Lagasafn. Íslensk lög 15. september 2015. Útgáfa 144b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir
1975 nr. 25 22. maí
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 11. júní 1975. Breytt með l. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
heilbrigðisráðherra eða
velferðarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
I. kafli.
Ráðgjöf og fræðsla.
1. gr. Gefa skal fólki kost á ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir.

Landlæknir hefur á höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar ráðgjafar og fræðslu.
2. gr. Aðstoð skal veita, eftir því sem við á, svo sem hér segir:
1. Fræðsla og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra.
2. Ráðgjöf fyrir fólk, sem íhugar að fara fram á fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð.
3. Kynlífsfræðsla og ráðgjöf og fræðsla um ábyrgð foreldrahlutverks.
4. Ráðgjöf og fræðsla varðandi þá aðstoð, sem konunni stendur til boða í sambandi við meðgöngu og barnsburð.
3. gr. Ráðgjafarþjónusta þessi skal veitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og má vera í starfstengslum við mæðranefnd, kvensjúkdómadeildir, geðvernd, fjölskylduráðgjöf og félagsráðgjafaþjónustu.
4. gr. Að ráðgjafarþjónustunni skulu starfa læknar, félagsráðgjafar, ljósmæður, hjúkrunarfólk og kennarar, eftir því sem þörf krefur.
5. gr. Allar viðurkenndar getnaðarvarnir skulu fást hjá ráðgjafarþjónustunni. Unnið skal að því að auðvelda almenningi útvegun getnaðarvarna, m.a. með því, að sjúkrasamlög taki þátt í kostnaði þeirra.
6. gr. Ráðgjöf fyrir fólk, sem íhugar fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð, tekur til þess, sem hér segir:
1. Læknishjálp.
2. Þungunarprófanir.
3. Ráðgjafar- og stuðningsviðtöl.
4. Félagsleg aðstoð.
5. Aðstoð við umsókn og tilvísun til sjúkrahúss.
7. gr. Fræðsluyfirvöld skulu í samráði við skólayfirlækni veita fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífsins á skyldunámsstigi í skólum landsins. Einnig skal veita þessa fræðslu á öðrum námsstigum.
II. kafli.
Um fóstureyðingar.
8. gr. Fóstureyðing samkvæmt lögum þessum er læknisaðgerð, sem kona gengst undir í því skyni að binda endi á þungun, áður en fóstrið hefur náð lífvænlegum þroska.
9. gr. Fóstureyðing er heimil:
1. Félagslegar ástæður: Þegar ætla má, að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Við slíkar aðstæður skal tekið tillit til eftirfarandi:
a. Hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.
b. Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.
c. Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.
d. Annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.
2. Læknisfræðilegar ástæður:
a. Þegar ætla má, að heilsu konu, líkamlegri eða andlegri, sé hætta búin af áframhaldandi meðgöngu og fæðingu.
b. Þegar ætla má, að barn, sem kona gengur með, eigi á hættu að fæðast vanskapað eða haldið alvarlegum sjúkdómi vegna erfða eða sköddunar í fósturlífi.
c. Þegar sjúkdómur, líkamlegur eða geðrænn, dregur alvarlega úr getu konu eða manns til að annast og ala upp barn.
3. Ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðru refsiverðu atferli.
10. gr. Fóstureyðing skal framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans.

Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Einnig skal fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur, séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.

Slíkar undanþágur eru aðeins heimilar að fenginni skriflegri heimild nefndar, skv. 28. gr.
11. gr. Áður en fóstureyðing má fara fram, verður að liggja fyrir skrifleg rökstudd greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa sé eingöngu um félagslegar ástæður að ræða, enda sé hann starfandi í viðkomandi heilsugæsluumdæmi. Annar þessara lækna sé sérfræðingur í kvensjúkdómum eða almennum skurðlækningum við það sjúkrahús, þar sem aðgerðin fer fram, en hinn að jafnaði sá læknir eða félagsráðgjafi, sem ráðlagt hefur konunni að leita sjúkrahúss þessara erinda.

Þar sem ástæða þykir til skal viðkomandi sérfræðingur styðjast við álitsgerð geðlæknis, sé um geðræna sjúkdóma að ræða.
12. gr. Áður en fóstureyðing má fara fram, er skylt að konan, sem sækir um aðgerðina, hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerðinni og hún hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í þjóðfélaginu. Öll ráðgjöf og fræðsla skal veitt á óhlutdrægan hátt.
13. gr. Umsókn, greinargerð og vottorð skulu rituð á þar til gerð eyðublöð, sem landlæknir gefur út.

