Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. maí 2020. Útgáfa 150b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum
2016 nr. 37 23. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 23. maí 2016. Breytt með: L. 42/2016 (tóku gildi 3. júní 2016). L. 105/2016 (tóku gildi 21. okt. 2016). L. 27/2017 (tóku gildi 27. maí 2017). L. 14/2019 (tóku gildi 5. mars 2019). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að losun fjármagnshafta og skapa grundvöll fyrir frjáls milliríkjaviðskipti með íslenskar krónur með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi. Í því skyni er mælt fyrir um meðferð tiltekinna krónueigna, svonefndra aflandskrónueigna. Þær verða áfram háðar sérstökum takmörkunum sem er ætlað að draga úr áhættu við að ná því markmiði laganna sem lýst er í 1. málsl.
2. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:
1. Aflandskrónueignir:
a. Innstæður eftirtalinna aðila í íslenskum krónum hjá innlánsstofnunum hér á landi, hvort sem þær eru raunveruleg eign viðkomandi eða hann fer með vörslur fyrir hönd annars:
1. Erlendra lögaðila sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, útibúa þeirra og dótturfélaga í þeirra eigu.
2. Annarra erlendra stofnanafjárfesta sem fjárfesta í fjármálagerningum, þ.m.t. aðila sem fást við verðbréfun eða önnur fjármögnunarviðskipti.
b. Fjármunir á fjárvörsluinnlánsreikningi á nafni greiðanda, á geymslureikningi hjá innlánsstofnun á nafni eiganda eða umboðsmanns hans eða í formi sérgreindrar eignar kröfuhafa í vörslu greiðanda, enda hafi þeir verið greiddir í þágu erlends aðila sem á eða hefur átt kröfu á hendur lögaðila sem sætt hefur slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð eða sem gengið hefur í gegnum endurskipulagningu með nauðasamningi.
c. Skuldabréf og víxlar, útgefnir af ríkissjóði Íslands eða með ábyrgð íslenska ríkisins, í íslenskum krónum, í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið.
d. Hlutdeildarskírteini sem eru í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið og útgefin í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum þar sem fjárfest er, beint eða óbeint, í fjármálagerningum, útgefnum af ríkissjóði Íslands eða með ábyrgð íslenska ríkisins.
e. Hlutafé, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar, útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðilum sem hafa farið í gegnum endurskipulagningu á grundvelli nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., eftir 28. nóvember 2008, í eigu erlendra lögaðila vegna umbreytingar krafna sem þeir fjárfestu í eftir 28. nóvember 2008. Sama gildir um endurfjárfestingu vegna andvirðis slíkra eigna sem seldar hafa verið, hvort sem er að hluta eða öllu leyti.
f. Hlutafé, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar, sem voru útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðilum, enda hafi fjárfestingin átt sér stað eftir 28. nóvember 2008 og greiðsla fór fram, beint eða óbeint, með úttekt af reikningi í íslenskum krónum hjá erlendu fjármálafyrirtæki.
g. Hlutdeildarskírteini sem eru í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið og útgefin eru í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum þar sem m.a. er fjárfest, beint eða óbeint, í fjármálagerningum, útgefnum í íslenskum krónum af öðrum innlendum aðilum en íslenska ríkinu eða aðilum með ríkisábyrgð, innlánum, reiðufé og afleiðum.
h. Söluandvirði eða aðrar greiðslur vegna eigna skv. c–g-lið sem falla til á tímabilinu frá gildistöku laga þessara til 1. september 2016.
2. Erlendur lögaðili: Lögaðili sem telst ekki innlendur aðili skv. 2. tölul. skilgreiningar í 1. gr. laga um gjaldeyrismál.
3. Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands: Útboð Seðlabanka Íslands þar sem bankinn býðst til að kaupa íslenskar krónur í skiptum fyrir evrur.
4. Innlánsstofnun: Viðskiptabankar, sparisjóðir og innlánsdeildir kaupfélaga.
5. Innlendur aðili: Innlendur aðili samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. laga um gjaldeyrismál.
6. Innstæðubréf Seðlabanka Íslands: Skuldabréf sem gefin eru út af Seðlabanka Íslands til innlánsstofnana sem varðveita aflandskrónueignir á reikningum háðum sérstökum takmörkunum eða til eigenda þeirra skv. a-lið 1. tölul.
