Tilkynningar

Forseti Alþingis óskar tilnefninga í nefnd til að endurskoða lög um þingfararkaup og þingfararkostnað

31.1.2017

Til formanna stjórnmálaflokkanna,
Sigurðar Inga Jóhannssonar,
Loga Einarssonar,
Benedikts Jóhannessonar,
Katrínar Jakobsdóttur,
Óttars Proppé,
Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og
Bjarna Benediktssonar.

Reykjavík, 31. jan. 2017.

Ég vísa til bréfs ykkar til forsætisnefndar Alþingis, dags. 14. des. sl., þar sem þess er farið á leit við nefndina að hún endurskoði reglur um þingfararkostnað, þ.e. starfstengdar greiðslur til þingmanna, sem eru fastar mánaðarlegar greiðslur.

Beiðnin var sett fram í tengslum við afgreiðslu Alþingis á frumvarpi um breytingar á kjararáði, svo og, eins og segir í bréfinu, í ljós gagnrýni sem fram hefur komið á kjör þingmanna á opinberum vettvangi.

Meginatriði í bréfi formanna flokkanna er því að ekki sé í ráði að hnekkja eða breyta úrskurði kjararáðs um laun þjóðkjörinna fulltrúa, né annarra sem undir ráðið heyra, heldur eigi að breyta öðrum greiðslum þannig að samanlagt hækki greiðslur til þingmanna minna en annars hefði orðið. Ekki kemur fram í erindinu skýr afstaða um hvaða krónutölulækkun er verið að óska eftir. Með hliðsjón af því er það ákvörðun forseta að nota það sem viðmið að laun og greiðslur til þingmanna séu í takt við hækkun launavísitölu frá 2006. Samkvæmt því viðmiði ættu greiðslur til þingmanna að lækka um 150 þús. kr., eða þar um bil. Hugmyndin um lækkun fastra mánaðalegra kostnaðargreiðslna byggist á því að þeim megi jafna til launa, en það er alls ekki svo nema að einhverju leyti. Skattleysi sumra greiðslna skekkir líka samanburðinn.

Fyrrv. forseti, Steingrímur J. Sigfússon, brást við bréfi ykkar með því að leggja fram drög að frumvarpi og breytingum á fjárhæðum á fundi forsætisnefndar 21. des. sl. Voru gerðar margvíslegar athugasemdir við frumvarpið. Málið var síðan rætt í þingflokkum og hinn 16. jan. sl. lagði fyrrv. forseti ný drög fyrir nefndina, sem einnig sættu athugasemdum, en málinu var þá að öðru leyti vísað til nýrrar forsætisnefndar.

Ég lít því á það sem hlutverk mitt nú að bregðast við erindi ykkar. Í mínum huga eru aðalatriðin þessi:

  1. Ég tel óhjákvæmilegt að afgreiða erindi ykkar frá 14. des., og að sú afgreiðsla sé eftir þeim meginreglum sem þar eru lagðar, og það sé gert svo fljótt sem verða má.
  2. Ég tel að grundvallaratriði sé að byrja á því að ákveða hver heildarraunlækkun greiðslna á að vera. Síðan sé það útfærsluatriði hvernig því marki er náð. Í því sambandi verður að gæta þess að ekki sé hallað á nokkurn hóp þingmanna sérstaklega.
  3. Ég tel rétt að skilja erindi formanna flokkanna svo að óskað sé eftir því að forsætisnefnd nýti þær heimildir sem nefndin hefur, án lagabreytinga, til að ákvarða upphæða greiðslna.

Tillögur mínar á fundi forsætisnefndar í morgun voru því þessar:

  1. að raunlækkun greiðslna verði um 150 þús. kr. og að hún verði útfærð á eins einfaldan hátt og verða má. Í fyrsta lagi verði föst starfskostnaðargreiðslna þingmanna 40.000 kr. Í öðru lagi verði fastur ferðakostnaður ákvarðaður 30.000 kr.  Ég miða við að breytingar taki gildi 1. febr. 2017.
  2. Ég legg jafnframt til að lög um þingfararkaup og þingfararkostnað verði tekin til endurskoðunar þar sem leiðarljósið verður einföldun og gagnsæi. Núverandi lög eru að stofni til frá 1995, þ.e. 22 ára gömul, og því sjálfstætt tilefni til að fara yfir efni þeirra á ný. Slík endurskoðun hefur nýlega farið fram í nokkrum nágrannaríkjum okkar og gott væri að hafa þá vinnu til hliðsjónar. Ég tel eðlilegast að leitað verði tilnefningar þingflokkanna í þá nefnd sem fyrst.

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis