Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


[Lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda]1)

2007 nr. 45 27. mars


    1)L. 75/2018, 28. gr.
Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 31. mars 2007. EES-samningurinn: XVIII. viðauki tilskipun 96/71/EB. Breytt með: L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 77/2010 (tóku gildi 1. júlí 2010). L. 96/2010 (tóku gildi 3. júlí 2010). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 114/2012 (tóku gildi 2. nóv. 2012). L. 75/2018 (tóku gildi 27. júní 2018 nema 9., 10., 11. og 14. gr., 34. og 35. gr., 59. gr. og 63. gr. sem tóku gildi 1. ágúst 2018 að því er varðar þau fyrirtæki og aðila sem nánar eru tilgreindir í 70. gr. s.l.). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 144/2020 (tóku gildi 1. jan. 2021). L. 80/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022 nema b-liður 2. mgr. 170. gr., b-liður 1. mgr. 171. gr. hvað varðar samevrópska u-rýmisþjónustu og c-liður 1. mgr. 171. gr. sem taka gildi 26. jan. 2023 og d-liður 258. gr. sem tekur gildi 1. jan. 2023; EES-samningurinn: XIII. viðauki reglugerð 2027/97, 889/2002, tilskipun 2000/79/EB, 2009/12/EB).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

[I. kafli. Gildissvið, markmið, stjórnsýsla og orðskýringar.]1)
    1)L. 75/2018, 1. gr.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um fyrirtæki sem … 1) sendir starfsmann tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu:
    a. á vegum fyrirtækisins og starfsmaðurinn starfar undir stjórn þess … 1)
    b. á vegum fyrirtækisins til starfsstöðvar eða fyrirtækis í eigu sömu fyrirtækjasamstæðu hér á landi eða
    c. á vegum fyrirtækisins og starfsmaðurinn er leigður gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess [síðarnefnda í tengslum við þjónustusamning þess efnis milli fyrirtækisins og notendafyrirtækisins samkvæmt lögum um starfsmannaleigur]. 1)
[Lög þessi gilda jafnframt um starfsmann fyrirtækis sem sendur er tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu fyrirtækis skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr.] 1) Skilyrði er að ráðningarsamband sé ávallt milli fyrirtækisins og starfsmannsins þann tíma sem hann starfar hér á landi.
[Lög þessi gilda jafnframt um upplýsingaskyldu sjálfstætt starfandi einstaklings sem kemur sjálfur tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu. Þá gilda lög þessi um skyldur og ábyrgð notendafyrirtækja í tengslum við þjónustusamninga þeirra við fyrirtæki.] 1)
[Þegar um er að ræða fyrirtæki skv. c-lið 1. mgr. gilda enn fremur lög um starfsmannaleigur, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, um viðkomandi fyrirtæki og starfsmenn þess hér á landi, eftir því sem við á. Sama á við um skyldur og ábyrgð notendafyrirtækja sem gert hafa þjónustusamning við slíkt fyrirtæki.] 1) Ákvæði 8.–11. gr. gilda ekki um [fyrirtæki skv.] 1) c-lið 1. mgr. … 1)
[Lög þessi gilda ekki um áhafnir kaupskipa.] 1)
    1)L. 75/2018, 2. gr.
[1. gr. a. Markmið.
Markmið laga þessara er að tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna sem erlend fyrirtæki senda tímabundið hingað til lands í því skyni að veita þjónustu hérlendis séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði hér á landi.
Enn fremur er það markmið laga þessara að stjórnvöld geti fengið yfirsýn yfir eðli og umfang starfsemi erlendra þjónustuveitenda hér á landi og eftir atvikum í heimaríki þeirra, hvort sem þeir veita sjálfir þjónustu hérlendis sem sjálfstætt starfandi einstaklingar eða senda starfsmenn sína tímabundið hingað til lands til að veita hér þjónustu, í því skyni að tryggja að erlendir þjónustuveitendur starfi löglega hér á landi.] 1)
    1)L. 75/2018, 3. gr.
2. gr. Stjórnsýsla.
[Ráðherra] 1) fer með stjórnsýslu á því sviði sem lögin taka til. Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga þessara innan stjórnsýslunnar.
[Vinnumálastofnun skal í samstarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins birta með aðgengilegum hætti, svo sem rafrænt, og án endurgjalds upplýsingar um lög og reglur sem gilda á vinnumarkaði hér á landi ásamt því hvar megi nálgast gildandi kjarasamninga.
Vinnumálastofnun skal veita þar til bærum stjórnvöldum í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðrum EFTA-ríkjum eða Færeyjum aðstoð þegar um er að ræða gistiríki íslensks fyrirtækis, hvort sem er við öflun upplýsinga um íslenska fyrirtækið eða vegna samskipta við íslenska fyrirtækið, þ.m.t. vegna innheimtu sekta, óski þar til bær stjórnvöld í gistiríkinu eftir slíkri aðstoð enda hafi beiðnin lögmætan tilgang auk þess sem hún gengur ekki lengra en nauðsyn krefur. Sé um að ræða beiðni um upplýsingar skal Vinnumálastofnun veita umbeðnar upplýsingar innan 25 virkra daga frá móttöku beiðninnar. Sé um brýnt tilvik að ræða sem rökstutt er af þar til bæru stjórnvaldi í gistiríkinu skal Vinnumálastofnun veita umbeðnar upplýsingar innan tveggja virkra daga frá móttöku beiðninnar.] 2)
    1)L. 126/2011, 454. gr. 2)L. 75/2018, 4. gr.
3. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. Fyrirtæki: Fyrirtæki er einstaklingur, félag eða annar sá sem [hefur starfsmann eða starfsmenn í vinnu og] 1) stundar atvinnurekstur með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum og [sendir starfsmann eða starfsmenn tímabundið hingað til lands í því skyni að veita] 1) þjónustu hér á landi á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar [auk þess sem þjónustan er innan þeirrar starfsgreinar sem viðkomandi aðili starfar við í heimaríki. Fyrirtæki er einnig starfsmannaleiga í skilningi laga um starfsmannaleigur, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr.] 1)
    [2. Fyrirtækjasamstæða: Fyrirtækjasamstæða er samband fyrirtækja með þannig eignauppbyggingu að eitt fyrirtæki á svo stóran hlut í öðru fyrirtæki eða fleiri fyrirtækjum að það fer með meiri hluta atkvæða. Það fyrirtæki skoðast því sem móðurfyrirtæki en hitt eða hin fyrirtækin sem dótturfyrirtæki. Til fyrirtækjasamstæðu telst einnig fyrirtæki þar sem móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki eða eitt eða fleiri dótturfyrirtæki eiga saman svo mörg hlutabréf eða hluti að þau fara með meiri hluta atkvæða í þeim.
