Lagasafn. Íslensk lög 11. september 2012. Útgáfa 140b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um kjararáð
2006 nr. 47 14. júní
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júlí 2006. Breytt með l. 168/2007 (tóku gildi 29. des. 2007), l. 148/2008 (tóku gildi 24. des. 2008), l. 87/2009 (tóku gildi 20. ágúst 2009), l. 127/2009 (tóku gildi 30. des. 2009) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
1. gr. [Verkefni kjararáðs er að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, ráðherra, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands, forstöðumanna ríkisstofnana og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.]
1)

[Kjararáð skal einnig ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla. Ákvæði 1. málsl. tekur ekki til félags sem nefnt er dótturfélag móðurfélagsins í 2. mgr. 2. gr. laga um hlutafélög og 2. mgr. 2. gr. laga um einkahlutafélög. Ákvæði 1. málsl. tekur ekki heldur til félaga sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins eða dótturfélög þessara fjármálafyrirtækja yfirtaka til að tryggja fullnustu kröfu. Í vafatilvikum úrskurðar [ráðuneyti er fer með starfsmannamál ríkisins]
2) um hvort kjararáð eigi úrskurðarvald samkvæmt þessari málsgrein.]
3)
1)L. 168/2007, 1. gr. 2)L. 126/2011, 420. gr. 3)L. 87/2009, 1. gr.
2. gr. Kjararáð skal skipað fimm ráðsmönnum og jafnmörgum vararáðsmönnum.

Alþingi kýs þrjá ráðsmenn. Hæstiréttur skipar einn ráðsmann og [ráðherra er fer með starfsmannamál ríkisins]
1) annan. Sömu aðilar velja vararáðsmenn. Kjararáðsmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn.

Kjararáð kýs formann og varaformann úr hópi aðalmanna og setur sér sjálft starfsreglur.
1)L. 126/2011, 420. gr.
3. gr. Fullskipað kjararáð ákveður laun forseta Íslands skv.
1. gr. laga nr. 10/1990, um laun forseta Íslands, þingfararkaup samkvæmt
lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, og launakjör ráðherra, hæstaréttardómara og héraðsdómara.
4. gr. Kjararáð skipað þremur mönnum ákveður laun og starfskjör ríkisstarfsmanna sem ekki falla undir 3. gr. og svo er háttað um að laun þeirra og starfskjör geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu, sbr. 1. gr. Þetta ákvæði á ekki við um lögreglumenn, tollverði og fangaverði, sbr.
39. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Þriggja manna kjararáð skal skipað þannig að formaður velur með sér tvo úr hópi aðalmanna í ráðinu, og eftir atvikum varamanna. Þess skal gætt að ávallt sé í þessum þriggja manna hópi einn ráðsmaður skipaður af [ráðherra er fer með starfsmannamál ríkisins]
1) og annar ráðsmaður kosinn af Alþingi.
1)L. 126/2011, 420. gr.
5. gr. Fullskipað kjararáð sker úr um það til hverra ákvörðun launa og starfskjara skv. 4. gr. skuli ná í nánari atriðum en þar greinir.
6. gr. Kjararáð aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga og er því rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af starfsmönnum [og launagreiðendum þeirra sem heyra undir kjararáð].
1) Skulu þeir m.a. veita upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem [störfunum]
1) fylgja.

Talsmönnum þeirra sem undir úrskurðarvald kjararáðs falla, [ráðuneyti er fer með starfsmannamál ríkisins]
2) og öðrum ráðuneytum vegna starfsmanna og stofnana sem undir þau heyra skal gefinn kostur á að leggja fram skriflegar eða munnlegar greinargerðir vegna þeirra mála sem til úrlausnar eru. Ráðið getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt fyrir ráðinu.
1)L. 148/2008, 1. gr. 2)L. 126/2011, 420. gr.
7. gr. Kjararáð getur kvatt sérfróða menn til starfa í þágu ráðsins og til ráðuneytis um úrlausn mála.
8. gr. Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. [Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra skv. 3. gr.]
1) Við ákvörðun launakjara skv. 4. gr. skal kjararáð sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs skv. 3. gr. hins vegar.

Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
1)L. 87/2009, 2. gr.
9. gr. Kjararáð skal ákvarða föst laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun sem starfinu fylgja og kveða á um önnur starfskjör.

Kjararáð skal við úrlausn mála taka tillit til venjubundins vinnuframlags og starfsskyldna umfram dagvinnu. Það úrskurðar hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega.

Við ákvarðanir sínar getur ráðið tekið tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi og sérstaks álags og ábyrgðar er starfinu fylgir.

Kjararáð skal meta og taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja, svo og hlunninda og réttinda sem tengjast embætti og launum, svo sem lífeyrisréttinda og ráðningarkjara.
10. gr. Kjararáð skal taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögum þessum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þess tekur til.

Eigi sjaldnar en árlega skal kjararáð meta hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum sem það ákveður. Kjararáð getur þó ákveðið að stefnumarkandi ákvarðanir um innbyrðis launahlutföll og heildarstarfskjör á ákvörðunarsviði ráðsins séu teknar sjaldnar, allt að fjórða hvert ár.

Kjararáð skal birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega með skipulegum og aðgengilegum hætti.

Ákvörðunum og úrskurðum kjararáðs verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
11. gr. Kostnaður við kjararáð, þar á meðal laun kjararáðsmanna eftir ákvörðun [ráðherra er fer með starfsmannamál ríkisins],
1) skal greiðast úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun í fjárlögum hvers árs.
1)L. 126/2011, 420. gr.
12. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.
…
13. gr.
…
Ákvæði til bráðabirgða.
I. Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skulu allir þeir sem féllu undir úrskurðarvald Kjaradóms eða kjaranefndar samkvæmt
lögum nr. 120/1992 þegar lög þessi öðlast gildi sæta kjaraákvörðunum skv. 4. gr. þar til kjararáð hefur ákveðið nánar, sbr. ákvæði 4. og 5. gr., til hverra þessi háttur á ákvörðun kjara skuli framvegis ná út frá þeirri meginreglu að kjör ríkisstarfsmanna skuli ráðast með kjarasamningum þar sem því verður við komið.

Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. skal skipun kjararáðsmanna skv. 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. lokið áður en lögin öðlast gildi að öðru leyti. Skipun dómenda í Kjaradóm og nefndarmanna í kjaranefnd samkvæmt
lögum nr. 120/1992 fellur niður við gildistöku þessara laga.
[II. Þrátt fyrir ákvæði 8. og 10. gr. skal kjararáð fyrir árslok 2008 kveða upp nýjan úrskurð er feli í sér 5–15% launalækkun alþingismanna og ráðherra er gildi frá 1. janúar 2009. Til ársloka 2009 skal ráðinu óheimilt að endurskoða úrskurð þennan til hækkunar. Jafnframt skal kjararáð endurskoða kjör annarra er undir það heyra, til samræmis. Ákvæði þetta gildir ekki um forseta Íslands.

[Til og með 30. nóvember 2010 er óheimilt að endurskoða úrskurði kjararáðs sem kveðnir hafa verið upp á grundvelli 1. málsl. 1. mgr. til hækkunar. Við endurskoðun eða ákvörðun kjara annarra aðila sem heyra undir ráðið skal gætt innbyrðis samræmis eftir því sem framast er unnt og að virtum ákvæðum 8. gr. laga þessara.]
1)]
2)
1)L. 127/2009, 1. gr. 2)L. 148/2008, 2. gr.