjördeild ákveður sveitarstjórn.
Kjörstað skal auglýsa almenningi á undan kjörfundi með nægum fyrirvara.
45. gr. Þegar kosning fer fram skal svo búið um kjörklefa að utan frá verði hvorki í þá gengið né séð.
Kjörklefar mega vera fleiri en einn. Í hverjum kjörklefa skal vera lítið borð sem skrifa má við.
46. gr. [Í kjörfundarstofu, svo og annars staðar á kjörstað, skal á áberandi stað festa upp tilkynningu um framboðslista í sveitarfélaginu, þegar um bundna hlutfallskosningu er að ræða, þar sem fram koma heiti stjórnmálasamtaka, listabókstafir og nöfn frambjóðenda í sömu röð og á kjörseðli. Á sama hátt skal festa þar upp kosningaleiðbeiningar er [samgönguráðuneytið] 1) gefur út í því skyni.] 2)
[Samgönguráðuneytið] 1) sendir yfirkjörstjórnum í tæka tíð nægilega mörg eintök leiðbeininga þessara en yfirkjörstjórnir senda þær aftur undirkjörstjórnum.
    1)L. 167/2007, 3. gr. 2)L. 27/2002, 8. gr.
47. gr. Kjörfund skal setja á kjörstað kl. 9 árdegis en yfirkjörstjórn getur þó ákveðið að kjörfundur hefjist síðar, þó eigi síðar en kl. 12 á hádegi. Fullskipuð kjörstjórn skal viðstödd er kjörfundur er settur. Sé hún ekki öll viðstödd taka varamenn sæti en séu þeir eigi heldur viðstaddir kveður sá eða þeir sem við eru úr kjörstjórninni valinkunnan mann eða menn af kjósendum til að taka sæti í kjörstjórninni og halda þeir sæti sínu uns hinir koma.
Upphaf kjörfundar skal auglýsa með þeim fyrirvara og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.
48. gr. Á meðan á kosningarathöfninni stendur má aldrei nema einn úr kjörstjórn ganga út í senn og felur hann öðrum úr kjörstjórninni verk sitt á meðan [nema varamaður sé tiltækur]. 1)
    1)L. 27/2002, 9. gr.
49. gr. Kjörstjórnin skal sitja við borð í kjörfundarstofunni. Auk umboðsmanna lista má enginn vera inni í kjörfundarstofunni nema þeir kjósendur, einn á hvern kjörklefa, sem eru að greiða atkvæði.
Athöfnin byrjar með því að oddviti kjörstjórnar leggur fram böggul með kjörseðlum. Því næst opnar oddviti böggulinn og telur seðlana en meðkjörstjórar og umboðsmenn telja líka. Skal fjöldi seðlanna skráður í gerðabók kjörstjórnar og riti kjörstjórn og umboðsmenn þar undir.
50. gr. [Nú hefur kjörstjórn borist atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar og skal þá athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Oddviti opnar síðan kassann og telur kjörstjórnin bréfin og ber þau saman við skrár þær sem fylgja, sbr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Skal kjörstjórnin síðan opna sendiumslagið og kanna hvort taka skuli utankjörfundaratkvæðið til greina, sbr. 68. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka utankjörfundaratkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.
Atkvæðisbréf, sem kjörstjórn kunna að hafa borist eða berast meðan á atkvæðagreiðslu stendur, skal tölusetja í áframhaldandi röð og skal tölu þeirra getið í kjörbókinni. Skal fara með þau atkvæði svo sem greinir í 1. mgr.
Ef kjósandi er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin kanna hvar kjósandi er á kjörskrá og ef unnt er koma atkvæðisbréfinu í rétta kjördeild, ella skal bréfið varðveitt þar til atkvæðagreiðslu lýkur.
Í sveitarfélagi, þar sem kosin er sérstök yfirkjörstjórn, er kjörstjórninni heimilt að hefja flokkun atkvæða skv. 1. mgr. daginn fyrir kjördag þannig að atkvæðisbréf verði afhent í rétta kjördeild á kjördag.] 1)
    1)L. 27/2002, 10. gr.
51. gr. Kjörstjórn athugar hverjir kjósendur, sem standa á kjörskrá, hafa afsalað sér rétti til að greiða atkvæði í kjördeildinni í því skyni að greiða atkvæði í annarri kjördeild og gerir athugasemd um það við nöfn hlutaðeigenda á kjörskránni og þeim afritum af henni sem notuð eru við atkvæðagreiðsluna.