    3. Þar til bært stjórnvald: Þar til bært stjórnvald er stjórnvald sem heimaríki fyrirtækis eða sjálfstætt starfandi einstaklings hefur skilgreint sem það stjórnvald heimaríkisins sem skal eiga í samskiptum við stjórnvöld í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðrum EFTA-ríkjum eða Færeyjum vegna þjónustuviðskipta.] 1)
    [4.] 1) Notendafyrirtæki: Notendafyrirtæki er einstaklingur, félag, opinber aðili eða annar sá sem stundar atvinnurekstur [og] 1) kaupir þjónustu af fyrirtæki [eða sjálfstætt starfandi einstaklingi]. 1)
    [5. Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Sjálfstætt starfandi einstaklingur er einstaklingur sem er ríkisborgari og hefur staðfestu og þar með efnahagslega starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum og starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og kemur sjálfur tímabundið hingað til lands í því skyni að veita þjónustu hér á landi á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar auk þess sem þjónustan er innan þeirrar starfsgreinar sem hann starfar við í heimaríki.
    6. Starfsmaður: Starfsmaður er hver sá sem vinnur launað starf í þjónustu fyrirtækis og starfar að jafnaði utan Íslands en er sendur tímabundið á vegum fyrirtækisins hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu fyrirtækisins hér á landi. Starfsmaður er einnig hver sá sem er ráðinn til starfa hjá fyrirtæki og er leigður gegn gjaldi til notendafyrirtækis á grundvelli þjónustusamnings þess efnis milli fyrirtækisins og notendafyrirtækisins samkvæmt lögum um starfsmannaleigur, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr.
    7. Þjónustusamningur: Þjónustusamningur er samningur milli fyrirtækis eða sjálfstætt starfandi einstaklings og kaupanda þjónustu um að fyrirtækið eða sjálfstætt starfandi einstaklingurinn veiti kaupanda þjónustunnar tiltekna þjónustu hér á landi innan ákveðins tíma gegn greiðslu kaupandans.] 1)
    1)L. 75/2018, 5. gr.

[II. kafli. Starfskjör starfsmanna fyrirtækis.]1)
    1)L. 75/2018, 6. gr.
4. gr. Starfskjör.
Þegar fyrirtæki sendir starfsmann hingað til lands í skilningi laga þessara gildir eftirfarandi löggjöf um starfskjör hans og reglur settar á grundvelli hennar, án tillits til erlendrar löggjafar sem að öðru leyti gildir um ráðningarsamband hans og hlutaðeigandi fyrirtækis:
    1. Lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, 1. gr., með síðari breytingum, að því er varðar lágmarkslaun og aðra launaþætti, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma.
    2. Lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
    3. Lög nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum.
    4. Lög nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, 4. gr.
    5. [Lög um loftferðir, X. kafli.] 1)
    6. [Lög um fæðingar- og foreldraorlof, 16., 49. og 50. gr.] 2)
    7. Lög nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, auk annarra ákvæða um bann við mismunun.
Ákvæði 1. mgr. gildir með fyrirvara um betri starfskjör starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi við hlutaðeigandi fyrirtæki eða samkvæmt kjarasamningi eða löggjöf í því ríki þar sem hann starfar að jafnaði.
Greiðslur sem sérstaklega tengjast starfinu skulu reiknast inn í lágmarkslaun starfsmanns. Fyrirtæki er þó óheimilt að reikna greiðslur vegna kostnaðar sem það hefur lagt út fyrir vegna ferða starfsmanns, gistingar og uppihalds inn í kröfur um lágmarkslaun skv. 1. tölul. 1. mgr.
    1)L. 80/2022, 271. gr. 2)L. 144/2020, 59. gr.
5. gr. Réttur til launa í veikinda- og slysatilvikum.
Starfsmaður skal njóta réttar til launa í veikinda- og slysatilvikum á meðan hann starfar hér á landi í tengslum við veitingu þjónustu.
Starfsmaður vinnur sér inn rétt með vinnu hér á landi hjá sama fyrirtæki þannig að fyrir hvern unninn mánuð fyrstu tólf mánuðina greiðast tveir dagar á [kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi]. 1) Starfi starfsmaður lengur en eitt ár hér á landi skal um ávinnslu veikindaréttar og launagreiðslur fara skv. 5. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.
Veikindarétturinn er heildarréttur á hverju tólf mánaða tímabili án tillits til tegundar sjúkdóms.
Forfallist starfsmaður af völdum slyss við vinnuna eða á beinni leið til eða frá vinnu og eins ef starfsmaður veikist af atvinnusjúkdómi skal hann auk réttar skv. 2. mgr. halda [í þrjá mánuði kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall hans]. 1)
[Með kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein er átt við laun samkvæmt kjarasamningi á svæði því er samningurinn tekur til miðað við dagvinnu fyrir 8 klst. á dag eða 40 klst. á viku miðað við fullt starf í viðkomandi starfsgrein.] 1)
Ef starfsmaður fær greidd laun í veikinda- og slysatilvikum samkvæmt ráðningarsamningi, kjarasamningi eða lögum í heimalandinu skal hann fá greiddan mismun launa ef réttur samkvæmt ákvæði þessu er hagstæðari.
Starfsmaður skal, ef fyrirtæki óskar þess, afhenda því vottorð læknis um veikindin eða slysið er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins. Fyrirtæki greiðir læknisvottorð og kostnað við öflun þess enda séu veikindi tilkynnt á fyrsta veikindadegi.
Ákvæði þessarar greinar gilda með fyrirvara um betri rétt starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi við hlutaðeigandi fyrirtæki eða samkvæmt kjarasamningi eða löggjöf í því ríki þar sem hann starfar að jafnaði.
    1)L. 114/2012, 1. gr.
6. gr. Frávik.
