Tilkynningar

Forseti Alþingis sækir heimsráðstefnu þingforseta í New York

28.8.2015

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sækir heimsráðstefnu þingforseta sem haldin verður í New York 31. ágúst til 2. september næstkomandi. Ráðstefnan er haldin á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU). Forseti Alþingis var skipaður í undirbúningshóp sem unnið hefur að skipulagningu ráðstefnunnar og undirbúningi lokayfirlýsingar hennar. Viðburðinn sækja þingforsetar frá yfir 140 þjóðríkjum, auk áheyrnarfulltrúa.

Heimsráðstefna þingforseta hefur verið haldin á fimm ára fresti frá árinu 2000. Þá komu forsetar þjóðþinga, sem aðild eiga að Alþjóðaþingmannasambandinu, saman í New York í tengslum við setningu þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.  Að þessu sinni munu forsetar ræða ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hlutverk þjóðþinganna við að ná markmiðunum.  Jafnframt eru á dagskrá ráðstefnunnar umræður um eftirlitshlutverk þjóðþinga, áskoranir sem þingin standa frammi fyrir og mikilvægi jafns hlutar kynjanna í stjórnmálum. 

Nánari upplýsingar má finna á vefslóð ráðstefnunnar: http://www.ipu.org/splz-e/speakers15.htm