52. gr. [Oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjóranna skulu hafa fyrir sér hvor sitt eintak kjörskrárinnar. Skulu þeir gera merki við nafn hvers kjósanda um leið og hann hefur neytt kosningarréttar síns.] 1)
    1)L. 27/2002, 11. gr.
53. gr. [Áður en atkvæðagreiðsla hefst] 1) skal kjörstjórnin og umboðsmenn gæta þess að kassinn sé tómur og síðan læsa honum.
    1)L. 27/2002, 12. gr.
54. gr. [Kjósendur skulu greiða atkvæði í þeirri röð sem þeir gefa sig fram.
Kjörstjórn getur ákveðið að í kjörfundarstofu séu ekki, auk þeirra sem starfa við framkvæmd kosninganna, aðrir en kjósendur sem ætla að greiða atkvæði. Kjörstjórnin getur auk þess takmarkað fjölda kjósenda í kjörfundarstofu ef þörf þykir til að halda uppi reglu.
Kjörstjórn skal að öðru leyti sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.] 1)
    1)L. 27/2002, 13. gr.
55. gr. Kjósandi skal gera kjörstjórn grein fyrir sér á kjörstað með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar. Ef hann þannig á rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni afhendir fulltrúi í kjörstjórn honum einn kjörseðil.
56. gr. Engum manni, sem á kjörskrá stendur, má kjörstjórnin meina að greiða atkvæði nema hann hafi afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild og greitt atkvæði annars staðar.
Engum manni, sem ekki stendur á kjörskrá, má kjörstjórn leyfa að greiða atkvæði nema hann sanni með vottorði að nafn hans standi á kjörskrá í annarri kjördeild innan sama sveitarfélags og hafi afsalað sér þar kosningarrétti og sé vottorðið gefið af undirkjörstjórn þeirrar kjördeildar. Undirkjörstjórn, eða oddviti undirkjörstjórnar fyrir hennar hönd, sem gefur slíkt vottorð, færir það til bókar í gerðabók undirkjörstjórnar og fylgja skal það í frumriti til yfirkjörstjórnar gerðabók þeirrar kjördeildar þar sem það er lagt fram og notað, enda sé einnig getið um það í gerðabókinni og nafn og heimili kjósanda tilgreint.Vottorð er einnig gilt sé það undirritað af oddvita eða framkvæmdastjóra sveitarstjórnar fyrir hennar hönd. Tilkynna ber undirkjörstjórn kjördeildar fyrir kjördag hvaða kjósendum í kjördeildinni sveitarstjórn hafi gefið vottorð.
57. gr. Þá er kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum, sem oddviti afhendir honum, fer kjósandi með hann inn í kjörklefann [þar sem kjósandinn má einn vera] 1) og að borði því er þar stendur. Á borðinu skulu vera ekki færri en tvö venjuleg dökk ritblý er kjörstjórn lætur í té og sér um að jafnan séu nægilega vel ydd.
Þar skal einnig vera spjald jafnstórt kjörseðli með upphleyptum listabókstöfum og blindraletri, með glugga framan við hvern staf og vasa á bakhlið þannig að blindir geti gegnum gluggann sett kross framan við þann lista er þeir gefa atkvæði sitt og á þann hátt kosið í einrúmi og án aðstoðar.
    1)L. 27/2002, 14. gr.
58. gr. Kjósandi greiðir atkvæði við bundnar hlutfallskosningar á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.
Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.
59. gr. Atkvæðagreiðsla við óbundnar kosningar fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar í kjörklefa á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.
Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal hann rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.
60. gr. Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögum þessum.
61. gr. Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð.
62. gr. [Þegar kjósandi hefur gengið frá kjörseðlinum samkvæmt framansögðu brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.] 1)
    1)L. 27/2002, 15. gr.
63. gr. Ef kjósandi skýrir kjörstjórn frá því að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal sá úr kjörstjórninni er kjósandi nefnir til veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum, enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í gerðabókina, að tilgreindum ástæðum. [Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill verja atkvæði sínu.] 1) Kjörstjórnarmanni er með öllu óheimilt að bjóða þeim aðstoð sína er þarfnast hjálpar samkvæmt grein þessari.