Ef um er að ræða fyrstu samsetningu og/eða fyrstu uppsetningu vöru, sem er þáttur í samningi um veitingu vöru og er nauðsynleg til að taka megi vöruna í notkun og er framkvæmd af faglærðum eða sérhæfðum starfsmönnum fyrirtækis, skulu ákvæði 1. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 5. gr. ekki eiga við ef það tímabil sem starfsmaðurinn er hér á landi varir ekki lengur en átta daga.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um hvers konar vinnu á sviði [byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerðar], 1) svo sem vinnu sem lýtur að byggingu, viðgerðum, lagfæringum, breytingum eða niðurrifi bygginga.
Við ákvörðun þess hve lengi starfsmaður hefur unnið hér á landi skv. 1. mgr. skal reikna með öll starfstímabil hans hér á landi síðustu tólf mánuði. Við slíka útreikninga skal telja með sérhvert fyrra tímabil sem annar starfsmaður kann að hafa gegnt starfinu áður.
    1)L. 75/2018, 7. gr.

[III. kafli. Skyldur sjálfstætt starfandi einstaklings og fyrirtækis.]1)
    1)L. 75/2018, 8. gr.
7. gr. [Upplýsingaskylda sjálfstætt starfandi einstaklings.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hyggst veita þjónustu hér á landi lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skal veita Vinnumálastofnun eftirfarandi upplýsingar og/eða aðgang að gögnum eigi síðar en sama dag og hann hefur störf hér á landi í hvert skipti, m.a. um:
    1. Nafn viðkomandi einstaklings, fæðingardag, heimilisfang í heimaríki, ríkisfang, hvort hann nýtur almannatryggingaverndar í heimaríki, netfang, dvalarstað, áætlaðan starfstíma hans hér á landi og starfsréttindi eftir því sem við á.
    2. Hvers konar þjónustu viðkomandi einstaklingur veitir hér á landi, nafn notendafyrirtækis og kennitölu eða annað sambærilegt auðkenni þess, ef við á, og hvar þjónustan er veitt.
    3. Sannanlega staðfestu viðkomandi einstaklings í heimaríki í þeirri starfsgrein sem þjónusta hans hér á landi fellur innan og að hann starfi löglega í heimaríki í viðkomandi starfsgrein samkvæmt lögum þess ríkis, svo sem gögn sem sýna fram á efnahagslega starfsemi, þ.m.t. gögn frá skattyfirvöldum eða sambærilegum stjórnvöldum í heimaríki, þar á meðal virðisaukaskattsnúmer eða önnur sambærileg heimild, upplýsingar um starfsleyfi, eftir því sem við á, og umfang veltu í heimaríki.
    4. Aðrar þær upplýsingar, svo sem afrit af reikningum fyrir vinnuna, sem Vinnumálastofnun kann að óska eftir í þágu eftirlits skv. 1. mgr. 12. gr., m.a. í því skyni að ganga úr skugga um að viðkomandi einstaklingur veiti sannanlega þjónustu hér á landi á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hyggst ekki veita þjónustu hér á landi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum en veitir samt sem áður þjónustu hér á landi sem varir lengur skal veita Vinnumálastofnun upplýsingar og/eða aðgang að gögnum skv. 1. mgr. eigi síðar en á ellefta virka degi sem þjónustan hefur varað hér á landi í hvert skipti.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur skal tilkynna um það til Vinnumálastofnunar, án ástæðulausrar tafar, verði breytingar á áður veittum upplýsingum til stofnunarinnar skv. 1. mgr.
Vinnumálastofnun skal afhenda viðeigandi stjórnvöldum, svo sem lögreglu, skattyfirvöldum, tollyfirvöldum, Tryggingastofnun ríkisins, Útlendingastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Þjóðskrá Íslands, upplýsingar skv. 1., 2. og 3. tölul. 1. mgr., enda sé eingöngu um að ræða upplýsingar sem ætla má að falli undir málefnasvið viðkomandi stjórnvalds og nýtist þannig stjórnvaldinu, svo sem við lögbundið eftirlit þess.
Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir þá sjálfstætt starfandi einstaklinga sem veita stofnuninni upplýsingar um störf sín hér á landi samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti. Í skránni skulu m.a. koma fram upplýsingar um nafn sjálfstætt starfandi einstaklings og netfang hans auk upplýsinga um virðisaukaskattsnúmer eða annað sambærilegt auðkenni um efnahagslega starfsemi hans í heimaríki.] 1)
    1)L. 75/2018, 9. gr.
8. gr. Upplýsingaskylda fyrirtækis.
Fyrirtæki sem hyggst veita þjónustu hér á landi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum, sbr. þó 9. gr., skal veita Vinnumálastofnun eftirfarandi upplýsingar [og/eða aðgang að gögnum] 1) eigi síðar en [sama dag og starfsemin hefst hér á landi] 2) í hvert skipti, [m.a. um]: 1)
    1. [Nafn fyrirtækis, heimilisfang þess í heimaríki og netfang sem og nafn fyrirsvarsmanns fyrirtækisins og netfang hans.] 1)
    [2. Sannanlega staðfestu fyrirtækis í heimaríki í þeirri starfsgrein sem þjónusta þess hér á landi fellur innan og að það starfi löglega í heimaríki í viðkomandi starfsgrein samkvæmt lögum þess ríkis, svo sem gögn sem sýna fram á efnahagslega starfsemi, þ.m.t. gögn frá skattyfirvöldum eða sambærilegum stjórnvöldum í heimaríki, þar á meðal virðisaukaskattsnúmer eða önnur sambærileg heimild, upplýsingar um starfsleyfi, eftir því sem við á, og umfang veltu í heimaríki.
    3. Nafn notendafyrirtækis sem og kennitölu þess eða annað sambærilegt auðkenni þess, ef við á.] 1)
    [4.] 1) Yfirlit yfir starfsmenn sem starfa munu á vegum fyrirtækisins hér á landi þar sem fram kemur nafn, fæðingardagur, heimilisfang í heimaríki, ríkisfang, [upplýsingar um hvort viðkomandi starfsmenn njóta almannatryggingaverndar í heimaríki], 2) dvalarstaður og áætlaður [starfstími] 1) hér á landi og starfsréttindi eftir því sem við á,
    [5.] 1) Gildi atvinnuleyfa starfsmanna í heimaríki þegar um er að ræða starfsmenn sem ekki eru ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu eða EFTA-ríkja eða Færeyingar.
