Tilkynningar

Haldið upp á 10 ára afmæli Skólaþings

23.11.2017

Haldið var upp á 10 ára afmæli Skólaþings í dag en það var formlega opnað 23. nóvember 2007. Skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson, ásamt starfsmönnum skrifstofu Alþingis sem komu að gerð Skólaþings og sjá um stjórn þess, fögnuðu tímamótunum með nemendum Akurskóla úr Reykjanesbæ sem sátu Skólaþing í dag.

Nemendur Akurskóla færðu hamingju- og heillaóskir frá skólanum með von um að Skólaþing haldi áfram að blómstra. Helgi Bernódusson skrifstofustjóri flutti stutta tölu og brýningu til nemenda um að iðka rökræður og temja sér lýðræðisleg vinnubrögð og nýta sér heimsóknina í Skólaþing til að æfa sig í því.

Skólaþing er hlutverkaleikur um löggjafarstarfið. Nemendurnir fá tækifæri til að setja sig í spor þingmanna með því að leiða fyrir fram ákveðin málefni sem fyrir þá eru lögð til lykta á þingflokksfundum, nefndarfundum og þingfundum. Jafnframt hlusta þeir á og meta rök sérfræðinga sem kallaðir eru til til að veita þingmönnum ráðgjöf. Þannig er ætlunin að veita innsýn í sambandið milli atburða í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og starfa Alþingis og sýna áhrif almennings, sérfræðinga, fjölmiðla og hagsmunaaðila á löggjafarstarfið. Nemendur eiga að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að hlusta á og meta rök og álit annarra og skiptast á skoðunum.

Skólaþing er ætlað nemendum á unglingastigi grunnskólans og á þeim 10 árum sem það hefur starfað hafa rúmlega 15.500 nemendur úr 76 grunnskólum hlotið fræðslu þar. Aldrei hafa fleiri nemendur heimsótt Skólaþing á haustönn en í vetur um 1.000.

Nánari upplýsingar um Skólaþing má sjá á http://www.skolathing.is/.

Nemendur Akurskóla og starfsmenn skrifstofu Alþingis fagna 10 ára afmæli Skólaþings