    1)L. 27/2002, 16. gr.
64. gr. Láti kjósandi sjá hvað á seðli hans er er seðillinn ónýtur og má ekki leggja hann í atkvæðakassann. Ef kjósanda verður þetta á eða ef hann setur skakkt kjörmerki á seðil eða seðill krotast hjá honum af vangá á hann rétt á að fá nýjan kjörseðil. Skal hann þá afhenda kjörstjórninni hinn fyrri seðil.
Þá er kjósandi hefur látið seðilinn í atkvæðakassann víkur hann út úr kjörfundarstofunni.
65. gr. Kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar …, 1) getur greitt atkvæði á kjörfundi og kemur utankjörfundarseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.
    1)L. 27/2002, 17. gr.
66. gr. Atkvæðagreiðslu má ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Atkvæðagreiðslu má þó slíta er allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.
Kjörfundi skal þó eigi slíta síðar en kl. 22 á kjördag. Þeir kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma, eiga þó rétt á að greiða atkvæði.
67. gr. [Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórn á ný, í viðurvist umboðsmanna lista, þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt.
Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni.
Ef atkvæðisbréf verður ekki tekið til greina, sbr. 68. gr., skal það áritað eins og segir í 1. mgr. 50. gr.
Ef kjósandi, sem sent hefur frá sér utankjörfundaratkvæði, er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin geta þess sérstaklega í kjörbókinni og senda slík atkvæðisbréf aðskilin til yfirkjörstjórnar.] 1)
    1)L. 27/2002, 18. gr.
68. gr. [Ekki skal taka til greina utankjörfundaratkvæði ef:
    a. sendandinn er ekki á kjörskrá,
    b. sendandinn er búinn að greiða atkvæði,
    c. sendandinn hefur afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild, sbr. 51. gr.,
    d. sendandinn hefur látist fyrir kjördag,
    e. í sendiumslaginu er meira en eitt fylgibréf og eitt kjörseðilsumslag,
    f. sjáanlegt er að ekki hafi verið notuð hin fyrirskipuðu kjörgögn er dómsmálaráðuneytið hefur látið gera,
    g. ekki hefur verið farið eftir þeim reglum sem settar hafa verið um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eða
    h. atkvæðið hefur ekki verið greitt á þeim tíma sem greinir í 57. gr. og 5. mgr. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
Nú berast fleiri en eitt atkvæði greidd utan kjörfundar frá sama kjósanda sem geta komið til greina og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði koma til greina.] 1)
    1)L. 27/2002, 19. gr.
69. gr. Nú verður ágreiningur innan kjörstjórnar eða milli kjörstjórnar og umboðsmanns lista um hvort utankjörfundaratkvæði sé gilt eða ógilt og skal þá bóka nákvæmlega í gerðabókina í hverju ágreiningurinn er fólginn og skal síðan yfirkjörstjórn úrskurða um gildi þess.
70. gr. Þau kjörseðilsumslög sem enginn ágreiningur er um að gild séu lætur kjörstjórn óopnuð í atkvæðakassann.
71. gr. [Þegar atkvæðagreiðslu er slitið og gild kjörseðilsumslög hafa verið látin í atkvæðakassann skal oddviti jafnskjótt ganga frá í sérstöku umslagi öllum þeim seðlum sem ónýst hafa, sbr. 64. gr., í öðru umslagi öllum þeim utankjörfundaratkvæðum sem ágreiningur er um, sbr. 69. gr., og í hinu þriðja öllum þeim ónotuðu seðlum sem afgangs eru. Þegar umslögunum hefur verið lokað skal ganga frá þeim öllum þremur ásamt lyklinum að atkvæðakassanum í aðalumslaginu og loka því. Til þess skal nota umslög þau sem yfirkjörstjórn hefur sent í þessu skyni.
Því næst skal oddviti, er bókun er lokið og kjörbókin hefur verið undirrituð af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef viðstaddir eru, ganga frá öllu saman, atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók eða afriti úr kjörbók sem undirritað er af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef þeir hafa verið viðstaddir, svo og utankjörfundaratkvæðum sem fara eiga í aðra kjördeild, sbr. 4. mgr. 67. gr., í umbúðum innsigluðum af kjörstjórn og er umboðsmönnum heimilt að setja innsigli sín á umbúðirnar. Gögnin skal merkja til yfirkjörstjórnar og senda henni þegar í stað á öruggan hátt. Skal yfirkjörstjórn gefa viðurkenningu fyrir móttöku.
