Tilkynningar

Athöfn á Austurvelli 19. júní til heiðurs konum

19.6.2015

Afmælisnefnd 100 ára kosningarréttar kvenna 19. júní stóð fyrir athöfn á Austurvelli í dag. Frá kl. 15–16 ómaði Austurvöllur af kórsöng til heiðurs konum. Eftir skrúðgöngu frá Miðbæjarskóla sem kom inn á Austurvöll kl. 16.00 hófst dagskrá við Alþingishúsið með kórsöng margra kóra. 

Vigdís Finnbogadóttir flytur ávarp af svölum Alþingishússins 19. júní 2015.Frú Vigdís Finnbogadóttir flutti ávarp frá svölum Alþingishússins og Léttsveit Reykjavíkur frumflutti lag og ljóð samin í tilefni afmælisársins. 


Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, flytur ávarp af svölum Alþingishússins 19. júní 2015.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, flutti ávarp frá svölum Alþingishússins. Því næst var höggmynd af fyrstu konunni sem kjörin var til Alþingis, Ingibjörgu H. Bjarnason, afhjúpuð af fimm stúlkum á aldrinum fimm til tíu ára, Ástu Skúladóttur, Guðrúnu Sögu Guðmundsdóttur, Kötlu Petersen, Malaiku Ragnheiði Ingvarsdóttur og Sigríði Dúu Þórsdóttur. Höggmyndin er eftir Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara.


Stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason afhjúpuð 19. júní 2015.

Þá flutti Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands baráttuávarp. Að lokum sungu Léttsveit Reykjavíkur og Kvennakórinn Katla.

Ávarp Vigdísar Finnbogadóttur

Ræða Vigdísar Finnbogadóttur, forseta Íslands 1980-1996, á svölum þinghússins 19. júní 2015 

Góðir hátíðargestir. Æska Íslands. Fyrrverandi æska Íslands. Kæru landsmenn allir. 

Það er gaman að vera til þegar fagnað er og minnst sögulegra atburða á Íslandi. Að þessu sinni er það 100 ára afmæli kosningarréttar og kjörgengis kvenna. Hvers vegna erum við reyndar sérstaklega að fagna sjálfstæðishugsun kvenna og jafnræði til að velja hvernig á að stýra sjálfu þjóðfélaginu? 

Jú, það er af því að frelsið, jafnrétti og lýðræðið er ekki sjálfgefið. Og það skynjum við vel í daglegum fréttum frá öðrum heimshlutum. Svo afar fátt af því sem okkur finnst sjálfsagt í daglegu lífi hefur komið inn í samfélag okkar eins og regn af himnum ofan, heldur áunnist með óþreytandi elju og framsýni þeirra sem á undan okkur komu. 

Þessi dagur, 19. júní, þegar konur fengu kosningarrétt á Íslandi fyrir 100 árum er minningardagur okkar allra, karla sem kvenna, yngri sem eldri, táknrænn fyrir þjóðarhag. Hann mun standa sem fyrirmynd í hugum ótal þjóða úti í heimi þegar af honum fréttist um heimsbyggðina, fyrirmynd um jafnrétti kvenna og karla til að kjósa sér þjóðfélagsskipan og landsstjórn. Og þessi 100 ára minningardagur kosningarréttar kvenna á Íslandi mun vissulega fréttast víða í opnum heimi samtíðarinnar. 

Vörðurnar á vegferð íslenskra kvenna í 100 ár eru ótal margar. Þær felast í margvíslegum réttindum sem náðst hafa. Körlum og konum eru tryggð sömu mannréttindi í stjórnarskrá og í lögum. Bæði kyn hafa sömu möguleika og tækifæri til að leita sér menntunar – og konur hafa svo sannarlega nýtt sér það vel. Enn eru þó mörg verkefni sem blasa við. Það hefur til dæmis tekið nærri alla þessa margnefndu öld að ná því að um 40% þingmanna eru nú konur. Allt fram á níunda áratuginn, eða í rúm 60 ár, voru aldrei fleiri en tvær til þrjár konur á þingi, svo furðulegt sem það nú kann að hljóma. 

Konur höfðu þó engu að síður öðlast sjálfstraust, beittu sér í margvíslegum félagsmálum, stofnuðu lestrarfélög úti um allt land og áttu meðal annars frumkvæði að byggingu bæði Landspítalans og Hvítabandsspítalans á Skólavörðustíg. En þær létu sér nægja að sitja í ótryggum sætum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna, vera þar skemmtilegar og hjálpa körlunum að komast inn á þing. 

Þótt svo eigi að heita að jafnrétti kynja hafi á Íslandi náðst með lögum vitum við að talsvert vantar upp á að jafnrétti ríki í raun. Enn er langt í land að konur hafi sömu laun og karlar þrátt fyrir þá staðreynd að lög sem áttu að tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu hafi verið í gildi í meira en fjóra áratugi. Einnig virðast samskipti kynjanna ekki alltaf vera eins og við helst óskum sem birtist meðal annars í ofbeldi, ekki aðeins líkamlegu heldur einnig andlegu ofbeldi, svo ekki sé nú minnst á ofsóknir á netinu sem við fréttum að færist í vöxt, við sem höfum svo lengi stært okkur af því að vera friðsöm þjóð.

Á þessum hátíðisdegi, sem er jafnréttisdagur okkar allra, þykir mér sérstaklega vænt um að fá að beina orðum mínum til ykkar, unga fólk, kynslóðarinnar sem takið við stjórn og mótun samfélagsins á næstu árum og áratugum. Ég sé ykkur öll inni í fjöldanum. Ég hef svo mikinn metnað fyrir ykkur, fyrir ykkur hvert einasta eitt. Það verður ykkar verkefni að gera að heilsteyptum veruleika það samfélag sem stjórnarskráin okkar kveður á um, en djúpstæðar hefðir hafa tafið framgang í þeim málum. Það kemur í ykkar hlut að byggja samfélag þar sem frelsið og mannréttindin sem okkur hafa verið tryggð gildi fyrir alla, konur og karla, unga sem eldri. 

Við erum fámenn þjóð í stóru landi og við eigum tvö fágæt og dýrmæt djásn sem okkur eru falin til verndar. Það eru náttúra Íslands og þjóðtungan okkar, íslenskan. Enginn getur tekið þessi djásn frá okkur nema við sjálf. Þess vegna fæ ég aldrei nógu oft hvatt ykkur, unga fólkið í landinu, til að gleyma aldrei að varðveita og vernda þessi djásn sem bæði eru þess eðlis að ef þau eru einu sinni glötuð þá verða þau ekki endurheimt. Einstök víðerni á hálendi Íslands vinnast ekki aftur ef þau hafa einu sinni spillst og ef við leyfum öðrum tungumálum eða andvaraleysi að hrifsa af okkur ríkidæmi íslenskunnar, bara af því að eitthvað annað er í augnablikinu sniðugt, þá verður ekki aftur snúið, þá getur þjóðtungan glatast á fáeinum áratugum. 

Ég vil því á þessum merka afmælisdegi grundvallarmannréttinda biðja ykkur, æskufólk, að gleyma því aldrei að standa vörð um landið og tunguna. Ég vil líka minna okkur á að frelsið og jöfnuðurinn sem okkur er tryggður í stjórnarskránni er hvorugt sjálfgefið. Það búa ekki allar þjóðir við það lán að vera tryggð mannréttindi með sama hætti og okkur Íslendingum.

Á þessum degi þurfum við að heita okkur því að rækta mannréttindin sem lýðræðið hefur fært okkur í stjórnarskránni og þau mannréttindi sem löggjafinn hefur tryggt okkur með margvíslegum lagasetningum. Mér hefur alltaf þótt svo fallegt og táknrænt að orðið kvenréttindi rímar við orðið mannréttindi. Og þá er jafngott að rifja það upp að allir feður og allir bræður vita að dætur þeirra og systur eru jafnklárar og þeir, en þeir verða líka að hafa hugfast að það á ekki aðeins við um þeirra eigin dætur eða systur. Þetta vissu þeir Hannes Hafstein og karlarnir allir sem samþykktu lög um kosningarrétt kvenna fyrir einni öld og þetta vita auðvitað allir hugsandi karlar, ekki síður í dag en fyrir 100 árum.

Á þessum degi, þegar við minnumst 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna, er gott og ekki síður afar mikilvægt að hlakka til framtíðarinnar, að vita að um aldir hefur verið sagt á Ísland að öll él birti upp um síðir, að setja okkur að vinna að því að horfa til hennar björtum augum. Svartsýnin dregur úr okkur þrek, bjartsýni eykur okkur kjark og að vita að í framtíðinni felast ekki aðeins loforð heldur líka efndir. Annars hefðu konur aldrei fengið kosningarrétt á Íslandi.

Hjartanlega til hamingju með daginn.

