Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um geislavarnir
2002 nr. 44 18. apríl
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 7. maí 2002, sjá þó 23. gr. Breytt með: L. 28/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 82/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 121/2013 (tóku gildi 1. jan. 2014).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við heilbrigðisráðherra eða heilbrigðisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og gildissvið.
1. gr.
Lögum þessum er ætlað að tryggja nauðsynlegar öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum í því skyni að takmarka skaðleg áhrif hennar. [Þess skal gætt við ákvörðun um notkun geislunar að gagnsemi hennar fyrir einstaklinginn eða þjóðfélagið sé meiri en hugsanlegur skaði af hennar völdum og að geislun fólks sé eins lítil og unnt er að teknu skynsamlegu tilliti til tilgangs geislunar hverju sinni og efnahags- og þjóðfélagslegra aðstæðna.] 1)
Markmiði laganna skal náð með markvissum aðgerðum, m.a. eftirliti með allri meðferð geislavirkra efna og geislatækja, athugunum og rannsóknum, vöktun á geislavirkum efnum í umhverfi, viðbúnaði [vegna geislavár] 1) og fræðslu og leiðbeiningum um geislavarnir.
1)L. 121/2013, 1. gr.
2. gr.
Lögin gilda um:
1. Öryggisráðstafanir gegn geislun [við allar aðstæður og alla starfsemi] 1) sem hefur í för með sér hættu á geislun á fólk, svo sem við framleiðslu, innflutning, útflutning, afhendingu, eign, uppsetningu, notkun, meðhöndlun og förgun geislavirkra efna og geislatækja, sbr. 4. mgr. 13. gr.
2. Öryggisráðstafanir [við starfsemi eða aðstæður sem leiða] 1) af sér aukna náttúrulega geislun frá umhverfinu.
3. Öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum samkvæmt alþjóðasamningum.
4. Vöktun og rannsóknir vegna geislavirkra efna í umhverfi og matvælum.
5. [Geislunarlegan þátt viðbúnaðar [vegna hvers kyns geislavár]. 1)] 2)
1)L. 121/2013, 2. gr. 2)L. 28/2008, 1. gr.
3. gr.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. Geislun: Jónandi og ójónandi geislun.
2. Jónandi geislun: Geislun frá geislavirkum efnum, röntgengeislun eða önnur geislun sem hefur hliðstæð líffræðileg áhrif.
3. Ójónandi geislun: Útfjólublá geislun og allar aðrar rafsegulbylgjur með lengri bylgjulengd, svo sem örbylgjur eða aðrar rafsegulbylgjur sem hafa hliðstæð líffræðileg áhrif, svo og rafsegulsvið.
4. [ Geislatæki: Tæki sem ganga fyrir rafmagni og mynda geislun, t.d. línuhraðlar, röntgentæki, sólarlampar og leysibendar.] 1)
5. [ Læknisfræðileg geislun: Eftirfarandi geislun telst læknisfræðileg geislun:
a. geislun einstaklinga til greiningar eða meðferðar sjúkdóms,
b. geislun aðstandenda sjúklings og annarra, þó ekki starfsmanna heilbrigðisstofnana, meðan á greiningu eða meðferð stendur,
c. geislun þátttakenda í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði.] 1)
6. Starfsemi: Starfsemi sem getur valdið geislun einstaklinga.
7. Geislaálag: Mat á magni geislunar þar sem heilsufarsleg áhætta einstaklings er lögð til grundvallar.
[8. Leyfishafi: Aðili sem hefur fengið leyfi Geislavarna ríkisins til notkunar geislavirkra efna eða geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun.] 2)
[9.] 2) Ábyrgðarmaður: Starfsmaður með viðeigandi menntun og reynslu, tilnefndur af [leyfishafa] 2) til þess að bera í umboði hans ábyrgð á starfseminni hvað varðar geislavarnir.
[10.] 2) Gæðatrygging: Sérhver skipulögð og skipuleg aðgerð sem nauðsynleg er til að skapa nægilegt traust á því að aðstaða, kerfi, kerfishlutar eða aðgerðir virki á fullnægjandi hátt og í samræmi við samþykkta staðla.
[11.] 2) Gæðaeftirlit: Sá hluti gæðatryggingar sem tekur til aðgerða (skipulagningar, samhæfingar, framkvæmdar) sem ætlað er að viðhalda gæðum eða bæta þau. Gæðaeftirlit felur í sér að vakta, meta og halda innan settra marka öllum einkennandi þáttum fyrir virkni búnaðar sem hægt er að skilgreina, mæla og hafa eftirlit með.