Eftirfarandi atriða skal gætt:
1. Kona skal skrifa sjálf undir greinargerð og umsókn um fóstureyðingu.
2. Sé kona vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða af öðrum ástæðum ófær um að gera sér grein fyrir nauðsyn aðgerðarinnar, þá er heimilt að veita leyfi til aðgerðarinnar samkvæmt umsókn lögráðamanns.
3. Sé kona yngri en 16 ára eða svipt sjálfræði, skulu foreldrar eða lögráðamaður taka þátt í umsókn með henni nema sérstakar ástæður mæli gegn því.
4. Sé þess kostur, skal maðurinn taka þátt í umsókn konunnar, nema sérstakar ástæður mæli gegn því.
5. Hætti kona við aðgerð ber henni að staðfesta þann vilja sinn skriflega. Sé konu synjað um aðgerð á sjúkrahúsi skal henni og þeim, er undir greinargerð rita, tilkynnt það strax skriflega. Getur konan þá tafarlaust leitað þeirra úrræða, sem kveðið er á um í 28. gr., og er þeim, sem undir greinargerð hefur ritað, skylt að aðstoða hana í því.
14. gr. Sjálfri aðgerðinni skal hagað eftir fyllstu viðurkenndum kröfum læknisfræðinnar til tryggingar því að konunni verði sem minnst um aðgerðina. Sama gildir og um allan aðbúnað konu er aðgerðin fer fram.
15. gr. Einungis læknar mega framkvæma fóstureyðingu. Fóstureyðingu má aðeins framkvæma í sjúkrahúsum, þar sem sérfræðingur á sviði kvenlækninga eða sérfræðingur í almennum skurðlækningum starfar og ráðherra hefur viðurkennt í þessu skyni.
16. gr. Áður en kona, sem gengist hefur undir fóstureyðingu, útskrifast af sjúkrahúsinu, skulu henni veittar leiðbeiningar um getnaðarvarnir. Ef konan er gift eða í sambúð, skal maðurinn, ef mögulegt er, einnig hljóta leiðbeiningar um getnaðarvarnir.

Einnig skal konunni gert að skyldu að koma í eftirrannsókn að ákveðnum tíma liðnum til læknisskoðunar og viðtals.
III. kafli.
Um ófrjósemisaðgerðir.
17. gr. Ófrjósemisaðgerð er samkvæmt lögum þessum, þegar sáðgöngum karla eða eggvegum kvenna er lokað og þannig komið í veg fyrir, að viðkomandi auki kyn sitt.
18. gr. Ófrjósemisaðgerð er heimil samkvæmt þessum lögum:
I. Að ósk viðkomandi, ef hún/hann, sem er fullra 25 ára, óskar eindregið og að vel íhuguðu máli eftir því að komið verði í veg fyrir að hún/hann auki kyn sitt, og ef engar læknisfræðilegar ástæður eru til staðar, sem mæli gegn aðgerð.
II. Sé viðkomandi ekki fullra 25 ára:
1. Ef ætla má að heilsu konu sé hætta búin af meðgöngu og fæðingu.
2. Ef fæðing og forsjá barna yrði of mikið álag fyrir hana/hann með hliðsjón af lífskjörum fjölskyldunnar og af öðrum ástæðum.
3. Ef sjúkdómur, líkamlegur eða geðrænn, dregur alvarlega úr getu hennar/hans til að annast og ala upp börn.
4. Þegar ætla má að barn viðkomandi eigi á hættu að fæðast vanskapað eða haldið alvarlegum sjúkdómi, vegna erfða eða sköddunar á fósturstigi.
19. gr. Ófrjósemisaðgerð er heimil skv. 18. gr. I. ef fyrir liggur umsókn viðkomandi, undirrituð, sbr. 20. gr., á þar til gerðum eyðublöðum, sem landlæknir annast útgáfu á.

Ófrjósemisaðgerð er heimil skv. 18. gr. II. 1., 2., 3. og 4. þegar fyrir liggur umsókn viðkomandi, sbr. 20. gr., og rökstudd skrifleg greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa, sé eingöngu um að ræða félagslegar ástæður fyrir aðgerð, enda sé hann starfandi í viðkomandi heilsugæsluumdæmi. Annar þessara lækna skal vera sá sérfræðingur, sem aðgerðina framkvæmir. Sé ástæða umsóknar utan hans sérsviðs, ber honum að styðjast við álitsgerð sérfræðings í viðkomandi grein.
20. gr. Umsókn skal fylgja yfirlýsing viðkomanda, undirrituð eigin hendi, að henni/honum sé ljóst í hverju aðgerðin sé fólgin, og að hún/hann fari fram á ófrjósemisaðgerð af frjálsum vilja (sbr. þó 22. gr.).
21. gr. Áður en ófrjósemisaðgerð er heimiluð samkvæmt lögum þessum, skal viðkomanda skýrt frá því í hverju aðgerðin sé fólgin og að hún geti komið varanlega í veg fyrir, að viðkomandi geti aukið kyn sitt.
22. gr. Ef ástæður til ófrjósemisaðgerðar svo sem segir í 18. gr. II. eru fyrir hendi eða ef viðkomandi er fullra 25 ára, en er vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða annarra geðtruflana varanlega ófær um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar, er heimilt að veita leyfi til aðgerðar samkvæmt umsókn sérstaklega skipaðs lögráðamanns.
23. gr. Einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómum og þvagfæraskurðlækningum mega framkvæma ófrjósemisaðgerðir.

