Tilkynningar

Alþingismál mynduð á Handrit.is

10.6.2022

Síðustu mánuði hefur staðið yfir skráning og myndun á Alþingismálum (dagbókum Alþingis) inn á handrit.is, í samstarfi skrifstofu Alþingis og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Bækurnar hafa að geyma gríðarmiklar og fjölbreyttar heimildir um starfsemi þingsins og þau erindi er því bárust, allt frá endurreisn þess árið 1845 og fram á fyrstu áratugi 20. aldar. 

Heimildirnar varpa nýju ljósi á störf Alþingis því þar er að finna bænaskrár, áskoranir, styrkbeiðnir og margt annað frá almenningi í landinu sem voru alla jafna ekki birt í Alþingistíðindum, heldur einungis umræður þingmanna um þau. Nú má skoða öll þessi erindi á handrit.is og kynnast því sem fólki lá á hjarta, t.d. undirskriftir þúsunda kvenna um bann við innflutningi áfengis árið 1895, beiðni um „Vitfirringaspítala“ árið 1897, ósk Katrínar Þorvaldsdóttur, ekkju Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara, um framfærslustyrk árið 1891 og margt fleira. Þessum erindum fylgdu oft uppdrættir, teikningar, rökstuðningur, greinargerðir, undirskriftalistar og annað sem fróðlegt er að skoða. Í bókunum er einnig að finna heimildir um innra starf þingsins, því þar má sjá umsóknir ungmenna um störf þingritara, beiðnir þingmanna um greiðslu á þingfararkaupi, lóðagjald af Alþingishúsinu, vottorð vegna fjarveru einstakra þingmanna og margt fleira. 

Búið er að mynda Alþingismál fram til 1897, einnig nokkur yngri. Verkinu lýkur síðar á árinu með myndun síðustu bókarinnar sem er frá árinu 1913. Allar bækurnar verða við verklok aðgengilegar á vef Alþingis jafnframt því að þær verða á handrit.is.

Althingismal_1867_I-1310-Spine