[12. Réttarfarsleg geislun: Geislun einstaklinga í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, svo sem vegna rannsóknar sakamála eða í öryggisskyni.] 1)
1)L. 121/2013, 3. gr. 2)L. 28/2008, 2. gr.
II. kafli. Geislavarnir ríkisins.
4. gr.
Geislavarnir ríkisins er stofnun undir yfirstjórn [ráðherra]. 1) Stofnunin hefur það hlutverk að annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum.
Ráðherra skipar forstjóra Geislavarna ríkisins til fimm ára í senn. Skal hann hafa háskólapróf á starfssviði stofnunarinnar. Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, gætir þess að stofnunin starfi í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma og ber ábyrgð á daglegum rekstri.
1)L. 126/2011, 342. gr.
5. gr.
Geislavarnir ríkisins skulu annast:
1. Eftirlit og umsjón með að lögum þessum og reglugerðum … 1) settum samkvæmt þeim sé fylgt.
2. Hvers konar eftirlit og athuganir sem nauðsynlegar eru samkvæmt lögum þessum og reglugerðum … 1) settum samkvæmt þeim.
3. Eftirlit með geislaálagi starfsmanna vegna jónandi geislunar og halda skrá yfir niðurstöður einstaklingsbundins eftirlits fyrir hvern einstakan starfsmann.
4. Reglubundið mat á heildargeislaálagi almennings af starfsemi [og aðstæðum] 1) sem lög þessi taka til.
5. Reglubundið mat á geislaálagi sjúklinga af læknisfræðilegri geislun hérlendis.
6. Vöktun og rannsóknir á geislavirkum efnum í matvælum og umhverfi.
7. Fræðslu um geislavarnir fyrir starfsfólk er vinnur við geislun jafnframt því að miðla upplýsingum til almennings og fjölmiðla.
8. Rannsóknir á sviði geislavarna.
9. [Geislunarlegan þátt viðbúnaðar [vegna hvers kyns geislavár], 1) m.a. greiningu á ógn af hennar völdum, samhæfingu viðbúnaðar við alþjóðleg viðmið, rekstur viðbúnaðar- og geislamælikerfa og annað því tengt.] 2)
[10. Nauðsynlega mælifræði og varðveislu landsmæligrunna vegna notkunar jónandi geislunar á Íslandi.] 2)
[11.] 2) Samvinnu við erlendar stofnanir á sviði geislavarna og kjarnorkumála.
[12.] 2) Önnur atriði er lúta að framkvæmd laga þessara og önnur verkefni á sviði geislavarna eftir nánari ákvörðun ráðherra.
Ráðherra getur falið stofnuninni að fjalla um tiltekin mál eða verkefni skyld þeim verkefnum sem lög þessi fjalla um.
Stofnunin skal undirbúa, sækja um og viðhalda faggildingu vegna tiltekinna þátta rannsókna og eftirlits sem stofnunin annast.
Stofnuninni er heimilt að semja um ákveðna þætti framkvæmdarinnar við aðila sem uppfylla faglegar kröfur er stofnunin gerir.
Þeir sem hafa með höndum starfsemi sem lög þessi taka til skulu [veita stofnuninni aðstoð við öflun nauðsynlegra upplýsinga] 2) til þess að mat skv. 4. og 5. tölul. verði eins raunhæft og kostur er.
1)L. 121/2013, 4. gr. 2)L. 28/2008, 3. gr.
6. gr. … 1)
1)L. 121/2013, 5. gr.
III. kafli. [Leyfisveitingar og tilkynningar um innflutning o.fl.]1)
1)L. 28/2008, 5. gr.
7. gr.
Framleiðsla, innflutningur, [útflutningur], 1) eign, geymsla, afhending, [notkun, endurvinnsla, endurnýting] 2) og förgun geislavirkra efna, hvort sem efnin eru hrein, blönduð öðrum efnum eða byggð í tæki, er háð leyfi Geislavarna ríkisins. Leyfisveiting er háð skilyrðum er stofnunin setur, m.a. um meðferð geislavirkra efna þegar notkun þeirra lýkur. Umsóknum um leyfi þessi skal skilað á eyðublöðum stofnunarinnar eða í öðru formi sem stofnunin samþykkir.
