Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum

2007 nr. 44 27. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 31. mars 2007. EES-samningurinn: XVIII. viðauki tilskipun 2003/72/EB. Breytt með: L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið og gildissvið.
1. gr. Markmið laganna.
Markmið laga þessara er að vernda rétt starfsmanna evrópskra samvinnufélaga til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi evrópska samvinnufélagsins sem þeir vinna hjá og tryggja að gildandi reglur hvorki hverfi né minnki að vægi við stofnun þess.
Ef þátttökuréttur er fyrir hendi hjá einum aðila eða fleirum sem taka þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags skal sá réttur einnig gilda í evrópska samvinnufélaginu nema sérstök samninganefnd fulltrúa starfsmanna og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem standa að stofnun evrópska samvinnufélagsins semji um annað eða ákvæði 18. gr. leiði til annarrar niðurstöðu.
Til að tryggja framangreind markmið skal koma á fastri tilhögun um aðild starfsmanna í öllum evrópskum samvinnufélögum í samræmi við málsmeðferð um samningaviðræður eftir því sem nánar greinir í lögum þessum.
2. gr. Gildissvið.
Ákvæði laganna gilda um evrópsk samvinnufélög og lögaðila sem hyggjast taka þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags á grundvelli laga um evrópsk samvinnufélög og reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003 og hafa staðfestu á Íslandi.
Stjórnendur evrópsks samvinnufélags og dótturfyrirtækja þess eða stjórnendur lögaðila, sem taka þátt, þegar við á, og fulltrúar starfsmanna eða starfsmennirnir sjálfir, eftir því sem við á, skulu uppfylla þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í lögunum, óháð því hvort evrópska samvinnufélagið er með staðfestu hér á landi.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. Evrópskt samvinnufélag: Samvinnufélag sem stofnað er í samræmi við ákvæði laga um evrópsk samvinnufélög og reglugerð ráðsins (EB) nr. 1435/2003.
    2. Lögaðilar sem taka þátt: Fyrirtæki og félög, þar með talin samvinnufélög, sem og aðrir lögaðilar sem hafa verið stofnaðir samkvæmt íslenskum lögum og heyra undir þau, sem eiga beinan þátt í að stofna evrópskt samvinnufélag.
    3. Dótturfyrirtæki: Fyrirtæki sem lögaðili, sem tekur þátt, eða evrópskt samvinnufélag hefur ráðandi aðstöðu gagnvart samkvæmt skilgreiningu 5. gr. laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999.
    4. Hlutaðeigandi dótturfyrirtæki eða starfsstöð: Dótturfyrirtæki eða starfsstöð lögaðila, sem tekur þátt, sem fyrirhugað er að verði dótturfyrirtæki eða starfsstöð evrópska samvinnufélagsins við myndun þess.
    5. Fulltrúar starfsmanna: Trúnaðarmenn stéttarfélaga samkvæmt lögum og aðrir fulltrúar starfsmanna lögaðila, sem taka þátt, sem starfsmenn tilnefna samkvæmt lögum þessum eða samkomulagi á vinnustað.
    6. Fulltrúanefnd: Nefnd fulltrúa starfsmanna sem sett er á fót samkvæmt samkomulagi, sem um getur í 13. gr. eða í samræmi við III. kafla, með það í huga að upplýsa og hafa samráð við starfsmenn evrópsks samvinnufélags, dótturfyrirtækja og starfsstöðva þess, og þar sem við á beita þátttökurétti starfsmanna að því er varðar evrópska samvinnufélagið.
    7. Sérstök samninganefnd: Nefnd sem sett er á fót í samræmi við 5. gr. til að semja við þar til bæra stofnun lögaðila, sem taka þátt, um fasta tilhögun á aðild starfsmanna í evrópska samvinnufélaginu.
    8. Aðild starfsmanna: Hvert það fyrirkomulag, þ.m.t. upplýsingamiðlun, samráð og þátttaka, þar sem fulltrúar starfsmanna geta haft áhrif á ákvarðanatöku í fyrirtæki.
    9. Upplýsingar: Upplýsingar sem þar til bær stofnun evrópsks samvinnufélags miðlar til fulltrúanefndar starfsmanna og/eða fulltrúa starfsmanna um málefni sem varða félagið sjálft og dótturfyrirtæki eða starfsstöðvar þess sem eru í öðru aðildarríki eða utan valdsviðs þeirra stofnana sem taka ákvarðanir í hverju aðildarríki. Veita skal upplýsingar á þeim tíma, á þann hátt og með því inntaki sem gerir fulltrúum starfsmanna kleift að gera ítarlegt mat á hugsanlegum áhrifum og þegar við á undirbúa samráð við þar til bæra stofnun evrópska samvinnufélagsins nema annað leiði af ákvæðum þessara laga.
    10. Samráð: Viðræður og skoðanaskipti fulltrúanefndar starfsmanna og/eða fulltrúa starfsmanna og þar til bærrar stofnunar viðkomandi evrópsks samvinnufélags. Samráð skal fara fram á þeim tíma, á þann hátt og með því inntaki sem gerir fulltrúum starfsmanna kleift á grundvelli fenginna upplýsinga að láta í ljós álit sitt á ráðstöfunum sem þar til bæra stofnunin hefur fyrirhugað en álitið kann að verða tekið til greina við ákvarðanatöku í evrópska samvinnufélaginu.