7. Rafrænt skráð verðbréf: Verðbréf sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
8. Reikningur háður sérstökum takmörkunum: Reikningur á nafni eiganda eða vörsluaðila aflandskrónueigna skv. a- og b-lið 1. tölul. í íslenskum krónum hjá innlánsstofnun hér á landi sem auðkenndur skal með höfuðbók 21 í kerfi Reiknistofu bankanna hf. og er háður sérstökum takmörkunum samkvæmt lögum þessum.
9. Umsýslureikningur: Eigin reikningur Seðlabanka Íslands þar sem fjármálagerningar eru skráðir á nafn vörsluaðila.
10. Viðmiðunargengi: Gengi krónu gagnvart evru þar sem miðað er við 220 krónur á móti einni evru.
11. Viðskiptavinur: Aðili sem veitir vörsluaðila heimild til að koma fram í sínu nafni og vera skráður fyrir fjármálagerningum eða fjármunum.
12. Vörsluaðili: Fjármálafyrirtæki sem er heimilt að varðveita fjármálagerninga í eigu viðskiptavina sinna.
13. Vörslureikningur: Reikningur með rafrænt skráð verðbréf hjá vörsluaðila.
3. gr. Undanþágur.
Eftirtaldar aflandskrónueignir eru undanþegnar ákvæðum laga þessara:
1. Þær sem eru í eigu ríkisstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að.
2. Þær sem eru til komnar vegna iðgjaldagreiðslna samkvæmt samningum í innlendum gjaldeyri um viðbótartryggingavernd til öflunar lífeyrissparnaðar í séreign og um söfnunartryggingar, eingreiðslulíftryggingar og reglubundinn sparnað á grundvelli undanþágu erlendra vátryggingafélaga og erlendra vörsluaðila lífeyrisréttinda frá takmörkunum 3. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál.
3. Þær sem eru í eigu erlendra rafeyrisfyrirtækja [og greiðslustofnana] 1) og nýttar eru samkvæmt undanþágu þeirra frá takmörkunum 1. og 2. mgr. 13. gr. b og 1. og [2. mgr. 13. gr. c] 1) laga um gjaldeyrismál, í þeim tilgangi að sinna greiðslumiðlun hér á landi.
4. [Staðfestar nýfjárfestingar skv. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál og þær] 1) sem eru til komnar vegna fjárfestinga sem gerðar hafa verið eftir 28. nóvember 2008 fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í skilningi 2. mgr. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál, þó ekki þegar um er að ræða beinar eða óbeinar fjárfestingar í afleiðusamningum og kröfum á hendur aðilum sem sæta slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð eða lokið hafa slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð með nauðasamningi sem felur í sér úthlutun eigna til kröfuhafa.
5. Þær sem eru til komnar vegna þátttöku í útboðum Seðlabanka Íslands á tímabilinu 28. júní 2011 til 10. febrúar 2015.
6. Þær sem eru til komnar vegna efnda aðila, sem féll undir 2. gr. laga um stöðugleikaskatt við gildistöku þeirra, á kröfum samkvæmt nauðasamningi.
7. Þær aflandskrónueignir skv. e-lið 1. tölul. 2. gr. sem eru til komnar vegna kröfu erlendra aðila á innlenda aðila á grundvelli nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., ef Seðlabanki Íslands hefur veitt undanþágu frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál, fyrir úthlutun í erlendum gjaldeyri.
8. Þær aflandskrónueignir sem voru grundvöllur gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands á viðmiðunargengi skv. 2. mgr. 9. gr.
9. Þær aflandskrónueignir sem eru grundvöllur gjaldeyrisviðskipta í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands á árinu 2016 á útboðsgengi fyrir fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar, þannig að uppgjör viðskiptanna fer fram með því að eigandi aflandskrónueignar afhendir fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar að frádregnu margfeldi markaðsvirðis aflandskrónueignar og hlutfalls opinbers miðgengis Seðlabanka Íslands fyrir krónu á móti evru hinn 20. maí 2016 og útboðsgengis.