Ekki þarf leyfi vegna geislavirkra efna sé heildarmagn þeirra eða magn á massaeiningu undir mörkum er Geislavarnir ríkisins ákveða, né heldur vegna sjálflýsandi úra, vasaáttavita, mæla og annarra slíkra tækja er innihalda mjög lítið af geislavirkum efnum eftir nánari ákvörðun Geislavarna ríkisins.
Innflutningur geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun er tilkynningarskyldur [nema geislun frá þeim sé undir mörkum sem Geislavarnir ríkisins ákveða]. 2) [Innflytjendur skulu senda Geislavörnum ríkisins tilkynningu eigi síðar en 1. febrúar ár hvert um innflutning og kaupendur tilkynningarskyldra tækja á liðnu ári. Innlendir framleiðendur skulu með sama hætti senda slíka tilkynningu um innlenda kaupendur tilkynningarskyldra tækja.] 1)
[Notkun tilkynningarskyldra geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun er háð leyfi Geislavarna ríkisins. Breytingar á starfsemi sem hafa áhrif á geislavarnir eru einnig háðar leyfi Geislavarna ríkisins. Leyfisveiting er háð skilyrðum sem stofnunin setur. Umsóknum um leyfi þessi skal skilað á eyðublöðum stofnunarinnar eða á öðru formi sem stofnunin samþykkir. Sé um að ræða nýja tegund starfsemi skal sérstaklega gerð grein fyrir mati á notkuninni, sbr. 8. gr.
Viðgerðir og uppsetning á tilkynningarskyldum geislatækjum sem gefa frá sér jónandi geislun mega þeir einir annast sem uppfylla kröfur Geislavarna ríkisins um þekkingu og reynslu. Þeir sem taka að sér uppsetningu slíkra geislatækja skulu tilkynna Geislavörnum ríkisins um uppsetninguna innan fjögurra vikna frá því að henni lýkur.] 2)
Ráðherra getur ákveðið með reglugerð 3) að innflutningur ákveðinna flokka geislatækja, sem gefa frá sér ójónandi geislun, skuli tilkynningarskyldur.
1)L. 28/2008, 4. gr. 2)L. 121/2013, 6. gr. 3)Rg. 171/2021.
IV. kafli. Mat á gagnsemi og áhættu við notkun geislunar.
8. gr.
Allar nýjar tegundir eða flokkar starfsemi [eða tækja] 1) sem geta valdið jónandi geislun á fólk skulu metnar fyrir fram með tilliti til efnahagslegrar, þjóðfélagslegrar eða annarrar gagnsemi í samanburði við áhættu á skaðlegum heilsufarsáhrifum sem geislunin getur haft. [Aðilar er hyggjast hefja slíka starfsemi, framleiða eða flytja inn slík tæki skulu senda Geislavörnum ríkisins greinargerð um slíkt mat á fyrirhugaðri starfsemi eða notkun.] 1) Óheimilt er að hefja starfsemina fyrr en samþykki Geislavarna ríkisins liggur fyrir og að fengnu mati landlæknis þegar um læknisfræðilega starfsemi er að ræða. Starfsemi sem þegar fer fram skal endurskoða með tilliti til mats skv. 1. málsl. þegar fyrir liggja nýjar mikilvægar upplýsingar um gagnsemi hennar eða afleiðingar.
[Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um mat á gagnsemi og áhættu við notkun á jónandi geislun, svo og um réttarfarslega geislun.] 1)
1)L. 121/2013, 7. gr. 2)Rg. 1299/2015.
V. kafli. Notkun geislavirkra efna og geislatækja.
9. gr.
… 1)
[Einstaklingum yngri en 18 ára eru óheimil afnot af sólarlömpum, í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð. Um eftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.] 2)
Ráðherra getur ákveðið með reglugerð 3) að notkun ákveðinna flokka geislatækja, sem gefa frá sér ójónandi geislun, skuli háð leyfi [og öðrum takmörkunum]. 2)
1)L. 121/2013, 8. gr. 2)L. 82/2010, 1. gr. 3)Rg. 810/2003. Rg. 171/2021.
10. gr.
[Leyfishafi] 1) ber ábyrgð á notkun geislavirkra efna og geislatækja, svo og að tæki, búnaður og starfsemi öll hvað geislavarnir varðar, sé í samræmi við lög þessi og reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim.