    [6. Hvers konar þjónustu fyrirtækið veitir hér á landi, hvar þjónustan er veitt og hversu lengi áætlað er að starfsemi fyrirtækisins hér á landi standi yfir.] 1)
    [7. Afrit af þjónustusamningi, eftir því sem við á.
    8. Afrit af ráðningarsamningum þeirra starfsmanna fyrirtækisins sem starfa á vegum þess hér á landi.] 1)
    [9.] 1) Aðrar þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun kann að óska eftir [í þágu eftirlits skv. 1. mgr. 12. gr., m.a. í því skyni] 1) að ganga úr skugga um að fyrirtækið veiti sannanlega þjónustu hér á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar og að um sé að ræða starfsmenn fyrirtækisins.
[Fyrirtæki sem hyggst ekki veita þjónustu hér á landi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum en veitir samt sem áður þjónustu hér á landi sem varir lengur, sbr. þó 9. gr., skal veita Vinnumálastofnun upplýsingar og/eða aðgang að gögnum skv. 1. mgr. eigi síðar en á ellefta virka degi sem þjónustan hefur varað hér á landi í hvert skipti.] 1)
Vinnumálastofnun skal veita fyrirtækinu skriflega staðfestingu um að stofnunin hafi móttekið gögn skv. [1.–9. tölul. 1. mgr. og ber fyrirtækinu að afhenda staðfestinguna til notendafyrirtækis, sbr. 11. gr.], 1) [eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að] 2) [fyrirtækið hefur móttekið staðfestinguna frá Vinnumálastofnun]. 1)
Fyrirtæki skal tilkynna [um það] 1) til Vinnumálastofnunar [án ástæðulausrar tafar] 1) verði breytingar á áður veittum upplýsingum til stofnunarinnar skv. 1. mgr.
[Á þeim tíma sem fyrirtæki veitir þjónustu hér á landi og í einn mánuð eftir að það hættir að veita þjónustu hér á landi ber því að hafa ávallt tiltæk afrit af launaseðlum hvers starfsmanns og staðfestingu á að laun hvers starfsmanns hafi verið greidd í samræmi við það sem fram kemur á launaseðlum, m.a. hvað varðar launafjárhæð, sem og afrit af vinnutímaskýrslum sem sýna vinnutíma hvers starfsmanns. Ber fyrirtæki að afhenda fyrrnefnd gögn til Vinnumálastofnunar eigi síðar en tveimur virkum dögum frá því að beiðni stofnunarinnar þess efnis berst fyrirtækinu. Eigi síðar en sama dag og starfsemin hefst hér á landi í hvert skipti skal fyrirtæki upplýsa Vinnumálastofnun um það hvernig stofnunin geti nálgast framangreindar upplýsingar.
Vinnumálastofnun skal afhenda viðeigandi stjórnvöldum, svo sem lögreglu, skattyfirvöldum, tollyfirvöldum, Tryggingastofnun ríkisins, Útlendingastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Þjóðskrá Íslands, upplýsingar skv. 1.–6. tölul. 1. mgr., enda sé eingöngu um að ræða upplýsingar sem ætla má að falli undir málefnasvið viðkomandi stjórnvalds og nýtist þannig stjórnvaldinu, svo sem við lögbundið eftirlit þess.] 1)
Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir þau fyrirtæki sem veita stofnuninni upplýsingar um starfsemi sína hér á landi samkvæmt lögum þessum [og birta hana með aðgengilegum hætti. Í skránni skulu m.a. koma fram upplýsingar um nafn fyrirtækis og netfang þess auk upplýsinga um virðisaukaskattsnúmer eða aðra sambærilega heimild um efnahagslega starfsemi þess í heimaríki.] 1)
    1)L. 75/2018, 10. gr. 2)L. 96/2010, 1. gr.
9. gr. Undanþága frá upplýsingaskyldu …1)
Þegar um er að ræða þjónustu sem felur í sér sérhæfða samsetningu, uppsetningu, eftirlit eða viðgerð tækja og er ekki ætlað að vara lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum þarf [sjálfstætt starfandi einstaklingur eða fyrirtæki, eftir því sem við á], 1) ekki að veita Vinnumálastofnun upplýsingar skv. [7. eða 8. gr., eftir því sem við á]. 1) Vari þjónusta [sjálfstætt starfandi einstaklings eða fyrirtækis, eftir því sem við á], 1) lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum gilda ákvæði laga þessara um starfsemi [hlutaðeigandi hér á landi og skal þá hlutaðeigandi m.a. veita Vinnumálastofnun upplýsingar skv. 7. eða 8. gr., eftir því sem við á, eigi síðar en fyrsta virka dag eftir að þjónustan hefur varað fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum]. 1)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal [sjálfstætt starfandi einstaklingur eða fyrirtæki, eftir því sem við á], 1) veita Vinnumálastofnun upplýsingar í þágu eftirlits [skv. 1. mgr. 12. gr.] 1)
    1)L. 75/2018, 11. gr.
10. gr. Sérstakur fulltrúi.
Fyrirtæki sem veitir þjónustu á Íslandi samtals lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum skal hafa fulltrúa hér á landi. [Fulltrúinn getur verið einn af starfsmönnum fyrirtækisins sem starfar tímabundið hér á landi.] 1) Ekki er skylt að tilnefna fulltrúa ef færri en sex starfsmenn starfa að jafnaði hér á landi á vegum fyrirtækis.
Fyrirtæki skal tilkynna Vinnumálastofnun um nafn og kennitölu eða fæðingardag [fulltrúa fyrirtækisins hér á landi, lögheimili eða dvalarstað hans hér á landi og netfang eigi síðar en] 2) [sama dag og] 1) starfsemi þess hefst hér á landi. Skipti fyrirtækið um fulltrúa meðan það hefur starfsemi hér á landi skal tilkynna um skiptin til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar.
Fulltrúi fyrirtækisins kemur fram fyrir hönd þess og ber ábyrgð á að veita stjórnvöldum upplýsingar samkvæmt lögum þessum sem og þær upplýsingar sem fyrirtækinu er skylt að veita á grundvelli 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Enn fremur skal hann hafa umboð til að taka við stjórnvaldsákvörðun eða eftir atvikum stefnu þannig að bindandi sé að lögum fyrir fyrirtækið.
1)
    1)L. 96/2010, 2. gr. 2)L. 75/2018, 12. gr.

[IV. kafli. Skyldur og ábyrgð notendafyrirtækis.]1)
    1)L. 75/2018, 13. gr.
11. gr. Skyldur notendafyrirtækis.
Notendafyrirtæki skal óska eftir skriflegri staðfestingu skv. [3. mgr. 8. gr. frá fyrirtæki um að það] 1) hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni til Vinnumálastofnunar skv. 8. gr. [eigi síðar en [tíu] 1) virkum dögum eftir að starfsemi þess síðarnefnda hófst hér á landi]. 2)
Þegar fyrirtæki á sviði hvers konar [byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerðar, svo sem í tengslum við] 1) vinnu sem lýtur að byggingu, viðgerðum, lagfæringum, breytingum eða niðurrifi bygginga, hefur gert samning við eitt eða fleiri fyrirtæki, sbr. 1. tölul. 3. gr., sem undirverktaka um veitingu þjónustunnar, í heild eða að hluta, skal fyrstnefnda fyrirtækið afhenda upphaflegu notendafyrirtæki skriflega staðfestingu skv. [3. mgr.] 1) 8. gr. vegna allra fyrirtækja sem koma að veitingu þjónustunnar. Hið sama á við um aðalverktaka á sviði hvers konar [byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerðar] 1) sem hefur staðfestu hér á landi en hefur gert samning við eitt eða fleiri fyrirtæki, sbr. 1. tölul. 3. gr., sem undirverktaka um veitingu þjónustunnar, í heild eða að hluta.
Verði fyrirtækið ekki við beiðni notendafyrirtækis skv. 1. mgr. skal notendafyrirtækið tilkynna um það til Vinnumálastofnunar ásamt því að veita upplýsingar um nafn fyrirtækis, [heimilisfang þess í heimaríki og netfang sem og nafn fyrirsvarsmanns fyrirtækisins og netfang hans] 1) og tegund þjónustunnar sem veita skal [hér á landi]. 1) Þegar nafn fyrirsvarsmanns fyrirtækis er ekki þekkt ber að upplýsa um nafn þess aðila er kom fram fyrir hönd fyrirtækisins við gerð þjónustusamningsins [og netfang hans]. 1)
Notendafyrirtæki skal afhenda trúnaðarmanni stéttarfélags á vinnustað, eða viðkomandi stéttarfélagi þegar trúnaðarmaður er ekki fyrir hendi á vinnustað, skriflega staðfestingu skv. [3. mgr.] 1) 8. gr., sbr. 1. mgr., óski trúnaðarmaður eða stéttarfélag eftir því.
[Verði notendafyrirtæki vart við að fyrirtæki sem það hefur gert þjónustusamning við brjóti gegn lögum þessum, svo sem hvað varðar laun eða önnur starfskjör starfsmanna sinna, skal notendafyrirtækið tilkynna um það til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar.] 1)
    1)L. 75/2018, 14. gr. 2)L. 96/2010, 3. gr.
[11. gr. a. Ábyrgð notendafyrirtækis í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.
Ábyrgð notendafyrirtækis samkvæmt þessari grein gildir um notendafyrirtæki í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.
Notendafyrirtæki ber óskipta ábyrgð á grundvelli þjónustusamnings skv. 7. tölul. 3. gr. eða samkvæmt lögum um starfsmannaleigur, eftir því sem við á, á vangoldnum lágmarkslaunum sem og öðrum vangreiðslum skv. 3. mgr. vegna starfsmanna fyrirtækis. Ábyrgð notendafyrirtækis nær einnig til starfsmanna fyrirtækja sem hafa gert þjónustusamninga sem byggjast á þjónustusamningi skv. 1. málsl. þrátt fyrir að ekki sé um beint samningssamband við notendafyrirtækið að ræða. Ef notendafyrirtæki er hluti fyrirtækjasamstæðu ber móðurfélagið sameiginlega ábyrgð með notendafyrirtækinu. Sama á við um annað félag ef það er stjórnandi notendafyrirtækisins sem um ræðir hverju sinni.
Ábyrgð notendafyrirtækis nær til vangoldinna lágmarkslauna, annarra vangoldinna launaþátta og vangoldinna launa fyrir yfirvinnu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr., og vangoldinna launa í veikinda- og slysatilvikum, sbr. 5. gr., sem og vangoldinna launatengdra gjalda á Íslandi. Ábyrgðin nær ekki til vangoldinna orlofslauna.
Krafa vegna vangreiðslna, sbr. 3. mgr., skal hafa borist notendafyrirtæki innan fjögurra mánaða frá gjalddaga viðkomandi kröfu. Ef notendafyrirtæki vissi eða mátti vita af bersýnilegri vanefnd hvað varðar greiðslur skv. 3. mgr. vegna starfsmanns fyrirtækis sem fellur undir ábyrgð notendafyrirtækisins má með ákvörðun dómstóla lengja ábyrgðartíma notendafyrirtækisins í allt að tólf mánuði. Krafa telst hafa borist notendafyrirtæki þegar starfsmaður krefur notendafyrirtækið skriflega, hvort sem er á rafrænu formi eða á pappír, um vangoldin laun og/eða aðrar vangreiðslur skv. 3. mgr. þar sem m.a. er gerð grein fyrir í hverju vanefnd fyrirtækisins hefur falist, þ.m.t. hvenær viðkomandi krafa féll í gjalddaga, og með hvaða hætti starfsmaðurinn óskar eftir að svar berist frá notendafyrirtækinu. Krafa telst einnig hafa borist notendafyrirtæki ef samráðsnefnd, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, hefur tilkynnt notendafyrirtækinu um vangreiðslur fyrirtækis skv. 3. mgr. vegna starfsmanns fyrirtækisins.
Notendafyrirtæki skal gera hlutaðeigandi fyrirtæki grein fyrir framkominni kröfu skv. 4. mgr. án ástæðulausrar tafar og skora á fyrirtækið að greiða kröfuna eða að öðrum kosti gera grein fyrir afstöðu sinni til hennar innan sjö virkra daga frá móttöku áskorunar um greiðslu kröfunnar. Telji notendafyrirtæki vafa leika á réttmæti kröfu, hafi það í hyggju að óska eftir umsögn samráðsnefndar, sbr. 6. mgr., eða synja um greiðslu kröfu á grundvelli undanþágu frá ábyrgð notendafyrirtækis skv. 11. gr. b skal það gera fyrirtækinu og starfsmanninum sem í hlut eiga grein fyrir þeirri afstöðu sinni innan sjö virkra daga frá því að frestur fyrirtækis skv. 1. málsl. rann út og skal skriflegur rökstuðningur fylgja með afstöðu notendafyrirtækisins. Að öðrum kosti skal notendafyrirtækið greiða viðkomandi kröfu innan 24 virkra daga frá því að krafan barst því.
Notendafyrirtæki og starfsmanni fyrirtækis er heimilt að óska eftir umsögn samráðsnefndar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, um réttmæti kröfu skv. 4. mgr. innan sjö virkra daga frá því að frestur fyrirtækis skv. 1. málsl. 5. mgr. rann út og skal umsögn samráðsnefndarinnar liggja fyrir innan sjö virkra daga frá því að óskað var eftir henni. Nýti notendafyrirtæki eða starfsmaður fyrirtækis heimild sína skv. 1. málsl. skal notendafyrirtækið að nýju gera fyrirtækinu og starfsmanninum sem í hlut eiga grein fyrir afstöðu sinni til kröfunnar innan þriggja virkra daga frá því að notendafyrirtækinu barst umsögn samráðsnefndarinnar í hendur.
Notendafyrirtæki er heimilt að draga frá greiðslu til fyrirtækis, sem það er í samningssambandi við, þá fjárhæð sem nemur þeim kostnaði sem notendafyrirtækið verður fyrir í tengslum við greiðslu kröfu skv. 4. mgr., þ.m.t. vegna greiðslu vaxtakostnaðar, innheimtukostnaðar og málskostnaðar, eftir því sem við á.
Höfði starfsmaður fyrirtækis dómsmál hér á landi vegna ábyrgðar notendafyrirtækis skal hann gera það innan átta mánaða frá því að afstaða notendafyrirtækisins til viðkomandi kröfu lá fyrir, sbr. 5. mgr., auk þess sem starfsmaðurinn skal þá einnig stefna hlutaðeigandi fyrirtæki þar sem notendafyrirtækið á varnarþing.
Sé um persónuupplýsingar, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar, að ræða í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga skal fara með þær upplýsingar, svo sem hvað varðar vinnslu upplýsinganna og varðveislu þeirra, í samræmi við ákvæði þeirra laga.] 1)
    1)L. 75/2018, 15. gr.
[11. gr. b. Undanþága frá ábyrgð notendafyrirtækis í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.
Þrátt fyrir ábyrgð notendafyrirtækis skv. 11. gr. a er því heimilt að synja um greiðslu kröfu vegna vangoldinna lágmarkslauna og/eða annarra vangreiðslna skv. 3. mgr. 11. gr. a í eftirfarandi tilvikum:
    a. Þegar fyrirtæki veitir notendafyrirtæki þjónustu skemur en samtals tíu virka daga á tólf mánaða tímabili.
    b. Þegar um er að ræða kröfu framkvæmdastjóra, stjórnarmanna eða eiganda þess fyrirtækis sem um ræðir sem og kröfu maka eða annarra skyldmenna framangreindra aðila eða annarra sem eru þeim það nákomnir að unnt er að sýna fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til tengsla þeirra.
    c. Þegar notendafyrirtæki hefur með sannanlegum hætti reynt að tryggja eins og því er unnt að fyrirtæki greiði starfsmönnum sínum laun í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamninga í viðkomandi starfsgreinum á því svæði þar sem vinnan fer fram, svo sem með því að afla eftirfarandi upplýsinga hjá því fyrirtæki sem um ræðir hverju sinni um þá starfsmenn fyrirtækisins sem veita notendafyrirtækinu þjónustu hér á landi:
    1. nafn hvers starfsmanns,
    2. afrit af ráðningarsamningi hvers starfsmanns,
    3. afrit af vinnutímaskýrslum hvers starfsmanns,
    4. afrit af launaseðlum hvers starfsmanns og
    5. staðfestingu á að laun hvers starfsmanns hafi verið greidd í samræmi við það sem fram kemur á launaseðli, m.a. hvað varðar launafjárhæð.
Óski notendafyrirtæki eftir framangreindum upplýsingum hjá því fyrirtæki sem um ræðir hverju sinni er hlutaðeigandi fyrirtæki skylt að veita notendafyrirtækinu umbeðnar upplýsingar.
Sé um persónuupplýsingar, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar, að ræða í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga skal fara með þær upplýsingar, svo sem hvað varðar vinnslu upplýsinganna og varðveislu þeirra, í samræmi við ákvæði þeirra laga.
Verði fyrirtæki gjaldþrota gilda lög um Ábyrgðasjóð launa, enda séu skilyrði laganna uppfyllt, og á þá ábyrgð notendafyrirtækis skv. 11. gr. a ekki við.] 1)
    1)L. 75/2018, 15. gr.

[V. kafli. Eftirlit.]1)
    1)L. 75/2018, 16. gr.
12. gr. Eftirlit.
[Vinnumálastofnun skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo sem með því hvort um sé að ræða fyrirtæki, sbr. 1. tölul. 3. gr., eða sjálfstætt starfandi einstakling, sbr. 5. tölul. 3. gr., sem og hvort sannanlega sé um að ræða starfsmann, sbr. 6. tölul. 3. gr.
Starfsmönnum Vinnumálastofnunar sem sinna eftirliti á vinnustöðum er m.a. heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði og skal þeim veittur aðgangur að hlutaðeigandi vinnustöðum óski þeir eftir því. Við eftirlitið ber þeim að sýna sérstök skilríki sem stofnunin gefur út. Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er heimilt að óska eftir aðstoð lögreglu við framangreint eftirlit á vinnustöðum þegar slíkt er nauðsynlegt að mati stofnunarinnar.
Berist Vinnumálastofnun upplýsingar sem gefa til kynna að fyrirtæki, notendafyrirtæki eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi brotið gegn ákvæðum laga þessara ber stofnuninni að kanna málið frekar. Komist stofnunin að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki, notendafyrirtæki eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi brotið gegn ákvæðum laga þessara skal hún krefjast þess að viðkomandi aðili starfi í samræmi við lög þessi.] 1)
    1)L. 75/2018, 17. gr.
13. gr. Upplýsingar í þágu eftirlits.
Fyrirtæki skal láta Vinnumálastofnun í té þær upplýsingar og gögn er stofnunin telur nauðsynleg til að [hafa eftirlit] 1) með framkvæmd laga þessara, [þ.m.t. afrit af þjónustusamningi skv. 7. tölul. 3. gr. eða samkvæmt lögum um starfsmannaleigur, eftir því sem við á, ráðningarsamningum og öðrum gögnum varðandi ráðningarkjör þeirra starfsmanna sem starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi, svo sem vinnutímaskýrslum, launaseðlum og staðfestingu á að laun hvers starfsmanns hafi verið greidd í samræmi við það sem fram kemur á launaseðli, m.a. hvað varðar launafjárhæð]. 1)
Notendafyrirtæki skal … 1) láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar og gögn í tengslum við viðskipti aðila er stofnunin telur nauðsynleg til að [hafa eftirlit] 1) með framkvæmd laga þessara, [þ.m.t. afrit af þjónustusamningi skv. 7. tölul. 3. gr. eða samkvæmt lögum um starfsmannaleigur, eftir því sem við á]. 1)
[Sjálfstætt starfandi einstaklingur skal láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar og gögn í tengslum við þá þjónustu sem hann veitir hér á landi er stofnunin telur nauðsynleg til að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara, svo sem um það hvers konar þjónustu viðkomandi einstaklingur veitir hér á landi, nafn notendafyrirtækis og kennitölu eða sambærilegt auðkenni þess, ef við á, og hvar þjónustan er veitt.
Upplýsingar sem notendafyrirtæki, fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu veita Vinnumálastofnun samkvæmt lögum þessum, eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, skulu vera skriflegar, hvort sem er á rafrænu formi eða á pappír. Þegar gögn eru afhent á öðru tungumáli en íslensku eða ensku skulu fylgja þeim þýðingar á íslensku eða ensku. Þrátt fyrir framangreint getur Vinnumálastofnun í undantekningartilvikum ákveðið að taka við gögnum á öðru tungumáli en íslensku eða ensku, svo sem þegar þýðing gagnanna er óþörf að mati stofnunarinnar.
Vinnumálastofnun getur aflað upplýsinga og miðlað þeim að því marki sem stofnuninni er það heimilt samkvæmt lögum þessum, rafrænt eða á annan hátt sem stofnunin ákveður.
Berist Vinnumálastofnun upplýsingar á grundvelli laga þessara sem gefa til kynna að brotið sé gegn ákvæðum íslenskra laga eða reglugerða er stofnuninni skylt að afhenda viðeigandi stjórnvaldi upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar.
Í þeim tilvikum þegar Vinnumálastofnun býr ekki yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar að mati stofnunarinnar til að hún geti haft eftirlit með framkvæmd laga þessara skv. 1. mgr. 12. gr. skal stofnunin óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, sem koma stofnuninni að gagni, svo sem við mat á því hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, þ.m.t. upplýsingum um nöfn og kennitölur fyrirtækja, notendafyrirtækja og sjálfstætt starfandi einstaklinga, sem og upplýsingum um launagreiðslur til starfsmanna, og ber hlutaðeigandi aðilum að veita Vinnumálastofnun umbeðnar upplýsingar, búi þeir yfir þeim. Berist stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn lögum þessum er þeim skylt að afhenda Vinnumálastofnun upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar.
Að því marki sem Vinnumálastofnun telur nauðsynlegt vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara skv. 1. mgr. 12. gr. er stofnuninni heimilt að óska eftir aðstoð frá þar til bærum stjórnvöldum í heimaríki viðkomandi fyrirtækis eða sjálfstætt starfandi einstaklings, svo sem hvað varðar öflun upplýsinga um fyrirtækið eða sjálfstætt starfandi einstaklinginn sem og samskipti við fyrirtækið eða sjálfstætt starfandi einstaklinginn, þ.m.t. vegna innheimtu sekta, enda hafi beiðnin lögmætan tilgang auk þess sem hún gengur ekki lengra en nauðsyn krefur.] 1)
Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla [annarra upplýsinga] 1) en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu [eftirlits skv. 1. mgr. 12. gr. að mati stofnunarinnar]. 1) [Starfsmenn Vinnumálastofnunar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga hvað varðar upplýsingar um mál sem stofnunin hefur til meðferðar á grundvelli laga þessara, sbr. þó 5. mgr., og helst þagnarskylda þeirra eftir að þeir hætta störfum hjá stofnuninni.] 2)
    1)L. 75/2018, 18. gr. 2)L. 71/2019, 5. gr.
14. gr. [Afhending ráðningarsamninga, launaseðla og vinnutímaskýrslna.
Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn samtaka aðila vinnumarkaðarins eða hlutaðeigandi stéttarfélags, eftir því sem við á, um hvort efni ráðningarsamnings eða þær upplýsingar um laun sem fram koma á launaseðli starfsmanns, m.a. með tilliti til upplýsinga í vinnutímaskýrslum starfsmannsins, séu í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði þar sem vinna starfsmannsins fer fram.
Vinnumálastofnun skal afhenda samtökum aðila vinnumarkaðarins eða hlutaðeigandi stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á því svæði þar sem vinna starfsmanns fer fram afrit af ráðningarsamningi, launaseðlum og vinnutímaskýrslum starfsmannsins sem og þeim gögnum sem borist hafa Vinnumálastofnun og ætlað er að staðfesta að laun starfsmannsins hafi verið greidd í samræmi við það sem fram kemur á launaseðli, m.a. hvað varðar launafjárhæð, þegar fyrrnefndir aðilar óska eftir slíkum afritum, enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi í viðkomandi starfsgrein á því svæði þar sem vinna starfsmannsins fer fram
Samtök aðila vinnumarkaðarins eða hlutaðeigandi stéttarfélag, eftir því sem við á, skulu fara með persónuupplýsingar, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar, í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem fram koma í þeim gögnum sem fyrrnefndir aðilar fá afrit af á grundvelli ákvæðis þessa, í samræmi við ákvæði þeirra laga, svo sem hvað varðar vinnslu og varðveislu upplýsinganna.] 1)
    1)L. 75/2018, 19. gr.
15. gr. Tímabundin stöðvun á starfsemi.
Hafi Vinnumálastofnun krafist þess að fyrirtæki, [notendafyrirtæki eða sjálfstætt starfandi einstaklingur fari að lögum þessum] 1) og úrbætur hafa ekki verið gerðar innan þess frests sem gefinn var getur Vinnumálastofnun krafist þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi [hlutaðeigandi aðila] 1) hér á landi tímabundið þangað til úrbætur hafa verið gerðar.
    1)L. 75/2018, 20. gr.
[15. gr. a. Dagsektir.
Fari fyrirtæki, [notendafyrirtæki eða sjálfstætt starfandi einstaklingur] 1) ekki að lögum þessum getur Vinnumálastofnun krafist þess að [hlutaðeigandi aðili] 1) bæti úr annmörkunum innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum.
[Aðila sem fyrirhuguð ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. beinist að skal veittur frestur til að koma að skriflegum athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Tilkynningu Vinnumálastofnunar um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir skal fylgja skriflegur rökstuðningur.
Ákvörðun um dagsektir skv. 1. mgr. skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim aðila sem hún beinist að eða fulltrúa hans þegar um fyrirtæki er að ræða, sbr. 10. gr., og skal henni fylgja skriflegur rökstuðningur.
Ákvörðun um dagsektir felur í sér að sá aðili sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar bætt hefur verið úr annmörkum að mati Vinnumálastofnunar.
Dagsektir geta numið allt að 1 millj. kr. fyrir hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal m.a. líta til fjölda starfsmanna þess aðila sem ákvörðun beinist að og hversu umfangsmikill viðkomandi atvinnurekstur er.] 1)
Dagsektir skulu renna í ríkissjóð [að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu]. 1)
Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar.
[Að öðru leyti fer um ákvörðun Vinnumálastofnunar um dagsektir samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.] 1)] 2)
    1)L. 75/2018, 21. gr. 2)L. 96/2010, 4. gr.
[15. gr. b. Stjórnvaldssektir.
Vinnumálastofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á sjálfstætt starfandi einstakling ef hann veitir stofnuninni ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum skv. 1., 2. og 3. mgr. 7. gr. á tilskildum tíma og/eða veitir stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati stofnunarinnar, óháð því hvort um ásetning eða gáleysi er að ræða af hálfu einstaklingsins.
Vinnumálastofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem veitir stofnuninni ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum skv. 1., 2., 4. eða 5. mgr. 8. gr. sem og 2. mgr. 10. gr. á tilskildum tíma og/eða veitir stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar að mati stofnunarinnar, óháð því hvort um ásetning eða gáleysi er að ræða af hálfu fyrirtækisins.
Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5.000.000 kr.
Við ákvörðun stjórnvaldssekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, hvort um ítrekað brot sé að ræða og samstarfsvilja hins brotlega aðila. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins eða hins sjálfstætt starfandi einstaklings.
Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim aðila sem hún beinist að eða fulltrúa hans þegar um fyrirtæki er að ræða, sbr. 10. gr., og skal henni fylgja skriflegur rökstuðningur.
Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu.
Heimild Vinnumálastofnunar til þess að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt ákvæði þessu fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi skv. 1. eða 2. mgr. lauk.
Stjórnvaldssektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.
Að öðru leyti fer um ákvarðanir Vinnumálastofnunar um stjórnvaldssektir samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.] 1)
    1)L. 75/2018, 22. gr.

[VI. kafli. Ýmis ákvæði.]1)
    1)L. 75/2018, 23. gr.
16. gr. Varnarþing.
Starfsmaður fyrirtækis, sbr. 1. tölul. 3. gr., getur höfðað mál hér á landi vegna vanefnda vinnuveitanda á skyldum sínum samkvæmt ákvæðum 4.–6. gr. … 1)
    1)L. 75/2018, 24. gr.
17. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra [ákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum þessum] 1) til [ráðuneytisins] 2) innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra telst hafa borist ráðuneytinu innan kærufrests hafi bréf þess efnis borist ráðuneytinu eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn.
[Ráðuneytið] 2) skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.
Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    1)L. 75/2018, 25. gr. 2)L. 162/2010, 35. gr.
18. gr. Viðurlög.
Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Sektir renna í ríkissjóð.
1)
    1)L. 88/2008, 233. gr.
19. gr. Reglugerðarheimild.
[Ráðherra] 1) er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal [um rafræna málsmeðferð og] 2) um samstarf og veitingu upplýsinga milli þar til bærra stofnana innan aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-ríkis eða Færeyja.
    1)L. 162/2010, 35. gr. 2)L. 75/2018, 26. gr.
20. gr. Innleiðing á tilskipun.
Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun 96/71/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.
21. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Fyrirtæki sem þegar veitir þjónustu hér á landi við gildistöku laganna skal uppfylla skilyrði 7. gr. eigi síðar en 1. júní 2007 veiti það þjónustu hér á landi á þeim tíma.
Fyrirtæki sem þegar veitir þjónustu hér á landi við gildistöku laganna skal uppfylla skilyrði 8., 10. og 11. gr. eigi síðar en 1. maí 2007 veiti það þjónustu hér á landi á þeim tíma.
22. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Ráðherra skal skipa tímabundna nefnd til þriggja ára og í henni skulu eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vinnumálastofnun. Ráðherra skal skipa einn fulltrúa í nefndina án tilnefningar og skal sá fulltrúi vera formaður nefndarinnar. Skal nefndin hafa það hlutverk að fylgjast með aðstæðum á vinnumarkaði og leggja til við ráðherra að lögum þessum verði breytt verði aðstæður á vinnumarkaði með þeim hætti að mikilvægt þyki að kveða á um að ábyrgð notendafyrirtækja skv. 11. gr. a gildi um notendafyrirtæki í öðrum atvinnugreinum en byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð. Skal nefndin jafnframt afhenda ráðherra skýrslu haustið 2019 um stöðu og þróun hvað varðar erlenda starfsmenn sem sendir eru tímabundið hingað til lands til að veita hér þjónustu. Enn fremur skal í skýrslunni koma fram mat nefndarinnar á því hvort rétt sé að breyta lögum þessum þannig að 11. gr. a gildi um ábyrgð notendafyrirtækja í öðrum atvinnugreinum en í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.] 1)
    1)L. 75/2018, 27. gr.