[10. Þær aflandskrónueignir sem undanþegnar eru 3. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, vegna flutnings úr vörslum erlends lögaðila til innlánsstofnunar eða vörsluaðila hér á landi, á grundvelli bréflegrar umsóknar sem Seðlabanki Íslands hefur móttekið fyrir gildistöku laga þessara.] 2)
1)L. 105/2016, 17. gr. 2)L. 42/2016, 3. gr.
II. kafli. Afmörkun, flutningur og takmarkanir á ráðstöfun aflandskrónueigna.
4. gr. Afmörkun, flutningur og takmarkanir á ráðstöfun innstæðna.
Innlánsstofnunum og erlendum verðbréfamiðstöðvum sem starfa hér á landi er skylt að flytja aflandskrónueignir skv. a- og b-lið 1. tölul. 2. gr., í þeirra vörslu, á reikninga sem háðir eru sérstökum takmörkunum eigi síðar en 1. september 2016. Flytja skal þá fjárhæð sem er á viðkomandi innlánsreikningi eða fjárhæð sérgreindrar eignar. Fjárhæð skv. 2. málsl. skal samanlagt ekki vera lægri en hún var við gildistöku laga þessara, að teknu tilliti til ávöxtunar og hefðbundins og eðlilegs umsýslukostnaðar í þeim tilvikum þegar um hann er að ræða, [þátttöku í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands 2016, millifærslna milli reikninga með innstæður skv. a-lið 1. tölul. 2. gr. og fjárfestinga í fjármálagerningum samkvæmt undanþágulista útgefnum af Seðlabanka Íslands, sbr. heimild í 4. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, eftir 23. maí 2016]. 1)
Þrátt fyrir 1. málsl. 1. mgr. geta erlendar verðbréfamiðstöðvar sem starfa hér á landi og varðveita aflandskrónueignir skv. 1. mgr. á innstæðureikningum hjá Seðlabanka Íslands sótt um að þær verði fluttar á reikninga hjá Seðlabanka Íslands sem sæta sömu takmörkunum og reikningar sem háðir eru sérstökum takmörkunum. Umsókn skv. 1. málsl. skal berast eigi síðar en 1. ágúst 2016.
Úttekt af reikningum háðum sérstökum takmörkunum er einungis heimil í þeim tilvikum sem mælt er fyrir um í IV. kafla.
1)L. 42/2016, 4. gr.
5. gr. Flutningur á vörslu og takmarkanir á ráðstöfun rafrænt skráðra verðbréfa.
Fjármálafyrirtæki, sem varðveita aflandskrónueignir skv. c–g-lið 1. tölul. 2. gr., sem voru rafrænt skráðar samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa við gildistöku laga þessara, skulu flytja vörslur þeirra á umsýslureikning á nafni viðkomandi vörsluaðila hjá Seðlabanka Íslands eigi síðar en 1. september 2016.
Við flutning skv. 1. mgr. yfirtekur Seðlabanki Íslands réttindi og skyldur reikningsstofnunar í skilningi laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Umsýslureikningur skal stofnaður hjá Seðlabankanum á nafni vörsluaðila viðkomandi aflandskrónueigna fyrir flutningsdag. Heimilt er að flytja aflandskrónueignir skv. 1. mgr. á milli umsýslureikninga vörsluaðila hjá Seðlabanka Íslands að því gefnu að slíkur flutningur hafi ekki í för með sér breytingu á eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.
Uppgjör og efndir aflandskrónueigna skv. 1. mgr. skulu fara fram í íslenskum krónum sem leggja skal inn á reikninga háða sérstökum takmörkunum. Hafi erlend verðbréfamiðstöð sett fram beiðni skv. 2. mgr. 4. gr. skal við uppgjör og efndir aflandskrónueigna greiða inn á reikninga sem sæta sömu takmörkunum og reikningar háðir sérstökum takmörkunum hjá Seðlabanka Íslands.
Aflandskrónueignir skv. 1. mgr. sem eru varðveittar á safnreikningi viðskiptavinar hjá vörsluaðila skulu fluttar á umsýslureikning viðkomandi vörsluaðila hjá Seðlabanka Íslands í samræmi við 1. mgr. Með safnreikningi er átt við safnreikning í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.