Við starfsemi þar sem notuð er jónandi geislun skal [leyfishafi] 1) tilnefna ábyrgðarmann með viðeigandi menntun og reynslu og skal nafn hans, menntun og reynsla tilkynnt Geislavörnum ríkisins. Tilnefning ábyrgðarmanns er háð samþykki Geislavarna ríkisins. Ábyrgðarmaður ber í umboði [leyfishafa] 1) ábyrgð á að starfsemin sé í samræmi við lög þessi og reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim.
Við starfsemi þar sem notuð er jónandi geislun skal komið upp viðeigandi [gæðaeftirliti] 1) vegna geislavarna.
Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um menntun, reynslu og skyldur ábyrgðarmanna og um fyrirkomulag og framkvæmd [gæðaeftirlits]. 1)
1)L. 28/2008, 7. gr. 2)Rg. 809/2003, sbr. 920/2003. Rg. 1298/2015. Rg. 1299/2015.
11. gr.
Aðilar sem starfa samkvæmt lögum þessum skulu skipuleggja viðeigandi viðbrögð við geislaslysum og veita upplýsingar um sérstaka áhættuþætti samkvæmt nánari reglum er Geislavarnir ríkisins setja. Þeir skulu tilkynna Geislavörnum ríkisins tafarlaust ef geislaslys verður, leggja frummat á hugsanlegar afleiðingar og gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að takmarka afleiðingar þess.
[Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um viðbúnað og viðbrögð við geislaslysum, þ.m.t. upplýsingagjöf til almennings og viðmiðunarmörk fyrir styrk geislavirkra efna í matvælum.] 1)
1)L. 121/2013, 9. gr. 1)Rg. 1299/2015.
12. gr.
[Geymsla, meðferð og förgun geislavirkra efna og geislavirks úrgangs er á ábyrgð leyfishafa.] 1) Sama gildir um annan úrgang, búnað eða umbúðir sem innihalda geislavirk efni eða eru menguð af þeim.
Þegar [leyfisskylt tæki] 1) eða búnaður sem getur gefið frá sér jónandi geislun er endanlega tekinn úr notkun skal það tilkynnt Geislavörnum ríkisins. Á meðan búnaður inniheldur geislavirk efni eða getur gefið frá sér jónandi geislun skal hann vera í öruggri vörslu og sæta eftirliti [Geislavarna ríkisins skv. 17. gr.] 1) Geislavörnum ríkisins er heimilt að krefjast förgunar eða fjarlægingar geislavirkra efna og geislatækja sem ekki eru lengur í notkun [eða eru ekki í öruggri vörslu að mati stofnunarinnar]. 1) Sé ekki orðið við kröfu stofnunarinnar um förgun eða fjarlægingu innan tiltekins frests getur stofnunin annast framkvæmdina á kostnað [leyfishafa]. 2)
[Notkun geislavirkra efna skal vera með þeim hætti að sem minnstur geislavirkur úrgangur myndist. Leyfishafi skal gera Geislavörnum ríkisins árlega grein fyrir því magni geislavirks úrgangs sem starfsemi hans myndar.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um flokkun, geymslu, meðferð og förgun geislavirkra efna og geislavirks úrgangs.] 1)
1)L. 121/2013, 10. gr. 2)L. 28/2008, 8. gr.
[12. gr. a.
Íblöndun geislavirkra efna við framleiðslu matvæla, fóðurs, leikfanga, skartgripa og snyrtivara er bönnuð. Innflutningur slíks varnings sem geislavirkum efnum hefur verið blandað í er jafnframt bannaður.] 1)
1)L. 121/2013, 11. gr.
VI. kafli. Geislavarnir á vinnustöðum.
13. gr.
Öll geislun starfsmanna og almennings vegna [aðstæðna og] 1) starfsemi sem lög þessi taka til skal vera eins lítil og unnt er að teknu skynsamlegu tilliti til efnahags- og þjóðfélagslegra aðstæðna.
Við starfsemi þar sem unnið er með geislun, jónandi sem ójónandi, skal gripið til viðeigandi aðgerða til þess að verja starfsfólk og aðra gegn geislun. Þessar aðgerðir skulu vera í samræmi við umfang þeirrar áhættu sem um er að ræða. Við starfsemi þar sem jónandi geislun er notuð skal hafa viðeigandi eftirlit með geislaálagi starfsmanna og annarra er starfseminni tengjast. Starfsmenn skulu hafa fullnægjandi menntun og fá starfsþjálfun og fræðslu sem tryggir nægilega hæfni og þekkingu á geislavörnum, svo og örugga notkun geislunar. Gestir og aðrir sem aðgang hafa að vinnustaðnum skulu fá upplýsingar um reglur sem fylgja þarf vegna geislavarna.