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar

Ræða Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, á svölum þinghússins 19. júní 2015

Góðir Íslendingar. Ég óska okkur öllum til hamingju með þennan mikilvæga dag í sögu okkar. Það er mér mikill heiður fyrir hönd Alþingis að flytja hér ávarp ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrstu konunni til að gegna æðsta embætti þjóðarinnar, forsetaembættinu, og sem með verkum sínum og framgöngu hefur orðið kynslóðum íslenskra kvenna mikilvæg fyrirmynd.  

Það var ánægjulegt að sjá þennan glæsilega hóp sem áðan gekk inn á Austurvöll undir þjóðfánanum okkar. Það minnir okkur á að 19. júní 1915 var líka dagur íslenska fánans því að þennan dag gaf konungur út úrskurð um íslenskan sérfána. Og það var einmitt á hátíðarfundi hér á Austurvelli 7. júlí 1915 að íslenski fáninn var í fyrsta sinn dreginn að húni á fjölmennri útisamkomu og fór þá fylking hundraða ljósklæddra ungra stúlkna um bæinn og gekk hér inn á Austurvöll.

Allt þetta ár hefur 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna verið minnst með margvíslegum hætti um land allt. Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig einstaklingar, félagasamtök, skólar, stofnanir og sveitarfélög hafa verið virk í því að minnast dagsins. Og enn er afmælisárinu ekki lokið. Ég vil fyrir hönd Alþingis færa öllum þeim sem lagt hafa hönd að verki alúðarþakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag.

Fyrr í dag kom Alþingi saman til hátíðarfundar þar sem samþykkt var ályktun um stofnun Jafnréttissjóðs Íslands. Með því vill Alþingi stuðla að frekari framþróun á sviði jafnréttismála og þrátt fyrir að við Íslendingar stöndum að sumu leyti og mörgu leyti mjög framarlega í jafnréttismálum í alþjóðlegum samanburði höfum við enn verk að vinna hér heima eins og okkur er öllum ljóst. En nú þegar við höldum kvenréttindadaginn hátíðlegan er eðlilegt að hugurinn reiki til þeirra fjölmörgu kvenna sem ruddu brautina í jafnréttismálum í upphafi síðustu aldar. Ein þessara kvenna var Ingibjörg H. Bjarnason, skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík. Hún var fyrst kvenna kjörin til setu á Alþingi og það var árið 1922, sjö árum eftir að konur hlutu kosningarrétt og gátu boðið sig fram til Alþingis. Hún var kjörin af Kvennalista og það er óhætt að segja að kjör hennar hafi komið öðrum flokkum algjörlega í opna skjöldu. Þau átta ár sem Ingibjörg sat á Alþingi var hún eina konan á þinginu og allan þann tíma var hún ötul í baráttu sinni fyrir bættum réttindum kvenna. Hún var því fyrst og fremst fulltrúi kvenna og kvennasamtaka á Alþingi. Það var ekki auðvelt hlutskipti brautryðjandans að vera fyrst kvenna og eina konan á Alþingi og alls ekki velkomin af öllum í sölum þingsins. Undir lok þingmennskuferils síns sá hún hins vegar eitt helsta baráttumál sitt og kvennahreyfingarinnar á þessum árum verða að veruleika og það var bygging Landspítalans. 

Það er fyrir löngu orðið tímabært að við heiðrum minningu þessarar miklu baráttukonu með sómasamlegum og varanlegum hætti og mjög viðeigandi að það sé gert einmitt nú í dag á þessum miklu tímamótum.

Hér á eftir verður afhjúpuð við Skála Alþingis höggmynd af Ingibjörgu, sannkallað listaverk, eftir Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara. Höfuðborgin okkar, Reykjavík, skartar vissulega mörgum fögrum listaverkum, en svo einkennilega sem það kann að hljóma þá er það engu að síður staðreynd að það er engin stytta til af nafngreindri konu í fullri stærð í Reykjavík. Það eru hins vegar margar höggmyndir af nafngreindum körlum eins og við sjáum allt í kringum okkur hér í miðborginni. Höggmyndin af Ingibjörgu H. Bjarnason markar því tímamót í þessum efnum einnig.

Ég vil nota þetta tækifæri og færa þeim þakkir sem af rausnarskap hafa gert það mögulegt að reisa þetta listaverk.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég bjóða ykkur öll velkomin í Alþingishúsið á morgun, laugardag, en þá verður þinghúsið opið almenningi frá klukkan tíu um morguninn til klukkan fimm síðdegis. Í Alþingishúsinu verður hægt að skoða sýningu sem er helguð 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna.