Við flutning skv. 1. mgr. skal verðbréfamiðstöð, að beiðni Seðlabanka Íslands, upplýsa um kvöð um takmarkanir skv. 3. mgr. með því að úthluta hinni rafrænu útgáfu aflandskrónueignar alþjóðlegu bráðabirgða ISIN-auðkenni verðbréfs. Úthlutun skal eiga sér stað eins fljótt og unnt er frá því að beiðni Seðlabankans hefur borist verðbréfamiðstöð, en eigi síðar en innan þriggja virkra daga.
Komi til uppgjörs skv. 3. mgr., þar sem greiðsla fer fram með íslenskum krónum sem eru ekki háðar takmörkunum laga þessara, skal verðbréfamiðstöð aflétta kvöð skv. 5. mgr., að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
6. gr. Takmörkun á ráðstöfun annarra aflandskrónueigna.
Söluandvirði, afborganir höfuðstóls, fyrirframgreiðslur, lokagreiðslur, vexti, verðbætur vaxta, arð og hverjar aðrar greiðslur vegna aflandskrónueigna skv. d–g-lið 1. tölul. 2. gr. sem ekki eru rafrænt skráðar, sbr. 5. gr., skal flytja á reikninga háða sérstökum takmörkunum innan þriggja virkra daga frá því að fjármunir vegna slíkrar ráðstöfunar í tengslum við aflandskrónueign komust eða gátu komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans.
Eigandi aflandskrónueigna eða umboðsmaður hans skal tryggja áritun kvaðar um flutning á reikninga háða sérstökum takmörkunum á fullnægjandi hátt eftir því sem við á þannig að aflandskrónueign samkvæmt þessu ákvæði beri með sér sérstaka viðurkenningu á tilvist hennar. Komi til framsals á aflandskrónueign án þess að greiðslur skv. 1. mgr. hafi verið fluttar á reikninga háða sérstökum takmörkunum skal kvöð skv. 1. málsl. hvíla áfram á framsalshafa eða þeim sem fengið hefur eignina afhenta á annan hátt, óháð því hvort hann er grandlaus um tilvist kvaðarinnar eða ekki. Eigandi aflandskrónueignar samkvæmt þessu ákvæði skal tilkynna Seðlabanka Íslands innan þriggja mánaða frá gildistöku laga þessara um aflandskrónueign sína og á hvern hátt skilyrði um áritun kvaðar á aflandskrónueign hefur verið fullnægt.
Innlánsstofnanir skulu tilkynna Seðlabanka Íslands samdægurs um allar greiðslur sem berast á reikninga háða sérstökum takmörkunum skv. 1. mgr.
7. gr. Ákvörðunarvald á stjórnsýslustigi.
Seðlabanki Íslands sker úr ágreiningi og hefur ákvörðunarvald að öðru leyti um framkvæmd laga þessara. Ákvörðun Seðlabankans skv. 1. málsl. er endanleg á stjórnsýslustigi. Málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
III. kafli. Bindiskylda og bann við veðsetningu aflandskrónueigna.
8. gr. Bindiskylda og bann við veðsetningu.
Aflandskrónueignir á reikningum háðum sérstökum takmörkunum eru háðar bindiskyldu samkvæmt ákvæði þessu.
Bindiskyldu skal uppfylla með því að ráðstafa sömu fjárhæð og nemur heildarinnstæðum hjá innlánsstofnun á reikningum háðum sérstökum takmörkunum til fjárfestinga í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands.
Innlánsstofnun skal uppfylla bindiskyldu samkvæmt ákvæði þessu innan viðskiptadags. Seðlabankanum er heimilt að skuldfæra á viðskiptareikning innlánsstofnunar næsta viðskiptadag þá fjárhæð sem upp á vantar til að bindiskylda samkvæmt ákvæði þessu sé uppfyllt.
Innstæðubréf skulu varðveitt á umsýslureikningi innlánsstofnunar hjá Seðlabankanum.
Óheimilt er að veðsetja aflandskrónueignir skv. 1. tölul. 2. gr. og innstæðubréf Seðlabanka Íslands skv. 10. gr.
IV. kafli. Heimild til úttektar af reikningum háðum sérstökum takmörkunum, gjaldeyrisviðskipta og fjárfestinga.
9. gr. Tímabundin heimild til úttektar og gjaldeyrisviðskipta.
Eigendum aflandskrónueigna skv. a–d-lið og h-lið 1. tölul. 2. gr. er heimilt að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum, í heild eða að hluta, til að nýta til [gjaldeyrisviðskipta í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands árið 2016 eða til] 1) gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands, á viðmiðunargengi fram til 1. nóvember 2016.
Fram til 1. nóvember 2016 skulu eigendur aflandskrónueignar skv. e–g-lið 1. tölul. 2. gr. hafa heimild til gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands á viðmiðunargengi fyrir fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar, á þann hátt að uppgjör viðskiptanna fer fram með því að eigandi aflandskrónueigna afhendir til Seðlabankans fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar að frádregnu margfeldi markaðsvirðis aflandskrónueignar og hlutfalls opinbers miðgengis Seðlabankans fyrir krónu á móti evru hinn 20. maí 2016 og viðmiðunargengis.
Markaðsvirði aflandskrónueignar í skilningi 2. mgr. skal ákvarða þannig:
1. Þegar verðbréf eru skráð í kauphöll skal miða við markaðsvirði þeirra við gildistöku laga þessara.
2. Markaðsvirði annarra aflandskrónueigna en skv. 1. tölul. skal miðast við rökstutt mat óháðs löggilts endurskoðanda á gangvirði eða kostnaðarvirði eignarinnar við gildistöku laga þessara eins og það er skilgreint samkvæmt lögum um ársreikninga en það skal þó aldrei vera lægra virði en nafnvirði [eða bókfært virði undirliggjandi eigna]. 2) Sá sem óskar eftir gjaldeyrisviðskiptum skv. 1. málsl. skal afla matsins á eigin kostnað og skal endurskoðandinn staðfesta óhæði sitt. Seðlabanka Íslands er heimilt að óska frekari skýringa eða hafna niðurstöðum mats ef sýnt þykir að það sé ekki byggt á fullnægjandi forsendum.
Ef eigandi aflandskrónueignar nýtir heimild skv. 2. mgr. skal sú aflandskrónueign sem lá til grundvallar þeim viðskiptum undanþegin takmörkunum laga þessara, að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
1)L. 42/2016, 5. gr. 2)L. 105/2016, 17. gr.
10. gr. [Heimild til fjárfestinga í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands og fjármálagerningum útgefnum í innlendum gjaldeyri.]1)
Eigendum innstæðna á reikningum háðum sérstökum takmörkunum eða reikningum háðum sömu takmörkunum hjá Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 5. gr., er heimil úttekt af þeim til fjárfestingar í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands [og fjármálagerningum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem tilgreindir eru á fjárfestingarlista Seðlabanka Íslands skv. 5. mgr.] 1)
Innstæðubréf tilgreina ekki gjalddaga, bera breytilega ársvexti og endurgreiðsla höfuðstóls er einungis heimil samkvæmt ákvörðun útgefanda. Vextir greiðast eftir á, einu sinni á ári. Við útgáfu skulu bréfin bera 0,5% ársvexti sem skulu endurskoðaðir af Seðlabanka Íslands á vaxtagjalddaga.
Innstæðubréf [og aðrir fjármálagerningar skv. 1. mgr. skulu varðveittir] 1) á umsýslureikningum hjá Seðlabanka Íslands.
Söluandvirði, innlausnarvirði og vexti af innstæðubréfum Seðlabanka Íslands [og öðrum fjármálagerningum skv. 1. mgr.] 1) skal flytja á reikninga háða sérstökum takmörkunum.
[Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða á hverjum tíma þá fjármálagerninga, útgefna í innlendum gjaldeyri, sem eigendur innstæðna skv. 1. mgr. geta fjárfest í. Fjármálagerningar skv. 1. málsl. skulu tilgreindir á sérstökum fjárfestingarlista og skal hann birtur á vef Seðlabankans.] 1)
1)L. 42/2016, 6. gr.
11. gr. Almenn heimild til millifærslu og úttektar vaxta- og arðgreiðslna.
Millifærsla milli reikninga sem eru háðir sérstökum takmörkunum er heimil.
[Heimilt er að taka út áfallnar greiðslur vegna vaxta, verðbóta vaxta, arðs og samningsbundinna afborgana höfuðstóls lánaskuldbindinga, annarra en eingreiðslulánaskuldbindinga, og verðbætur þeirra. Tilkynna skal Seðlabanka Íslands um úttekt skv. 1. málsl. innan fimm virkra daga frá því að hún á sér stað.] 1)
Með vöxtum skv. 2. mgr. er átt við vexti af innstæðum á reikningum háðum sérstökum takmörkunum, skuldabréfum og víxlum skv. c-, e- og f-lið 1. tölul. 2. gr. og innstæðubréfum Seðlabanka Íslands.