Ráðherra getur þó í samráði við landlækni heimilað sjúkrahúslækni framkvæmd slíkrar aðgerðar.

Aðgerðirnar má einungis framkvæma í sjúkrahúsum er til þess hafa hlotið viðurkenningu ráðherra.
IV. kafli.
Almenn ákvæði.
24. gr. Umsókn, læknisvottorð og greinargerð, sem um getur í 11. og 19. gr. laga þessara, skal leggja með sjúkraskrá sjúklingsins á sjúkrahúsinu.

Að aðgerð lokinni skal senda landlækni greinargerð um framkvæmd hennar á þar til gerðum eyðublöðum sem landlæknir lætur í té.
25. gr. Synjanir umsókna um fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð skulu tilkynntar landlækni og þess skal getið hvers vegna umsókn hafi verið synjað.
26. gr. Heilbrigðisyfirvöldum ber að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og sjá um, að á sjúkrahúsum ríkisins sé hægt að framkvæma þær aðgerðir, sem lögin gera ráð fyrir, sbr. þó 15. gr. Stuðla ber að samræmi í framkvæmd þeirra í öllum landshlutum. Þeim, er starfa að framkvæmd laganna, skal veitt fræðsla og leiðbeiningar í því skyni.
27. gr. Allir þeir, sem starfa á einn eða annan hátt að framkvæmd laga þessara, eru bundnir þagnarskyldu um öll persónuleg málefni, sem þeir í því sambandi kunna að fá vitneskju um.
28. gr. Rísi ágreiningur um hvort framkvæma skuli fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð, skal málinu tafarlaust vísað til landlæknis og skal hann tafarlaust leggja málið undir úrskurð nefndar, sem skipuð skal í þeim tilgangi að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Í nefndinni skulu eiga sæti 3 menn og jafnmargir varamenn, einn læknir, einn lögfræðingur og einn félagsráðgjafi og skulu þeir skipaðir af [ráðherra]
1) til 4ra ára í senn. Nefndin skal úrskurða málið innan viku frá því að henni berst það í hendur.

Skal nefndinni búin starfsaðstaða og henni jafnframt tryggður aðgangur að þeirri sérfræðiþjónustu, sem þurfa þykir til að leysa þau verkefni sem nefndinni berast.
1)L. 126/2011, 65. gr.
29. gr. Sjúkratryggingar almannatrygginga greiði sjúkrakostnað vegna fóstureyðinga og ófrjósemisaðgerða.

Kostnaður vegna ráðgjafar og fræðslu á þessu sviði greiðist af almannafé.
30. gr. Ákvæði þessara laga gilda ekki, ef um nauðsynlegar læknisaðgerðir á æxlunarfærum er að ræða vegna sjúkdóms í þeim, enda þótt fósturlát eða ófrjósemi hljótist af.
31. gr.
1. Læknir, sem framkvæmir fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð, án þess að fullnægt sé skilyrðum 9., 10. eða 18. gr., skal sæta …
1) fangelsi allt að 2 árum, nema hærri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Ef ríkar málsbætur eru fyrir hendi, má beita sektum. Hafi verkið verið framið án samþykkis konunnar, skal refsing vera fangelsi ekki skemur en 2 ár, og allt að 12 árum.
2. Læknir, sem framkvæmir fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð án þess að fullnægt sé skilyrðum 11., 12., 13., 19. eða 21. gr., skal sæta sektum, nema hærri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum.
3. Læknir, sem framkvæmir fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð án þess að fullnægt sé skilyrðum 15. eða 23. gr., skal sæta sektum.
4. Framkvæmi aðrir en læknar aðgerðir samkvæmt lögum þessum, skulu þeir sæta fangelsi allt að 4 árum, nema hærri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Hafi verkið verið framið án samþykkis konunnar, skal refsing vera fangelsi ekki skemur en 2 ár, og allt að 12 árum.
5. Hlutdeildarmönnum skal refsað samkvæmt 1. og 4. tölul. þessarar greinar. Gáleysisbrot eru refsilaus samkvæmt lögum þessum.
1)L. 82/1998, 167. gr.
32. gr. Ákveða skal með reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.
33. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
…