Eftir að kjörstjórn hefur þannig gengið frá kjörgögnum mega hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar eigi vera í vörslu sama manns.] 1)
    1)L. 27/2002, 20. gr.
72. gr. [Ef yfirkjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum lista.
Um leið og kosningu er lokið og kjörstjórn hefur unnið nauðsynlegar skýrslur úr kjörskránni sendir hún kjörskráreintök þau sem notuð voru við kosninguna í innsigluðum umbúðum til yfirkjörstjórnar.] 1)
    1)L. 27/2002, 21. gr.
73. gr. Yfirkjörstjórn kannar hvort tala kjósenda sem greitt hafa atkvæði samkvæmt kjördeildarbókum undirkjörstjórna sé í samræmi við afhenta atkvæðaseðla og skráðar athugasemdir undirkjörstjórna.
74. gr. Umboðsmenn lista eiga rétt á að gæta þess að kjörstjórn og kjósendur hegði sér lögum samkvæmt við kosningarathöfnina og má hver þeirra átelja við kjörstjórnina það er honum þykir áfátt.
Nú þykir umboðsmanni eitthvað ólöglegt við kosningarathöfnina og fær það ekki leiðrétt og á hann þá rétt á að fá ágreiningsálitið bókað þegar í stað í gerðabókina.
Neiti kjörstjórn að bóka eitthvað fyrir umboðsmann áhrærandi kosningargerðina á hann rétt á að bóka það sjálfur og riti hann nafn sitt undir.

X. kafli. Framkvæmd atkvæðatalningar.
75. gr. Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa stund og stað þá er hún komi saman til að opna atkvæðakassana og telja atkvæðin nema kjördeild sé ein og talning fari fram í lok kjörfundar. Undirkjörstjórnum er skylt að sjá um að þá séu atkvæðakassarnir og þau kjörgögn, sem þeim eiga að fylgja, komin í hendur yfirkjörstjórnar, nema gild forföll banni. Ætíð skal talning fara fram svo fljótt sem verða má að dómi yfirkjörstjórnar.
Sé kosningu frestað skv. 89. gr. má talning atkvæða aldrei fara fram fyrr en kosningu er hvarvetna lokið.
76. gr. Talning atkvæða skal fara fram fyrir opnum dyrum svo að kjósendum gefist kostur á að vera við, eftir því sem húsrúm leyfir.
Nú eru umboðsmenn lista eigi viðstaddir talningu og skal yfirkjörstjórn þá kveðja valinkunna menn úr sömu stjórnmálasamtökum eða tengda listunum, ef unnt er, til að gæta réttar af hendi listans.
77. gr. Í viðurvist manna skv. 2. mgr. 76. gr. opnar svo yfirkjörstjórn atkvæðasendingarnar úr hverri kjördeild sveitarfélagsins, nema talning fari fram í lok kjörfundar, eftir að þeim hefur verið gefinn kostur á að sannfærast um að öll innsigli séu ósködduð. Hafi yfirkjörstjórn borist bréf með utankjörfundaratkvæði skal fara með það eins og segir í 67. gr. Jafnótt og hver atkvæðakassi er opnaður skal seðlum þeim sem í honum eru óskoðuðum hellt í hæfilegt tómt ílát með loki yfir, en gæta skal þess að seðlar úr einstökum kjördeildum blandist vel saman.
Kjörseðlar skulu síðan teknir úr ílátinu að viðstöddum umboðsmönnum lista, flokkaðir eftir listabókstöfum sem við er merkt á hverjum seðli og taldir undir stjórn yfirkjörstjórnar.
Þegar kosning er óbundin fer talning atkvæða fram með þeim hætti að oddviti yfirkjörstjórnar les upp nöfnin sem á kjörseðlinum standa og réttir hann svo meðkjörstjórnarmönnum til athugunar en þeir skrá atkvæðin jafnóðum.
Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra fyrir luktum dyrum áður en kjörfundi lýkur.
