Lagasafn.  Íslensk lög 13. apríl 2021.  Útgáfa 151b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um vísitölu byggingarkostnaðar

1987 nr. 42 30. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 1987. Breytt með: L. 137/1989 (tóku gildi 16. jan. 1990). L. 75/2007 (tóku gildi 1. ágúst 2007).


1. gr.
Hagstofa Íslands skal reikna og birta vísitölu byggingarkostnaðar. Vísitalan skal reist á þeim grunni sem Hagstofan ákveður í samráði við [Nýsköpunarmiðstöð Íslands]. 1) Grunnur vísitölunnar skal miðaður við tiltekna gerð íbúðarhúsnæðis. Auk þess er Hagstofunni heimilt að reikna vísitölur sem miðast við aðrar gerðir húsa, byggingarmannvirkja eða hluta þeirra.
    1)L. 75/2007, 17. gr.
2. gr.
Vísitala byggingarkostnaðar skal miðuð við byggingarkostnað á höfuðborgarsvæði. Vísitalan skal reiknuð samkvæmt verðlagi um miðjan hvern mánuð og gilda í mánaðartíma frá fyrsta degi mánaðarins næsta eftir útreikningsmánuð. Vísitalan skal reiknuð og birt með einum aukastaf.
3. gr.
Hagstofan skal eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta fara fram athugun á grundvelli vísitölunnar með hliðsjón af breytingum á byggingarháttum, byggingarefnum svo og á tilhögun launagreiðslna, verðskráningar og útreikninga.
Sé ákveðið að breyta um grunn vísitölunnar skal Hagstofan ákveða og birta opinberlega hvernig vísitalan, miðuð við hinn nýja grunn, skuli tengd eldri vísitölum byggingarkostnaðar.
4. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1987.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Ákvæði 2. gr. þessara laga um mánaðarlegan útreikning og gildistíma vísitölu byggingarkostnaðar breyta ekki gildi ákvæða um verðbætur í skuldabréfum, verksamningum og þess háttar sem sett eru í samræmi við fyrri lög um vísitölu byggingarkostnaðar. Sé ekki um annað samið skulu þær verðbætur, sem hér um ræðir, því miðast við vísitölur sem gilda í mánuðunum janúar, apríl, júlí og október og skal hver vísitala þá gilda í þrjá mánuði hvert sinn.
[II.
Eftir upptöku virðisaukaskatts hinn 1. janúar 1990 skal Hagstofa Íslands við útreikning vísitölu byggingarkostnaðar frá og með janúar 1990 taka tillit til endurgreiðslna virðisaukaskatts af byggingu íbúðarhúsnæðis vegna vinnu á byggingarstað, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, með áorðnum breytingum, þannig að endurgreiddur virðisaukaskattur sé dreginn frá byggingarkostnaði reiknuðum með fullum virðisaukaskatti.] 1)
    1)L. 137/1989, 1. gr.