[Við starfsemi eða aðstæður sem hafa í för með sér aukna náttúrulega jónandi geislun skal gripið til viðeigandi aðgerða til þess að verja fólk gegn slíkri geislun.] 1)
Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um geislavarnir á vinnustöðum, þar með talið um fyrirkomulag geislavarna og öryggisráðstafana sem draga úr geislun, aldursmörk þeirra sem starfa við jónandi geislun, geislunarmörk starfsmanna, nemenda og almennings, [hámarksstyrk náttúrulegra geislavirkra efna og kröfur um úrbætur sé styrkur ofan leyfilegra marka], 1) svo og eftirlit með geislaálagi og lækniseftirlit þeirra sem starfa við jónandi geislun, flokkun vinnusvæða og aðvörunarmerkingar, skermun og innréttingu húsnæðis, menntun, starfsþjálfun og fræðslu einstaklinga sem nota geislun eða starfa þar sem geislun er notuð.
Um ráðstafanir til að vernda starfsmenn á vinnustöðum gegn skaðlegum áhrifum af völdum ójónandi geislunar fer samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum settum samkvæmt þeim.
1)L. 121/2013, 12. gr. 2)Rg. 809/2003, sbr. 920/2003. Rg. 1290/2015. Rg. 1298/2015. Rg. 1299/2015.
14. gr.
Um skrá sem Geislavarnir ríkisins halda yfir niðurstöður einstaklingsbundins eftirlits með geislun, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 5. gr., fer samkvæmt lögum um persónuvernd. Niðurstöður skulu varðveittar allan þann tíma sem starfsmaður verður fyrir jónandi geislun við störf sín og allt þar til hann verður 75 ára, eða hefði orðið 75 ára, en undir engum kringumstæðum skemur en 30 ár eftir að viðkomandi hættir starfi sem veldur því að hann verður fyrir jónandi geislun. Sérstaklega skal gera grein fyrir niðurstöðum sem byggjast ekki á einstaklingsbundnum mælingum. Geislaálag af geislaslysi skal skráð sérstaklega, svo og aðstæður við geislunina og aðgerðir sem gripið var til.
Niðurstöður einstaklingsbundins eftirlits skulu vera aðgengilegar starfsmanni, vinnuveitanda hans og trúnaðarlækni svo og heilbrigðisyfirvöldum samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur.
VII. kafli. Læknisfræðileg geislun.
15. gr.
Ábyrgðarmaður skv. 10. gr. ber ábyrgð á framkvæmd læknisfræðilegrar geislunar. Hann skal sjá til þess að þeir einir framkvæmi læknisfræðilega geislun sem eru til þess hæfir á grundvelli viðurkenndrar sérmenntunar.
Við læknisfræðilega geislun skal ábyrgðarmaður eða sá sem hann hefur falið framkvæmdina meta hvort notkun geislunar er réttlætanleg að teknu tilliti til markmiðs geislunarinnar, einkenna og ástands sjúklings. [Einnig skal taka mið af gagnsemi og áhættu af notkun annarrar tækni sem fyrir hendi er og nýtir minni eða enga jónandi geislun.] 1)
[Við sjúkdómsgreiningu og rannsóknir skal ábyrgðarmaður eða sá sem hann hefur falið framkvæmdina] 1) tryggja að geislun sé eins lítil og unnt er með skynsamlegu tilliti til tilgangs geislunarinnar, tækja og búnaðar sem fyrir hendi eru, svo og annarra þátta sem áhrif hafa.
Á hverjum þeim stað þar sem læknisfræðileg geislun fer fram skal komið upp viðeigandi áætlunum um gæðatryggingu og gæðaeftirlit vegna starfseminnar, [þ.m.t. mati á geislun sjúklinga samkvæmt leiðbeiningum sem Geislavarnir ríkisins gefa út]. 1)
[Við meðferð sjúkdóms skal ábyrgðarmaður eða sá sem hann hefur falið framkvæmdina tryggja að geislun á vef utan meðferðarsvæðis sé eins lítil og unnt er í samræmi við markmið meðferðarinnar. Þess skal gætt að fólk verði ekki fyrir geislun af slysni eða vegna mistaka. Ábyrgðarmaður skal tilkynna slíka geislun til Geislavarna ríkisins og gera grein fyrir mati á afleiðingum.] 1)
Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um geislavarnir við læknisfræðilega geislun, þ.m.t. viðmið, fyrirkomulag og framkvæmd áætlana um gæðatryggingu.
[Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um réttarfarslega geislun eftir því sem við á.] 1)
1)L. 121/2013, 13. gr. 2)Rg. 809/2003, sbr. 920/2003. Rg. 1299/2015.
16. gr.
Þeir sem hyggjast framkvæma skoðun á hópi fólks, t.d. vegna vísindalegra rannsókna, og nota við það jónandi geislun skulu fá til þess leyfi Geislavarna ríkisins. Óheimilt er að hefja slíka skoðun fyrr en leyfi stofnunarinnar liggur fyrir og að fengnu áliti landlæknis.
[Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um geislavarnir við skoðanir á hópi fólks, þ.m.t. viðmið geislunar.] 1)
1)L. 121/2013, 14. gr.
VIII. kafli. Eftirlit með geislatækjum og geislavirkum efnum.
17. gr.
Geislavarnir ríkisins annast skv. 5. gr. reglubundið eftirlit með notkun geislavirkra efna og geislatækja sem leyfi þarf fyrir samkvæmt lögum þessum. [Eftirlitið skal taka mið af þeirri áhættu sem notkuninni fylgir.] 1)
Starfsmönnum Geislavarna ríkisins er heimill aðgangur að sérhverjum stað þar sem geislavirk efni og geislatæki sem gefa frá sér jónandi geislun eru notuð og geymd. Þess ber að gæta að eftirlitið valdi sem minnstri röskun á daglegri starfrækslu tækja og efna.
Vinnueftirlit ríkisins annast eftirlit og gerir ráðstafanir til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á starfsmenn vegna ójónandi geislunar í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglur settar samkvæmt þeim.
Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits Geislavarna ríkisins.
1)L. 121/2013, 15. gr. 2)Rg. 809/2003, sbr. 920/2003. Rg. 1298/2015. Rg. 1299/2015.
18. gr.
[Leyfishafar] 1) geislatækja og geislavirkra efna skulu framkvæma þær úrbætur sem Geislavarnir ríkisins telja nauðsynlegar innan tiltekins frests, ella er heimilt að stöðva frekari notkun tækja og efna þar til úrbætur hafa verið gerðar.
Sé öryggisútbúnaði stórlega ábótavant skulu Geislavarnir ríkisins stöðva frekari notkun geislavirkra efna og geislatækja þar til úrbætur hafa verið gerðar.
1)L. 28/2008, 9. gr.
19. gr.
Skráður [leyfishafi] 1) geislavirks efnis eða geislatækis sem gefur frá sér jónandi geislun skal greiða gjald fyrir reglubundið eftirlit Geislavarna ríkisins, sbr. 17. gr., fyrir mat á umsóknum um leyfi, [sbr. 7. og 9. gr.], 1) svo og fyrir eftirlit með geislaálagi starfsfólks, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. Ráðherra setur gjaldskrá vegna eftirlitsins að fengnum tillögum Geislavarna ríkisins. Gjaldskráin skal taka mið af kostnaði við eftirlitið.
1)L. 28/2008, 10. gr.
IX. kafli. …1)
1)L. 121/2013, 16. gr.
X. kafli. Ýmis ákvæði.
21. gr.
Ráðherra setur með reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og um starfsemi Geislavarna ríkisins, svo og gjaldskrá fyrir þjónustumælingar Geislavarna ríkisins, að fengnum tillögum stofnunarinnar.
1)Rg. 809/2003, sbr. 920/2003. Rg. 810/2003. Rg. 1290/2015. Rg. 1298/2015. Rg. 1299/2015. Rg. 171/2021.
22. gr.
Brot á ákvæðum laga þessara varða fésektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. … 1)
1)L. 88/2008, 233. gr.
23. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi en 1. janúar 2003 að því er varðar ákvæði um ójónandi geislun, viðbúnað skv. 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. og faggildingu skv. 3. mgr. 5. gr. Eftirlitsþáttur laganna skal endurskoðaður innan fimm ára frá gildistöku. …