Verið velkomin í þinghúsið á morgun. Til hamingju með daginn, gleðilegan 19. júní.


Ávarp Fríðu Rósar Valdimarsdóttur

Ræða Fríðu Rósar Valdimarsdóttur, formanns Kvenréttindafélags Íslands, á Austurvelli 19. júní 2015

Til hamingju með daginn. Gleðilegt hátíðarár. Í janúar leit út fyrir að þetta ár yrði eins og hvert annað hátíðarár þar sem litið yrði friðsamlega yfir sigra og ósigra kvennabaráttunnar og fagnað með hátíðlegum hætti. Engan óraði fyrir því að um miðbik ársins yrðum við stödd í miðri byltingu.

Ungar konur hafa risið upp og hrifsað til sín skilgreiningarvaldið. Þær brjóta af sér hlekki klámvæðingar og kúgandi kynjakerfisins, þær fara úr að ofan og fagna klámvæðingu brjósta sinna. Þær tísta hver í kapp við aðra um hversdagslega kynjamisréttið og hundruðum saman segja þær áður þaggaðar sögur af kynferðisbrotum sem þær hafa orðið fyrir.

Þessar aðgerðir ættu þó ekki að koma á óvart. Við vitum að þau sem lent hafa í stríði glíma við þungbærar afleiðingar þess. Við vitum líka að afleiðingar kynferðisofbeldis eru sambærilegar og hjá fólki sem hefur verið í stríði. Á Íslandi hefur að minnsta kosti ein af hverjum fjórum konum verið beitt kynferðisofbeldi. Við þolendur getum sagt frá ofbeldinu, við getum skilað skömminni en við getum ekki, því miður, skilað afleiðingunum. Það eru ekki ýkjur að segja að kynferðisofbeldi sé stríð gegn konum. Ég spyr: Erum við samfélag sem vill gera það sem í okkar valdi stendur til að vinna að friði í þessum málaflokki? Hversu lengi ætlum við að efla einungis það starf sem tekur á afleiðingum ofbeldis í stað þess að leggja þyngri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir? 

Ég spyr: Hversu mörg ár í viðbót þarf kvennahreyfingin að starfrækja Kvennaathvarfið, Stígamót, Aflið, Drekaslóð, svo eitthvað sé nefnt, áður en komið verður á raunverulegum forvörnum til að útrýma ofbeldinu? Í kjarabaráttu vetrarins kjarnast ójafnt mat á störfum kynjanna. Það mat blasir við okkur líkt og hvítir sloppar í útfjólubláu ljósi. Lagasetningu á hjúkrunarfræðinga og aðrar kvennastéttir innan heilbrigðiskerfisins er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að vegið sé að hefðbundnum kvennastörfum, vegið að störfum kvenna á Íslandi. Kröfur kvenna eru þaggaðar niður líkt og ofbeldið sem konur eru beittar hefur verið þaggað niður í gegnum tíðina. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem stjórnvöld kynntu fyrir stuttu kom fram að launamun kynjanna er hægt að leiðrétta með að vinna gegn kynskiptum vinnumarkaði, sem sagt búið er að greina hver næstu skref þurfi að vera til að leiðrétta launamismuninn. 

Og ég spyr: Hvernig stuðlar lagasetning á verkfall hjúkrunarfræðinga að þeirri leiðréttingu? 

Í samfélagi okkar er nú kallað eftir breytingu úr mörgum áttum. Samfélaginu er hægt að breyta. Það er vel hægt að breyta samfélagi. Til eru ótal leiðir til að leiðrétta kerfisvillurnar sem viðhalda misrétti kynjanna. Við eigum rannsóknir sem sýna hvernig styrkja megi dómskerfið til að gera það hæfara til að takast á við kynferðisbrotamál. Við höfum þekkingu og verkfæri til að eyða launamun kynjanna.

Í landinu er svo sannarlega til staðar sá mannauður sem þarf til að hrinda þessari leiðréttingu í framkvæmd. Nú þarf vilja til breytinga, pólitískan og samfélagslegan vilja.

Kæru áheyrendur. Við erum stödd í miðri byltingu, enn einni samfélagsbyltingunni sem knúin er af afli kvennasamstöðu. Setjum frelsið í augsýn, ég er spennt að vita hvað gerist næst. 

Gleðilegt byltingarár!

 

Ljósmyndir © Bragi Þór Jósefsson.