78. gr. Atkvæði skal meta ógilt:
    a. ef kjörseðill er auður,
    b. ef ekki verður séð við hvern lista er merkt eða ef ekki verður séð með vissu hvort það sem stendur á utankjörfundarseðli getur átt við nokkurn af listum sem í kjöri eru,
    c. ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn eða tölumerkt nöfn á fleiri listum en einum eða skrifaður fleiri en einn listabókstafur á utankjörfundarseðil,
    d. ef áletrun er á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt eða annarleg merki sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan,
    e. ef kjörseðill er annar en kjörstjórn eða kjörstjóri hefur löglega afhent,
    [f. ef í umslagi með utankjörfundarseðli er annað eða meira en einn kjörseðill.] 1)
    1)L. 27/2002, 22. gr.
79. gr. Atkvæði skal ekki meta ógilt þó að gallað sé ef greinilegt er hvernig það á að falla, nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn, en t.d. aftan við hann, þó að kross sé ólögulegur, þó að á utankjörfundarseðli fylgi orðið listi listabókstaf að óþörfu, þó að í stað listabókstafs standi heiti stjórnmálasamtaka o.s.frv.
Lista telst greitt atkvæði þó að láðst hafi að merkja við listabókstaf ef nafn eða nöfn á honum eru tölusett eða krossað við nafn, enda séu ekki aðrir gallar á.
Við óbundnar kosningar skal ekki meta atkvæði ógilt þótt sleppt sé fornafni eða eftirnafni ef greinilegt er eftir sem áður við hvern er átt.
80. gr. Utankjörfundaratkvæði greitt lista fyrir breytingu á honum skv. 33. gr. skal teljast greitt listanum þannig breyttum.
81. gr. [Nú kemur yfirkjörstjórn og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill sé ógildur og skal hann þá ógildan telja. Verði ágreiningur meðal kjörstjórnar um gildi kjörseðils skal afl atkvæða ráða úrslitum. Úrskurða skal ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir. Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.
Nú verður ágreiningur milli kjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur og skal þá leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað þá seðla sem kjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað ógilda.
Þegar atkvæði hafa verið talin saman undir nákvæmu eftirliti umboðsmanna færir yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabókina og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru. Skal þess gætt að samtölu atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt samtals í sveitarfélaginu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.] 1)
    1)L. 27/2002, 23. gr.
82. gr. Sé atkvæðasending frá einhverri kjördeild ekki komin til yfirkjörstjórnar á auglýstum tíma skv. 75. gr. skal yfirkjörstjórn eigi að síður opna atkvæðakassa og önnur kjörgögn á þeim tíma sem auglýstur hafði verið. Tilkynna skal umboðsmönnum lista, eftir því sem auðið er, hvenær sendingin verður opnuð til þess að þeir eigi kost á að vera viðstaddir.
83. gr. Að talningu lokinni skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og varðveita þá. Skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið aðgreindum.
Að kærufresti loknum eða að fullnaðarúrskurði uppkveðnum varðandi kosninguna, ef kosning hefur verið kærð, skal yfirkjörstjórn eyða hinum innsigluðu kjörseðlum og skrá yfirlýsingu þar um í gerðabók kjörstjórnar.
Sama gildir um söfnun og varðveislu kjörskráa.
84. gr. Við lok talningar skal tilkynna úrslit kosninga og skal getið sérstaklega hve margir atkvæðaseðlar eru auðir og hve margir ógildir.

XI. kafli. Kosningaúrslit.
85. gr. Við bundnar hlutfallskosningar skal telja öll atkvæði sem hver listi hefur hlotið og er þá fundin atkvæðatala hvers lista.
Til þess að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu af hverjum lista skal fara þannig að:
    1. Deila skal atkvæðatölum listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
    2. Fyrsta fulltrúa fær sá listi kjörinn sem hæsta útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annan fulltrúa fær sá listi sem nú hefur hæsta útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum fulltrúum og kjósa á.
    3. Nú eru of fá nöfn á lista þegar til úthlutunar kemur skv. 2. tölul. og skal þá ganga fram hjá þeim lista við frekari úthlutun.
    4. Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.
86. gr. Til þess að finna hverjir frambjóðendur hafa náð kosningu á hverjum lista skal kjörstjórn reikna frambjóðendum atkvæðatölu á þennan hátt:
Kjörstjórn tekur saman þá kjörseðla þar sem engin breyting hefur verið gerð á listanum. Þar telst efsta nafn listans vera í fyrsta sæti, næsta nafn í öðru sæti o.s.frv. Næst tekur kjörstjórn alla þá kjörseðla þar sem kjósendur hafa gert einhverjar breytingar á röð frambjóðenda og telur atkvæði hvers frambjóðanda í hvert sæti listans.
Nöfnum frambjóðenda á listanum er nú raðað þannig að sá sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. sæti skv. 2. mgr. hlýtur það sæti. Sá frambjóðandi, að þessum slepptum, sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. og 2. sæti samanlagt hlýtur 2. sætið o.s.frv. uns raðað hefur verið í sæti svo mörgum frambjóðendum listans að ljóst sé hverjir teljast fulltrúar hans og hverjir varafulltrúar.
Þegar kosið er bundinni hlutfallskosningu og listi fær einn eða fleiri aðalmenn kjörna verða þeir varamenn sem ekki hlutu kosningu á listanum.
87. gr. Þegar kosning er óbundin eru þeir sem flest atkvæði fá sem aðalmenn réttkjörnir aðalmenn. Hafi tveir eða fleiri hlotið jafnmörg atkvæði og geta ekki báðir eða allir náð kjöri ræður hlutkesti.
Varamenn, þar sem kosning er óbundin, skulu vera jafnmargir og aðalmenn. Varamenn eru þeir sem hljóta atkvæðamagn þannig: 1. varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur samanlagt í 1. sæti á lista yfir varamenn að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns. 2. varamaður er kosinn sá sem flest atkvæði hlýtur í 2. sæti lista varamanna að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns og í 1. sæti á lista varamanna. Kosning annarra varamanna ákvarðast á sama hátt uns fyllt er í sæti þau sem kjósa skal í. Nú fá tveir menn jafnmörg atkvæði samanlagt í sæti varamanns og skal þá hlutkesti ráða hvor hlýtur sætið. Sá sem ekki hlýtur sætið tekur sæti næsta varamanns og færast þá þeir varamenn sem á eftir koma um set.
88. gr. Yfirkjörstjórn skal senda Hagstofu Íslands skýrslu um kosninguna ritaða á eyðublað er Hagstofan lætur í té.

XII. kafli. Kosningum frestað og uppkosningar.
89. gr. Nú ferst kosning í kjördeild fyrir á hinum ákveðna degi sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum og kveður þá yfirkjörstjórn innan viku til kjörfundar að nýju. Birta skal fundarboðið á sama hátt og venja er þar að birta opinberar auglýsingar.
Yfirkjörstjórn getur frestað kosningu í kjördeild eftir að hún er hafin ef hún telur óviðráðanlegar ástæður, eins og óveður, hindra að kosning geti fram haldið og allir kjörstjórnarmenn eru sammála um frestunina. Hafi kosningu verið frestað ber að kveðja til kjörfundar að nýju með sama hætti og segir í 1. mgr. þessarar greinar.
Þegar kosningu hefur verið frestað skal í öllu svo að farið sem fyrir er mælt í 71. gr., eftir því sem við á, að því viðbættu að kjörskráin og þau eftirrit hennar sem kjörstjórnin hefur haft til afnota skulu lögð með öðrum kjörgögnum í poka þann sem innsiglaður er. Eftir að kjörfundur er settur hinn síðari kjördag opnar kjörstjórn hinn innsiglaða poka og umslög, sem í honum eru, í viðurvist frambjóðenda eða umboðsmanna þeirra. Sé frambjóðandi eigi mættur eða umboðsmaður hans kveður hún til valinkunnan mann að vera umboðsmaður frambjóðanda. Sé eigi unnt að fullnægja þessu ákvæði má þó rjúfa innsigli, opna umslögin og hefja kosningu þegar klukkustund er liðin frá setningu kjörfundar. Um hinn síðari kjördag gilda ákvæði IX. kafla laganna, eftir því sem við á.
Komi atkvæðasending frá kjördeild ekki til skila til yfirkjörstjórnar, en kosning hefur farið fram, lætur yfirkjörstjórn nýja kosningu fara fram í kjördeildinni og fer um hana að öllu á sama hátt og fyrr segir.
90. gr. Nú verður uppkosning nauðsynleg fyrir það að kosning er úrskurðuð ógild skv. 93. gr. þessara laga og skal þá sitjandi sveitarstjórn í samráði við yfirkjörstjórn boða til nýrra kosninga í sveitarfélaginu og ákveða kjördag svo fljótt sem því verður við komið og eigi síðar en innan mánaðar.
Að öðru leyti fer kosning fram samkvæmt fyrirmælum þessara laga eftir því sem við getur átt.
91. gr. Nú fara aukakosningar fram vegna þess að kosningar hafa verið úrskurðaðar ógildar og síðari kosningarnar fara fram innan hálfs árs frá þeim fyrri og skal þá kosið samkvæmt fyrri kjörskrá.
Fari kosning síðar fram skal gerð ný kjörskrá.

XIII. kafli. Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll.
92. gr. Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll telst:
    a. að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, að svipta mann eða ógna manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni, að heita á mann fé eða fríðindum ef kosning fari svo eða svo, að torvelda öðrum sókn á kjörfund eða til utankjörfundarkjörstaðar, svo og að beita þvingunarráðstöfunum í sambandi við kosningar,
    b. að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka, merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni,
    c. að hafa merki stjórnmálasamtaka, merki lista eða önnur slík auðkenni á bifreiðum meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma,
    d. að gefa ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra, svo sem um nafn, aldur, búsetu í landinu, heimilisfang eða annað, sem leiðir eða leitt getur til þess að maður verði settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar, eða maður ekki settur á kjörskrá eða tekinn út af kjörskrá sem á rétt á að vera þar, eða maður verði látinn greiða atkvæði í stað annars manns er stendur á kjörskrá; hér undir heyrir sérstaklega ef maður telur sig til málamynda eiga lögheimili í sveitarfélagi, aðeins til þess að verða settur þar á kjörskrá,
    e. að gefa út villandi kosningaleiðbeiningar,
    f. að rangfæra atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með því að eyðileggja eða breyta atkvæði sem greitt hefur verið eða á annan hátt.

XIV. kafli. Kosningakærur.
93. gr. Sá sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu skal afhenda kæru sína hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.
Viðkomandi sýslumaður skal skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið þegar er honum hefur borist kæra. Skal leita umsagnar yfirkjörstjórnar um kæru og skal hún láta uppi álit sitt innan viku frá því að hún fékk kæruna og kjörnefnd kveða upp úrskurð sinn innan viku þar frá.
Úrskurði nefndarinnar má skjóta til [samgönguráðuneytisins] 1) og skal tilkynning um kæruna komin til ráðuneytisins innan viku og skjöl þau, er kærunni kunna að fylgja, sett í póst innan sama tíma.
Nú kemur fram kæra innan kærufrests skv. 1. mgr. og nefndin úrskurðar kosningu ógilda og lætur þá fráfarandi sveitarstjórn ekki af störfum fyrr en kosning hefur farið fram að nýju og nefndin úrskurðað um kærur sem fram kunna að koma vegna þeirra.
    1)L. 167/2007, 3. gr.
94. gr. Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

XV. kafli. Nýkjörin sveitarstjórn.
95. gr. Yfirkjörstjórn skal gefa út kjörbréf til aðalfulltrúa í sveitarstjórn og jafnmargra varamanna. Yfirkjörstjórn skal ef þörf krefur gefa út kjörbréf til annarra varamanna sem sæti taka í sveitarstjórn og kjörnir hafa verið í bundnum hlutfallskosningum.
Jafnframt skal yfirkjörstjórn senda nýkjörinni sveitarstjórn greinargerð um úrslit kosninganna.
96. gr. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag og jafnskjótt lætur fráfarandi sveitarstjórn af störfum.
Fulltrúi í sveitarstjórn getur krafist frestunar á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar sem teknar eru frá kjördegi og þar til nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum og skal þá leggja mál að nýju fyrir hana á fyrsta fundi hennar. Nú er mál þannig vaxið að framkvæmd ákvörðunar þolir enga bið og verður þessa úrræðis þá ekki neytt, enda sé heimild til afgreiðslu málsins í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.
97. gr. Nú ógildir ráðuneytið kosningar eftir að nýkjörin sveitarstjórn hefur tekið við störfum og skal hún þá sitja þar til nýjar kosningar hafa farið fram og kærur sem fram kunna að koma hafa verið úrskurðaðar.
Eftir að kjörtímabili fráfarandi sveitarstjórnar er lokið og þar til löglega kjörin sveitarstjórn tekur við störfum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar getur starfandi sveitarstjórn ekki innt af hendi neinar greiðslur eða gengist undir nokkrar skuldbindingar fyrir hönd sveitarfélagsins nema samkvæmt heimild í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.

XVI. kafli. Varamenn taka sæti á kjörtímabili.
98. gr. Sveitarstjórn úrskurðar hvort sveitarstjórnarmaður hafi misst kjörgengi.
Missi fulltrúi í sveitarstjórn kjörgengi skal hann víkja úr sveitarstjórninni, sbr. þó ákvæði sveitarstjórnarlaga varðandi tímabundinn brottflutning sveitarstjórnarmanns.
Skjóta má úrskurði sveitarstjórnar til [samgönguráðuneytisins] 1) og úrskurði þess má skjóta til dómstóla.
    1)L. 167/2007, 3. gr.
99. gr. Varamenn taka sæti í sveitarstjórn eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

XVII. kafli. Kostnaður.
100. gr. Kostnaður við sveitarstjórnarkosningar, þar með talinn kostnaður vegna kjörnefndar skv. 93. gr., greiðist úr sveitarsjóði.

XVIII. kafli. Refsiákvæði.
101. gr. Sektum varðar, ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum, ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður haga fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækja hana.
102. gr. Eftirtalið varðar sektum:
    a. ef maður býður sig fram til setu í sveitarstjórn vitandi að hann er ekki kjörgengur,
    b. ef maður býður sig fram á fleiri listum en einum,
    c. ef kjósandi ónýtir af ásettu ráði atkvæðaseðil sinn við kosningu á kjörfundi eða við kosningu hjá utankjörfundarkjörstjóra,
    d. ef kjósandi sýnir af ásettu ráði hvernig hann kýs eða hefur kosið,
    e. ef maður njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið,
    f. ef kjósandi gerir sér upp sjónleysi eða önnur forföll til að fá aðstoð við kosningu,
    g. ef maður vanrækir af ásettu ráði að koma til skila atkvæðabréfi sem honum hefur verið trúað fyrir eða tefur vísvitandi fyrir sendingu atkvæða og kjörgagna,
    h. ef maður gefur ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra á þann hátt sem greint er í d-lið 92. gr., ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum,
    i. ef maður gefur út villandi kosningaleiðbeiningar.
103. gr. Eftirtalið varðar sekt, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum:
    a. ef kjörstjórnarmaður eða utankjörfundarkjörstjóri njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið eða gefur vísvitandi villandi kosningaleiðbeiningar,
    b. ef kjörstjórnarmaður eða utankjörfundarkjörstjóri, sem veitir aðstoð, segir frá því hvernig kjósandi, sem hann hefur aðstoðað, hefur greitt atkvæði,
    c. ef kjörstjórnarmaður, utankjörfundarkjörstjóri, póstur eða sá sem tekið hefur að sér flutning kjörgagna eða atkvæðakassa tefur fyrir að það komist til skila,
    d. ef maður torveldar öðrum sókn á kjörfund eða atkvæðagreiðslu utan kjörfundar,
    e. ef maður greiðir atkvæði á tveimur stöðum við sömu sveitarstjórnarkosningar,
    f. ef maður ber fé eða fríðindi á mann eða heitir manni fé eða fríðindum til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, eða ef maður sviptir mann eða ógnar manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni,
    g. ef maður tekur fé eða fríðindi fyrir að greiða atkvæði, láta vera að greiða atkvæði eða að greiða atkvæði á ákveðinn hátt.
104. gr. Eftirtalið varðar … 1) fangelsi allt að fjórum árum:
    a. ef maður beitir þvingunarráðstöfunum eða ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að raska kosningafrelsi manns, annaðhvort á þann hátt að meina honum að greiða atkvæði eða neyða hann til að greiða atkvæði á annan veg en hann vill,
    b. ef maður vísvitandi rangfærir atkvæðagreiðslu með því að glata atkvæði, breyta atkvæði, skemma eða glata atkvæðasendingu, búa til kjörseðla, er líkjast mjög þeim sem notaðir eru við kosningu, og hagnýta þá sjálfur eða láta þá frá sér til þess að aðrir geti hagnýtt þá, rugla úrslit talningar atkvæða eða með öðrum hætti.
    1)L. 82/1998, 241. gr.
105. gr. Sektir allar samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð.

XIX. kafli. Gildistaka.
106. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi …