Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 15. apríl 2018.  Útgáfa 148b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um köfun

1996 nr. 31 2. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 21. maí 1996. Breytt með l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011), l. 32/2013 (tóku gildi 1. júní 2013) og l. 59/2013 (tóku gildi 1. júlí 2013).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eða samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Enginn má stunda atvinnuköfun í ám eða vötnum, við strendur landsins eða frá íslenskum skipum hér við land nema viðkomandi fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru í lögum þessum.
2. gr.
Atvinnuköfun merkir í lögum þessum allar þær athafnir sem falla undir og eru liður í atvinnustarfsemi kafarans eða annarra aðila. Einnig telst það vera atvinnuköfun ef athöfnin er liður í skipulagðri þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum. Um sjálfboðaliða, sem ekki þiggja laun fyrir störf sín, gilda reglur sem samtök þeirra setja og [ráðherra] 1) hefur samþykkt.
Áhugaköfun merkir í lögum þessum allar þær athafnir sem teljast til köfunar samkvæmt lögum þessum en falla ekki undir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar um atvinnuköfun.
Köfun merkir í lögum þessum þær athafnir manna sem fara fram undir yfirborði vatns eða sjávar þar sem líkaminn er undir meiri þrýstingi en sem nemur 50 hektópaskölum (50 mbar) yfir loftþrýstingi á yfirborði jarðar og notast er við tæki sem eru hluti af viðurkenndum köfunarbúnaði.
Köfunarbúnaður merkir í lögum þessum allan þann búnað sem notaður er við köfun og gerir mönnum kleift að kafa.
    1)L. 126/2011, 219. gr.
3. gr.
Hver sem vill stunda atvinnuköfun skal fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
    1. vera fullra 20 ára,
    2. standast með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur,
    3. uppfylla menntunar- og hæfniskröfur,
    4. hafa gilt atvinnuköfunarskírteini útgefið af [Samgöngustofu]. 1)
Óheimilt er að ráða til köfunarstarfa aðra en handhafa atvinnuköfunarskírteina.
Sá sem stundar áhugaköfun skal vera 17 ára eða eldri og uppfylla skilyrði 2. og 3. tölul. 1. mgr. Þá er ráðherra heimilt með reglugerð að ákveða að þeir sem stunda áhugaköfun skuli hafa gilt áhugaköfunarskírteini útgefið af [Samgöngustofu]. 1)
    1)L. 59/2013, 9. gr.
4. gr.
[Samgöngustofa] 1) gefur út köfunarskírteini til þeirra sem uppfylla skilyrði laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Skírteini skulu rituð á þar til gerð eyðublöð og gilda til fimm ára í senn.
[Samgöngustofa] 1) skal halda nákvæma skrá um handhafa atvinnuskírteina.
    1)L. 59/2013, 9. gr.
5. gr.
Hver sá sem flytur inn köfunarbúnað eða smíðar slíkan búnað skal fyrir fram fá viðurkenningu [Samgöngustofu] 1) um að búnaðurinn eða hlutar hans uppfylli tæknikröfur sem gilda þar um. Liggi fyrir vottorð frá viðurkenndri prófunarstofu um að búnaður sé í samræmi við staðla og reglur telst staðfesting frá [Samgöngustofu] 1) fullnægjandi.
Eigandi köfunarbúnaðar ber ábyrgð á því að búnaðurinn fullnægi skilyrðum 1. mgr. og að búnaðinum verði haldið við.
    1)L. 59/2013, 9. gr.
6. gr.
[Samgöngustofa] 1) hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd laga þessara.
Ráðherra setur nánari reglur 2) um framkvæmd laganna, m.a. um skilyrði fyrir viðhaldi réttinda samkvæmt köfunarskírteini, svo sem um menntunar-, hæfnis- og heilsufarskröfur, eftir því sem við á, og um heimild [Samgöngustofu] 1) til gjaldtöku vegna eftirlits, útgáfu og endurnýjunar köfunarskírteina.
    1)L. 59/2013, 9. gr. 2)Rg. 535/2001, sbr. 762/2012. Rg. 587/2002.
7. gr.
Slys eða óhöpp sem verða við köfun skal tilkynna þegar í stað til lögreglu í því umdæmi þar sem slys eða óhapp átti sér stað og annast lögreglan rannsókn á orsökum þeirra. Við rannsóknina skal kalla til sérfróða aðila eftir því sem þurfa þykir og skal köfunarbúnaður skoðaður af fulltrúa [Samgöngustofu]. 1)
Niðurstöður rannsóknarinnar skulu sendar [rannsóknarnefnd samgönguslysa] 2) sem fjallar um málið og birtir álit sitt í ársskýrslu nefndarinnar.
    1)L. 59/2013, 9. gr. 2)L. 32/2013, 2. gr.
8. gr.
Brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum og/eða sviptingu réttinda nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
9. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.