    11. Þátttaka: Áhrif fulltrúanefndar starfsmanna og/eða fulltrúa starfsmanna á málefni lögaðila annaðhvort með:
    a. rétti til að kjósa eða tilnefna fulltrúa í stjórn lögaðilans eða eftirlitsstjórn eða
    b. rétti til að mæla með og/eða gegn tilnefningu einhverra eða allra fulltrúa í stjórn lögaðilans eða eftirlitsstjórn.

II. kafli. Málsmeðferð við samningaviðræður sem gildir um evrópsk samvinnufélög sem stofnuð eru af að minnsta kosti tveimur lögaðilum eða við umbreytingu.
4. gr. Upphaf samningaviðræðna og upplýsingagjöf.
Þegar framkvæmdastjórnir eða stjórnir lögaðila, sem taka þátt, gera áætlun um stofnun evrópsks samvinnufélags skulu þær gera nauðsynlegar ráðstafanir eins fljótt og unnt er til að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna lögaðilanna um tilhögun á aðild starfsmanna. Í því felst meðal annars að láta skal fulltrúum starfsmanna í té upplýsingar um heiti lögaðilanna, sem taka þátt, og dótturfyrirtækja eða starfsstöðva og fjölda starfsmanna þeirra.
5. gr. Myndun sérstakrar samninganefndar.
Áður en viðræður geta hafist samkvæmt þessum kafla skal stofnuð sérstök samninganefnd sem er í forsvari fyrir starfsmenn lögaðilanna, sem taka þátt, og hlutaðeigandi dótturfyrirtækja eða starfsstöðva í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
Þegar fulltrúar í sérstöku samninganefndina eru kosnir eða tilnefndir skal tryggja að:
    a. fulltrúarnir séu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna hjá þeim lögaðilum, sem taka þátt, og hlutaðeigandi dótturfyrirtækjum eða starfsstöðvum í hverju aðildarríki fyrir sig, með því að úthluta hverju aðildarríki einu sæti fyrir hvern hluta starfsmanna í því ríki sem jafngildir hverjum byrjuðum tug af hundraði starfsmanna sem ráðnir eru í öllum aðildarríkjum samanlagt,
    b. þegar evrópskt samvinnufélag er myndað við samruna sé bætt við fulltrúum frá hverju aðildarríki fyrir sig, eftir þörfum, til að tryggt sé að í sérstöku samninganefndinni sé að minnsta kosti einn fulltrúi fyrir hvert samvinnufélag sem tekur þátt, er skráð og hefur starfsmenn í því aðildarríki og sem fyrirhugað er að verði ekki lengur sérstakur lögaðili eftir skráningu evrópska samvinnufélagsins, að svo miklu leyti sem:
    1. þessir viðbótarfulltrúar verða ekki fleiri en sem nemur tuttugu af hundraði þeirra fulltrúa sem eru tilnefndir eða kjörnir skv. a-lið og
    2. skipan þeirra hefur ekki í för með sér að starfsmenn viðkomandi lögaðila, sem taka þátt, öðlist fleiri fulltrúa en þeir eiga rétt á skv. a-lið.
Ef samvinnufélögin, sem b-liður 2. mgr. á við um, eru fleiri en tiltæk viðbótarsæti skal viðbótarsætum úthlutað á samvinnufélög í mismunandi aðildarríkjum í fallandi röð eftir fjölda starfsmanna í þeim.
6. gr. Val fulltrúa á Íslandi.
Fulltrúar sem kjörnir eru á Íslandi til setu í sérstöku samninganefndinni skulu kosnir af trúnaðarmönnum stéttarfélaga. Starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann skulu velja sér sameiginlegan fulltrúa sem tekur þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina.
Þeir sem rétt eiga til að taka þátt í kjöri fulltrúa til setu í sérstöku samninganefndinni skulu kjósa hann úr sínum hópi. Vægi atkvæða hvers trúnaðarmanns eða fulltrúa ræðst af fjölda starfsmanna að baki honum.
Hafi engir trúnaðarmenn verið skipaðir eiga allir starfsmenn lögaðilans, sem tekur þátt, rétt á að taka þátt í kjöri fulltrúa í nefndina.
Ef kjósa á fleiri en einn fulltrúa frá Íslandi í nefndina skal tryggja eins og unnt er að starfsmenn sem flestra lögaðila, sem taka þátt, eigi þar fulltrúa.
Í þeim tilvikum þegar úthlutað er aukasæti í sérstöku samninganefndinni, sbr. b-lið 2. mgr. 5. gr., fer um val þeirra fulltrúa samkvæmt þessari grein, eftir því sem við á.
Ef starfsmenn lögaðila, sem tekur þátt, á Íslandi missa rétt til fulltrúa, svo sem vegna þess að lögaðilinn tekur ekki lengur þátt í myndun evrópsks samvinnufélags, skal því sæti úthlutað að nýju samkvæmt þessari grein.
Aðferðirnar sem eru notaðar til að útnefna, tilnefna eða kjósa fulltrúa starfsmanna skulu miða að því að stuðla að jöfnu hlutfalli kynjanna.
7. gr. Hlutverk sérstöku samninganefndarinnar.
Ákvarða skal tilhögun á aðild starfsmanna í evrópska samvinnufélaginu með skriflegu samkomulagi milli sérstöku samninganefndarinnar og þar til bærra stofnana lögaðilanna, sem taka þátt.
Í þessu skyni skulu þar til bærar stofnanir lögaðilanna, sem taka þátt, greina sérstöku samninganefndinni frá áætluninni um stofnun evrópska samvinnufélagsins og sjálfu stofnunarferlinu fram að skráningu þess.
8. gr. Ákvörðunartaka innan sérstöku samninganefndarinnar.
Með fyrirvara um 11. gr. og í öðrum tilvikum en um getur í 2. mgr. tekur sérstaka samninganefndin ákvarðanir með hreinum meiri hluta fulltrúa, að því tilskildu að sá meiri hluti sé einnig fulltrúi hreins meiri hluta starfsmanna. Hver fulltrúi greiðir eitt atkvæði.
Verði niðurstaða samningaviðræðna sú að þátttökuréttur minnkar þarf samkomulagið í eftirtöldum tilvikum að hljóta atkvæði frá 2/ 3 hlutum fulltrúanna sem jafnframt eru fulltrúar að minnsta kosti 2/ 3 hluta starfsmanna, þ.m.t. atkvæði fulltrúa starfsmanna sem starfa í a.m.k. tveimur aðildarríkjum:
    a. þegar um er að ræða evrópskt samvinnufélag sem á að stofna við samruna og a.m.k. fjórðungur starfsmanna samvinnufélaganna, sem taka þátt, heyrir undir þátttökutilhögunina eða
    b. þegar um er að ræða evrópskt samvinnufélag sem á að stofna á annan hátt ef a.m.k. helmingur starfsmanna lögaðilanna, sem taka þátt, heyrir undir þátttökutilhögunina.
Það að þátttökuréttur minnkar merkir að hlutfall fulltrúa starfsmanna í stjórnarstofnunum evrópska samvinnufélagsins, í skilningi 11. tölul. 3. gr., er lægra en hæsta hlutfallið hjá lögaðilunum sem taka þátt.
9. gr. Sérfræðiaðstoð og upplýsingagjöf.
Sérstaka samninganefndin getur valið sérfræðinga til aðstoðar í samningaviðræðum, til dæmis fulltrúa frá viðkomandi samtökum stéttarfélaga á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessir sérfræðingar geta verið viðstaddir samningafundi til að veita ráðgjöf að beiðni nefndarinnar.
Sérstöku samninganefndinni er heimilt að ákveða að greina fulltrúum utanaðkomandi samtaka sem hagsmuna eiga að gæta, þ.m.t. stéttarfélaga, frá upphafi samningaviðræðna.
10. gr. Lengd samningaviðræðna.
Samningaviðræður skulu hefjast um leið og sérstaka samninganefndin hefur verið stofnuð og þeim má halda áfram í sex mánuði frá fyrsta samningafundi. Miða skal upphaf frests til að ljúka samningaviðræðum samkvæmt þessari grein við tvo mánuði frá því að fullnægjandi upplýsingar skv. 4. gr. bárust fulltrúum starfsmanna hafi fyrsti fundur ekki verið haldinn fyrir þann tíma.
Aðilar geta komið sér saman um að framlengja samningaviðræður fram yfir þann tíma sem um getur í 1. mgr. í allt að eitt ár frá stofnun sérstöku samninganefndarinnar.
11. gr. Slit samningaviðræðna.
Sérstaka samninganefndin getur ákveðið, með þeim meiri hluta sem tilgreindur er í 3. mgr., að hefja ekki samningaviðræður eða binda enda á samningaviðræður sem þegar eru hafnar og að bera fyrir sig þær reglur um miðlun upplýsinga til starfsmanna og samráð við þá sem í gildi eru í aðildarríkjum þar sem evrópskt samvinnufélag er með starfsmenn.
Ákvörðun skv. 1. mgr. bindur enda á gerð samkomulags skv. 13. gr. Þegar slík ákvörðun hefur verið tekin gilda ákvæði III. kafla ekki um aðild starfsmanna evrópska samvinnufélagsins nema að því leyti sem sérstaka samninganefndin tekur ákvarðanir skv. 15. gr., en um upplýsingar og samráð gilda þá lög og venjur í hverju aðildarríki þar sem evrópska samvinnufélagið hefur starfsemi.
Ákvörðun um að hefja ekki samningaviðræður eða binda enda á þær þarf að hljóta atkvæði frá 2/ 3 hlutum fulltrúa í sérstöku samninganefndinni sem jafnframt eru fulltrúar a.m.k. 2/ 3 hluta starfsmanna, þ.m.t. atkvæði fulltrúa starfsmanna sem starfa í að minnsta kosti tveimur aðildarríkjum.
Kalla má sérstöku samninganefndina saman að nýju með skriflegri beiðni frá að minnsta kosti 10% starfsmanna evrópska samvinnufélagsins, dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva, eða fulltrúum þeirra, í fyrsta lagi tveimur árum eftir að ákvörðun skv. 1. mgr. hefur verið tilkynnt þar til bærum stofnunum lögaðila, sem taka þátt, og gilda þá ákvæði þessa kafla að breyttu breytanda. Heimilt er þó að hefja samningaviðræður fyrr ef aðilar verða sáttir um það.
Ef sérstaka samninganefndin ákveður að hefja samningaviðræður við framkvæmdastjórn á ný, en ekkert samkomulag næst í þeim samningaviðræðum, gilda engin ákvæði III. kafla um aðild starfsmanna evrópska samvinnufélagsins.
Þegar evrópskt samvinnufélag er stofnað með umbreytingu gildir þessi grein ekki ef þátttökufyrirkomulag er fyrir hendi í samvinnufélaginu sem á að breyta.
12. gr. Kostnaður.