Með arði skv. 2. mgr. er átt við arðgreiðslu á grundvelli hagnaðar af reglubundinni starfsemi félags en þó ekki af tekjum sem myndast við sölu eigna umfram söluhagnað, af hagnaði vegna afskrifta skulda, virðismatshækkana eigna, lækkunar hlutafjár eða vegna sambærilegra þátta. Arðgreiðslur skulu fjármagnaðar með handbæru fé frá rekstri í frjálsum sjóðum en ekki með sölu eigna, lántöku, hlutafjáraukningu eða sambærilegum þáttum. Ef ráðstöfun sú sem liggur að baki greiðslu arðs er verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum skiptum og megintilgangur virðist vera að sniðganga takmarkanir á lögum þessum getur Seðlabankinn synjað staðfestingar.
1)L. 27/2017, 1. gr.
12. gr. Heimild einstaklings til úttektar.
Einstaklingi, sem er raunverulegur eigandi aflandskrónueigna skv. a-lið 1. tölul. 2. gr. við gildistöku laga þessara, skal heimilt að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Með raunverulegum eiganda er átt við einstakling sem er eigandi innstæðna í íslenskum krónum hjá aðilum sem falla undir a-lið 1. tölul. 2. gr. Skilyrði heimildar skv. 1. málsl. er að innstæða hafi verið í samfelldri eigu frá 28. nóvember 2008.
Einstaklingi, sem er eigandi aflandskrónueigna skv. b-lið 1. tölul. 2. gr. við gildistöku laga þessara, skal heimilt að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
Hámarksúttekt hvers einstaklings skv. 1. og 2. mgr. nemur samanlagt [100.000.000 kr.] 1) á almanaksári.
1)L. 27/2017, 2. gr.
V. kafli. Umsýslugjöld verðbréfa.
13. gr. Umsýslugjöld verðbréfa.
Seðlabanka Íslands er heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu við vörslu verðbréfa á umsýslureikningum bankans í samræmi við gjaldskrá sem bankinn setur. Gjald skv. 1. málsl. skal ekki vera hærra en raunkostnaður Seðlabankans við vörslu og umsýslu verðbréfanna sem felst m.a. í eftirfarandi þáttum:
a. launa- og rekstrarkostnaði,
b. kostnaði sem Seðlabankinn verður fyrir vegna viðskipta við verðbréfamiðstöð.
VI. kafli. Eftirlit Seðlabankans og viðurlög.
14. gr. Eftirlit.
Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Skylt er, að viðlögðum dagsektum skv. 17. gr., að veita Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg í því skyni. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingar eða gögn varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða aðra aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.
Í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum þessum getur Seðlabankinn gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt svo oft sem hann telur þörf á. Ákvörðun um vettvangskönnun má fullnægja með aðfarargerð.
15. gr. Þagnarskylda.
[Þeir sem annast framkvæmd laga þessara eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands.] 1)
1)L. 91/2019, 94. gr.
16. gr. Öflun upplýsinga.
Í tengslum við athuganir tiltekinna mála er Seðlabanka Íslands heimilt að afla upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.
… 1)
Seðlabankanum er heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að þær upplýsingar lúti samsvarandi þagnarskyldu í hlutaðeigandi ríki.
1)L. 91/2019, 95. gr.
17. gr. Dagsektir.
Seðlabanki Íslands getur lagt dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar og gögn, veiti bankanum vísvitandi rangar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Ákvæði þetta tekur jafnt til innlendra sem erlenda lögaðila sem og innlendra og erlendra einstaklinga. Hið sama gildir um aðila sem veitt geta upplýsingar í þágu athugana samkvæmt ákvæðum laga þessara. Greiðast dagsektirnar þangað til farið hefur verið að kröfum Seðlabankans. Dagsektir leggjast á frá þeim degi sem skila bar upplýsingunum í síðasta lagi og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt. Dagsektir geta numið frá 50.000 kr. til 50.000.000 kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila er tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Seðlabanka Íslands nema Seðlabankinn ákveði það sérstaklega.
Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
18. gr. Úrræði Seðlabanka Íslands gegn ólögmætri háttsemi.
Telji Seðlabanki Íslands háttsemi andstæða ákvæðum laga þessara getur bankinn krafist þess að látið verði af ólögmætri háttsemi þegar í stað. Seðlabanki Íslands getur jafnframt krafist úrbóta eða leiðréttinga á ráðstöfunum sem teljast andstæðar lögum þessum. Seðlabankanum er heimilt að beita dagsektum skv. 17. gr. þar til farið hefur verið að kröfum bankans. Ákvæði þetta tekur jafnt til innlendra sem erlendra lögaðila sem og innlendra og erlendra einstaklinga.
19. gr. Stjórnvaldssektir.
Seðlabanki Íslands getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum 4.–6. gr., 8. gr. eða 15. gr. og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 65.000.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 100.000 kr. til 500.000.000 kr. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. geta sektir vegna brota gegn 4.–6. gr. numið allt að fimmfaldri flutnings- eða úttektarfjárhæð. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um sektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Verði stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Seðlabanka Íslands skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
20. gr. Máli lokið með sátt.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða reglur settar á grundvelli þeirra er Seðlabanka Íslands heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
21. gr. Þagnarréttur.
Í máli sem beinist að einstaklingi sem lokið getur með álagningu stjórnvaldssektar hefur maður sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Seðlabanki Íslands skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
22. gr. Frestur til að leggja á stjórnvaldssektir.
Heimild Seðlabanka Íslands til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar aðila er kunnugt um að mál hans er til meðferðar. Seðlabanki Íslands tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti, nema ljóst sé að hann hafi áður fengið vitneskju um það. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
23. gr. Heimildir í tengslum við rannsókn mála.
Í tengslum við rannsókn mála er Seðlabanka Íslands heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg í tengslum við framkvæmd laga þessara. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Seðlabankinn getur kallað til skýrslugjafar einstaklinga sem bankinn telur búa yfir upplýsingum er varða rannsókn málsins.
Seðlabanki Íslands getur krafist kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi hans fari í bága við ákvæði laga þessara. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir 88. gr. laga um meðferð sakamála, eftir því sem við getur átt.
Seðlabanka Íslands er heimilt að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að einstaklingar og lögaðilar hafi brotið gegn lögum þessum eða reglum sem eru settar á grundvelli þeirra eða ástæða er til að ætla að athuganir eða aðgerðir Seðlabankans nái að öðrum kostum ekki tilætluðum árangri. Skal ákvæðum laga um meðferð sakamála beitt við framkvæmd slíkra aðgerða.
24. gr. Málshöfðunarfrestur.
Nú vill aðili ekki una ákvörðun Seðlabanka Íslands og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó 2. mgr. 17. gr.
VII. kafli. Ýmis ákvæði.
25. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð.
Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur 1) um framkvæmd 5., 8., 11. og 12. gr. og VI. kafla. Reglurnar skulu samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.
1) Rgl. 224/2019.
26. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað öðlast lögin gildi við birtingu.
27. gr. Breyting á öðrum lögum. …
[Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði laga þessara:
1. Er heimilt að taka aflandskrónueignir í formi innstæðna út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum eða innleysa innstæðubréf Seðlabankans til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi eða alþjóðlegri verðbréfamiðstöð sem lagður er á reikning hjá erlendu fjármálafyrirtæki erlendis.
2. Er heimilt að taka aflandskrónueignir út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum eða aflétta kvöðum skv. 5. og 6. gr. af aflandskrónueignum, enda sé uppfyllt það skilyrði að þær hafi verið í samfelldri eigu frá 28. nóvember 2008.
3. Er einstaklingi sem er skráður eigandi aflandskrónueigna heimilt að taka út af reikningi háðum sérstökum takmörkunum eða innleysa innstæðubréf Seðlabankans fyrir allt að 100 millj. kr., enda sé uppfyllt það skilyrði að einstaklingurinn sé raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem um ræðir.
Ráðstafanir skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. eru háðar staðfestingu Seðlabanka Íslands.
Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur 1) um framkvæmd þessa ákvæðis. Reglurnar skulu samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.] 2)
1) Rgl. 224/2019. 2)L. 14/2019, 1. gr.