Lögaðilar, sem taka þátt, skulu bera þann kostnað sem hlýst af rekstri sérstöku samninganefndarinnar og samningaviðræðum, þ.m.t. kostnað vegna a.m.k. eins sérfræðings, þannig að nefndinni sé gert kleift að sinna verkefnum sínum með eðlilegum hætti.
13. gr. Efni samkomulags.
Samningaviðræður þar til bærra stofnana lögaðila, sem taka þátt, og sérstöku samninganefndarinnar skulu fara fram í anda samvinnu með það í huga að ná skriflegu samkomulagi um tilhögun á aðild starfsmanna innan evrópsks samvinnufélags.
Í samkomulaginu skal að lágmarki tilgreina eftirfarandi atriði:
    1. Gildissvið samkomulagsins.
    2. Skipan, fjölda fulltrúa og úthlutun sæta í fulltrúanefnd sem verður viðræðuaðili þar til bærrar stofnunar evrópska samvinnufélagsins í tengslum við tilhögun upplýsingamiðlunar til starfsmanna evrópska samvinnufélagsins og dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva og samráð við þá.
    3. Hlutverk fulltrúanefndarinnar og málsmeðferð um upplýsingamiðlun til hennar og samráð við hana.
    4. Hve oft fulltrúanefndin skal koma saman.
    5. Hvert fjármagn og hvernig aðbúnaður fulltrúanefndarinnar skal vera.
    6. Með hvaða hætti fyrirkomulagi skal komið á ef aðilarnir ná samkomulagi um að koma á einni málsmeðferð, eða fleiri en einni, við upplýsingamiðlun og samráð í stað þess að skipa fulltrúanefnd.
    7. Ef aðilar verða ásáttir í samningaviðræðum um að koma á tilhögun á þátttöku, inntak þeirrar tilhögunar, þ.m.t., ef við á, fjölda fulltrúa í eftirlitsstjórn eða stjórn evrópska samvinnufélagsins sem starfsmennirnir eiga rétt á að kjósa, tilnefna, mæla með eða á móti, reglur um hvernig starfsmennirnir kjósa, tilnefna, mæla með eða á móti þessum fulltrúum og réttindi þeirra.
    8. Gildistökudag samkomulagsins og gildistíma þess, í hvaða tilvikum samkomulagið skuli framlengt eða endurskoðað og málsmeðferð við framlengingu þess, þ.m.t., eftir því sem við á, þegar skipulagsbreytingar verða á evrópska samvinnufélaginu og dótturfyrirtækjum þess og starfsstöðvum eftir stofnun evrópska samvinnufélagsins.
Ákvæði III. kafla gilda ekki ef aðilar ná samkomulagi samkvæmt þessari grein nema þess sé sérstaklega getið í samkomulaginu.
Ef í hlut á evrópskt samvinnufélag, sem verður til við umbreytingu, skal samkomulagið kveða á um að allir þættir sem varða aðild starfsmanna séu að lágmarki þeir sömu og þeir sem eru fyrir hendi í félaginu sem á að breyta, sbr. þó a-lið 3. mgr. 30. gr.
Í samkomulaginu er heimilt að tilgreina hvernig háttað skuli réttindum starfsmanna til þátttöku á félagsfundum eða svæða- eða deildarfundum, í samræmi við 21. gr. þessara laga og 4. mgr. 59. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003, sbr. lög um evrópsk samvinnufélög.
14. gr. Löggjöf sem gildir um málsmeðferð við samningaviðræður.
Um málsmeðferð við samningaviðræður skal fara samkvæmt löggjöf þess aðildarríkis þar sem til stendur að skráð skrifstofa evrópska samvinnufélagsins verði nema annað leiði af ákvæðum þessara laga eða eðli máls.

III. kafli. Ákvæði til vara.
15. gr. Gildissvið.
Ákvæði þessa kafla gilda um evrópsk samvinnufélög sem skráð eru hér á landi frá skráningardegi ef annaðhvort:
    a. aðilarnir koma sér saman um það eða
    b. ekkert samkomulag hefur náðst þegar frestur skv. 10. gr. er runninn út og eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
    1. Þar til bær stofnun hvers lögaðila, sem tekur þátt, tekur ákvörðun um að samþykkja beitingu almennu reglnanna í tengslum við evrópska samvinnufélagið og halda með þeim hætti áfram með skráningu þess.
    2. Sérstaka samninganefndin hefur ekki tekið ákvörðunina sem kveðið er á um í 11. gr.
Enn fremur skulu ákvæði 18. gr. eingöngu gilda í eftirtöldum tilvikum og að uppfylltum tilgreindum skilyrðum:
    1. Þegar evrópskt samvinnufélag er stofnað við umbreytingu ef reglur aðildarríkis varðandi þátttöku starfsmanna í stjórn eða eftirlitsstjórn eru til staðar í því félagi sem verið er að umbreyta.
    2. Þegar evrópskt samvinnufélag verður til við samruna:
    a. ef þátttaka í einni eða fleiri myndum var fyrir hendi, fyrir skráningu evrópska samvinnufélagsins, í einu eða fleiri samvinnufélaganna, sem taka þátt, og tók til a.m.k. fjórðungs af heildarfjölda ráðinna starfsmanna þeirra, eða
    b. ef þátttaka í einni eða fleiri myndum var fyrir hendi, fyrir skráningu evrópska samvinnufélagsins, í einu eða fleiri samvinnufélaganna sem taka þátt og tók til minna en fjórðungs af heildarfjölda ráðinna starfsmanna þeirra og sérstaka samninganefndin ákveður það.
    3. Þegar evrópskt samvinnufélag verður til á einhvern annan hátt:
    a. ef þátttaka í einni eða fleiri myndum var fyrir hendi, fyrir skráningu evrópska samvinnufélagsins, hjá einum eða fleiri lögaðilum, sem taka þátt, og tók til a.m.k. helmings af heildarfjölda ráðinna starfsmanna þeirra, eða
    b. ef þátttaka í einni eða fleiri myndum var fyrir hendi, fyrir skráningu evrópska samvinnufélagsins, hjá einum eða fleiri lögaðilum, sem taka þátt, og tók til minna en helmings heildarfjölda ráðinna starfsmanna þeirra og sérstaka samninganefndin ákveður það.
Við beitingu heimilda skv. 2. mgr. skal sérstaka samninganefndin ákveða, með sama meiri hluta og kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr., hvaða form á þátttöku starfsmanna skuli gilda í evrópsku samvinnufélagi. Nefndin skal greina þar til bærum stofnunum lögaðilanna, sem taka þátt, frá þeim ákvörðunum sem teknar eru samkvæmt þessari málsgrein.
16. gr. Skipan fulltrúanefndar starfsmanna.
Til þess að ná þeim markmiðum sem lýst er í 1. gr. og í þeim tilvikum sem um getur í 1. mgr. 15. gr. skal fulltrúanefnd starfsmanna skipuð í samræmi við eftirfarandi reglur:
    1. Fulltrúanefndin skal skipuð starfsmönnum evrópska samvinnufélagsins, dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva sem trúnaðarmenn stéttarfélaga og sameiginlegur fulltrúi þeirra starfsmanna sem ekki eiga trúnaðarmann eða allir starfsmenn, ef trúnaðarmenn eru ekki til staðar, kjósa úr sínum hópi.
    2. Kosning eða tilnefning íslenskra fulltrúa í fulltrúanefndina skal, eftir því sem við á, fara fram í samræmi við 6. gr.
    3. Ef verulegar breytingar verða á evrópsku samvinnufélagi, dótturfyrirtækjum þess og starfsstöðvum skal fulltrúaráðið, í samráði við þar til bærar stofnanir evrópska samvinnufélagsins, endurskoða skiptingu sæta í fulltrúaráðinu. Á þetta einkum við ef miklar breytingar verða á starfsmannafjölda, eignarhaldi eða starfsemi evrópska samvinnufélagsins, svo og ef félagið flytur staðfestu sína milli ríkja. Aðferðirnar sem eru notaðar til að útnefna, tilnefna eða kjósa fulltrúa starfsmanna skulu miða að því að stuðla að jöfnu hlutfalli kynjanna.
    4. Ef stærð nefndarinnar gefur tilefni til skal fulltrúanefndin kjósa úr sínum hópi þriggja manna framkvæmdaráð sem annast venjubundin samskipti við þar til bærar stofnanir evrópska samvinnufélagsins á grundvelli starfsreglna sem fulltrúanefndin setur sér.
    5. Fulltrúar í fulltrúanefndina eru kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna, sem starfa hjá evrópska samvinnufélaginu og dótturfyrirtækjum þess eða starfsstöðvum í hverju aðildarríki fyrir sig, með því að úthluta hverju aðildarríki einu sæti fyrir hvern hluta starfsmanna í því ríki sem jafngildir tíu af hundraði starfsmanna, eða broti af því, sem ráðnir eru í öllum aðildarríkjum samanlagt.
    6. Tilkynna skal þar til bærri stofnun evrópska samvinnufélagsins um skipan fulltrúanefndarinnar.
Innan fjögurra ára frá því að fulltrúanefndin hefur verið stofnuð skal hún kanna hvort hefja eigi viðræður um gerð samkomulags, sbr. 13. gr., eða beita áfram almennum reglum samkvæmt þessum kafla.
Ákvæði 8.–14. gr. skulu gilda, eftir því sem við á, hafi ákvörðun verið tekin um viðræður varðandi samkomulag í samræmi við 13. gr. Ef frestur til að ljúka samningaviðræðunum rennur út án þess að samkomulag náist skal sú tilhögun sem fyrst var samþykkt, í samræmi við ákvæði þessa kafla, gilda áfram.
17. gr. Almennar reglur um upplýsingamiðlun og samráð.
Hlutverk fulltrúanefndar skal takmarkast við málefni er varða evrópska samvinnufélagið sjálft og dótturfyrirtæki þess eða starfsstöðvar í öðru aðildarríki eða ná út fyrir ákvörðunarvald stjórnarstofnana evrópska samvinnufélagsins í einstöku aðildarríki.
Á fundum fulltrúanefndar og þar til bærrar stofnunar evrópska samvinnufélagsins skal einkum fjalla um skipulag, efnahagslega og fjárhagslega stöðu, líklega þróun í rekstri, framleiðslu og sölu, framtaksverkefni hvað varðar félagslega ábyrgð fyrirtækja, ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar er varða skipulag, innleiðingu nýrra vinnuhátta eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.
Ef fyrir hendi eru sérstakar aðstæður sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna, einkum flutningur starfsemi, lokun starfsstöðva eða fyrirtækja eða hópuppsagnir, skal upplýsa fulltrúanefndina um málið. Fulltrúanefndin, eða framkvæmdaráðið ef brýnt er, á rétt á að hitta að eigin ósk aðila þar til bærrar stofnunar evrópska samvinnufélagsins eða stjórnendur á öðru stjórnunarstigi, sem á betur við, innan evrópska samvinnufélagsins með eigin ákvörðunarrétt til að fá upplýsingar og hafa samráð um mikilvægar ráðstafanir sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna.
Fulltrúanefndin á rétt á að hitta fulltrúa þar til bærrar stofnunar evrópska samvinnufélagsins að minnsta kosti einu sinni á ári til upplýsingar og samráðs á grundvelli skýrslna sem þar til bæra stofnunin tekur reglulega saman um rekstur evrópska samvinnufélagsins og rekstrarhorfur. Jafnframt skal veita stjórnendum á viðkomandi stöðum upplýsingar.
Þar til bær stofnun evrópska samvinnufélagsins skal láta fulltrúanefndinni í té dagskrá stjórnarfunda eða, þar sem við á, funda stjórnar og eftirlitsstjórnar, ásamt afritum af öllum skjölum sem lögð eru fram á aðalfundi félagsins.
Ákveði þar til bær stofnun evrópska samvinnufélagsins að aðhafast ekki í samræmi við það álit sem fulltrúanefndin hefur látið í ljós á nefndin rétt á að hitta aftur fulltrúa evrópska samvinnufélagsins með það í huga að leita eftir samkomulagi.
Þeir aðilar í fulltrúanefndinni sem eru fulltrúar starfsmanna, sem viðkomandi ráðstafanir hafa bein áhrif á, eiga rétt á að taka þátt í fundum sem ráðgerðir eru milli framkvæmdaráðsins og evrópska samvinnufélagsins skv. 3. mgr.
Áður en fundur er haldinn með þar til bærri stofnun evrópska samvinnufélagsins á fulltrúanefndin eða framkvæmdaráðið, sem er stækkað, ef nauðsyn krefur í samræmi við 7. mgr., rétt á að funda án þess að fulltrúar evrópska samvinnufélagsins séu viðstaddir.
Með fyrirvara um þagnarskyldu skv. 24. gr. skulu fulltrúanefndarmenn veita fulltrúum starfsmanna evrópska samvinnufélagsins, dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva vitneskju um efni og niðurstöður upplýsingamiðlunarinnar og samráðsins.
Álit fulltrúanefndarinnar samkvæmt grein þessari bindur ekki hendur þar til bærra stofnana evrópska samvinnufélagsins.
Fulltrúanefndin getur leitað aðstoðar sérfræðinga að eigin vali.
Fulltrúanefndarmenn skulu eiga rétt á starfshléi til þjálfunar án þess að missa við það laun, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt vegna þessara starfa þeirra.
Evrópska samvinnufélagið skal greiða kostnað fulltrúanefndarinnar, þ.m.t. kostnað vegna eins sérfræðings, og sjá fulltrúum hennar fyrir því fjármagni og þeirri aðstöðu sem henni er nauðsynleg til að sinna verkefnum sínum með eðlilegum hætti.
18. gr. Almennar reglur um þátttöku.
Um þátttöku starfsmanna í evrópsku samvinnufélagi gilda eftirfarandi reglur:
    1. Þegar evrópskt samvinnufélag verður til við umbreytingu og reglur aðildarríkis sem varða þátttöku starfsmanna í stjórn eða eftirlitsstjórn giltu fyrir skráninguna skulu allar reglur um þátttöku starfsmanna gilda áfram fyrir evrópska samvinnufélagið. Að breyttu breytanda skal 2. tölul. gilda í því skyni.
    2. Í öðrum tilvikum en skv. 1. tölul., þar sem evrópskt samvinnufélag er stofnað, eiga starfsmenn félagsins, dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva og/eða fulltrúanefnd starfsmanna rétt á að kjósa, tilnefna og mæla með eða gegn tilnefningu tiltekins fjölda fulltrúa í stjórn eða eftirlitsstjórn evrópska samvinnufélagsins til jafns við hæsta hlutfallið sem í gildi er í viðkomandi þátttökufélögum áður en evrópska samvinnufélagið er skráð.
Ef enginn af lögaðilunum, sem taka þátt, starfar samkvæmt þátttökureglum fyrir skráningu evrópska samvinnufélagsins er þess ekki krafist að evrópska samvinnufélagið setji ákvæði um þátttöku starfsmanna.
Fulltrúanefndin ákveður hvernig sætum í stjórn eða eftirlitsstjórn er úthlutað til fulltrúa starfsmanna í samræmi við hlutfall starfsmanna í hverju aðildarríki fyrir sig. Ef hlutfallsviðmiðun leiðir til þess að starfsmenn í einhverjum aðildarríkjum fá engan fulltrúa skal fulltrúanefndin leitast við að jafna skiptingu sæta og skulu starfsmenn í aðildarríki þar sem skrifstofa evrópska samvinnufélagsins er skráð njóta forgangs við þá jöfnun hafi þeir ekki þegar fengið úthlutað sæti samkvæmt hlutfallsreglu.
Fulltrúanefndin setur reglur um á hvaða hátt fulltrúar starfsmanna geta mælt með eða gegn tilnefningu fulltrúa í stjórnarstofnanir evrópska samvinnufélagsins, ef við á.
Ef starfsmenn á Íslandi öðlast rétt til að tilnefna eða kjósa fulltrúa samkvæmt þessari grein skal ákvæði 6. gr. gilda um það val. Um kjör eða tilnefningu annarra fulltrúa gildir löggjöf viðkomandi aðildarríkis en ef þar er ekki mælt fyrir um hvernig tilnefning fer fram skal fulltrúanefndin tilnefna fulltrúa starfsmanna þess aðildarríkis.
Hver fulltrúi í stjórn eða, þar sem við á, eftirlitsstjórn evrópska samvinnufélagsins sem fulltrúanefndin eða, eftir atvikum, starfsmenn hafa kosið, tilnefnt eða mælt með samkvæmt þessari grein, skal vera fullgildur stjórnarmaður með sömu réttindi og skyldur og fulltrúar félagsaðila samvinnufélagsins, þ.m.t. rétt til að greiða atkvæði.

IV. kafli. Aðild starfsmanna í tilteknum evrópskum samvinnufélögum.
19. gr.
Þegar evrópskt samvinnufélag er stofnað af einstaklingum eingöngu, eða af einum lögaðila og einstaklingum sem hafa samtals færri en 50 starfsmenn í vinnu eða hafa 50 eða fleiri starfsmenn í vinnu í aðeins einu aðildarríki, gildir eftirfarandi um aðild starfsmanna:
    1. Innan evrópska samvinnufélagsins sjálfs gilda þau ákvæði aðildarríkis, þar sem evrópska samvinnufélagið hefur skráða skrifstofu, sem gilda um aðra aðila sömu gerðar.
    2. Innan dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva gilda þau ákvæði aðildarríkis, þar sem þau eru staðsett, sem gilda um aðra aðila sömu gerðar.
Ef evrópskt samvinnufélag, sem heyrir undir reglur um þátttöku, flytur skráða skrifstofu sína frá einu aðildarríki til annars skulu starfsmenn a.m.k. halda sömu réttindum til þátttöku og áður.
20. gr.
Eftir skráningu evrópsks samvinnufélags, sbr. 1. mgr. 19. gr., skulu ákvæði II.–III. kafla gilda, eftir því sem við getur átt, ef a.m.k. þriðjungur heildarfjölda starfsmanna evrópska samvinnufélagsins, dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva í a.m.k. tveimur aðildarríkjum fer fram á það eða ef heildarstarfsmannafjöldi er 50 eða fleiri starfsmenn í a.m.k. tveimur aðildarríkjum.

V. kafli. Þátttaka í félagsfundi eða svæða- eða deildarfundum.
21. gr. Tilvik þar sem þátttaka á við.
Með fyrirvara um þær takmarkanir sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 59. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003, sbr. lög um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006, eiga starfsmenn evrópsks samvinnufélags og/eða fulltrúar þeirra rétt til þátttöku í félagsfundum eða í svæða- eða deildarfundum, ef þeir eru haldnir, og til að greiða atkvæði í eftirfarandi tilvikum:
    a. ef aðilarnir ákveða það í samkomulaginu sem um getur í 13. gr.,
    b. þegar samvinnufélag sem fellur undir slíkt kerfi breytist í evrópskt samvinnufélag eða
    c. þegar samvinnufélag, sem tekur þátt, féll undir slíkt kerfi ef um er að ræða evrópskt samvinnufélag sem verður til á annan hátt en með umbreytingu og:
    1. aðilar ná ekki samkomulagi, eins og um getur í 13. gr., áður en fresturinn sem mælt er fyrir um í 10. gr. rennur út,
    2. b-liður 1. mgr. 15. gr. og 18. gr. gilda og
    3. samvinnufélagið sem tekur þátt og fellur undir slíkt kerfi er með hæsta þátttökuhlutfall, í skilningi 11. tölul. 3. gr., sem er í gildi hjá hlutaðeigandi samvinnufélögum sem taka þátt fyrir skráningu evrópska samvinnufélagsins.

VI. kafli. Ýmis ákvæði.
22. gr. Samskipti evrópsks samvinnufélags við fulltrúa starfsmanna.
Þar til bær stofnun evrópsks samvinnufélags og fulltrúanefnd starfsmanna skulu starfa í anda samvinnu með tilhlýðilegu tilliti til gagnkvæmra réttinda og skyldna.
Hið sama gildir um samvinnu stjórnar eða, þar sem við á, eftirlitsstjórnar evrópska samvinnufélagsins og fulltrúa starfsmanna sem starfa í tengslum við málsmeðferð um miðlun upplýsinga til starfsmanna og samráð við þá.
23. gr. Vernd fulltrúa starfsmanna.
Fulltrúar í sérstöku samninganefndinni, fulltrúar í fulltrúanefndinni, fulltrúar starfsmanna sem starfa samkvæmt málsmeðferð um upplýsingar og samráð og fulltrúar starfsmanna í stjórn stofnana evrópska samvinnufélagsins skulu hvorki sæta uppsögn né skerðingu á kjörum sínum vegna fulltrúastarfanna. Þeim skal einnig tryggður réttur með samningi við vinnuveitanda til að taka sér frí frá störfum svo að þeir geti á eðlilegan hátt sinnt skyldum sínum við gerð og framkvæmd samninga samkvæmt lögum þessum. Þetta á einkum við um fundarsetu í sérstöku samninganefndinni eða fulltrúanefndinni, aðra fundi er falla undir samkomulagið sem um getur í 6. tölul. 2. mgr. 13. gr. og fundi stofnana evrópska samvinnufélagsins, meðal annars varðandi greiðslu launa til fulltrúa sem starfa hjá lögaðila, sem tekur þátt, evrópska samvinnufélaginu eða dótturfyrirtækjum þess eða starfsstöðvum fyrir þann tíma sem þeir þurfa að vera fjarverandi.
Fulltrúar starfsmanna sem starfa samkvæmt málsmeðferð um upplýsingamiðlun og samráð skulu njóta sams konar réttarverndar og trúnaðarmenn samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, eftir því sem við á.
24. gr. Þagnarskylda.
Fulltrúum í sérstöku samninganefndinni og fulltrúanefndinni og sérfræðingum sem eru þeim til aðstoðar er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem þeim hafa verið veittar í trúnaði. Hið sama gildir um fulltrúa starfsmanna í tengslum við upplýsingamiðlun og samráð.
Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
25. gr. Upplýsingar sem ekki er skylt að veita.
Eftirlitsstjórn eða stjórn evrópsks samvinnufélags eða lögaðila, sem tekur þátt, sem stofnað er á Íslandi, er ekki skuldbundin til að veita upplýsingar samkvæmt ákvæðum þessara laga ef þær eru samkvæmt hlutlægum viðmiðum þess eðlis að þær geti haft mjög skaðleg áhrif á starfsemi evrópska samvinnufélagsins eða lögaðila, sem tekur þátt, ef um slíkt er að ræða, eða dótturfyrirtækja þeirra og starfsstöðva eða valdið þeim tjóni.
26. gr. Misnotkun.
Ef verulegar breytingar verða á evrópsku samvinnufélagi, dótturfyrirtækjum eða starfsstöðvum þess skömmu eftir stofnun þess, sem gefa skýra vísbendingu um að tilgangur með stofnun evrópska samvinnufélagsins hafi verið sá að svipta starfsmenn þátttökurétti eða hindra að þeir öðluðust slíkan rétt, er skylt að hefja nýjar samningaviðræður skv. II. kafla.
Með verulegum breytingum er átt við að breyting verði á samsetningu evrópska samvinnufélagsins, dótturfyrirtækis þess eða starfsstöðva, fjölda starfsmanna eða staðfestu félagsins sem hefði leitt til þess ef hún hefði átt sér stað áður en evrópska samvinnufélagið var stofnað að þátttökuréttur starfsmanna hefði aukist. Verði slík breyting innan árs frá skráningu evrópsks samvinnufélags ber félagið sönnunarbyrði fyrir því að breytingarnar séu tilkomnar af öðrum ástæðum en greinir í 1. mgr.
Um viðræður samkvæmt þessari grein gilda eftirfarandi reglur:
    1. Þær skulu hefjast að kröfu fulltrúanefndar starfsmanna eða fulltrúa starfsmanna í nýjum dótturfyrirtækjum eða starfsstöðvum evrópska samvinnufélagsins.
    2. Ákvæði II. kafla eiga við um viðræðurnar og undirbúning þeirra, að breyttu breytanda.
27. gr. Viðurlög.
Þeir sem þrátt fyrir þagnarskylduákvæði 24. gr. láta af hendi trúnaðarupplýsingar sem þeim hafa verið veittar skulu dæmdir til fésekta nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Brot sem framin eru í starfsemi lögaðila gegn 4., 17., 23. og 26. gr. laga þessara varða lögaðila sektum, sbr. II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, ef brotið er framið af ásetningi og það er til þess fallið að svipta starfsmenn evrópsks samvinnufélags rétti sem varinn er samkvæmt þessum lögum.
1)
    1)L. 88/2008, 233. gr.
28. gr. Ágreiningur.
Unnt er að skjóta til dómstóla ágreiningi sem varðar framkvæmd þessara laga, þ.m.t. ágreiningi um rétt fulltrúa starfsmanna til að fá í hendur upplýsingar og rétt lögaðila, sem taka þátt, eða evrópsks samvinnufélags til að binda upplýsingar trúnaði. Rétt til málshöfðunar hafa allir þeir sem taldir eru upp í 23. gr., hlutaðeigandi stéttarfélög og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta.
29. gr. Reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
30. gr. Tengsl við ákvæði annarra laga.
Þegar evrópskt samvinnufélag er fyrirtæki sem starfar á Evrópska efnahagssvæðinu, eða er ráðandi fyrirtæki fyrirtækjahóps er þar starfar, í skilningi 5. gr. laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999, skulu ákvæði þeirra laga ekki gilda um evrópska samvinnufélagið eða dótturfyrirtæki þess nema sérstaka samninganefndin ákveði, í samræmi við 1. mgr. 11. gr. þessara laga, að hefja ekki samningaviðræður eða binda enda á samningaviðræður sem þegar eru hafnar.
Reglur um þátttöku starfsmanna, sem kveðið er á um í lögum og/eða leiðir af venju, gilda ekki um evrópsk samvinnufélög sem heyra undir ákvæði II.–III. kafla.
Lög þessi skulu ekki hafa áhrif á:
    a. rétt starfsmanna til aðildar, sem kveðið er á um í lögum og/eða leiðir af venju í aðildarríkjunum og starfsmenn evrópska samvinnufélagsins og dótturfyrirtækja þess og starfsstöðva njóta, nema rétt til þátttöku í stjórnarstofnunum evrópska samvinnufélagsins, eða
    b. reglur um þátttöku sem mælt er fyrir um í lögum og/eða leiðir af venju er gilda um dótturfyrirtæki evrópska samvinnufélagsins eða um evrópsk samvinnufélög sem heyra ekki undir ákvæði II.–III. kafla.
31. gr. Innleiðing á tilskipun og gildistaka.
Lög þessi, sem eru sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 2003/72/EB, frá 22. júlí 2003, um viðbætur við samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sem vísað er til í lið 32g í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 44/2004, öðlast þegar gildi.